Morgunblaðið - 20.12.2018, Blaðsíða 72
72 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 20. DESEMBER 2018
Engill ljóssins
Um sumarið 1910 fluttist Einar
frá Berlín aftur til Kaupmannahafn-
ar og fram á næsta ár vann hann að
olíumálverkinu Engill ljóssins.
Myndefnið er engill sem heldur á sál
mannveru og varð það viðfangsefni
Einars í fjölda verka á árunum 1910
til 1915. Í kristinni táknhefð er sálin
gjarnan táknuð sem barn í faðmi
engils. Þrátt fyrir að það sé fullorð-
inn maður en ekki barn í málverki
Einars liggur beinast við að túlka
myndefnið innan
þessarar hefðar,
þar sem á brjósti
engilsins er hluti
krossfestingar
sem vísar til
fórnardauða
Krists fyrir upp-
risu mannsins.
Engill ljóssins
hefur mjög fasta
samhverfa myndbyggingu og upp-
hafning engilsins er tíunduð með
gegnsæi í litameðferðinni, þannig að
líkamsform hans er sem tvívíður
flötur, ólíkt manninum, tákni sálar-
innar, en formmótun líkama hans
hefur skýra þrívídd. Myndbygging
Engils ljóssins vísar um margt til
fyrri verka Einars, hvað varðar stig-
veldi formanna og breytileg stærð-
arhlutföll, þar sem ríkjandi stærra
form er stór engill sem heldur á
minni líflausri manneskju. Með hlið-
sjón af almennri táknhefð er hægt
að túlka málverkið þannig, að engill
ljóssins haldi á sál mannsins í örm-
um sínum, með einkennishlut sinn á
brjóstinu, og að neðri hálfhringurinn
í myndinni tákni jörðina. Í þessari
túlkun er ekki tekin með hugsanleg
merking efri hálfhringsins í neðri
hluta verksins né heldur þeir skýru
oddar sem liggja utan á sólinni, eða
hin mjög svo gegnsæja litameðferð
sem einkennir málverkið í heild
sinni. Til að túlka þessa þætti og inn-
byrðis samhengi er nauðsynlegt að
skoða hugmyndir sænska dulspek-
ingsins Emanuels Swedenborg og
kenningar guðspekinnar, sem Einar
kynntist árið 1910, þegar hann var
búsettur í Kaupmannahöfn. Í bók-
inni Skoðanir lýsti Einar þeirri rót-
tæku breytingu sem varð á lífssýn
hans þegar hann kynntist ritum
Swedenborgs:
„Kvöld eitt, er ég var genginn til
rekkju, tók ég til lestrar bók nokkra,
er ég hafði fyrir löngu fengið lánaða,
en ekki nennt að lesa í fyrr. Það var
einhver samtíningur eftir Sweden-
borg. Nafn þetta stóð í sambandi við
eitt eða annað, sem ég hafði heyrt í
æsku … Ekki man ég, hvað var liðið
á nóttu, er ég hætti. En í mörg ár
hafði ég ekki lagt mig til slíkrar
hvíldar sem þessa nótt, með nýrri
ódáinsvon: Ef til vill væri einhverja
lífsmeiningu að finna. Ef til vill var
það þessi litla næturvaka, er varð til
þess, meðal ýmissa annarra orsaka,
að straumhvörf urðu í lífi mínu.“
Einar aflaði sér fleiri bóka eftir
Swedenborg og sannfæringar-
kraftur hans hafði sterk áhrif á Ein-
ar eins og hann minntist þess síðar í
Skoðunum:
„Smám saman fór ég að leita mér
meiri fræðslu á líkum eða sömu svið-
um. Ég las hverja bókina á eftir ann-
arri, drakk í mig allt, er ég komst yf-
ir að lesa, og komst síðar inn í
félagsskap, sem mér áður var með
öllu ókunnugur, þar sem öll slík mál
voru mér og þeim hið mesta alvöru-
efni.“
Einar nefndi ekki í hvaða félags-
skap hann gerðist meðlimur, en
hann lýsti ástandi sínu síðar þannig:
„Svo andlega örþyrstur sem ég var,
fór ég nú að teyga í mig allt, er ég
náði í af fræðum þessara andlegu
vísinda, einmitt það er mig, án þess
ég vissi af, hafði alltaf hungrað eftir.
Og á ég í því sambandi mikið „spírit-
isma“ og guðspeki að þakka og
mörgum öðrum dulrænum fræðum.“
Einar minntist þess síðar að hann
gæti ekki gleymt „sársaukanum er
ég veturinn 1911 … var kallaður
heim nokkra mánuði frá fræðum
þessum og fyrirlestrum, er loks
höfðu opnað fyrir mér algjörlega
nýtt líf og lífsviðhorf og hrifið mig úr
hrömmum vonleysis, drunga og
dauðrar efnishyggju, myrkri og van-
virðu og gefið mér aftur líf mitt og
vilja“.
Þarna vísar Einar til þess þegar
hann í febrúar 1911 þurfti að fara til
Reykjavíkur í tengslum við gerð
höggmyndarinnar af Jóni Sigurðs-
syni forseta og dvaldi þar í nokkra
mánuði, en hélt síðan aftur til Kaup-
mannahafnar um sumarið. Þess ber
að geta að áhuginn fyrir guðspeki og
spíritisma var mikill á Íslandi á
þessum árum. Tilraunafélaginu, þar
sem spíritistar stóðu fyrir miðils-
fundum, var komið á fót árið 1905 og
fyrsta Guðspekistúkan var stofnuð
árið 1912 en meðal þátttakenda í
báðum þessum félögum voru margir
nánir vinir og kunningjar Einars.
Á þessu árabili 1910-1911 urðu
mikil straumhvörf í lífsskoðunum
Einars sem rekja má til kynna hans
af hugmyndum Swedenborgs, spírit-
isma, guðspeki og öðrum dulrænum
fræðum. Það varpar nokkru ljósi á
þessa „fyrirlestra og fræði“ sem
Einar nefndi í Skoðunum, að vinur
hans í Kaupmannahöfn Sofus Niel-
sen skrifaði honum í marsmánuði
1911, en Einar hafði þá dvalið á Ís-
landi frá því í febrúar: „Við klár-
uðum síðast að stúdera „Karma“ …
og mun ég kaupa hana og senda þér
eintak.
Á þann hátt getur þú fylgst með á
því byrjendastigi sem við erum.“
Sofus lauk bréfinu með því að senda
honum hughreystandi hugsanir, en
frá þeim stafi, skrifaði hann, þrátt
fyrir hina löngu fjarlægð, „mikill
kraftur samkvæmt því sem Plum
segir“. Það má telja fullvíst að
Karma, sem Sofus nefndi í bréfi
sínu, er bók eftir einn helsta forvíg-
ismann guðspekihreyfingarinnar,
Annie Besant, sem kom út í danskri
þýðingu 1904. Með hliðsjón af kynn-
um Einars af kenningum Sweden-
borgs og guðspekinnar veturinn
1910-11, er ástæða til að skoða að
nýju málverkið Engill ljóssins, sem
hann vann að á þessum tíma. Að öll-
um líkindum réð sjálft myndefnið
því, að Einar valdi frekar olíuliti en
gifs eða leir sem tjáningarmiðil, þar
sem þunn og gegnsæ litameðferðin
gefur betri möguleika á að túlka
hugmynd guðspekinnar um astral-
planið. Samkvæmt guðspekinni er
astralplanið það svið í alheiminum
sem kemur næst á eftir jörðinni og
manneskjan fer í gegnum á leið sinni
frá jörðu til himins. Svið alheimsins
þrengjast samkvæmt guðspekinni
hvert inn í annað og mismunandi
samsetningar efnisins aðgreina þau.
Það sem fyrst og fremst einkennir
astralplanið er gegnsæi þeirra fyrir-
bæra sem þar eru. Litameðferðin í
Engli ljóssins einkennist af gegnsæi,
sérstaklega í neðri hluta myndar-
innar og jafnframt eru einstaka
þættir myndefnisins aðgreindir með
litameðferðinni, þar sem teflt er
saman gegnsæi og þéttleika litarins.
Þetta stílbragð má sjá í neðri hluta
myndarinnar með hálfhringjunum
tveimur, sem þrengjast hvor inn í
annan, þannig að efri hálfhringurinn
vísar til lýsinga guðspekinnar á
gegnsæi astralplansins og brúntón-
aði litur neðri hálfhringsins til þétt-
leika efnis jarðarinnar með vísun í
þá hugmynd guðspekinnar að ólík
samsetning efnisins aðgreindi fyrir-
bærin. Astralplanið einkennist sam-
kvæmt kenningum guðspekinnar af
skýrleika, gegnsæi og geislum, sem
það dregur nafn sitt af, astral eða
stjörnu líkt og það heiti nær yfir allt
þetta plan eða svið í heild sinni. Í
Engli ljóssins er þessi kenning guð-
spekinnar mikilvæg við að túlka þá
stjörnulaga geisla, sem eru í kring-
um sólina bakvið engilinn sem tákn
fyrir astralplanið. Í hugmyndum
Swedenborgs er Guð hin „andlega
sól“ sem geislar andlegum sannleika
og í kenningum guðspekinnar er sól-
in einnig fyrst og fremst tákn guð-
dómsins en getur líka, sem er mikil-
vægt með sólina í huga bak við
engilinn, verið tákn fyrir einhvern af
hinum stóru sendiboðum sem eru
fulltrúar guðdómsins. Að engill
ljóssins haldi á fullorðinni mann-
eskju í örmum sér sem tákni sálar-
innar en ekki barni eins og venjan er
í kristinni myndhefð má túlka út frá
guðspekilegum heimildum. Sam-
kvæmt lýsingum Annie Besant ger-
ist það, þegar líkaminn deyr, að
„eter-líkami“ mannsins dregur sig
frá sínum ytri líkama og skoðar sam-
fellt yfirlit yfir lífsferil sinn, sem
birtist honum á dauðastundinni í
smæstu smáatriðum.
[...}
(Tilvísunum er sleppt)
„… með nýrri ódáinsvon“
Einar Jónsson myndhöggvari – verk, táknheimur
og menningarsögulegt samhengi heitir bók eftir
Ólaf Kvaran sem fjallar um líf og list Einars Jóns-
sonar (1874-1954), sem var brautryðjandi í ís-
lenskri höggmyndalist.
Engill Einar Jónsson málaði olíumálverkið Engil ljóssins undir sterkum áhrifum frá Emmanuel Swedenborg.
Útsölustaðir: Flest apótek, heilsuhillur stórmarkaða.
Enzymedica býður uppá öflugustu meltingar-
ensímin á markaðnum en einungis eitt hylki
með máltíð getur öllu breytt.Meltingarónot, uppþemba,
vanlíðan, röskun á svefni og
húðvandamál eru algengir
fylgifiskar þegar gert er vel
við sig í mat og drykk.
● Ensím eru nauðsynleg fyrir meltingu og
öll efnaskipti líkamans.
● Betri melting, meiri orka, betri líðan!
● 100% vegan hylki.
● Digest Basic hentar fyrir börn
Gleðilega meltinguFæst nú á
25% afsl
ætti
á flestum
sölustöðu
m