Morgunblaðið - Sunnudagur - 13.01.2019, Blaðsíða 18

Morgunblaðið - Sunnudagur - 13.01.2019, Blaðsíða 18
VIÐTAL 18 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 13.1. 2019 B rýnustu verkefnin verða fyrst og fremst að halda áfram og hlúa að því góða starfi sem unnið hefur ver- ið á vettvangi Festu frá því mið- stöðin var sett á laggirnar árið 2011. Það er magnað hvað Festa hefur fengið miklu áorkað á þessum skamma tíma með einn starfsmann og núna einn og hálfan. Stjórnin er einstaklega vel mönnuð og ég hlakka til að vinna með því góða fólki. Við munum halda áfram að einblína á meginmarkmið Festu sem er að stuðla að samfélagslegri ábyrgð hjá fyrir- tækjum og stofnunum. Festa mun hér eftir sem hingað til leiða fólk og sérfræðinga saman, efla og dýpka samræðuna með fundum og ráð- stefnum, gegna fræðsluhlutverki og styðja við fyrirtæki og stofnanir sem vilja stefna í þessa átt.“ Þetta segir Hrund Gunnsteinsdóttir sem taka mun við framkvæmdastjórastarfinu hjá Festu – miðstöð um samfélagslega ábyrgð um næstu mánaðamót. – Hvers vegna sóttist þú eftir þessu starfi? „Frá því ég sagði upp fastri ráðningu hjá Sameinuðu þjóðunum árið 2004 hef ég unnið jöfnum höndum hér heima og erlendis. Síðasta áratug hef ég unnið mikið alþjóðlega, sit til dæmis í sérfræðingaráði Alþjóðaefnahagsráðs- ins, en árið 2016 fór mig að langa að starfa meira markvisst hérna heima og fór að svipast um eftir nýjum tækifærum. Þegar maður er með svona alþjóðlegan hatt er ekkert endilega borðleggjandi að það gangi eftir. Ég beið hins vegar róleg og þegar ég frétti að framkvæmda- stjórastaðan hjá Festu væri að losna hafði ég strax áhuga enda fellur starfið mjög vel að mínu sérsviði. Þetta hefur verið mín verkfærakista undanfarin tuttugu ár; ég hef unnið að þessum málum á vettvangi SÞ, Alþjóðaefnahagsráðsins og hér heima og þykir þau mjög spennandi.“ Alls staðar hugur í fólki – Hefur umræðan um samfélagslega ábyrgð tekið miklum breytingum á undanförnum ár- um? „Já, hún hefur gert það. Margt hefur breyst á síðustu tíu árum og víða úti í heimi er þetta ekki lengur spurning um það hvort stór fyrirtæki eigi að taka þátt í þessari þróun eða ekki. Þau eru einfaldlega með í þessari vegferð. Hérna heima er það sama að eiga sér stað; þetta er ekki lengur spurning um hvort, heldur hvernig og hvenær. Sum fyrirtæki og stofnanir eru komin vel á leið en önnur eiga lengra í land. Ég hef verið að kortleggja stöðuna og meta með hvaða hætti Festa getur komið sem best að gagni. Það er mikil hreyfing komin á þessi mál. Bara í morgun var ég á fundi hjá fjárfestingar- samtökunum IcelandSIF sem vilja efla sjálf- bærar og samfélagslega ábyrgar fjárfestingar. Það er rosalega stórt skref enda eru fjárfestar súrefni til athafna. Fyrr í morgun var ég líka á fundi hjá Viðskiptaráði, Nasdaq Iceland og Samtökum atvinnulífsins og þar á bæ er sami taktur þegar kemur að ábyrgum stjórnar- háttum. Það er alls staðar mikill hugur í fólki, mikil vitundarvakning og vilji.“ – Enn er þó verk að vinna, ekki satt? „Jú, svo sannarlega. Við erum ennþá að læra af öðrum þjóðum og tileinka okkur hluti sem hafa virkað vel annars staðar. Við erum eft- irbátar sumra þjóða og það er alls ekki illa meint. Þannig liggur landið bara og ég sé það líka sem stórkostlega spennandi tækifæri. Tök- um Siemens sem dæmi, fyrirtæki sem við þekkjum vel. Joe Kaeser forstjóri hefur látið hafa eftir sér að sé fyrirtæki að gera eitthvað sem er ekki að skila sér á ábyrgan hátt til sam- félagsins þá eigi það ekki rétt á sér. Hjá Sie- mens virðist samfélagsleg ábyrgð orðin DNA og að því þurfa íslensk fyrirtæki og stofnanir að stefna líka – ná þessu inn í kroppinn og steikja ekki plánetuna okkar á pönnu.“ Endurhugsun frá grunni – Í hverju felast tækifærin? „Þau felast í því að endurhugsa samfélags- lega ábyrgð frá grunni. Þetta kemur inn á hringrásarhagkerfið, vinnustaðinn og stjórn- arhætti og snýst um að huga að þessum hlutum strax frá upphafi hugmyndavinnu og fram- leiðsluferlisins. Þannig á að hugsa. Þannig á að vinna. Við erum lítið samfélag en þrátt fyrir smæðina benda rannsóknir til þess að töluvert vanti upp á samstarf milli stofnana og geira og við því þarf að bregðast. Sum fyrirtæki og stofnanir eru komin lengra en önnur í þessu ferli og Festa hefur ríku hlutverki að gegna þegar kemur að því að brúa bilið þarna á milli og auðvelda tengingar milli hins opinbera og einkageirans. Festa er ensím fyrir atvinnulífið sem hefur það hlutverk að hjálpa fólki, fyrir- tækjum og stofnunum að tala og vinna saman og kortleggja leiðir til að mæla samfélagslega ábyrgð og árangur þar að lútandi. Það er líka mikilvægt að hafa í huga að Festa mætir fyrir- tækjum þar sem þau eru stödd, hvort sem þau eru komin langt eða skammt á veg. Það þarf ekki að þyrma yfir neinn. Við tökum þetta skref fyrir skref. Maður borðar ekki fíl í heilu lagi, heldur með því að taka einn bita í einu.“ – Maður hefur á tilfinningunni að þessir hlut- ir séu að breytast hratt. Hefði ekki verið mun erfiðara að kynna þessa nálgun fyrir tíu árum? „Miklu erfiðara. Ég var dálkahöfundur á Við- skiptablaðinu um miðjan síðasta áratug og skrifaði um alþjóðamál, alþjóðlega hringrás fólks og viðskipta og hvernig þetta tengist, sam- félagslega ábyrgð og fleira. Ég man eftir að hafa gúglað „samfélagslega ábyrgð“ á íslensku og fékk engar niðurstöður. Þetta var einfald- lega ekki til á netinu alla vega. Á svipuðum tíma hringdi ég í fjárfestingarsjóð á Íslandi í tengslum við greinaskrif og spurði hvort menn væru farnir að huga að því að fjárfesta í sam- félagslega ábyrgum fyrirtækjum og það var nánast hlegið upp í opið geðið á mér: „Æ, kút- urinn minn. Þú ert svo mikið hugsjónaprik!“ Þannig hugsuðu einhverjir á þeim tíma; voru ekki að velta þessum málum fyrir sér. Nú er öldin önnur. Sem betur fer.“ Kreppa og loftslagbreytingar – Hvað gerðist í millitíðinni? Brast einhver stífla? „Ég held að alþjóðlega fjármálakreppan hafi haft mikil áhrif og síðan eru það loftslagsmálin. Það er engum blöðum lengur um það að fletta, loftslagsbreytingar eru farnar að hafa gríðar- lega áhrif á lífið á jörðinni. Bara síðasta ár var rosalega dramatískt, þegar kemur að eldum og öðrum hamförum, og skýrslurnar verða bara svartari og svartari. Nægir þar að nefna skýrslu IPCC, sem kom út seint á síðasta ári, og stað- festir að við erum í djúpum skít, þrátt fyrir að viðvörunarbjöllur hafi hringt hátt og snjallt í langan tíma. Þetta er auðvitað þyngra en tárum taki þar sem við höfum allar forsendur til að bregðast við þessari þróun; þekkjum eðlisfræð- ina, stærðfræðina, viðskiptafræðina, umhverfis- fræðina og hvað það nú allt heitir. Við höfum alla burði til að bregðast við loftslagsbreyting- um – þetta er bara spurning um hugarfar. Þar mæðir ekki síst á hinu opinbera enda sanna dæmin að það hreyfist mun hægar en atvinnu- lífið og tæknin. Hið opinbera gegnir líka gríðar- lega mikilvægu hlutverki í að setja fram leiðar- ljós og ramma utan um tækniþróun og þróun samfélaga til að gæta hagsmuna almennings, samfélags og náttúru. Þessar öru tækni-, lofts- lags- og hnattrænu breytingar sem eru að eiga sér stað í heiminum eru ekki bara að reyna allt- of mikið á jörðina, þær hafa líka áhrif á lýðræðið og auka ójöfnuð og það er engum til góðs.“ – Þegar þú varst að hefja þessa vegferð, hugsaðirðu þá með þér: Jæja, þetta verður létt- ara verk eftir einhver ár? „Já og nei, ég hef oft misst móðinn, eins og flestir ef ekki allir sem eru svona þenkjandi. Mér leið oft eins og geimveru. Þetta hefur breyst mjög hratt, það sem þótti léttvægt fyrir fimm árum er það alls ekki í dag. Ég hélt fyrir- lestur á Íslandi um það árið 2011 að kerfin okk- ar væru orðin úrelt og of stirð og stæðust ekki kröfur samtímans. Ekki tóku allir vel í það en í dag eru flestir sammála um þetta. Það er heldur ekki langt síðan fólk hváði þegar orð eins og ný- sköpun bar á góma. Við erum smám saman að læra þessi orð og skilja fyrir hvað þau standa; ekki er til dæmis langt síðan við fórum að gera greinarmun á nýsköpun og frumkvöðlastarfi. Þetta hverfist heldur ekki eingöngu um tækni, eins og sumir virðast halda og nýsköpun og ný- hugsun á við um opinbera geirann eins og einkageirann.“ Höfum við svo mikinn tíma? – Gott fordæmi hlýtur að skipta sköpum? „Já, svo sannarlega. Tökum skipabransann sem dæmi en hann ber ábyrgð á um 80% vöru- flutninga út um allan heim. Maersk, sem er eitt stærsta skipafélag í heimi, hefur lýst því yfir að það ætli að kolefnisjafna sig fyrir árið 2050. Það eru rosalega góð tíðindi og gott fordæmi fyrir önnur fyrirtæki. Á móti getum við að vísu spurt: Höfum við svo mikinn tíma? Þá er gott að hafa snillinga eins og Gretu Thunberg, sænsku fimmtán ára stelpuna sem hefur sagt loftslags- breytingum stríð á hendur. Hún talaði á lofts- lagsráðstefnunni í Póllandi í haust og spurði einfaldlega: „Hvað er að ykkur? Þið eruð að tala um árið 2050, þá verð ég sextíuogfimm og á leið á eftirlaun. Þetta er alltof seint!“ Það sjónarmið er brýnt að hafa í huga enda gefur það verk- efnum eins og því sem ég er að taka að mér hjá Festu aukna vigt.“ – Eigum við Íslendingar að horfa í einhverja sérstaka átt eftir innblæstri, til einhverra ákveðinna þjóða? „Það eru nokkrar þjóðir að gera mjög góða hluti þegar kemur að samfélagslegri ábyrgð, sem byggist auðvitað á mörgum ólíkum þáttum. Nærtækt dæmi er Finnland en það ætlar að verða hringrásarhagkerfi árið 2025, að mig minnir. Finnar gera sér grein fyrir alvöru máls- ins og telja sig sem litla þjóð, fimm og hálfa milljón manna, geta náð góðum árangri á skömmum tíma og verið öðrum fyrirmynd. Þess Maður borðar ekki fíl í heilu lagi Hrund Gunnsteinsdóttir tekur við starfi framkvæmdastjóra Festu – miðstöðvar um samfélags- lega ábyrgð um næstu mánaðamót. Hún segir grettistaki hafa verið lyft í málaflokknum á umliðnum árum en ennþá sé þó verk að vinna, fyrirtæki og stofnanir séu mislangt á veg komin. Enginn þurfi þó að fórna höndum enda borði maður ekki fíl í heilu lagi. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is „Festa er ensím fyrir atvinnulífið sem hefur það hlutverk að hjálpa fólki að tala og vinna saman,“ segir Hrund Gunnsteinsdóttir, verðandi framkvæmdastjóri Festu. ’Samfélagsleg ábyrgð styrkirímynd þjóðarinnar og þvímikilvægt að fá sem flest fyrir-tæki um borð. Það er allra hagur.

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.