Morgunblaðið - Sunnudagur - 28.04.2019, Blaðsíða 12
MINNING
12 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 28.4. 2019
Ég hef sennilega breyst í áranna rás,Skoðanir og viðhorf breytast, en sumtaf því sem ég aðhylltist ungur fylgir
mér enn í dag. Þetta er ekki afþreyingar-
tónlist. Ég veit ekkert um hvort öðrum finnst
hún skemmtileg. En ég vona að hún segi eitt-
hvað. Stefán G. talaði um „… að finna til í
stormum sinnar tíðar“. Ég hef reynt það. Og
tónlistin er ekki aðeins til skemmtunar. Í
gamla óperuhúsinu í Kaupmannahöfn stóð
þetta skrifað yfir sviðinu: „Ej blot til lyst.“ Ég
reyni að birta hið góða, fagra og sanna í minni
tónlist. Ég held að þessi tónlist höfði til ein-
staklinga, en ekki til vúddstokk-mergðar-
innar.“
Þannig komst Atli Heimir Sveinsson að orði
í grein í Morgunblaðinu fyrir áratug. Tilefnið
var flutningur Sinfóníuhljómsveitar Íslands á
þremur verkum tónskáldsins frá ólíkum tím-
um í tilefni af sjötugsafmæli þess.
„Ég krukka oft í gömul verk mín, það er eins
og ég ljúki aldrei sköpunarferlinu,“ sagði hann
í sömu grein og lauk henni á þessum orðum:
„En að kompónera merkir að setja saman.
Hvað svo tekur við veit ég ekki. Verkinu lýkur
í spurn.“
Engin fyrirstaða
Í viðtali hér í blaðinu árið 2008 spurði Guðrún
Guðlaugsdóttir Atla Heimi hvers vegna hann
hefði lagt tónlist fyrir sig.
„Ég var í barnamúsíkskóla hjá dr. Edelstein
og fór að semja um leið og ég lærði að skrifa
nótur,“ svaraði hann.
„Síðar fór ég í tónlistarskóla og var látinn
læra á píanó. Mamma spilaði prýðilega á píanó
og hennar móðurætt var mjög músíkölsk, það
er fullt af söngelsku fólki í mínum ættboga.
Pabbi var bankamaður en hann söng líka í
karlakór. Það þótti því eðlilegt að ég stundaði
píanónám og þegar ég ákvað að leggja fyrir
mig tónlist þá var engin fyrirstaða frá hendi
foreldra minna. Pabbi styrkti mig til náms á
þessu sviði.“
– Varstu laukur ættarinnar á tónlistarsvið-
inu?
„Kannski má segja það. Amma mín í Flatey
hafði bæði píanó og orgel í stofunni sinni. Þetta
var gamalt kaupmannsheimili. Svo var amma
kirkjuorganisti í þorpinu. Það voru miklir
dýrðartímar hjá henni þegar Sigvaldi Kalda-
lóns bjó í Flatey og mikil vinátta með ömmu og
afa og Kaldalónshjónunum. Minn bakgrunnur
var þannig að ég naut skilnings.“
Mótaðist í Þýskalandi
Síðan lá leiðin til Þýskalands þar sem Atli
Heimir lagði stund á nám við Tónlistarháskól-
ann í Köln. Í samtali sem sá er tók þetta saman
átti við hann á íslenskri menningarhátíð í
Þýskalandi árið 1995 sagði hann að tilraunir
Þjóðverja með raftónlist hefðu laðað sig að
landinu árið 1959. Sótti tónskáldið visku sína á
þessum árum meðal annars í brunn Stockhaus-
ens, eins helsta brautryðjandans á því sviði.
Atli Heimir sagði tónlistina hafa staðið í
miklum blóma í Köln á þessum tíma. „Menn
voru að gera merkilega og nýja hluti sem áttu
eftir að móta alla öldina. Ég mótaðist mikið hér
og Leifur Þórarinsson, gott tónskáld og mjög
klár maður, skrifaði einhvern tímann að það
sem ég hefði fram að færa væri meðal annars
mjög sterkur þýskur expressjónismi. Þótt ég
taki aldrei mark á gagnrýni held ég að þetta
hafi verið nokkuð rétt athugað hjá Leifi.“
Skammaður svolítið
Árið 2014 tók Atli Heimir upp þráðinn í sam-
tali við Einar Fal Ingólfsson. Þegar spurt var
hvernig honum hefði verið tekið við heimkom-
una frá Þýskalandi svaraði Atli Heimir:
„Ég var nú skammaður svolítið en það var
allt í lagi, það hafði engin áhrif á mig, breytti
mér ekki neitt.“
– Af hverju var fólk að skammast?
„Þetta var öðruvísi músík en það átti von á.
En ég hélt alltaf áfram mínu starfi. Gagnrýni,
slæm eða góð, breytir mönnum ekki, ef undir-
staðan er þokkaleg og þeir hafa trú á því sem
þeir eru að gera.“
Þarna var verið að frumflytja tónverk Atla
Heimis við ljóð Gyrðis Elíassonar á Listahátíð í
Reykjavík og barst talið að innblæstri úr ljóðum.
Ljóð Gyrðis eru ekki háttbundin en Atli
Heimir hafði áður til dæmis samið sönglög við
ljóð Jónasar Hallgrímssonar, sem eru hátt-
bundin.
– Er munur á því fyrir tónskáldið?
„Ekki nokkur!“ sagði hann ákveðinn. „Bara
að manni detti eitthvað þokkalegt í hug. En
vissulega var líka gaman að gera músík við ljóð
Jónasar Hallgrímssonar, þó að ekki væri nema
vegna þess að þá las ég öll verkin hans upp á
nýtt. Hann er yndislegt skáld. En að gera lög
við rímuð ljóð og rímlaus, ég hef aldrei séð
neinn mun á því. Líttu til dæmis á skáldskap
Steins Steinars. Hann yrkir jafnt rímað og
órímað, með stuðlasetningu og án, og allt er
þetta dýrindis skáldskapur. Andinn og hug-
myndaflugið skipta máli.“
Alltaf verið iðjumaður
Í viðtalinu árið 2008 spurði Guðrún Guðlaugs-
dóttir Atla Heimi hvort hann vaknaði með til-
búnar laglínur í höfðinu á morgnana.
„Mig dreymir stundum músík en sjaldan
laglínur. Mig dreymir hins vegar fyrir daglát-
um og veðri,“ svaraði hann.
„Ég veit ekki hvernig tónlist verður til hjá
mér og hef ekki neinn ákveðinn vinnutíma.
Þannig hef ég ekki unnið. En hins vegar verð-
ur maður að vera við þetta, þeir fiska ekki sem
ekki róa. Ég hef alltaf verið iðjumaður, dugn-
aðarmaður við vinnu.“
Farið var um víðan völl í viðtalinu og Guðrún
spurði meðal annars hvaða sönglag sitt Atla
Heimi þætti vænst um?
„Hann verður afvísandi og neitar að svara,
en þó gætir í neituninni örlítils hiks. Ég spyr
því hvort eitthvað sé honum nær en annað.
„Kannski er í óperunni Silkitrommunni ým-
islegt sjálfævisögulegt,“ svarar hann með sem-
ingi en lætur lítt af við nánari spurn.“
Lögin vinaspegill
„Þetta er því svolítill vinaspegill,“ sagði tón-
skáldið um tilurð sönglaga sinna í viðtali við
Bergþóru Jónsdóttur árið 2006. „Það kemur
fyrir að ég sendi vinum mínum litlar melódíur.“
Í samtalinu kveðst hann lengi hafa samið
sönglög og meira í seinni tíð. „Í fyrstu lög-
unum, sem eru alvarlegri, er til dæmis algjört
jafnræði með rödd og píanói. Á sínum tíma
gerði ég lög í gömlum stíl – fyrir Tónlistarskól-
ann í Reykjavík, Ljóðakorn fyrir Göggu Lund
og fleira. Þá komu Jónasarlögin, og margt hef
ég samið fyrir leikhúsið. Ég hef líka farið í
metnaðarfyllri lagasmíðar.“
Hvíl í friði, Atli Heimir Sveinsson.
Verkinu lýkur í spurn
Í tilefni af sjötugsafmæli Atla Heimis var flutt í Þjóðleikhúsinu sviðsett dagskrá með söng og dansi,
helguð leikhústónlist hins fjölhæfa tónskálds.
Morgunblaðið/Eggert
Signý Sæmundsdóttir söngkona, Petri Sakari hljómsveitarstjóri og Atli Heimir bera saman bækur
sínar fyrir tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands árið 1999.
Morgunblaðið/Sverrir
Atli Heimir Sveinsson, eitt ást-
sælasta tónskáld þjóðarinnar,
lést á dögunum, áttræður að
aldri. Hann var í senn þekktur
fyrir flókin verk og ómstríð og
falleg verk og aðgengileg.
Minnumst Atla Heimis með
hans eigin orðum úr Morg-
unblaðinu gegnum tíðina.
Orri Páll Ormarsson tók saman orri@mbl.is
Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson
Atli Heimir Sveinsson var
afkastamikill á löngum og far-
sælum ferli sem tónskáld.