Fréttir - Eyjafréttir

Issue

Fréttir - Eyjafréttir - 14.01.2015, Page 13

Fréttir - Eyjafréttir - 14.01.2015, Page 13
13Eyjafréttir / Miðvikudagur 14. janúar 2015 Nýr sparisjóðsstjóri var ráðinn í Vestmannaeyjum í lok nýliðins árs. Hafsteinn Gunnarsson sest í stól sparisjóðsstjóra eftir rúmlega átta ára starf hjá fjármálastofnuninni. Þetta er í annað sinn sem Hafsteinn tekur við yfirmannsstöðu forvera síns í starfi. Í samtali við Sighvat Jónsson fer Hafsteinn yfir stöðu sparisjóðanna og sóknarfæri þeirra. Tveir feður - tveir svaramenn Hafsteinn er á 48. ári, hann fæddist í Vestmannaeyjum og er sonur Margrétar Sigurlásdóttur (Maddýjar á Reynistað) og Gunnars Guð- mundssonar frá Selfossi. Fóstur- faðir Hafsteins er Eyjamaðurinn Erlingur Pétursson. Hafsteinn hefur alla tíð verið í góðu sambandi við föður sinn og nefnir sem dæmi að hann og fósturfaðir hans hafi verið svaramenn í brúðkaupi hans. „Ég sagði við prestinn að ég ætlaði ekki að gera upp á milli þeirra, þeir myndu standa báðir mér við hlið, alveg sama hvað Guð segði,“ segir Hafsteinn og bætir hlæjandi við: „Guð samþykkti það.“ Samtals á Hafsteinn sex systkini. Hann á fjögur börn með eiginkonu sinni Herdísi Rós Njálsdóttur. Nýi sparisjóðsstjórinn er uppalinn í Eyjum. Hann útskrifaðist frá Framhaldsskólanum í Vestmanna- eyjum fyrir jólin 1989. Hafsteinn kveðst hafa verið óákveðinn um framtíðina, í fyrstu fór hann á samning í netagerð tengdaföður síns, þar sem hann vann í nokkur ár. „Ég hóf nám í viðskiptafræði í Háskóla Íslands haustið 1990, þaðan sem ég útskrifaðist vorið 1995. Þá hóf ég störf hjá endur- skoðunarskrifstofunni Deloitte hér í Eyjum,“ segir Hafsteinn. Forveri hans í stól sparisjóðsstjóra, Ólafur Elísson, stýrði starfsstöð Deloitte í Vestmannaeyjum þegar Hafsteinn vann þar. Þegar Ólafur hætti hjá Deloitte 1999 og tók við starfi sparisjóðsstjóra tók Hafsteinn við starfi Ólafs hjá Deloitte. Þetta er því í annað sinn sem Hafsteinn fetar í fótspor Ólafs. „Ég tók löggildingar- próf endurskoðenda í desember 1999, niðurstöður prófsins lágu fyrir í upphafi febrúar 2000 og ég fékk skírteinið í mars sama ár. Ég stýrði Deloitte í Eyjum þar til ég elti Óla í sparisjóðinn,“ segir Hafsteinn brosandi, en hann byrjaði hjá Sparisjóði Vestmannaeyja í október 2006. Eftir rúm átta ár í starfi var Hafsteinn ráðinn spari- sjóðsstjóri í árslok 2014. Skammur aðdragandi Þegar Ólafur Elísson, fyrrverandi sparisjóðsstjóri, sagði starfi sínu lausu í lok október eftir 15 ár, lýsti Hafsteinn því strax yfir við stjórn sparisjóðsins að hann myndi sækjast eftir starfinu. Starfið var auglýst í nóvember og viðtöl við umsækjendur fóru fram í desember. Hafsteinn var ráðinn 18. desember, en auk hans sóttu sjö aðrir um stöðuna. Stjórn sparisjóðsins hefur ekki orðið við ósk Eyjafrétta um að birta nöfn umsækjenda. Hvers vegna sóttir þú um stöðuna? „Sparisjóðurinn hefur gengið í gegnum endurskipulagningu og nýverið var fækkað um tvö og hálft stöðugildi, þar á meðal var einum starfsmanni sagt upp hér í Vest- mannaeyjum,“ segir Hafsteinn. Höfuðstöðvar Sparisjóðs Vest- mannaeyja eru í Eyjum en að auki eru fjórar starfsstöðvar; á Selfossi, Djúpavogi, Hornafirði og Breið- dalsvík. „Í áætlunum var gert ráð fyrir að fækkað yrði um einn forstöðumann og er það raunin þar sem ekki verður ráðið í mitt gamla starf. Ég starfaði áður sem forstöðumaður reikningshalds og innra eftirlits og tel að ég geti sinnt þeim verkum samhliða nýja starfinu. Ég mun vitanlega koma einhverjum verkefnum yfir á aðra starfsmenn. En ég taldi það bestu lausnina að endurskipuleggja með þessum hætti í ljósi erfiðrar stöðu sjóðsins. Annars hefði þurft að segja upp forstöðumanni og gera frekari breytingar. Ég ákvað einnig að sækja um stöðu sparisjóðsstjóra þar sem ég þekki sparisjóðinn vel eftir átta ára starf. Ég veit hvað þarf að gera og hvaða verkefni eru framundan,“ segir Hafsteinn. Trúir á framtíð sparisjóðanna Í ljósi umræðu um erfiða stöðu sparisjóðanna á landinu í kjölfar efnahagshrunsins er eðlilegt að spyrja hvort þú trúir á að spari- sjóður verði áfram til hér í Vestmannaeyjum? „Ég trúi því að við getum náð tökum á rekstrinum, ég trúi á framtíð sparisjóðanna. Ég var ráðinn til frambúðar en ég lít á stöðuna nú sem tímabundið ástand þar sem það verður erfitt til lengri tíma að sinna báðum störfum svo vel sé. Vonandi getum við fjölgað fólki aftur eftir 1-2 ár. Mín skoðun er sú að fólk líti á sparisjóðina sem nauðsynlegan valkost við hliðina á stóru bönkunum,“ segir Hafsteinn. Að hvaða leyti eiga sparisjóðirnir að vera frábrugðnir bönkunum? „Eftir fækkun sparisjóðanna á höfuðborgarsvæðinu erum við öflugri á landsbyggðinni og má því segja að við hugsum meira um hana. Sparisjóðirnir eru sem dæmi mjög sterkir á Norðurlandi. Það breytir því þó ekki að við þurfum einnig að ná fótfestu á höfuðborgar- svæðinu, þar held ég að fólk sakni sparisjóðanna sinna. Við erum minni en bankarnir og getum ekki keppt við þá að öllu leyti, en getum veitt þjónustu á sanngjörnu verði, persónulega þjónustu,“ segir Hafsteinn. „Sem dæmi um þetta þá erum við ekki með hámark á íbúðalánum heldur metum við viðskiptavininn og þá eign sem hann er að fjármagna. Við reynum að vera sveigjanleg og til staðar fyrir okkar viðskiptavini,“ bætir hann við. Brýnast að draga úr van- skilum viðskiptavina Hafsteinn segir eftirsjá að þeim sparisjóðum á höfuðborgarsvæðinu sem fóru í þrot eftir hrun. Það sé beinlínis nauðsynlegt fyrir minni sparisjóði á landsbyggðinni að hafa aðgengi að sérfræðiþekkingu í miðlægri starfsstöð. Hann nefnir sem dæmi að oft hafi verið leitað til lögfræðinga og annarra sérfræðinga hjá Sparisjóðabankanum sáluga. Sparisjóðirnir hafa átt í slíku samstarfi að undanförnu við MP banka. Aðspurður um brýnustu verkefni hjá Sparisjóði Vestmannaeyja nefnir Hafsteinn tvennt, annars vegar þurfi að lækka kostnað vegna reksturs tölvukerfa og hins vegar sé nauðsynlegt að draga úr vanskilum viðskiptavina og koma í veg fyrir frekara tap vegna útlána. „Við erum að glíma við mikil vanskil, sérstaklega á Selfossi. Atvinnulífið þar hefur ekki náð sér að fullu á strik eftir efnahagshrunið. Það virðist vera sem það taki lengri tíma fyrir svæði umhverfis Reykjavík að rétta fjárhagslega úr kútnum en önnur. Í útgerðar- bæjum eru uppgrip, eins og loðnu- eða síldarvertíðir, sem gera fólki kleift að bæta fjárhagsstöðu sína. Þetta sjáum við bæði hér í Eyjum og á Höfn í Hornafirði,“ útskýrir Hafsteinn. Erum pínu gamaldags Hafsteinn ítrekar að lokum að möguleikar sparisjóðanna felist í því að veita persónulega þjónustu. „Við erum pínu gamal- dags og viljum vera það,“ segir hann brosandi. „En að sama skapi þurfum við að fylgja takti tímans og erum við sem dæmi að kynna okkur forrit fyrir snjallsíma og spjald- tölvur, svokallað „app“, til að auðvelda viðskiptavinum okkar enn frekar að stunda bankaviðskipti,“ bætir Hafsteinn við. Hann segir dýrt að útbúa slíkt forrit og því sé til skoðunar samstarf við þýska sparisjóði í þeim efnum. Slíkt samstarf sé dæmi um nauðsyn þess að sparisjóðir, innanlands sem utan, eigi í góðu samstarfi varðandi sameiginlega hagsmuni og sérfræðiþekkingu. „Þrátt fyrir erfiða stöðu sparisjóðanna þurfum við að geta aukið umsvif okkar, án þess að fara út í einhverja vitleysu,“ segir Hafsteinn Gunnarsson, nýráðinn sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Vest- mannaeyja. Hafsteinn Gunnarsson, nýr sparisjóðsstjóri: Sparisjóðirnir eiga framtíð fyrir sér :: Veitum persónulega þjóustu :: Vinnum með landsbyggðinni :: Brýnt að draga úr vanskilum :: Fækkað um forstöðumann Stjórn Spari- sjóðs Vest- mannaeyja: Frekari sam- eining spari- sjóða í farvatn- inu :: Aðhalds- aðgerðir skila árangri Rekstur þeirra sparisjóða sem enn eru starfandi eftir fjármálahrunið hefur verið erfiður. Þorbjörg Inga Jónsdóttir, stjórnarfor- maður Spari- sjóðs Vestmannaeyja, segir að það helgist helst af auknum kostnaði í rekstri, afskriftum krafna og opinberum álögum, auk efnahagsstöðunnar. „En það má ekki gleymast að þeir sparisjóðir sem enn eru starfandi eru þær íslensku fjármálastofnanir sem lifðu af hrunið og sýnir það meðal annars aðrar áherslur í þeirra rekstri en var hjá viðskipta- bönkunum,“ segir Þorbjörg Inga í samtali við Eyjafréttir. Hún segir að vel hafi verið unnið að því að bæta afkomu sparisjóðanna síðastliðin ár og að aðgerðir, sem teknar hafi verið í því skyni, séu að skila árangri. „Það er mat stjórnar Sparisjóðs Vest- mannaeyja að það þurfi að sameina sparisjóði enn frekar en nú hefur verið gert. Stjórnin hefur sem dæmi ákveðið að leita eftir sameiningarviðræðum við aðra sparisjóði, þær eru þó enn ekki hafnar. Við teljum æskilegt að sparisjóðirnir verði færri og stærri til að lækka fastan rekstrarkostnað og bæta þjónustu við viðskiptamenn,“ segir Þorbjörg Inga. SiGhVaTur JÓnSSon sighvatur@eyjafrettir.is Þorbjörg Inga JónsdóttirÉg trúi því að við getum náð tökum á rekstrinum, ég trúi á framtíð sparisjóð- anna. Ég var ráðinn til frambúðar en ég lít á stöðuna nú sem tímabundið ástand þar sem það verður erfitt til lengri tíma að sinna báðum störfum svo vel sé. ”

x

Fréttir - Eyjafréttir

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Fréttir - Eyjafréttir
https://timarit.is/publication/977

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.