Fréttir - Eyjafréttir - 22.07.2015, Blaðsíða 7
7Eyjafréttir / Miðvikudagur 22. ágúst 2015
Þjóðhátíðarbarnið og Eyjamærin
Ólöf Ragnarsdóttir er fædd 2.
ágúst 1985. Hún er dóttir
Ragnars Hilmarssonar og
Margrétar Elsabetar Kristjáns-
dóttur og fósturdóttir Sigurðar
Alfreðssonar. Um þessar
mundir býr Ólöf í Palestínu þar
sem hún stundar nám í arab-
ísku, en Ólöf stundar masters-
nám í alþjóðasamskiptum
Mið-Austurlanda við Edinborg-
arháskóla og er partur af því
námi að eyða einu sumri í
arabískumælandi landi.
Hvernig stóð á því að þú
valdir þetta nám?
„Ég kláraði BA í stjórnmálafræði
árið 2011, stefndi alltaf á masters-
nám tengt alþjóðastjórnmálum og
datt inn á þetta nám sem ég stunda
núna með hjálp google. Það heitir
Alþjóðasamskipti Mið-Austurlanda
ásamt arabísku, International
Relations of the Middle East with
Arabic, og er tveggja ára nám við
Edinborgarháskóla. Vanalega er
mastersnám aðeins eitt ár í
Bretlandi en þetta eru tvö ár vegna
arabískunnar. Mig hefur einnig
alltaf langað til þess að læra
arabísku svo ég lét mig dreyma um
þetta nám í nokkur ár áður en ég
sótti loksins um.
Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á
Mið-Austurlöndum en einu
fréttirnar sem við fáum frá okkar
fjölmiðlum um þennan heimshluta
eru því miður neikvæðar og oftar en
ekki tengdar einhvers konar
hörmungum og ég hugsaði með mér
að það hlyti nú að vera eitthvað
annað og meira sem vert er að vita
sem er í gangi á þessu landsvæði.“
Býr í flóttamannabúðum
Hvað ertu að gera í Palestínu?
„Það er hluti af náminu mínu að
eyða einu sumri í arabískumælandi
landi og stunda nám í arabísku við
háskóla þar og einmitt þess vegna
er ég stödd í Ramallah, Palestínu
akkúrat núna. Ég hafði val um þrjú
lönd, Egyptaland, Jórdaníu eða
Palestínu og varð það síðastnefnda
fyrir valinu bæði vegna þess að mig
langaði að kynnast því hvernig
hversdagslíf Palestínumanna er
raunverulega undir hernámi Ísraela
og einnig finnst mér mállýskan hér
fallegust af þessum þremur.
Til þess að útskýra nánar þá má
segja að arabíska sé tvö tungumál;
skrifað mál eða Modern Standard
Arabic sem kennt er í skólum og
notuð af fjölmiðlum og það er eins í
öllum löndum svo er það talaða
málið eða amyyia sem er mismun-
andi eftir löndum og jafnvel innan
landa einnig. Það er óhætt að segja
að arabíska sé flókið tungumál en
að sama skapi afskaplega fallegt að
mínu mati.
Ég verð hér í Palestínu í tvo
mánuði samtals og á meðan dvöl
minni stendur bý ég í flóttamanna-
búðum sem heita Al-Amari Camp
og voru stofnaðar 1948 sem er sama
ár og Ísrselsríki var stofnað. En það
ár urðu um það bil 700.000
Palestínumenn flóttamenn og í dag
er talið að þeir telji um 5.000.000 í
heildina.
Hér í Al-Amari er hostel fyrir
sjálfboðaliða og aðra velunnara og
einnig er mikið lagt upp úr alls kyns
félagsstarfi hér. Til dæmis eru
sumarbúðir fyrir börn, handavinnu-
stofa fyrir fatlaða og á meðan
Ramadan mánuðinum stendur er
eldaður matur hér fyrir þá sem hafa
lítið á milli handanna. Það er
dásamlegt að fá að vera hluti af
þessu litla samfélagi sem telur um
8.500 manns sem búa sama á einum
ferkílómetra af landi. Mig dreymir
um að koma á einhvers konar
tengslum á milli Al-Amari og
Íslands en ég á eftir að hugsa það
betur hvers eðlis þau ættu að vera.“
Indælt fólk og gestrisið
Hvernig er að búa í Palestína? „Það
fyrsta sem mig langar að nefna
varðandi Palestínu er fólkið. Aldrei
áður hef ég hitt eins indælt og
gestrisið fólk. Það vilja allir allt
fyrir þig gera og fólk sem á ekkert
vill gefa þér allt. Þú gætir verið hér
ein/n á rölti og endað í kaffi og
kvöldmat heima hjá einhverjum
innan 10 mínútna. Mér hefur ekki
fundist ég óörugg í eina mínútu hér
síðan ég kom. Allir keppast við að
láta þér líða eins og heima hjá þér
og ég kann virkilega að meta það.
En hver einasta manneskja sem ég
hef hitt hér hefur upplifað sáran
missi, vini, fjölskyldumeðlimi og
heimili.“
Erfið helgi framundan
Hefurðu tíma til að ferðast og
skoða þig um? „Ég hef reynt að
vera dugleg að ferðast hér innan-
lands en á þessu svæði er afskap-
lega mikið af sögulegum minjum
ásamt því að hér er mikið af stöðum
sem eru mikilvægir kristni, íslam
og gyðingatrú en trúin er rosalega
mikilvæg fólkinu hér. Ég verð seint
talin strangtrúuð manneskja en það
er samt sem áður mjög spennandi
og mikil upplifun að heimsækja
þessa staði sem ég ég hef lært um
frá blautu barnsbeini í kirkju og
skóla.
Um daginn fór ég til dæmis til
Betlehem og heimsótti meðal
annars fæðingarstað Jesú Krists.
Betlehem er alveg rosalega falleg
borg en þó umkringd aðskilnaðar-
veggnum sem Ísraelar hafa byggt
og ætla sér að byggja allt í kring um
Vesturbakkann. Palestína er land
sem hver og einn þarf að upplifa til
þess að skilja nákvæmlega hvað er í
gangi hérna en ég hef alveg
upplifað allan tilfinningaskalann
hér. Mig langar að hvetja alla sem
hafa áhuga á því að heimsækja
Palestínu, þið munuð ekki sjá eftir
því. Eitt er þó víst og það er að ég
mun meta minn yndislega heimabæ
og fallega land ennþá meira en ég
gerði áður eftir þetta sumar.“
Ólöf verður þrítug þann 2. ágúst nk.
sem er sunnudagurinn í þjóðhátíð,
blaðamanni lék forvitni á að vita
hvort stórafmælinu yrði fagnað í
Herjólfsdal eða í Palestínu. „Ég er
rosalega mikið þjóðhátíðarbarn og
þessi helgi á eftir að verða mér
mjög erfið í ár þar sem ég verð ekki
á staðnum, en mig langar að biðja
alla að skála fyrir mér og hugsa til
mín á afmælisdaginn. Þetta verður
þriðja og vonandi síðasta þjóðhá-
tíðin sem ég missi af á ævinni“
sagði Ólöf að lokum.
Þjóðhátíðarbarnið og Eyjamærin Ólöf fjarri góðu gamni :: Í Palestínu að læra arabísku:
Langaði að kynnast hvers-
dagslífi Palestínumanna
undir hernámi Ísraela
:: Býr í flóttamannabúðum :: Í dag er áætlað að þeir telji um 5.000.000 í heildina
ÁSTa SiGrÍður GuðjÓnSdÓTTir
asta@eyjafrettir.is
Ólöf á leiðinni upp á Mount of Temptation í Jeríkó.
Rina, Ólöf og Anna við aðskilnaðarvegginn í Betlehem.
Aðskilnaðarveggurinn í Betlehem.
Ólöf og Laura, gamla borgin í
Jerúsalem í baksýn.
Ólöf við staðinn þar sem Jesús
fæddist.