Fréttir - Eyjafréttir

Tölublað

Fréttir - Eyjafréttir - 14.09.2016, Blaðsíða 23

Fréttir - Eyjafréttir - 14.09.2016, Blaðsíða 23
7Eyjafréttir / Miðvikudagur 14. september 2016 / SJÁVARÚTVEGSBLAÐIÐ Íslandsbanki og Vestmannaeyjar Íslandsbanki og Vestmanneyjar eiga langa og merkilega sögu sem áhugavert er að rifja upp nú í upphafi nýs fiskveiðiárs. Sjávarútvegurinn er einmitt rauði þráðurinn í þessari sögu og hefst hún fyrir rúmlega 100 árum. Fiskveiðisjóður Íslands og Útvegsbanki Íslands fléttast inn í söguna og eru nú hluti af þeim Íslandsbanka sem við þekkjum í dag. Íslandsbanki var stofnaður 7. júní 1904, sama dag og Binni í Gröf, einn mesti aflamaður Vestmanna- eyja, hefur haldið upp á 6 mánaða afmæli sitt. Bankinn var stofnaður af erlendum kaupsýslumönnum og fjármálastofnunum til þess að mæta þeirri miklu þörf fyrir fjármagn sem einkenndi íslenska atvinnuvegi, einkum sjávarútveginn. Lands- bankinn hafði verið starfræktur frá 1. júlí 1886 en upp úr aldamótum hafði hann ekki bolmagn til þess að svara síaukinni eftirspurn eftir fjármagni. Um þetta leyti var mikill framkvæmdahugur í útgerðar- mönnum víða um land sem tengdist vélvæðingu flotans og togaraútgerð. Til marks um þennan framkvæmda- hug þá keypti Fiskveiðifélag Faxaflóa fyrsta togarann til Íslands, Coot, og kom hann til hafnar í Hafnarfirði 6. mars 1905. Coot (154 brúttótonn) var grunnslóðartogari smíðaður í Glasgow 1892, útbúinn til botnvörpuveiða og greitt var fyrir 30 þúsund króna kaupverðið með eigin fé eigenda. Íslandsbanki byrjaði snemma að láta til sín taka í fjármögnun til sjávarútvegs og kom bankinn til að mynda að fjár- mögnun fyrsta togarans sem smíðaður var sérstaklega fyrir Íslendinga. Þetta var Jón forseti, smíðaður í Englandi 1906 fyrir útgerðina Alliance hf. í Reykjavík og var kaupverðið 150 þúsund krónur. Jón forseti (233 brúttótonn) var stór úthafstogari og með komu hans til hafnar 22. janúar 1907 hófst bylting í atvinnusögu íslensks sjávarútvegs. Má segja að tækni- öldin hafi formlega hafist hér á landi þá. Útibúið opnað 1919 Útibú Íslandsbanka var opnað í Vestmannaeyjum 30. október 1919. Starfsmenn voru tveir fyrstu árin, útibússtjórinn Haraldur Viggó Björnsson sem jafnframt var bókari og bréfritari og gjaldkerinn Halldór Halldórsson. Útibúið hóf starfsemi sína í húsi Kristmanns Þorkels- sonar, Steinholti, við Kirkjuveg. Aðstöðunni var lýst sem bágbor- inni að flestu leyti og samanstóð vélarkosturinn af einni ritvél. Gengi erlendra gjaldmiðla var sent útibúinu daglega í símskeyti frá aðalbankanum. Í þá daga var „fljótandi gengi“ á íslensku krónunni. Útibúið hafði ætíð litið á það sem skyldu sína að styðja við bakið á útgerð og fiskvinnslu og fór þannig stór hluti af lánsfjármagni bankans í að styðja við atvinnulífið í Eyjum, auk lána til einstaklinga. Íslandsbanki lánaði mikið fé til fiskverslunar og togarakaupa, auk rekstrarlána til útgerðarinnar, allt fram til ársins 1930 þegar bankinn var lagður niður. Endalok Íslands- banka voru í beinum tengslum við rekstrarerfiðleika útgerðarfyrirtækja eftir gengishækkun og lækkun afurðarverðs á árunum 1920 til 1930. Það fór svo að lokum að Útvegsbanki Íslands var stofnaður og tók hann yfir eignir og skuldir Íslandsbanka. Skömmu fyrir tveggja ára afmælið hans Binna í Gröf 10. nóvember 1905 var Fiskveiðisjóður Íslands stofnaður til stuðnings sjávarútvegi í landinu. Sjóðurinn var stofnaður eftir langvarandi óánægju vegna þess hve mikið hafði verið gert fyrir landbúnað samanborið við sjávarútveg. Óánægjan var skiljanleg ef litið er á fjárlög fyrir 1907 þar sem áætlað var að verja 50 þúsund krónum til eflingar á landbúnaði en verja átti 600 krónum til sjávarútvegs. Þessar 600 krónur átti Bjarni Sæmundsson náttúru- fræðingur að nýta til fiskirann- sókna. Þetta misræmi var sérkenni- legt í ljósi þess að á þessum tíma var hluti sjávarafurða í útflutningi mun stærri en hlutur landbúnaðar- vöru. Fiskveiðisjóðurinn gegndi mikilvægu hlutverki frá stofnun þó að stofnunin hafi verið heldur fjárvana til að byrja með. Fyrir- komulagið frá 1905 til 1930 var að Íslandsbanki fjármagnaði togara- kaup og aðrar stórar fjárfestingar á meðan Fiskveiðisjóður lánaði lægri upphæðir sem runnu einkum til vélbátaútgerðarinnar. Samspil þessara fjármálastofnana var því gott fyrir sjávarútveginn þar sem fjármagnsþörf bæði minni sem og stærri útgerða var fullnægt með þessu móti. Tímamót urðu svo í sögu Fiskveiðisjóðs 1930 þegar Útvegsbanki Íslands er stofnaður. Útvegsbanki Íslands Útvegsbanki Íslands var stofnaður 2. apríl 1930 á sama tíma og Binni í Gröf sinnti formennsku á vél- bátnum m/b Gullu. Útvegsbankinn var stofnaður í skyndi eftir að Íslandsbanki var lagður niður. Bankinn tók ekki aðeins yfir eignir og skuldir Íslandsbanka heldur líka stjórn og starfsemi Fiskveiðisjóðs Íslands. Fiskveiðisjóðurinn var rekinn sem sjálfstæð deild innan Útvegsbankans og fylgdi sem fyrr þeim lögum og reglugerðum sem um hann giltu. Hlutverk Útvegs- bankans var fyrst og fremst að lána fé til sjávarútvegs en einnig til verslunar og iðnaðar. Það má segja sem svo að með stofnun Útvegs- bankans 1930 hafi bankamál útgerðarinnar verið í svipuðu horfi næstu sex áratugina eða allt fram til 1990 en þá riðaði bankinn til falls. Endalok Útvegsbankans má að mestu rekja til kreppunnar í sjávarútvegi upp úr 1980 og gjaldþroti Hafskips sem hafði verið stór viðskiptavinur bankans. Grunnurinn lagður Íslandsbanki var stofnaður í ársbyrjun 1990 eftir að samkomulag hafði náðst um að Alþýðubankinn, Iðnaðarbanki Íslands og Verslunar- banki Íslands keyptu allt hlutafé í Útvegsbankanum af ríkinu. Allir fjórir bankarnir voru síðan sameinaðir undir nafni Íslands- banka og hafði þessi sameining umtalsverð áhrif á bankaumhverfið í Vestmannaeyjum. Talið var að Útvegsbankinn hafi verið með um 80% hlutdeild í útlánum til fyrirtækja í Vestmannaeyjum á þessum tíma og tengsl hans við atvinnulífið á staðnum því mikil. Aftur var komið að tímamótum þegar Íslandsbanki og FBA sameinuðust 2000 en Fiskveiði- sjóður hafði sameinast FBA 1997. Þarna er kominn grunnurinn af þeirri fjármálastofnun sem við köllum Íslandsbanka í dag. Saga Íslandsbanka og Vestmanna- eyja er samofin og hefur bankinn átt mikilli velgengni að fagna í áratugi. Við starfsfólk bankans erum gríðarlega þakklát fyrir það traust sem okkur hefur verið sýnt í gegnum árin og einnig þau góðu viðskiptasambönd sem hafa myndast. Við hlökkum til áfram- haldandi samstarfs og spennandi nýs fiskveiðiárs. Binni í Gröf (1904 – 1972). Haraldur Viggó Björnsson, fyrsti útibússtjóri Íslandsbanka í Vestmannaeyjum. Mynd: Gunnar Ingi Steinholt við Kirkjuveg.

x

Fréttir - Eyjafréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttir - Eyjafréttir
https://timarit.is/publication/977

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.