Morgunblaðið - 27.05.2019, Qupperneq 28
28 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 27. MAÍ 2019
AF LISTUM
Ragnheiður Birgisdóttir
ragnheidurb@mbl.is
Við höfum sett yfirskriftina„Mysterium“ á Kirkju-listahátíð í ár sem er dregið
af nýju tónverki sem verður frum-
flutt á opnunartónleikunum 1. júní.
Það er óratóría eftir Hafliða Hall-
grímsson,“ segir Inga Rós Ingólfs-
dóttir, framkvæmdastjóri
Kirkjulistahátíðar í Hallgríms-
kirkju, sem haldin verður í 15. sinn
dagana 1.-10.
júní. Listrænn
stjórnandi hátíð-
arinnar er Hörð-
ur Áskelsson.
„Okkur fannst
þetta gefa marga
skemmtilega
möguleika;
ákveðna dulúð og
að maður hafi
ekki allt alveg
skýrt í hendi sér.
Við höfum svolítið leikið okkur með
það í dagskrárgerðinni.“
Síðustu fimm Kirkjulistahátíðir
hafa verið á öðrum tíma til að þær
rækjust ekki á Listahátíð í Reykja-
vík. Nú er hátíðin hins vegar haldin
um hvítasunnu á ný eins og áður var
gert. „Þá var talað um þennan sköp-
unarkraft í kringum hvítasunnuna,
þessa birtu sem fylgdi, að fólk talaði
tungum og heilagur andi kæmi yfir
það. Hörður, sem er heilinn á bak við
hátíðina, hefur þess vegna einnig
talað um gjafir andans sem ákveðna
yfirskrift hátíðarinnar. Þessi tími
veitir okkur innblástur,“ segir Inga
Rós.
Nýsköpun í forgrunni
Kirkjulistahátíðin hefur ekki verið
haldin í fjögur ár vegna annarra
stórra hátíða sem haldnar hafa verið
í Hallgrímskirkju undanfarin ár. En
nú er haldið í sömu áherslur og á
fyrri hátíðum.
„Það hefur alltaf verið lögð
áhersla á nýsköpun á Kirkju-
listahátíð,“ segir Inga Rós og bætir
við að stórt tónverk eftir Hafliða
Hallgrímsson sé stolt hátíðarinnar í
ár. Verkið, Mysterium, er samið fyr-
ir báða kóra Hallgrímskirkju, Mót-
ettukórinn og Schola cantorum,
hljómsveit með orgeli og hörpu og
fjóra einsöngvara. „Hafliði er eitt
okkar helsta tónskáld,“ segir Inga
Rós og getur þess að þetta glæsilega
verk sé tileinkað Herði og Listvina-
félagi Hallgrímskirkju sem hafa
staðið fyrir hátíðinni um árabil. Auk
þess verður frumflutt kantata eftir
Sigurð Sævarsson á annan í hvíta-
sunnu. Inga Rós nefnir einnig að
flutt verði úrval orgelverka eftir ung
íslensk tónskáld sem hún segir að sé
nútíminn í hnotskurn. Þar er
skemmtilegt dæmi um nýsköpun því
að tæknibúnaður orgelsins er nýttur
þannig að tölvur geti spilað á orgelið
og orgelið verið tengt við kirkju-
klukkurnar svo hægt er að spila á
þær með orgelinu.
Auk nýsköpunar er lögð áhersla á
barokkflutning. „Það er með ráðum
gert,“ segir Inga Rós. „Við höfum
sérhæft okkur í að vera með barokk-
flutning í hæsta klassa. Það er heil
barokkhelgi um hvítasunnuna. Það
er gott að nýta svona hátíð til þess
að fá framúrskarandi listamenn til
að byggja upp áhuga á barokk-
tónlistarflutningi á Íslandi.“
Þótt mikil áhersla sé lögð á ný-
sköpun og barokk má einnig finna
rómantík og tónlist frá miðöldum á
dagskrá hátíðarinnar. Auk þess má
nefna verkið Útlendinginn, sem er
leiklesið verk eftir Halldór Hauks-
son þar sem fléttast saman hljóð, tal
og tónar. Það byggist á samnefndri
bók eftir Albert Camus.
Samstarf á Skólavörðuholti
Hátíðin er í fyrsta sinn í samvinnu
við Ásmundarsal. „Okkur fannst
freistandi að vera í samstarfi við
annan virkan stað á Skólavörðu-
holti,“ skýrir Inga Rós. Finnbogi
Pétursson er myndlistarmaður há-
tíðarinnar í ár. Sýning hans mun
flæða úr kirkjunni yfir í Ásmundar-
sal. Hann setur upp sýningu í for-
kirkjunni sem mun standa í allt sum-
ar en inni í kirkjunni byggir hann
eins konar þyrnikórónu utan um
hljóðnemahring. Með því eru öll
hljóðin í kirkjunni tekin upp og þeim
varpað yfir í Ásmundarsal þar sem
unnið er með hljóðin. „Þannig teng-
ist myndlist við hljóðverk,“ útskýrir
Inga Rós. „Þetta verður ótrúlega
spennandi og við erum með stór-
kostlega tæknilistamenn. Þar er
fremstur í flokki Guðmundur Vignir
Karlsson.“ Í Ásmundarsal verður
einnig kaffihús Kirkjulistahátíðar og
þar verður hægt að kynnast lista-
mönnum hátíðarinnar á listamanna-
spjalli. Það verður haldið fimm sinn-
um og rætt við myndlistarmanninn
Finnboga, tónskáldin Hafliða og
Sigurð, heimsfræga psaltariumleik-
arann Marinu Albero og tenórinn
Benedikt Kristjánsson sem hefur
gert garðinn frægan í barokkheim-
inum. „Það verður mjög skemmti-
legt að hafa afdrep í Ásmundarsal,“
segir Inga Rós en hátíðin er einnig í
samstarfi við Hótel Holt, sem styrk-
ir hana með virkum hætti og býður
listamönnum og gestum að njóta
bæði matargerðarlistar og mynd-
listar á Holtinu.
Eitthvað við allra hæfi
Meirihluti listamanna á hátíðinni
er innlendur. Tvö hundruð lista-
menn koma fram og af þeim eru
rúmlega 20 erlendir. „Þar af eru
tvær algjörar orgelstjörnur,“ segir
Inga Rós. Isabelle Demers frá Kan-
ada leikur á setningartónleikum há-
tíðarinnar og í óratóríu Hafliða og
David Cassan frá Frakklandi mun
halda tónleika með trompetleik-
urunum Jóhanni Nardeau og Bald-
vini Oddssyni. Söngvararnir eru
flestir íslenskir en í Alþjóðlegu bar-
okksveitinni, sem nú kennir sig við
Hallgrímskirkju og hefur komið
fram undir stjórn Harðar frá árinu
2004, eru 17 af 25 listamönnum að
utan. Á hvítasunnudagskvöld verður
Alþjóðlega barokksveitin með sjálf-
stæða tónleika. Hún leikur einnig
með báðum kórum kirkjunnar og
einsöngvurum á lokatónleikunum
10. júní, auk þess að flytja kantötur í
helgihaldinu um hvítasunnuna.
„Okkur finnst við ná til nokkuð
breiðs hóps þótt auðvitað sé mark-
hópur okkar mikið til svipaður og
hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands,“
segir Inga Rós og að allir ættu að
finna eitthvað við sitt hæfi. Ókeypis
er á 13 viðburði af 20 og hún segir
stjórnendur hátíðarinnar vera stolta
af því. Björn Steinar Sólbergsson
organisti og Graduale Nobili og
Hljómeyki koma fram í helgihaldinu,
auk þess sem fluttar verða hvítasun-
nukantötur í aftansöng 8. júní og í
guðsþjónustu á hvítasunnudag.
Nánari upplýsingar um þá fjöl-
breyttu viðburði sem í boði eru má
finna á vefnum kirkjulistahatid.is.
Þar sem nýtt og gamalt mætist
Kirkjulistahátíð í Hallgrímskirkju haldin í 15. sinn Ný verk eftir Hafliða Hallgrímsson, Sigurð
Sævarsson og Finnboga Pétursson Hvítasunnunni fylgir sköpunarkraftur sem veitir innblástur
Kórstjórinn Hörður Áskelsson, listrænn stjórnandi hátíðarinnar, stjórnar Mótettukór Hallgrímskirkju.
Inga Rós
Ingólfsdóttir
Kórinn Schola cantorum stillir sér upp framan við altari Hallgrímskirkju. Oganisti Franska stórstjarnan David Cassan spilar á Kirkjulistahátíð.
Smiðjuvegi 9 · 200 Kópavogi
Sími 535 4300 · axis.is
Vandaðar íslenskar innréttingar