Morgunblaðið - Sunnudagur - 05.05.2019, Blaðsíða 15
5.5. 2019 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 15
er þörfin enn óuppfyllt að því gefnu að við vær-
um með grunnsamning, sem rann út í vikunni.“
Þægilegast að segja nei
Jónmundur segir oft hátt flækjustig þegar kem-
ur að samskiptum við hið opinbera og oft virðist
ekki vera vilji til þess að finna lausnir á einföld-
um málum.
„Við erum að reyna að bæta ferla í kerfinu en
af því að menn eru ekki á sömu forsendum í
kerfinu er viljinn takmarkaður. Það er því mið-
ur erfitt að hreyfa við hlutum hérna. Sem dæmi
þá er landlæknir það framsýnn að embættið
samþykkti að setja í gang mikilvægt verkefni
sem felst í að koma reikningum rafrænt í hend-
ur á fólki í gegnum heilsuveru.is,“ segir Jón-
mundur og hann segir að málið sé í ágætum far-
vegi og segist vona að aðrir hagsmunaaðilar í
kerfinu stöðvi ekki slíkt framfaraskref.
„Síðan er önnur birtingarmynd í þessu kerfi
okkar; ójafn leikur. Til dæmis þurfum við að
rukka sjúklinginn að fullu fyrir ákveðnar mynd-
greiningar því það hefur ekki verið gerður
samningur við okkur um það. Sami sjúklingur
fer á Landspítala í sama tæki og dettur þá það
inn í endurgreiðslukerfi Sjúkratrygginga,“ seg-
ir Jónmundur og bendir á að þeir séu að keppa
við opinbera geirann, en á allt öðrum for-
sendum. Nefnir Jónmundur að þeir þurfi til að
mynda að greiða virðisaukaskatt af tækjum
sem ekki sé gert af tækjum sem gefin eru fyrir
söfnunarfé inn á ríkisreknar stofnanir en slíkt
hefur verið algengt í gegnum tíðina. „En ríkið
fær skattinn af fjárfestingu í einkageiranum og
þau fara brúttó með virðisauka í bækurnar hjá
okkur og þannig myndast 24% hærri stofn til af-
skrifta í gegnum rekstur. Sama á við um ýmsan
rekstrarkostnað þar sem heimild er fyrir end-
urgreiðslu í lögum til opinberra aðila en ekki
okkar. Þetta bjagar allan samanburð á kostn-
aðartölum einkareksturs og ríkisrekstrar.“
Tvöfalt heilbrigðiskerfi
Jónmundur segir ýmsu ábótavant í heilbrigð-
iskerfinu og telur hann að þjónustustigið þurfi
að batna til muna. Ekki er ásættanlegt að bíða í
á annað ár eftir augasteinaaðgerð að hans mati.
„Fólk með ský á auga býr við skert lífsgæði.
Þetta eru oft aldraðir einstaklingar og þeir eiga
betra skilið en þetta. Oft er ekkert mikið eftir af
ævinni og að þurfa að sóa fimmtán mánuðum í
að bíða er bara alveg hræðilegt,“ segir Jón-
mundur. Honum finnst einnig að fólk eigi að fá
val um það hvert það leitar með sín sjónvanda-
mál.
„Fólk segir að það vilji ekki tvöfalt heilbrigð-
iskerfi, annað fyrir efnaminni og hitt fyrir efna-
meiri, og ég deili þeirri skoðun. En við erum því
miður í dag að búa til þannig kerfi. Út af þess-
um biðlistum,“ segir
hann.
„Svo er tvöfalt kerfi
þegar þú leggst inn á
dvalarheimili, því þá
dettur þú út hjá Sjúkra-
tryggingum. Tökum
dæmi af sjúklingi hjá
okkur sem leggst inn á
Hrafnistu og kemur svo
aftur til okkar. Þegar
hann borgar reikninginn kemur höfnun frá
Sjúkratryggingum af því hann er inniliggjandi á
Hrafnistu sem á þá að borga þessa þjónustu.
Hrafnista þarf að ákveða fyrirfram hvort þú fáir
þjónustuna eða ekki,“ segir hann og bendir á að
þetta viti gamla fólkið ekki og reki sig ítrekað á.
„Við getum því miður ekkert gert og þurfum
þá að segja sjúklingnum að borga reikninginn
sjálfur. Svo þarf viðkomandi að athuga hvort
hann getur fengið hann endurgreiddan og þarf
þá leyfi frá lækni á Hrafnistu. Er þetta fólk þá
orðið annars flokks þegnar á Íslandi? Ósjúkra-
tryggt? Ég held að þetta sé staða sem gengur
ekki upp. Það eru svo margir svona gallar í
kerfinu og ég hef reynt að fá Sjúkratryggingar
að borðinu til að laga þennan feril því hann er
ekki í lagi. Þetta er kostað af sama aðilanum, af
hverju erum við að valda svona vandræðum hjá
gamla fólkinu. Þetta er sorglegt.“
Það má enginn græða
„Það væri mjög áhugavert að skoða heildar-
kostnaðinn við að eyða biðlistum og hversu hátt
hlutfall það yrði af kostnaðinum í heilbrigðis-
kerfinu. Ég held að það mætti hagræða helling,
laga til og spara mikið. Við getum gert svo
miklu betur, við erum með hæfa lækna og hæft
starfsfólk,“ segir Jónmundur sem segist hafa
boðið heilbrigðisráðherra í heimsókn, án árang-
urs.
„Okkar upplifun er að ráðuneytið vilji ekki af
þessari starfsemi vita. Hvar eigum við að
stoppa í þessari vegferð? Ætlum við, eins og ég
nefndi áðan, að setja alla tannlækna á ríkis-
reknar einingar? Hvað með vegagerðina, á
Vegagerðin að sjá um allar vegalagnir á Ís-
landi? Á enginn jarð-
vinnuverktaki að koma
þar að verki? Svo sjá all-
ir ofsjónum yfir því að
einhvers staðar mynd-
ast arður. Það er al-
gjörlega bannað. Í mín-
um augum er arður ekki
þjófnaður. Arður kemur
til af því þú stendur þig
vel, þú ert búinn að hag-
ræða, þú hleypur hratt og ert að gera góða
hluti. Það er hvati að framþróun, en það má
enginn græða,“ segir hann.
„Sumir vilja meina að ríkisrekið sé eina
lausnin. Ég segi nei, alfarið ekki. Það er jafn vit-
laust að segja að ríkisrekið sé eina lausnin og að
segja að einkarekið í heilbrigðisgeiranum sé
eina lausnin. Það verður að vera sambland af
hvoru tveggja og menn þurfa að vinna meira
saman,“ segir Jónmundur.
„Það er eitthvað að kerfinu, því þarf að
breyta. Ríkið á að huga að fjölbreytileika til að
tryggja framþróun og halda þjónustuveitendum
á tánum. Greiðandi þjónustunnar á að horfa á
gæði, magn og verð.“
Borga frekar en að bíða
Þar sem ekki hefur verið samið við Sjónlag um
augasteinaaðgerðir þarf fólk að greiða fyrir þær
úr eigin vasa. Velja margir að taka skellinn
frekar en að bíða að sögn Jónmundar.
Vill fólk koma og borga sjálft nú þegar ekki
fæst endurgreitt?
„Já, það er það sem er að gerast, það er þetta
tvöfalda kerfi. Fólk sem vill ekki bíða á annað
ár kemur unnvörpum. Það er haugur af fólki
sem segist afþakka styrkinn frá ríkinu því það
ætli sér ekki að bíða. Fólki finnst sjónin vera
grunnþörf og setur þetta í forgang,“ segir
hann.
Hvað kostar svona aðgerð?
„Einfókus-augasteinn eins og ríkið skaffar
kostar staðgreitt 219.450 krónur, og við stönd-
umst fyllilega samanburð við slíkar stöðvar er-
lendis í reynslu, tækni og verði. Bið í slíka að-
gerð hjá okkur fyrir þá sem greiða sjálfir er
talin í dögum, mest nokkrum vikum. Biðlistinn í
ríkisrekna kerfinu er tilkominn vegna þess að
fjármunir eru skammtaðir í kerfið.“
Hvað er fjölfókus-augasteinn?
„Stöðugt eru í þróun nýjar tegundir gervi-
augasteina sem eiga það sameiginlegt að gera
einstaklinga minna háða gleraugum. Þessir
gerviaugasteinar eru spennandi valkostur við
hefðbundna gerviaugasteina fyrir þá sem eru
með ský á augsteini og vilja geta séð sem mest
án gleraugna eftir augasteinsaðgerð. Þeir eru
ekki síður spennandi kostur fyrir þá sem eru
þreyttir á gleraugunum og vilja geta séð bæði
nálægt sér og frá sér gleraugnalaust. Kynning
á þessum valkosti ætti að vera skilyrði áður en
augasteinaaðgerð er gerð,“ segir hann.
Jónmundur segir að margir íslenskir læknar
sem eru enn erlendis eftir nám hafi verið að
banka upp á hjá þeim þar sem Sjónlag býr yfir
miklum tækjabúnaði og góðri aðstöðu. „Það er
ekki gott að vera einn úti í bæ, kostnaðarlega.
Það sem sérfræðilæknar hafa gert er að koma
heim og jafnvel starfa utan kerfis, og þeir
rukka þá allt 100%, því þeir fá ekki samninga.
En þeir hafa nóg að gera. Þetta er til skoðunar
hjá okkur, því þörfin er svo mikil. Í dag er eng-
inn sérfræðingur með samninga, þeir kláruðust
um síðustu áramót, og það er lítið að gerast í
þeim samningum skilst manni,“ segir hann.
Jónmundur vonast til þess að hlutirnir muni
batna en til þess þarf að ræða málin.
„Ég er hlynntur jákvæðri gagnrýni. Samtal
er alltaf af hinu góða. Maður skilur ekki af
hverju heilbrigðisráðherra vill ekki tala við að-
ila eins og okkur. Það er sorgleg staða.“
Jónmundur Gunnar Guð-
mundsson, framkvæmdastjóri
Sjónlags, skilur ekki hvers
vegna heilbrigðisráðherra vill
ekki tala við aðila eins og þá.
Morgunblaðið/Ásdís
’ Fólk segir að það vilji ekkitvöfalt heilbrigðiskerfi,annað fyrir efnaminni og hittfyrir efnameiri, og ég deili
þeirri skoðun. En við erum því
miður í dag að búa til þannig
kerfi. Út af þessum biðlistum.