Morgunblaðið - 26.08.2019, Blaðsíða 18
18 MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 26. ÁGÚST 2019
Sálm. 86.5
biblian.is
Þú, Drottinn,
ert góður og fús
til að fyrirgefa,
gæskuríkur öllum
sem ákalla þig.
Móðursystir mín,
Herdís Tryggva-
dóttir, gekk alltaf
undir gælunafninu
Heddí frænka hjá okkur börnum
Rannveigar, systur hennar. Syst-
urnar voru fjórar, Hanna, Ranna,
Heddí og Anna, auk elsta bróð-
urins Páls. Það var rúmt ár á milli
móður okkar og Heddíar, og
ákaflega kært með þeim systrum.
Stóra systirin Ranna fylgdi
Heddí, litlu systur, fram á nótt-
unni með glöðu geði og þegar þær
áttu að fá nýja svefnbekki um 9-
10 ára aldurinn var fenginn tví-
breiður bekkur handa þessum
samrýndu systrum. Seinna á lífs-
leiðinni, fráskildar konur með
stóran barnahóp, styrktu þær
áfram hvor aðra með ráðum og
dáð. Það er minnisstætt þegar
Heddí taldi ekki eftir sér að hafa
okkur systkinin í gistingu í Græn-
ásnum í um vikutíma eitt sumarið
– við fimm bættust við hennar
fjögur – en allt gekk vel. Fjögur
systkini í hvorum hóp áttu sér
jafnaldra í hinum systkinahópn-
um, og öll þekktumst við mjög
vel.
Heddí frænku var gefin létta
lundin sem hafði einkennt móð-
urömmu okkar, Herdísi Ásgeirs-
dóttur. Þeirrar lyndiseinkunnar
frænku okkar nutu allir sem í
kringum hana voru, því hún var
einkar lagin við að gleðja aðra.
Það var aldrei falskur tónn í hrós-
inu sem hún var örlát á. Hennar
eigin uppspretta gleðinnar var
einlæg trú, sem hún lærði af móð-
ur sinni og naut alla ævi.
Glettnin var aldrei langt undan
hjá Heddí. Skemmtilegar at-
hugasemdir gátu náð manni fljótt
niður á jörðina. Í einu stórafmæli
mínu tók ég svo til orða að mér
fyndist ég alls ekki orðin gömul,
og benti á hressar móður- og föð-
ursystur því til sönnunar. Heddí
spurði mig kímin hvort henni
hefði bara verið boðið til þess að
sýna hversu ungt afmælisbarnið
væri miðað við hana.
Hún náði einnig vel til næstu
kynslóðar á eftir. Börnin mín
minnast jákvæðninnar og smit-
andi gleði, og stinga upp á „hrós-
degi“ í minningu hennar.
Þegar Rannveig móðir mín dó
fyrir fjórum árum hafði Heddí
frænka á orði að nú yrði gleði í
himnaríki. Mér finnst gott að
minnast þeirra orða nú þegar
Heddí frænka er öll. Það ríkir
ábyggilega gleði og kátína í
himnaríki þegar lífskúnstnerinn
Herdís Tryggvadóttir bætist þar
í hópinn.
Innilegar samúðarkveðjur til
Herdísar, Þorsteins, Sigríðar og
Ófeigs og fjölskyldna þeirra, svo
og Kötlu Margrétar og allra ætt-
ingja og vina. Góð kona er gengin.
Eva Hallvarðsdóttir.
Orð mega sín lítils þegar elsku
Heddí frænka, eins og hún var
Herdís
Tryggvadóttir
✝ HerdísTryggvadóttir
fæddist 29. janúar
1928. Hún lést 15.
ágúst 2019.
Útför hennar fór
fram 23. ágúst
2019.
ávallt kölluð, er
kvödd. Brosið henn-
ar fallega sem lýsti
upp umhverfið, dill-
andi hláturinn,
glettnin og sú mikla
væntumþykja sem
hún sýndi alla tíð
var einstök og ég er
mjög þakklát fyrir
það. Hitti ég hana
var eins víst að ég
væri ausin lofi – ég
væri alltaf að fríkka og liti svo vel
út. Hvernig þetta myndi eigin-
lega enda! Maður einhvern veg-
inn efldist allur því ekki var ann-
að hægt en að trúa henni örstutta
stund, og síðan var hlegið.
Hún sýndi væntumþykju með
spurningum um það hvernig öll-
um liði og hvort ekki væri allt
gott að frétta. Ef einhver átti erf-
itt bað hún fyrir viðkomandi, en
trú hennar var sterk alla tíð. Hún
fylgdist grannt með og spurði
frétta. Þegar henni voru sagðar
jákvæðar fréttir samgladdist hún
á þann hátt að einlægnin skein í
gegn og maður trúði því að allt
færi á besta veg.
Ég er henni óendanlega þakk-
lát fyrir hjálpsemina sem hún
sýndi mér þegar ég glímdi við
veikindi mánuðum saman. Óbeð-
in kom hún daglega til mín og
hjálpaði með börnin.
Heddí var mér sem önnur
móðir en mikill samgangur var
milli þeirra systra Heddíjar og
Rönnu þegar barnahópurinn var
ungur. Ég dvaldi talsvert hjá
henni á æskuárum og á góðar
minningar frá Grænásnum og
Garðaflötinni.
Umhyggja hennar var mikil og
sem dæmi um það var okkur
Siggu dóttur hennar ekki hleypt
út í sundbol á góðviðrisdögum
nema vera í lopaundirfötum. Það
mátti ekki slá að okkur.
Hún mátti ekkert aumt sjá og
dýr áttu sér ávallt griðastað hjá
henni líkt og villikisurnar sem
fengu skjól og mat undir úti-
tröppunum. Hún var svo mikill
dýravinur að hún lét ekki kjöt inn
fyrir varir sínar frá því hún var
ung.
Þegar ég kveð elsku frænku
mína ætla ég að gera orðin sem
hún lét falla við dánarbeð kærrar
systur sinnar að mínum: „Ég
samgleðst elsku Rönnu minni því
ég er svo þakklát fyrir að hún
fékk loksins að kveðja.“ Nú eru
þær systur sameinaðar að nýju á
góðum stað.
Rannveig Hallvarðsdóttir.
Orð virðast fátækleg þegar ég
reyni að skrifa örfáar línur til að
lýsa uppáhaldsfrænku minni
henni Heddý, konu sem var hold-
gervingur þess að lifa guðlegu
lífi; lífi samkenndar, skilnings,
kærleika og ómælds hláturs. Þar
sem ég ólst upp í Bandaríkjunum
þá voru heimsóknir mínar fátíð-
ari en ella en þær höfðu engu
minni áhrif en hefði ég búið á Ís-
landi. Það skipti engu máli
hversu oft ég bað hana að elda
handa mér fiskibollur, uppá-
haldsrétt barnæsku minnar, þá
brosti hún bara og var óðara rok-
in inn í eldhúsið. Gómsætir réttir
og dásamlegar kökur voru gerð
af sama barmafulla og skilyrðis-
lausa kærleika og allt annað sem
hún tók sér fyrir hendur. Ég var
alltaf full eftirvæntingar þegar ég
var á leið í heimsókn til hennar,
og ég fór þaðan með þá tilfinn-
ingu að vera elskuð, lífsglöð og
með bros á vör. Og við Heddý vil
ég segja þetta: Ég get ekki þakk-
að þér nógsamlega fyrir allt sem
þú gerðir fyrir mig, en mest
þakka ég þér fyrir það sem þú
hafðir ekki hugmynd um að hafa
gert. Endalausar sögur af föður
mínum sem lést árið 1983 hafa
hjálpað mér að að halda minningu
hans lifandi, bæði í hug og hjarta.
Þú varst fyrirmynd í samkennd,
gjafmildi og mikilvægi hlátur-
mildi sem hefur ævinlega hjálpað
mér að minna sjálfa mig á hvað
raunverulega skiptir máli í lífinu.
Sterk trú þín hefur verið mér inn-
blástur og öllum í kringum þig til
eftirbreytni, og ég finn til friðar í
hjartanu vitandi að þú ert í örm-
um Guðs núna, í eilífri sælu og
hlæjandi á himni.
Mér hefur lærst að fólk mun gleyma því
sem þú sagðir, fólk mun gleyma því
sem þú gerðir, en fólk mun aldrei
gleyma hvernig þú lést því líða.
(Maya Angelou)
Mary Beth Loftus.
Ég minnist vinkonu minnar
Herdísar Tryggvadóttur sem ég
hef þekkt frá barnæsku úr Kópa-
voginum.
Þegar við vorum litlar stelpur
lékum við okkur við Kópavogs-
lækinn ásamt Rannveigu systur
Herdísar sem var vinkona mín
alla tíð. Þar busluðum við þrjár
saman í læknum sem þá var tær í
sveitinni. Á þessum árum var
Kópavogurinn alvöru sveit, börn
voru gjarnan send í sveit í Kópa-
voginn á sumrin. Foreldrar okkar
voru þarna með sumarbústaði og
áttum við Herdís og Rannveig
þarna góðar stundir. Þar voru
berjalautirnar upp um alla móa
og lækurinn tær. Á sumrin var
heyskapur á bæjunum Fífu-
hvammi, Digranesi og einnig á
bænum Breiðholti sem var aðeins
lengra frá okkur.
Þórunn var bóndi á Fífu-
hvammi og átti hún þrjá syni og
eina dóttur. Einn þeirra, Guð-
mundur, var mjög mikið ljúf-
menni og var mikill vinur allra
barna í dalnum. Hann var ávallt
að passa upp á að börnin færu sér
ekki að voða í læknum, berjamó
eða hvar þau voru niðurkomin í
sveitinni. Herdís sagði mér að
hjúkrunarfræðingurinn sem bjó
um hann eftir andlátið hefði sagt
hann hafa verið eins og engill
þegar hann lést. Herdís var trúuð
kona og trúði þessu en hún hélt
mikið upp á þennan mann og tal-
aði mikið um hann í seinni tíð.
Herdís var mikil hugsjónakona
og vann talsvert að mannúðar-
málum. Hún var vel gefin, ein-
staklega falleg og var hún kosin
fegurðardrottning í Verslunar-
skólanum, þar sem hún tók stúd-
entspróf.
Leiðir okkur Herdísar lágu
aftur saman þegar hún flutti á
Dalbrautina. Það gladdi mig að fá
Herdísi í húsið, þessa glæsilegu
góðu konu sem vildi alltaf láta
gott af sér leiða. Herdís var hrók-
ur alls fagnaðar alls staðar sem
hún kom. Oft hittumst við saman
í matsalnum í hádeginu og svo
áttum við líka gleðistundir saman
með kaffibollann á morgnana.
Herdís mín, ég er þakklát fyrir
gleðistundirnar á Dalbrautinni,
þær komu sér vel.
Nú legg ég augun aftur,
ó, Guð, þinn náðarkraftur
mín veri vörn í nótt.
Æ, virst mig að þér taka,
mér yfir láttu vaka
þinn engil, svo ég sofi rótt.
(Sveinbjörn Egilsson)
Sendi fjölskyldu Herdísar
innilegar samúðarkveðjur.
Hólmfríður Bjarnadóttir.
„En hvað þú ert með fallegt
nef, Sólveig mín“ heyrðist kallað
frá fjarlægari enda borðsins á
Grillinu á Sögu. Stórfjölskyldan
leit upp frá diskunum og virti kaf-
rjóðan stelpukrakkann fyrir sér.
Stelpan fálmaði yfir nefið í von-
lausri tilraun til að fela vaxandi
bólu og gaut augunum á svipmik-
inn ættföðurinn við borðsendann.
„Nei, ekki Fjallsættarnefið“,
sagði Heddý frænka, „þitt er enn
glæsilegra, grískt eins og á Afró-
dítu.“
Hvort unglingsnefið stóð undir
þessari stórbrotnu lýsingu skipt-
ir minnstu máli því sagan lýsir
föðursystur minni ákaflega vel.
Hún kunni að hrósa fólki, löngu
áður en slíkt komst í tísku. Heddý
frænka var einstaklega jákvæð
og gefandi manneskja en jafn-
framt hreinskilin og laus við
væmni. Eiginleikar sem styrkt-
ust með aldrinum. Eins og Páll
Ásgeir, bróðir hennar og faðir
minn, hafði hún glettnisglampa í
augum og létta lund. „Mikið er
gott að hlæja með þér,“ sagði hún
þegar við höfðum dottið í hressi-
legt hláturskast þar sem hún lá
enn, mörgum vikum eftir fótbrot,
föst inni á spítala fyrir nokkrum
árum. „Það eru allir svo voðalega
alvarlegir hérna.“
Heddý frænku var alltaf kalt
og hafði sífelldar áhyggjur af að
öðrum væri líka kalt. „Það er
örugglega gallað í mér systemið,“
sagði hún við mig og Herdísi syst-
ur mína þar sem hún sat kapp-
dúðuð inni á Grund tíu dögum áð-
ur en hún kvaddi þennan heim.
Svo hló hún og kærri minningu
skaut upp í huga mér. Á ættar-
móti á Húnavöllum, tuttugu og
átta árum fyrr, birtist hún við
tjaldið þar sem við fjölskyldan
reyndum að sofa. Það var komið
fram yfir miðnætti, dæturnar
tvær voru loks sofnaðar en það
yngsta, ársgamall gutti, hrökk sí-
fellt upp af svefninum og grét
sáran. Klædd minkapelsi yfir ull-
arpeysu og náttkjól og með hlýja
húfu á höfði tók hún ekki annað í
mál en að ég kæmi með barnið
inn á hótelherbergi til hennar. Ég
fór inn með drenginn en hann
náði ekki að festa þar svefn. Loks
brugðum við á það ráð að pakka
honum niður í barnavagn og fram
undir morgun þessa hlýju sum-
arnótt gengum við frænkur með
lítinn Pál Ásgeir eftir sveitaveg-
um Húnavatnssýslu. Þessari
samstöðu með ungri móður mun
ég aldrei gleyma.
Herdís var, eins og Anna, sem
nú er ein eftir af systkinunum
fimm, ákaflega trúuð. Trú hennar
var lifandi, björt og iðkuð í verki.
Þegar á hefur bjátað hjá mér og
mínum hefur Heddý beðið fyrir
okkur sem aldrei fyrr. Fyrir það
þakka ég, efasemdarkonan, og
grunar að bænahiti þeirra systra
hafi átt sinn þátt í að allt hefur
farið á besta veg.
Aldrei heyrði ég Heddý tala
illa um nokkurn mann en hún var
engu að síður raunsæ og hrein-
skilin kona. Hún var félagslynd
og hélt fjölmennar veislur á með-
an hún bjó enn í Laugarásnum
því henni var í mun að ættingjar
og vinir ættu góðar samveru-
stundir. Börn hennar og barna-
börn bera ættmóðurinni fagurt
vitni, gott fólk og ættrækið.
Nefið á mér er hvorki glæsi-
legt né grískt, heldur ósköp
venjulegt íslenskt nef sem hefur
dugað mér ágætlega en ég verð
Heddý frænku ævinlega þakklát
fyrir allt hrósið, væntumþykjuna
og skemmtilegheitin. Dýrmæt
minningin lifir.
Sólveig Pálsdóttir.
Hitti Herdísi í síðasta sinn í
garðveislu í afmæli Magnúsar
tengdasonar hennar í lok júlí.
Þetta var fallegur dagur. Hún sat
úti og ég spurði hvernig hún hefði
það. Og hún svaraði: „Ég heyri
fuglasöng og sólin skín.“ Og svo
kom stóra brosið.
Það var gæfuspor að kynnast
Herdísi Tryggvadóttur. Sigga
dóttir hennar og ég erum æsku-
vinkonur, kynntumst níu ára í
Barnaskóla Garðahrepps og upp
frá því var ég heimagangur hjá
Herdísi og þangað var gott að
koma og vera.
Ég fór í mína fyrstu utanlands-
ferð með Herdísi, Siggu og Ófa
bróður hennar til Spánar 14 ára.
Ég var ekki beint að biðja um
fræðslu en þannig var að Herdís
sagði mér til á mjög eftirminni-
legan hátt og tvinnaði þar saman
mörgum helstu mikilmennum og
hugsuðum heimsins og aldrei
gleymi ég Albert Schweitzer.
Herdís kunni að fræða og ala upp
á þann hátt sem virkaði. Ekki var
síður eftirminnilegt úr þessari
Spánarferð hversu mikla athygli
Herdís vakti hvar sem hún fór,
svo glæsileg, fögur og brosti mót
öllum. Svo bættist dillandi hlát-
urinn við. Hún fór ekki framhjá
neinum.
Annað gæfuspor í lífi mínu
tengist einnig Herdísi en í 75 ára
afmæli hennar hitti ég eiginmann
minn og má því segja að Herdís
hafi þarna, eins og áður, verið ör-
lagavaldur í lífi mínu. Þegar ég
nefndi þetta við hana fyrir nokkr-
um árrum, hló hún ánægð við.
Það sýnir göfuglyndi Herdísar
og stórhug að hún gaf hátt í þús-
und plöntur til gróðursetningar
til minningar um fyrrverandi eig-
inmann sinn og barnsföður þó að
þau hafi skilið á miðjum aldri.
Þannig var Herdís í öllu.
Ég kveð þig, elsku Herdís,
með ljóði Þorsteins Erlingssonar,
Sólskríkjan:
Sú rödd var svo fögur, svo hugljúfu og
hrein,
sem hljómaði til mín úr dálitlum runni.
Hún sat þar um nætur og söng þar á
grein
svo sólfögur ljóð um svo margt sem ég
unni.
Og kvöld eftir kvöld hóf hún ástarljóð
ein –
ó, ef að þú vissir, hvað mikið hún
kunni.
Petrína Sæunn Úlfarsdóttir.
Eitt af því sem kemur strax
upp í hugann þegar ég minnist
Herdísar Tryggvadóttur, fyrr-
verandi tengdamóður minnar, er
hvellur og smitandi hláturinn. Ég
minnist þess líka hvað hún tók
mér vel við fyrstu kynni. „Komdu
sæll og blessaður, og velkominn,“
sagði hún með bros á vör þar sem
ég stóð úti fyrir dyrum á Laug-
arásveginum. Þegar inn var kom-
ið spurði hún mig spjörunum úr
eins og títt er um fólk af hennar
kynslóð. Mikið ertu með fallegt
hár, sagði hún svo upp úr eins
manns hljóði, og hló. Það er eins
og ljónsmakki og þín höfuðprýði.
Þessu gleymi ég seint.
Herdís Tryggvadóttir fór sínar
eigin leiðir og datt ýmislegt
skondið og skemmtilegt í hug.
Hana hafði til dæmis lengi
dreymt um að búa í svissneskum
fjallakofa. En Sviss var víðsfjarri.
Hún dó samt ekki ráðalaus og
innréttaði neðri hæðina hjá sér í
fjallakofastíl. Á sama tíma fékk
hún þá flugu í höfuðið að það hlyti
að vera draumi líkast að sofa í
vatnsrúmi. Það varð einnig að
veruleika.
Svona var Herdís Tryggva-
dóttir. Hún lét sér ekki allt fyrir
brjósti brenna.
Herdís var löngu skilin þegar
leiðir okkar lágu saman og bjó
ein. En hún átti hundinn Pedró,
sem henni þótti afar vænt um.
Hann var iðulega með í för á tíð-
um gönguferðum hennar um
hverfið. Peddi minn, sagði hún
jafnan við hundinn, sem hlýddi
engu, og afsakaði hann síðan í
bak og fyrir.
Svo fæddist Herdís dóttir mín.
Hún kom eins og sólargeisli inn í
líf ömmu sinnar. Herdís
Tryggvadóttir sá ekki sólina fyrir
dótturdóttur sinni og nöfnu.
Passaði hana frá fæðingu og var
vakin og sofin yfir velferð hennar
alla tíð. Dóttir mín ólst upp við
mikið ástríki ömmu sinnar og
samband þeirra langmæðgna var
yndislegt. Herdís Stefánsdóttir
fer með ómetanlegt veganesti út í
lífið úr ranni ömmu sinnar.
Þótt ég hyrfi úr fjölskyldu
Herdísar Tryggvadóttur slitnaði
þráðurinn aldrei á milli okkar.
Herdís dóttir mín batt okkur
saman órjúfanlegum böndum.
Lengi framan af bauð hún okkur
feðginum reglulega í mat til sín.
Undir það síðasta tók ég við kefl-
inu og sá um matarboðin. Þetta
voru ánægjulegar stundir.
Ég er þakklátur fyrir að hafa
fengið að kynnast Herdísi
Tryggvadóttur. Það stafaði birtu
frá henni og ég dáðist að æðru-
leysi hennar, jafnaðargeði og
glaðlyndi. Hún var með stórt
hjarta og kenndi mér dýrmæta
lexíu. Kynni okkar gerðu mig að
betri manni.
Fjölskyldu hennar votta ég
mína dýpstu samúð.
Stefán Erlendsson.
Ég myndi heldur vilja vera í
Reykjavík núna en skrifa um
Herdísi úr fjarlægð. En ég reyni
að vera með í anda þegar hún er
kvödd.
Herdís siglir nú til síns áfanga-
staðar. Hún þarf samt ekki að
ferðast langt til síns næsta him-
neska íverustaðar – hún var
næstum komin þangað í lifanda
lífi. Og hún mun ekki villast í víð-
áttuauðnum alheimsins vegna
þess að hún er vön hæstu hæðum
í bænum og hugleiðslu. Hún er
heldur ekki ókunnug þeim sem
búa og byggja himnana. Þeir
þekkja hana – hún varð ein af
þeim með því að gera jarðneska
hluti sem má segja vera him-
neska – kraftaverk – með því að
hugsa um aðra í vanda, þá sem
voru niðurbrotnir, týndir, hrakt-
ir, kúgaðir eða auðmýktir.
Læknar geta læknað fólk með
því að meðhöndla markvisst veik-
indi og sjúkdóma. Heilarar horfa
heildrænt á manneskjuna og örva
viðnámskraftana. Hæfnin til þess
að heila og veita hjálpræði er ekki
eins og verkfæri á skurðstofu-
bakka sem er beitt vélrænt eftir
þörfum. Þessi hæfni er einungis á
færi staðfastrar persónu sem ein-
setur sér að bjarga lífi og neitar
að gefast upp þrátt fyrir mikið
andstreymi – með því að biðja af
einurð og þrákelkni og stefna að
markinu á persónulegan hátt þótt
allt standi og mæli gegn því.
Svona eins og Benedikt í Aðventu
eftir Gunnar Gunnarsson, uppá-
haldsbók Herdísar. Hann gerði
kraftaverk þegar hann fann kind-
urnar sem voru týndar í snjóbyl
og kom þeim í skjól. Herdís gerði
kraftaverk með því að neita því að
láta líf mitt verða banvænum
sjúkdómi að bráð. Óbifanlegur
styrkur bæna hennar, staða
hennar með mér í hjarta sínu, og
með því að næra sál mína með
himneskum „afurðum“ – náð,
kærleika, fyrirgefningu og skiln-
ingi – gerði mér kleift að lifa af.
Þannig var máttur vonar hennar
og trúar og ég er lifandi vitnis-
burður um takmarkalausa mögu-
leika þeirra.
Herdís breytti mér einhvern
veginn og mitt nýja sjálf fékk
ekki einungis aukahæfni til þess
að lifa, heldur einnig til að sjá eðli
hlutanna, að umgangast sérhvert
líf af meiri nærgætni, líkt og það
væri í hættu, og að koma auga á
sjónarhorn sjálfuppljómunar í
fólki. Í raun var þetta hagnýt
lexía í kristilegri kenningu um
ummyndunina. Munið þið þegar
Kristur birti sitt sanna guðlega
eðli frammi fyrir postulunum og
lærisveinunum að þá varð hann
að geislandi ljósi sem lýsti að ofan
í allar áttir? Þetta var ekki bara
venjulegt ljós sem með því að lýsa
upp eina hlið hlutar skyggir hina.
Þetta var hið guðlega ljós frá Ta-
bor-fjalli sem lýsir upp eðli hlut-
anna svo þeir verði frumglæði
ljóss. Með öðrum orðum, ef mað-
ur fær það verkefni að leiða sann-
leika hlutanna í ljós getur maður
séð að það er ljós í öllum mönn-
um, dýrum og öðru í náttúrunni,
þ.e. öll náttúruleg fyrirbæri eru í
grundvallaratriðum samsett úr
orku. Það gefur til kynna djúp-
stæða einingu allra náttúrulegra
fyrirbæra og tengir kristilega vit-
und og umhverfisvitund í huga
Herdísar. Sem er enn eitt undra-
vert einkenni hennar. En það er
fyrir kynslóðir framtíðar að
íhuga.
Með djúpri virðingu og þakk-
læti mun ég varðveita minningu
Herdísar svo lengi sem ég lifi.
Lydia Voronina.
Fleiri minningargreinar
um Herdísi Tryggvadótt-
ur bíða birtingar og munu
birtast í blaðinu næstu daga.