Morgunblaðið - Sunnudagur - 04.08.2019, Blaðsíða 13

Morgunblaðið - Sunnudagur - 04.08.2019, Blaðsíða 13
Sigurður fékk nýlega inngöngu í Kon- unglegu listaakademíuna í Haag í Hollandi, en af rúmlega 600 manns sem sóttu um var Sigurður einn þeirra 50 sem fengu skólavist. „Þetta er ágætis viðurkenning á því sem ég er að gera,“ segir Sigurður. „Þetta er spennandi verkefni að takast á við, en fyrst og fremst er þetta einstakt tækifæri, að komast inn í svona skóla og fá að kynnast skapandi og hæfileikaríku fólki og mynda tengsl við það. Þetta verður kannski mín brú yfir á meginlandið. Ég er mjög spenntur að fá að móta mig og mínar hugmyndir í skapandi umhverfi á næstu árum.“ Sigurður er ekki alls óvanur listnámi, en þegar kom að því að velja menntaskóla ákvað hann að hefja nám á listnámsbraut við Fjölbrautaskólann í Breiðholti. „Það var eig- inlega það eina sem kom til greina,“ segir Sigurður. „Ég þurfti að segja skilið við vini mína, sem fóru flestir í MR, og fór alla leið upp í Breiðholt. Það var eflaust fyrsti vís- irinn að því að sækja mér menntun í mynd- list.“ Sjálfskipaður sendiherra Sigurður segir list sína hingað til hafa ein- kennst af tilraunamennsku. „Þá erum við að tala um tilraunir með efni, stíl og viðfang,“ segir Sigurður. „Þetta eru oft pælingar um samhengi í verkum mínum, ég hef skeytt saman mönnum og hundum til að fá eitthvað nýtt og í nýju seríunni má sjá konur Picass- os mættar til Reykjavíkur í alveg nýju sam- hengi,“ útskýrir hann. „Þetta eru oft miklar tilraunir. En nú verða kaflaskil þegar ég fer út í nám. Þá verður maður að vera opinn fyrir öllu.“ Þrátt fyrir ungan aldur hefur Sigurði tek- ist að hasla sér völl í myndlistarheiminum, sýningar hans telja nú á þriðja tug og held- ur hann sér alfarið uppi með listaverkasölu. „Ég hef verið mjög heppinn að verkum mínum hefur almennt verið tekið afskaplega vel,“ segir Sigurður, en frá 2015 hefur hann tekið reglulega á móti gestum í vinnurými sínu sem ýmist vilja skoða listaverkasafn hans eða kaupa af honum verk. „Það eru ákveðin forréttindi að geta lifað á listinni og það er alls ekki sjálfgefið að hafa tekjur af þessu sem halda mér uppi.“ Árið 2016 stofnaði Sigurður Sævar fyrir- tækið Listamaður ehf. sem heldur utan um sölu á verkum hans. „Ég er auðvitað ungur og ég hef ekki neinn gallerista sem selur fyrir mig að ein- hverju ráði þannig að ég þarf að reiða mig mikið á sjálfan mig,“ segir Sigurður. Hann nýtir sér samfélagsmiðla, sérstaklega Face- book og Instagram, til að koma list sinni á framfæri og til að bóka heimsóknir í vinnu- rýmið. Verk Sigurðar hafa fengið einkar góðan hljómgrunn hjá ungu fólki, en Sigurður seg- ir um þriðjung þeirra sem koma í heimsókn og kaupa af honum verk fólk að kaupa sitt fyrsta málverk. „Ég er eiginlega orðinn sjálfskipaður sendiherra sem kynnir myndlist á ólíkleg- ustu stöðum,“ segir Sigurður. „Mér þykir mjög skemmtilegt að opna augu ungs fólks fyrir myndlist, hvort sem það er hér í vinnu- rýminu, í heita pottinum í Vesturbæjarlaug eða á skemmtistöðum Reykjavíkur um helg- ar,“ segir hann og hlær. Komið að kaflaskilum „Ég held að viðtökurnar frá öðrum í brans- anum, hvort sem það eru galleristar eða aðr- ir myndlistarmenn, hafi verið ljómandi fínar. Allavega það sem ég hef tekið eftir,“ segir Sigurður. „Auðvitað getur maður ekki verið allra. Ég veit að það eru ekki allir hrifnir af því sem ég er að gera og það er í góðu lagi. Verst þykir mér kannski að fólk í stöðum þar sem það er kannski að kenna eða miðla þekkingu á myndlist til ungs fólks skuli tala með neikvæðum hætti um fólk eins og mig, sem er ungur listamaður og kannski ákveðin fyrirmynd fyrir annað skapandi fólk sem vill koma sér á framfæri. Það þykir mér miður, en maður verður að lifa með því.“ Sigurður segir sinn persónulega stíl sem listmálari hafa þroskast mikið. „Alveg frá því ég var þrettán ára hefur mér alltaf fund- ist nýjasta verkið vera fullkomið. Síðan líður tíminn og hlutirnir breytast og þótt ég sé rosalega sáttur við það sem ég er að gera núna, þá á það líka eftir að breytast,“ segir Sigurður. „Þegar maður er ungur listamað- ur fylgja því stundum unglegar hugmyndir. Það er sést kannski í sumum verkum mín- um. En það sem ég er að fara að gera núna er að þróa mig áfram sem listamaður og þróa mínar hugmyndir. Þótt ég sé ekki allt- af klyfjaður speki eða hugmyndum, þá er komið að þeim kafla núna. Það er komið að kaflaskilum.“ Breytir kassanum í hring Í lok árs 2017 hélt Sigurður til Evrópu. Hann hafði lítið yfirgefið Ísland síðan hann hóf myndlistarferilinn í Kaupmannahöfn tæpum áratug fyrr og útþráin dró hann til Parísar. „Mér fannst ég þurfa að æfa mig að fara til útlanda,“ segir Sigurður. „Ég vissi að Erró hefði aðsetur í París, svo ég hugsaði með mér að það væri gaman að heimsækja hann. Það var í raun leynt markmið þess- arar ferðar.“ Sigurður hafði þó enga hug- mynd um hvar Erró væri niðurkominn eða hvernig ætti að ná í hann. „Eftir krókaleið- um náði ég að tala við fólk sem þekkti fólk og að lokum tók hann á móti mér á vinnu- stofu sinni og við áttum þar stórkostlega stund,“ rifjar Sigurður upp. „Þetta voru tvö rými, rosalega mikið af pappír, tímaritum og blöðum á gólfinu og grafíkmyndir og plaköt á veggjunum. Loft- hæðin var fjórir eða fimm metrar þannig að það var svolítið kalt. Við fengum okkur sæti í miðju rýmisins og áttum ljúfa stund á með- an hann var að klippa út. Þetta var dagur sem ég mun aldrei gleyma.“ Síðasta haust hélt Sigurður til Lundúna- borgar þar sem hann dvaldi í rúman mánuð. „Ég var alltaf töluvert eftir á í ensku. Á meðan jafnaldrar mínir voru umkringdir af- þreyingarefni á ensku vildi ég bara skapa listaverk svo það háði mér alla mína grunn- skólagöngu. Ég hugsaði svo með mér síðasta haust að fara bara til London og æfa mig í enskunni. Svona mánaðarlangt enskunám- skeið, segir Sigurður. „Enda hefur enskan verið á stöðugri uppleið síðan,“ bætir hann við. Sigurður heldur til Hollands hinn 19. ágúst til að hefja nám við Konunglegu lista- akademíuna í Haag. „Ég er að fara að læra myndlist í mjög breiðum skilningi. Ég hef áhuga á að prufa mig áfram í skúlptúr eða jafnvel innsetn- ingum. Ég á nokkur slík verk en ég hef aldrei sýnt þau,“ segir Sigurður. „Það sem er gaman við að fara í svona nám er að ég get prófað mig áfram. Ég þarf að fara út úr kassanum og kannski breyta kassanum í hring eða eitthvað. Þetta verður að minnsta kosti myndlist; hvers eðlis sú myndlist verð- ur á tíminn eftir að leiða í ljós.“ Morgunblaðið/RAX Fyrsta og þriðja málvek Sigurðar eru til sýnis á vinnustofu hans. 4.8. 2019 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 13

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.