Morgunblaðið - Sunnudagur - 25.08.2019, Blaðsíða 10

Morgunblaðið - Sunnudagur - 25.08.2019, Blaðsíða 10
VIÐTAL 10 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 25.8. 2019 V ið Bríetartún í Reykjavík stendur bygging sem fljótt á litið sker sig ekki frá öðrum í götumynd- inni. Þegar betur er að gáð sést að hún er skreytt táknum sem alla jafna sjást ekki á byggingum hér á landi. Ofan við gríðarmiklar eikardyr ber rauðan Georgskross fyrir augu og ofar bregður fyrir hornmáti og sirkli sem fæstir hafa handleikið frá því að formlegri skólaskyldu sleppti. Margir velta vöngum yfir því hvað í raun fer fram að baki hinum luktu og voldugum dyrum en þangað flykkjast flest kvöld vikunnar yfir vetrartímann kjólfataklæddir karlmenn. Þarna eru höfuðstöðvar Frímúrarareglunnar á Íslandi sem löngum hefur verið sveipuð dulúð og þögn, jafnvel þegar hart hefur verið sótt að henni á opinberum vettvangi. Innan þessara veggja hefur blaðamaður mælt sér mót við Val Valsson, fyrrverandi bankastjóra. Hann hefur frá árinu 2007 verið æðsti stjórnandi Frímúrarareglunnar sem stórmeistari hennar. Þótt það hafi ekki verið neitt leyndarmál hefur lítið borið á því starfi hans á opinberum vettvangi og það helgast af eðli Reglunnar. Nú hefur hann fallist á að veita Morgunblaðinu viðtal. Tilefnið er ærið, ekki aðeins það að í október næstkom- andi mun nýr stórmeistari taka við stjórn Reglunnar heldur einnig sú staðreynd að á þessu ári fagna frímúrarar með ýms- um hætti þeim tímamótum að öld er liðin frá því að starf frí- múrara tók á sig formfasta mynd á Íslandi. Á þriðju hæð byggingarinnar hittumst við. Léttur í spori kemur Valur út um einar af fjölmörgum dyrum sem liggja að stórum sal sem þakinn er málverkum af fyrrverandi stórmeist- urum Reglunnar. Hann býður mér inn á skrifstofu og á miðju gólfinu er virðulegt skrifborð og á þremur hornum þess kerta- stjakar. Í einu horni skrifstofunnar stendur fallegur silkiofinn fáni með skjaldarmerki. En viðtalið fer fram í hliðarherbergi, þar sem stjórnendur Reglunnar koma saman til funda með reglubundnum hætti. Verið í Reglunni í 45 ár Þegar við höfum komið okkur fyrir lægi eflaust beinast við að spyrja beint út í Frímúrararegluna sem slíka. En mér leikur ekki síður forvitni á að vita hvað varð til þess að Valur gekk til liðs við hana. Hvað rekur mann til þess að knýja dyra á þessum vettvangi? „Í ár eru 45 ár frá því ég gekk í Frímúrararegluna þannig að ég hef verið hér mjög lengi. Faðir minn, Valur Gíslason leikari, var frímúrari og ég man enn eftir því þegar hann gekk inn, þá var ég átta eða níu ára gamall. Það var mikil hátíðarstund á heimilinu. Svo fór ég með honum á jólaböllin sem Reglan stend- ur fyrir. Þannig hafði ég alltaf vissa tengingu við þetta starf þótt ég hafi ekki vitað hvað hér fór fram á fundum. Svo voru fleiri fjölskyldumeðlimir í Reglunni og þannig lá í raun alltaf í loftinu að ég myndi stíga þetta skref.“ Og þú hefur þá farið sömu leið og aðrir sem leitast eftir inn- göngu, fengið tvo meðmælendur innan Reglunnar til þess að greiða götu þína? „Ég hafði áhuga á því en faðir minn dró lengi vel úr mér með þetta og sagði: þér liggur ekkert á. Og ég var orðinn þrítugur þegar ég loksins gekk inn. Það þykir fremur ungt í dag því allt hefur elst en í þá daga var algengt að menn kæmu yngri inn. Þetta helst í hendur við aðra þróun í samfélaginu, t.d. þá stað- reynd að menn fara nú að heiman síðar og festa ráð sitt síðar, eignast börnin jafnvel síðar en áður tíðkaðist.“ Stóra daginn bar upp á 18. nóvember 1974 og meðmælendur Vals voru faðir hans og Ingimundur B. Sigfússon, mágur hans. Og þegar ég spyr hann út í það hvort hann hafi órað fyrir því á þessum tímapunkti að hann myndi rúmum þremur áratugum síðar taka við embætti stórmeistara Reglunnar stendur ekki á svari: „Nei, það datt mér ekki í hug og örugglega engum.“ Þeir sem standa utan veggja Frímúrarareglunnar hljóta að spyrja sig í hverju hlutverk stórmeistara hennar felst. Er það eins og hvert annað stjórnunarstarf? „Mitt hlutverk er öðru fremur það að opna mönnum dyr. Formlega hefur stórmeistari Frímúrarareglunnar mikil völd á vettvangi hennar en hann hefur sér til ráðuneytis marga góða menn. Í því skyni starfa ýmis ráð innan hennar sem hvert hefur sitt tiltekna hlutverk. Öflugir og traustir menn veita þeim for- ystu og því lít ég á mig á svipaðan hátt og stjórnarformann. Ég veit að flestir þættir starfsins eru í góðum höndum en svo eru það ákveðin verkefni sem ég einn sinni, það á við um stjórn ákveðinna funda og annað af þeim toga. Því geta fylgt miklar annir, ásamt skyldum við starfið úti um landið og á erlendum vettvangi.“ Þegar litið er yfir farinn veg og þessa löngu samfylgd hlýtur þú að hafa varið gríðarlegum tíma í þetta starf, bæði áður en ekki síður eftir að þú tókst við stjórn Reglunnar. Hefur honum verið vel varið? „Ég held að honum hafi verið mjög vel varið fyrir mig per- sónulega. Hér hef ég átt góðar stundir. Lengst af hef ég verið í einhverjum embættum í stúkunum sem hér starfa. Það vill verða þannig að sömu mennirnir ganga milli embætta og gegna þeim lengi. Það er hentugt að mörgu leyti því menn kunna þá Valur Valsson er tíundi maðurinn til að gegna embætti stórmeistara Frímúrara- reglunnar á Íslandi og hefur gegnt því frá árinu 2007. Fyrsti stórmeistari hennar var Sveinn Björnsson, forseti Íslands. Morgunblaðið/Kristinn Magnússon „Mitt hlutverk er öðru fremur það að opna mönnum dyr“ Valur Valsson er stórmeistari Frímúrarareglunnar á Íslandi. Á ári hverju bætast um 100 nýir félagar í Regluna og hún telur í dag um 3.600 bræður. Valur segir starfið gefa mönnum tækifæri til að horfast í augu við sjálfa sig. Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.