Morgunblaðið - Sunnudagur - 25.08.2019, Blaðsíða 13

Morgunblaðið - Sunnudagur - 25.08.2019, Blaðsíða 13
25.8. 2019 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 13 að gera hér. Þó er það ekki meginmarkmið Reglunnar. Það er partur af því sem verið er að gera hér. En það sem einkennir góðgerðarstarfið er tvennt. Annars vegar það að það fé sem við gefum til góðgerðarmála er eingöngu komið frá bræðrunum sjálfum. Hins vegar það að við gerum þetta í kyrrþey eins og allt annað. Við látum þess nánast aldrei getið þegar við látum stuðning af hendi rakna. Þeir sem þiggja hann hafa heimild til þess að greina frá honum en við höfum ekki frumkvæði að því.“ Valur segir að bræðrahópurinn leggi fram fjármagn til góð- gerðarmála eftir efnum og ástæðum hvers og eins. „Frá aldamótum höfum við varið um 150 milljónum króna til góðgerðarstarfs. Það skiptist nokkuð jafnt, annars vegar inn á við til bræðra eða fjölskyldna þeirra þar sem ástæður kalla á stuðning. Hins vegar er það stuðningur Reglunnar við ýmis önnur málefni, m.a. rannsóknir, læknavísindi og ýmis góð- gerðarsamtök. Þannig leggjum við áherslu á að leggja þeim lið sem styðja aðra. En nú í tilefni 100 ára frímúrarastarfs hér á landi gerum við ráð fyrir að leggja um 30 til 40 milljónir króna til góðgerðarmála á þessu ári.“ Meðal þess sem stundum heyrist þegar gagnrýni á Frí- múrararegluna er annars vegar er sú staðreynd að konur eiga þess ekki kost að ganga þar inn. Er það ekki tímaskekkja af einhverju tagi á þeirri öld sem við lifum? „Það er rétt að í okkar Reglu eru bara karlar. Hjá flestum Frímúrarareglum heimsins er það með þessu móti. Þetta er arfur frá gamalli tíð og því hafa menn ekki viljað breyta. Hins vegar eru til frímúrarareglur þar sem bæði karlar og konur starfa, m.a. hér á landi. Hér starfar Alþjóðleg frímúrararegla karla og kvenna. Hún nefndist áður Samfrímúrarareglan og hún hefur starfað hér á landi í tæpa öld. Svo er hér starfrækt kvennaregla sem ekki tengist Frímúrarareglunni en vinnur að svipuðum markmiðum og hún hefur aðstöðu hér hjá okkur í húsinu. Þannig geta konur sótt í starf sem byggist á sama eða svipuðum grunni þótt haldið hafi verið í þessa hefð á vettvangi Frímúrarareglunnar á Íslandi.“ Lætur af embætti í lok október Í lok október næstkomandi hyggst Valur láta af embætti stór- meistara eftir tólf ára starf. Segir hann að það komi til af því annars vegar að allt hafi sinn tíma og svo hins vegar að Frímúr- arareglan setji aldri æðstu embættismanna skorður. Við 75 ára aldur láti menn af þeim og aðrir taki við keflinu. En hvernig er vali æðstu embættismanna háttað? Koma allir félagsmenn að því að velja eftirmann hans eða er það ferli með öðrum hætti? „Það væri ekki hægt að halda því fram að hér ríkti lýðræð- islegt kerfi. Og þetta eins og svo margt annað hjá okkur byggist á gamalli hefð. Æðstu embættismenn Reglunnar, núverandi og fyrrverandi, koma saman, en þeir eru um fjörutíu talsins og ákveða hver skuli taka við. Það er gert í kosningum og þar hef ég (aðeins) eitt atkvæði eins og allir hinir.“ En hvað er Vali efst í huga þegar hann horfir yfir þennan rúma áratug sem hann hefur veitt hinu hundrað ára gamla starfi forystu? „Efst í huga er þakklæti fyrir það traust sem mér hefur verið sýnt og stuðningurinn og hlýhugurinn sem ég hef fundið. Þá vil ég nefna að síðustu fimm árin höfum við unnið mikla stefnumót- unarvinnu sem lýtur að öllu starfinu hér innandyra að siðabálk- unum undanskildum. Vinnan við þetta og úrvinnsla gagna sem aflað hefur verið hefur tekið mörg ár og mun taka tíma enn. Ástæða þess að þessi vinna er sérstaklega minnisstæð er sú staðreynd að um 300 bræður hafa komið að henni með form- legum hætti. Þar kom í ljós að við erum með svo marga öfluga sérfræðinga í okkar röðum að við þurftum nær aldrei í þessari vinnu að leita út fyrir bræðrahópinn til að leysa þessi verkefni af hendi. Þarna kom því skýrlega í ljós hverskonar mannauði við búum yfir í bræðrahópnum. Í því sambandi má nefna að enginn bróðir í Reglunni, hvorki embættismenn eða aðrir þigg- ur laun fyrir sína vinnu, þetta er allt sjálfboðaliðastarf. Við er- um reyndar með örfáa launaða starfsmenn sem sjá um skrif- stofu og bókhald, hinn daglega rekstur, en allir aðrir eru ólaunaðir. Það var mikil og skemmtileg upplifun að koma að vinnu þessa ótrúlega stóra hóps sem mun skila miklu fyrir Regluna á komandi árum.“ Alþjóðleg samskipti hafa færst í aukana Fleiri breytingar hafa orðið á starfinu frá þeim tíma þegar Val- ur tók við sem stórmeistari. Þannig segir hann að miklar breyt- ingar hafi orðið á samskiptum við frímúrarareglur erlendis. „Það er alþjóðleg þróun. Það er miklu meira samstarf milli reglna og stúkna en áður. Samgöngur hafa þar eflaust talsvert að segja. En það hefur líka aukist mikið að einstaka stúkur taka sig saman og fara í heimsóknir til stúkna erlendis. Það er ánægjuleg þróun sem mér sýnist gefa bræðrunum mikið. Í heiminum eru engin heimssamtök frímúrara. Öll samskipti eru tvíhliða ákvörðuð af reglunum sjálfum. En við störfum sérstak- lega náið með reglunum á Norðurlöndum, í Svíþjóð, Noregi og Danmörku, því þær starfa eftir sama kerfinu. Við stórmeistarar reglnanna hittumst að minnsta kosti tvisvar á ári til að fara yfir málefni sem varða innra starfið og þar hefur m.a. verið lögð áhersla á samræmingu siðabálkanna milli landa.“ Þótt senn líði að því að Valur losni undan þeirri ábyrgð sem fylgir því að leiða starfsemi Frímúrarareglunnar á Íslandi hyggst hann halda þátttöku sinni áfram eins og verið hefur síð- ustu ríflega fjóra áratugi. Hann bendir á að innganga í Regluna feli í sér ævilanga skuldbindingu og að mannræktin taki aldrei enda. Allir menn hafi tækifæri til þess að líta inn á við, leggja mat á breytni sína og bæta það sem aflaga hefur farið. „Þar veitir Frímúrarareglan óviðjafnanlega leiðsögn og án hennar vildi ég ekki vera,“ segir Valur að lokum. Valur ávarpar ríflega 400 frímúrara á svo- kallaðri Regluhátíð sem haldin er ár hvert. Á hægri hönd hans situr Anders Strömberg, stórmeistari sænsku frímúrarareglunnar sem lét af embætti fyrr á þessu ári, og á vinstri hönd hans situr Walter Schwartz, stórmeistari dönsku frímúrarareglunnar. Morgunblaðið/Kristinn Magnússon ’Menn tala stundum um það hér aðþeir séu að koma í ræktina þegar í húser komið. Og það má til sanns vegar færa.Starfið hér hefur mannrækt að markmiði og líkt og með líkamsræktina þá þarf að iðka hana til þess að ná árangri.

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.