Skessuhorn - 18.02.2015, Blaðsíða 24
24 MIÐVIKUDAGUR 18. FEBRÚAR 2015
Blómlegt í gróðurhúsinu í febrúar
Rætt við Sædísi Guðlaugsdóttur hjá Gleym-mér-ei um fyrstu
vetrarverkin í gróðrarstöðinni, ræktunina og fleira
Sædís Guðlaugsdóttir rekur Gróðr-
arstöðina Gleym-mér-ei við Sól-
bakka í iðnaðarhverfinu í Borgar-
nesi. Hún ræktar þar fjölda alls-
kyns plantna og blóma í nýju, stóru
gróðurhúsi. Sædís ákvað sem barn
að verða garðyrkjufræðingur, fylgdi
bernskudraumnum eftir og hefur
því verið í bransanum lengi. „Bæj-
aryfirvöld höfðu ekki mikla trú á
þessu, enda var ég ekki nema 23 ára
að reyna að fá land fyrir þessa starf-
semi. Það tók mig hálft annað ár
að fá landið og á endanum fékk ég
þetta svæði út frá Kárastöðum. Það
var þáverandi hreppsstjóri, Gísli
Karlsson, sem gerði góðan samn-
ing fyrir mína hönd. Þegar ég lít til
baka finnst mér ég hafa notið mik-
ils velvilja Borgnesinga því hér hafa
mér staðið allar dyr opnar, margir
hafa hjálpað mér ef á hefur bjátað.
Svo á ég gríðarlega góð viðskipti
við flestöll fyrirtæki hér, svo ekki
sé talað um bæinn sjálfan. Þar á ég
þónokkur handtök og blóm héðan
hafa prýtt Skallagrímsgarð og opin
svæði í gegnum árin,“ segir Sædís
þakklát um upphafið og það sem af
er starfsferlinum.
Blómstrar í nýja húsinu
Fyrsta aðstaða Sædísar var í gróð-
urhúsi á bakvið Brákarhlíð. Þar
var hún með inniræktun fyrstu tvö
árin. „Ég var með töluvert magn af
blómum þar, alveg heilar 50 morg-
unfrúr, 350 stjúpur, svolítið af öðr-
um sumarblómasortum og forrækt-
að grænmeti.“ Næst fór hún í tölu-
vert stærra hús í Skallagrímsgarði
þar sem hún náði að auka magnið og
fjölga tegundum. „Ég náði að nýta
það hús mjög vel í nokkuð mörg ár.
Ég var orðin sérfræðingur í að sá í
litlum einingum og oft, því ég flutti
svo plönturnar upp í Gleym-mér-ei
í plasthús og seldi þar. 1994 var svo
fyrsta húsið byggt hér og í það var
sett heitt vatn. Þá var húsið í Skalla-
grímsgarðinum orðið mjög lélegt
og ég flutti í þetta líka fína, tæplega
100 fermetra plexiplasthús. Mér
fannst ég vera komin í ævintýra-
lega stórt og fínt hús, líkt og mér
líður núna, tuttugu árum seinna í
nýja gróðurhúsinu sem er 400 fer-
metrar. Þetta er risastórt ræktunar-
pláss og ég ræð mér ekki fyrir gleði
og skipulegg hér hægri - vinstri og
veit varla hvar ég á að byrja. Hér
get ég leikið mér og blómstrað í
húsinu,“ segir Sædís og hlær.
Unnið að fyrstu sáningu
og græðlingafjölgun
Sædís segir að nýja gróðurhúsið
virki vel. Í því er sjálfvirk opnun á
gluggum, sem er breyting frá þeirri
aðstöðu sem hún hafði áður. „Þá
þurfti ég að hlaupa út við sólarupp-
rás, klukkan fimm á morgnana, til
að opna gluggana en nú gerist þetta
sjálfkrafa. Svo erum við að dunda í
að setja upp borð og bæta aðstöð-
una. Þetta kemur bara smátt og
smátt en bóndinn minn, hann Þrá-
inn Ómar Svansson, hefur séð um
að halda utan um allar húsbygging-
ar hér.“ Sædís segist hafa náð góðri
og heilli uppskeru úr húsinu í fyrra
en reiknar samt með betri árangri í
ár. „Nú er líka komin smá reynsla
á húsið. Þegar maður flytur í nýtt
húsnæði þá þarf maður eiginlega
að byrja upp á nýtt. Það upphefst
í raun nýtt ræktunarferli þegar að-
staðan gjörbreytist svona, þá þarf
maður að læra á umhverfið upp á
nýtt,“ útskýrir hún.
Blaðamaður er forvitinn um hvað
hægt er að gera í gróðurhúsi um
hávetur. -Er ræktunarferli í gangi
allan veturinn? „Já, í raun er ekk-
ert hlé. Síðustu þrjá mánuði ársins
er ekki í gangi nein fjölgun en þá
þarf að hugsa um plöntur sem gefa
eiga græðlinga í byrjun janúar. Yfir
jólamánuðinn er svo unnið í bók-
haldi, nafnalistum og pappírum.
Þá eru fjölæru plönturnar í dvala
úti undir gleri og ekki orðið tíma-
bært að byrja að sá. Í viku fjögur á
nýju ári hefst græðlingavinnan og
sáning svo smátt og smátt í fram-
haldinu. Svo þyngist róðurinn í ró-
legheitum fram í mars. Þá þarf að
prikla og potta og stundum þarf að
potta sömu plöntunni þrisvar sinn-
um áður en hægt er að selja hana,“
segir Sædís. Hún bætir því við að
það sé kappsmál að klára alla pott-
un og koma öllu á sinn stað áður en
viðskiptavinirnir mæta á svæðið.
Snædrífan blóm sumar-
blómanna
Aðspurð um hvaða blóm sé í upp-
áhaldi hjá henni svarar Sædís að
Snædrífan sé blóm blómanna. „Hún
er svo dugleg og þolir misjafna með-
höndlun. Hún er sumarblómið,“
segir hún með mikilli áherslu. „En
stjúpan er auðvitað föst í sessi ásamt
morgunfrúnni og svo er gamla góða
hádegisblómið, sem opnast bara í
sól, alltaf vinsælt,“ bætir hún við. Í
gróðrarstöðinni Gleym-mér-ei eru
næstum allar plöntur seldar beint
til viðskiptavina sem koma í stöðina
en undanfarin ár hafa Garðheimar
einnig tekið dálítið úrval af fjölær-
ingum í sölu hjá sér. Mest selst af
sumarblómum og fjölærum blóm-
um að sögn Sædísar. „Ég er með til-
tölulega lítið úrval af trjám og runn-
um, bara um 150 tegundir en það er
mikill stígandi í kryddjurtum, mat-
jurtum og berjarunnarækt,“ segir
hún. Ein af nýjungunum hjá Sædísi
er stevíu planta, sem er sætuplanta.
„Ég er með tvær tegundir af þeim.
Þær eru seldar í formi smáplantna
og ég gæti ímyndað mér að upp-
skeran af henni geti verið þrisvar til
fjórum sinnum yfir sumarið. Þegar
blöðin hafa náð réttri stærð er hægt
að þurrka þau og mylja. Ég er samt
forvitin um hvernig aðrir sem hafa
ræktað og meðhöndlað stevíu eru
að nýta hana og hvernig þeim líkar
hún,“ segir Sædís og varpar þeirri
spurningu til lesenda Skessuhorns.
Tegundum fjölgar
stöðugt
Sædís sáir þó ekki fyrir öllum þeim
plöntum sem hún selur. Hún pant-
ar einnig til landsins græðlinga af
blómum sem hún þarf svo að sinna
áður en hún selur þá. Hún er nú
búin að fá til landsins fyrsta grunn-
inn af græðlingum þessa árs, eða
fyrsta partýið eins og hún kallar
það. „Ég þarf að umpotta þeim og
sumir þurfa að ræta sig. Ég afhendi
svo fyrstu vöruna í mars, til annarra
ræktunaraðila sem vilja auka úrvalið
hjá sér og vera með fjölbreyttara og
blómlegra úrval.“ Á meðan plönt-
urnar stækka og taka sig fyrir sum-
arið þarf Sædís einnig að passa vel
upp á allar merkingar. „Það þarf að
merkja þetta allt. Öll fræ og plöntur
eiga sér uppruna og númer, latneskt
heiti og íslenskt heiti. Það skiptir
því miklu máli að allar merkingar
séu réttar, til að uppruni plöntunnar
þekkist og upplýsingarnar séu rekj-
anlegar.“ Hún stefnir svo á að vera
búin að fylla húsið í mars. „Það þarf
stanslaust að vera að sinna blómun-
um. Passa vökvun, áburðargjöf og
stöðugt er verið að potta upp í stærri
potta því auðvitað vil ég að við-
skiptavinurinn fari út með stórt og
fallegt blóm og sé ánægður.“
Úrvalið og magnið sem Sædís var
með fyrst, 350 stjúpur og 50 morg-
unfrúr, hefur margfaldast eftir þrjá-
tíu ár í starfi. Tegundunum hefur
fjölgað og talan hefur hækkað og má
búast við að enn eigi eftir að bætast
við nú þegar nýja húsið er komið í
fulla notkun. Hún segir söluglugg-
ann opnast þegar ekkert næturfrost
sé í kortunum. „Ég virðist ekki geta
hætt að reyna að hafa vit fyrir fólki
og sel ekki plöntur fyrr en ég tel að
það sé ekki hætta á næturfrosti. Ég
get bara ekki haft það á samviskunni
að fólk láti plönturnar frjósa. Það er
hægt að fylgjast með því hvort það
er fullt tungl væntanlegt um mán-
aðamótin maí - júní í norðanátt. Þá
koma hugsanleg næturfrost hér,“
segir garðyrkjufræðingurinn Sædís
brosandi að endingu. grþ
Sædís með fallegar plöntur í köldum febrúarmánuði. Plönturnar dafna vel í
gróðurhúsinu við Sólbakka, ofan við Borgarnes.
Það er blómlegt um að litast í gróðrarstöðinni og ilmurinn þar inni minnir á sum-
arið, þrátt fyrir að enn sé hávetur.
Gróðurhúsið er senn að fyllast. Um miðjan mars verður húsið fullt af vaxandi
plöntum.
Stevíuplantan góða. Hægt er að þurrka og mylja blöðin og nota sem sætu í stað
sykurs. Nýja gróðurhúsið við Sólbakka er stórt og mikið.