Skessuhorn - 24.02.2016, Blaðsíða 14
MIÐVIKUDAGUR 24. FEBRÚAR 201614
Vindótt-skjótta hryssan Fella frá
Borgarnesi kastaði myndarlegu
merfolaldi aðfararnótt síðastliðins
föstudags. Fremur sjaldgæft er að
hryssur kasti á þessum árstíma og
mun ástæðan vera sú að í hópi af
hryssum síðasta vetur, sem þá voru
taldar fengnar, var hafður þriggja
vetra ógeltur foli. Önnur hryssa úr
hópnum kastaði í útlöndum, þang-
að sem hún var seld í fyrrahaust.
Ólafur Björgvin Hilmarsson er
eigandi hryssunnar. Hann kveðst
hafa verið búinn að sjá að hryssan
væri komin að köstun og vakti því
yfir henni. „Ég fékk fæðingarorlof
í vinnunni og vakti yfir henni þessa
nótt,“ sagði Óli Björgvin, en hann
starfar hjá Límtré-Vírneti í Borg-
arnesi. Hann kvaðst himinlifandi
með að fá þetta vindskjótta folald,
ekki síst þar sem það er falleg og
vel gerð hryssa og stórvel ættuð.
„Móðirin er eitt besta reiðhross-
ið mitt, prýðileg klárhryssa og
ágætlega ættuð, undan Glampa frá
Langárfossi og hryssunni Svölu frá
Svalbarði. Faðirinn heitir Randver
frá Akurgerði en hann er undan
verðlaunastóðhestinum Spuna frá
Vesturkoti og hryssunni Nótt frá
Akurgerði. „Ég á því von á að vera
þarna búinn að fá kostagrip,“ sagði
Óli Björgvin.
Sama dag og folaldið kom í
heiminn var formlega myndað-
ur nýr meirihluti í Borgarbyggð.
Oddviti annars meirihlutaflokks-
ins, Geirlaug Jóhannsdóttir, var þá
stödd í Tansaníu vegna verkefni-
sins Máttur kvenna. Þegar leit-
að var að hentugu nafni á folald-
ið kom upp sú hugmynd að tengja
nafn hennar þessum degi, og hefur
litla hryssan fengið nafnið Tans-
anía.
mm
Kastaði folaldi í lok Þorra
Ólafur Björgvin með hryssuna Fellu og Tansaníu litlu.
Ólafur Björgvin Hilmarsson segir uppáhaldslit hrossanna vera breiðblesótt. Hér er
hann ásamt tveimur barna sinna. F.v. Hugi sem situr Orra, Þóra er á Fókus og Óli
Björgin sjálfur á Hókus. Aðspurður segir hann að búið sé að selja Pókus.
Í Frumkvöðlasetri Borgarness í
Brákarey fer jafnan fram merkileg
starfsemi. Hæst ber smíði og við-
gerðir á bátum og ýmsu úr trefja-
plasti, en jöfnum höndum er þar
einnig unnið frumkvöðlastarf þar
sem ekki eru fetaðar troðnar slóð-
ir. Þar á bæ er engin hræðsla við
áskoranir. Þau Þorsteinn Máni
Árnason og María Sigurjónsdótt-
ir ráða ríkjum í Frumkvöðlasetr-
inu. Meðal verkefna þeirra und-
anfarin misseri hefur verið fram-
leiðsla á endurgerðum stól sem
nefnist Hófurinn. Stóll þessi er,
eins og nafnið gefur til kynna, eft-
irgerð af hesthóf í stækkaðri mynd
en upphaflega var stóll þessi óður
til íslenska hestsins. Hófinn hann-
aði og smíðaði upphaflega Jóhann
Ingimarsson, Nói, árið 1970. Nói
var einn fremsti frumkvöðull ís-
lenskrar húsgagnasmíði. Nói lést
10. janúar síðastliðinn, níræður
að aldri. Var stóll þessi ávallt í sér-
stöku uppáhaldi hjá Nóa þótt hon-
um hafi ekki auðnast að hefja fram-
leiðslu á honum. Nói var nokk-
uð ölkær og gerði að gamni sínu
með að slagorð fyrir sölu á stóln-
um þegar þar að kæmi ætti að vera:
„Drekktu í Hófi“.
Ekki voru framleiddir fleiri stól-
ar af þessari gerð fyrr en árið 2013
þegar Þorsteinn Máni og María í
Frumkvöðlasetri Borgarness tóku
að sér að gera mót af grindinni og
steypa upp stólgrind úr trefjaplasti.
Ekki voru þau ókunnug fram-
leiðslu á stólum eftir eldri hönnun,
en þau framleiða einmitt burðar-
virkið í Sindrastólana frægu, gæru-
klæddu stólana sem rækilega hafa
slegið í gegn í seinni tíð endur-
gerðir eins og upphaflegu stólarn-
ir voru um miðja síðustu öld. Til
að hægt væri að endurskapa hinn
43 ára Hóf var frumeintakið tekið
í sundur og steypt eftir því í mörg-
um hlutum mót að nýjum stól.
Þetta verk var seinlegt og tafsamt,
ekki síst sökum mjög flókinnar lög-
unar, en frumgerðina gerði Nói að
stórum hluta úr blikki. Þorsteinn
Máni sagði í samtali við blaða-
mann að líklega gæti hann fram-
leitt eina skel í Hófinn á sama tíma
og hann gerði 80 skeljar í Sindra-
stóla. Með því að færa efnið yfir í
grimmsterkt trefjaplast tókst Þor-
steini Mána og Maríu endursmíð-
in einstaklega vel.
Hver stóll númeraður
og örmerktur
Eftir að Þorsteinn Máni og María
höfðu smíðað fyrstu stólgrindina
tók Sigurjón Kristensen í Bólstur-
smiðjunni hana til handargagns og
bólstraði grind og klæddi. Útkom-
an er í raun einstakt listaverk. Hver
stóll er númeraður og merktur með
örmerki, líkt og hross eru merkt til
að sanna uppruna þeirra, svo hægt
er með örmerkjalesara að lesa fram-
leiðslunúmer, dagsetningu og sögu
hvers stóls. Nú er búið að framleiða
grindur í alls fjóra stóla og beðið
viðbragða markaðarins. Ekki þyrfti
að koma á óvart að stóll þessi eigi
eftir að slá í gegn, jafnvel utan lands-
steinanna. Frumeintakið af Hófnum
er til sýnis í Bólstursmiðjunni þar
sem tekið er á móti pöntunum. Geta
kaupendur valið sér áklæði á stólinn
og ræðst verðið að hluta af því hvort
valið er leður eða annað efni utan á
þá. Leðurklæddi stóllinn kostar um
800 þúsund krónur. Þá má geta þess
að frumgerð nýja stólsins verður
sýnd opinberlega á Hönnunarmars
í næsta mánuði.
Innblásinn af íslenska
hestinum
Jóhann Ingimarsson, eða Nói eins og
hann var jafnan kallaður, var fæddur
árið 1926 og ólst upp á Þórshöfn á
Langanesi. Hann kom til Akureyrar
sem ungur maður og hóf nám í hús-
gagnasmíði og stundaði síðan hönn-
unarnám í Kaupmannahöfn. Nói
kom heim til Íslands aftur árið 1952
og stofnaði húsgagnaverksmiðjuna
Valbjörk hf. á Akureyri ásamt fleir-
um, aðeins 26 ára að aldri og rak
hana um 18 ára skeið, lengst af í Val-
bjarkarhúsinu við Glerárgötu 28 á
Akureyri. Listrænt innsæi Nóa fékk
að njóta sín við hönnun og smíði
húsgagna og var hann án vafa með-
al helstu frumkvöðla íslensks hús-
gagnaiðnaðar. Þetta má glögglega
sjá þegar flett er í auglýsingabækl-
ingi, sem Valbjörk gaf út og dreifði
um land allt, sennilega árið 1965. Í
þessum bæklingi eru myndir og lýs-
ingar á húsgögnum sem Nói hann-
aði flest. Mörg þeirra voru keypt
inn á fjölmörg heimili og stofnan-
ir vítt og breitt um landið og sum
húsgögnin má jafnvel enn sjá prýða
gamalgróin heimili.
Húsgögn úr smiðju Nóa voru
annáluð fyrir stílfegurð og traust-
leika enda var Nói fenginn til að
hanna og framleiða húsgögn og inn-
réttingar fyrir sjúkrahús, skóla, veit-
ingahús, gistihús og félagsheim-
ili. Nói og samstarfsfólk hans í Val-
björk sáu einnig um að innrétta fjöl-
mörg fyrirtæki annars staðar á land-
inu og má í því sambandi m.a. nefna
tvö af stærstu hótelunum í Reykja-
vík á þeim árum, Hótel Loftleiðir
og Hótel Esju, og skemmtistaðina
Röðul og Þórscafé, svo dæmi séu
nefnd. Eftir að húsgagnaverksmiðj-
an Valbjörk hætti árið 1970 stofn-
aði Nói húsgagnaverslun með sama
nafni sem hann rak um langt árabil
og síðar aðra sem bar nafnið Örkin
hans Nóa.
Innan tíðar verður opnuð ný
heimasíða þar sem lesa má allt um
stólinn. Slóðin er: www.hofurinn.is.
mm/ Ljósm. Friðþjófur Helgason.
Fyrstu eintök af Hófnum líta dagsins ljós
Frumeintak endurgerðar á Hófnum komið úr bólstrun og klæðningu, fagurlega
klætt rauðleitu leðri.
Sigurjón Kristensen í Bólstursmiðjunni er hér að sníða til áklæði á Hófinn.
María og Þorsteinn Máni í Frumkvöðlasmiðjunni halda hér á skeifunum, sjálfum
undirstöðunum undir stólinn og fótskemilinn.
Grindin og burðarvirkið í stólinn er unnið úr trefjaplasti og er stóllinn afar sterkur
og því talinn endingargóður.