Litli Bergþór - jul 2018, Qupperneq 45

Litli Bergþór - jul 2018, Qupperneq 45
Litli-Bergþór 45 Fjórðu lýsinguna af slysinu má lesa í bók Jóns Helgasonar ritstjóra, Orð skulu standa. Bókin er ævisaga fyrrnefnds Páls Jónssonar vegaverkstjóra sem var mjög sérstæður persónuleiki. Frásögn Jóns er ekki eins trúverðug og þeirra Hannesar, Ólafs og Baldvins því bæði er lengra er um liðið og hann getur ekki nákvæmra heimilda þegar hann lýsir slysinu. Hann styðst þó við skrif Páls auk annarra frásagna s.s. sr. Magnúsar Helgasonar auk ritaðra og munnlegra heimilda Skúla Helgasonar frá Svínavatni. Einnig ber að athuga að Jón Guðmundsson á Fjalli studdist við bók nafna síns í sinni grein sem gerir á stundum erfitt að greina hvaðan hvor frásögnin kemur. En snúum okkur að frásögn ritstjórans: „Þeir höfðu farið yfir ána fyrir ofan ferjustreng- inn í hinum fyrri ferðum sínum um daginn, og svo gerðu þeir einnig nú. Reru þeir Runólfur og Dagbjartur á það borðið, sem við straumi horfði, en Bjarni og Guðmundur á hitt, og varð linari hjá þeim róðurinn, enda Bjarni kominn á efri ár og farinn að lýjast. Ekki voru þeir nema skammt komnir út á ána, er straumurinn hrakti þá á strenginn. Guðmundur Ófeigsson sá, hvað verða vildi, brá við hart, þreif til strengsins og fékk sveiflað honum yfir sig og Bjarna. En um leið lenti hann á hinum mönnunum tveimur, og hrutu þeir útbyrðis, en báturinn færðist nær á kaf. Rak hann undan straumi, fullur af vatni, með þá Guðmund og Bjarna, sem misst höfðu árarnar, unz hann bar svo nærri landi, að þeim tókst að svamla á þurrt, og þó við illan leik. Runólfur og Dagbjartur náðu báðir taki á strengnum. En nokkuð slaknaði á honum, þegar vatnsþunginn mæddi á mönnunum, sem á honum héngu, [svo] og gengu þá straumköstin yfir Runólf, er fjær var landi, svo að honum skaut aðeins endrum og sinnum upp úr vatninu. Þannig hékk hann alllengi og komst hvorki fram né aftur. Að lokum missti hann takið og hvarf í móðuna. Dagbjarti tókst aftur á móti að krafla sig nær landi á strengnum, unz þeir, sem að ferjustaðnum voru komnir, gátu vaðið á móti honum, seilzt til hans og dregið hann upp úr, mjög þjakaðan.“ Það sem athyglisverðast er við þessa lýsingu er að Jón ályktar að aflleysi Bjarna sökum aldurs hans valdi slysinu því hann hefur ekki undan í róðrinum á móti Runólfi syni sínum og Dagbjarti. Sr. Ólafur nefnir reyndar að róðurinn hafi verið linari hjá ræðurunum er nær voru dragferjustrengnum en fer þó ekki nánar út í þá sálma og Hannes segir einfaldlega að straumurinn hafi kastað bátnum á strenginn. Þótt þeir Guðmundur og Bjarni hafi sloppið við að fá strenginn á sig og falla útbyrðis, ber Hannesi, Ólafi og Baldvini saman um að þeir hafi engu að síður verið í bráðri lífshættu og hvorugur þeirra var syndur og vissulega hefði ferjunni líka getað hvolft. Bát þeirra rak niður eftir ánni, og var hann barmafullur af vatni, og einungis með aðra árina. Í honum var austurstrog svo þeir gátu ausið hann eitthvað. Þeim tókst síðan að ná annari ár sem flaut niður ána og komust þeir þannig til lands niður undir Skálholti. Frásögn Jón ritstjóra er ónákvæmari, segir bátsverja hafa verið áralausa og loks getað svamlað í land við illan leik. Hér virðist frásögn þingmannanna vera sannferðugri, sérstaklega þar sem hún er nákvæmari. Bátskænan sem hrundið var á flot og Hannes minnist á vekur upp spurningar. Eðlilegt er að slíkur smábátur hafi verið þarna við ána. Væntanlega hafa bændurnir notað hann til að gæta að netalögnum eða ferðast sjálfir yfir ána án þess að nýta sér ferjuna sem var stærri og þyngri í vöfum og því hafa bæði bændurnir á Iðu og í Laugarási haft yfir slíkum bátum að ráða. Spurningin er hins vegar sú hver eða hverjir mönnuðu bátinn. Af orðum Hannesar og sr. Ólafs má ráða að hvorugur þeirra var í bátnum. Baldvin virðist heldur ekki hafa verið í kænunni því eflaust hefði hann minnst á það en slíkt er þó ekki útilokað. Fjórði maðurinn sem nefndur hefur verið að hafi verið við ferjustaðinn, hugsanlega í för með Austurhlíðarlestinni, er líklegastur til að hafa róið út ferjumönnum til bjargar. Einnig má vera að fleira heimafólk frá bæði Iðu og Laugarási hafi verið á staðnum auk fleiri lestarmanna þó þess sé ekki getið sérstaklega. Þá er þeirri spurningu líka ósvarað hvort einn eða tveir menn hafi verið í bátskænunni og af hvorum bakkanum hún hafi komið þó líklega hafi hún verið Laugarásmegin. Líkfundurinn Lík Runólfs fannst ekki strax en er leið á haustið fannst það rekið við bæinn Hest í Grímsnesi. Eyjólfur Ólafsson (1846-1933) bóndi á Hesti hafði rekist á það og kom hann lafmóður heim að Kiðjabergi eftir mikla göngu eða hlaup og kom varla upp orði en stamaði í sífellu upp orðunum: „Eg hefi fundið, eg hefi fundið“. Greip loks einn mannanna fram í fyrir honum og spurði: „Hvað hefur þú fundið, maður?“ Datt þá stamið úr Eyjólfi og hann gat stunið upp úr sér: „Eg hefi fundið dauðan mann.“ Í ljós kom að Eyjólfur hafði gengið fram á rekið lík nokkuð fyrir austan bæinn Hest, og um það bil miðja vegu frá Hesti að Skjólhólum, sem eru í Hestfjalli gegnt fyrirhleðslunni á Brúnastaðaflötum. Fóru mennirnir þegar með Eyjólfi og þekktu þá lík Runólfs bónda á Iðu.

x

Litli Bergþór

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.