Árbók Nemendasambands Samvinnuskólans - 01.06.1982, Side 19
Síðan stend ég í ógoldinni þakkarskuld við Halldór Sig-
fússon.
Fram að þessum tíma hafði ég allt sem ég hafði látið
frá mér fara borið keim af rómantísku þunglyndi, líkt og
allar áhyggjur veraldarinnar hvíldu á mínum veiku herðum.
En eftir að ég hafði séð Halldór róandi fram í gráðið,
veltandi vöngum og strjúkandi hökuna, hefir mér oft lánast
að sjá broslegar hliðar á ýmsu því' er aðrir mér vitrari
höfðu skýrt og skilgreint af slíkra alvöru, að því var líkast
sem verið væri að leiða þá á höggstokkinn.
Þessi náðargáfa, sem ég hafði öðlast fyrir tilstilli Hall-
dórs, sá svo dagsins ljós í næsta blaði Loka.
Þar birtist greinin um brunn frumleikans. Ekki man ég
nú lengur efni hennar. En niðurstaðan var sú, að Halldór
hefði haft á röngu að standa, þegar hann staðhæfði, að
brunnur frumleikans væri þorrinn. Hann hefði meira að
segja afsannað þessa kenningu sína. Hann hefði lyft
hlemmnum af brunninum og séð glytta í svolitlar dreggjar
í botninum. Þessar dreggjar hefði hann drukkið og árang-
urinn hefði orðið sú frumlegasta fjarstæða sem sett hefði
verið saman lýðnum til skemmtunar.
Ekki urðu þessar orðahnippingar til þess að skyggja á
vináttu okkar Halldórs. Við höfum meira að segja haft
samband hvor við annan, ég vona báðum til ánægju, allt
fram á síðustu ár. Ef Guð lofar okkur að lifa svolítið leng-
ur, vona ég að fundum okkar eigi enn eftir að bera saman.
Ef ekki hér þá hinu megin.
Annað happ henti mig, engu minna en það, sem að fram-
an er greint, þennan vetur.
Ég losnaði við þá grillu, sem ég hafði gengið með í koll-
inum, allt frá því að ég var um fermingu, að ég gæti orðið
ljóðskáld.
Það var Jónas frá Hriflu, sem losaði mig við þennan
kvilla og það á svo nærfæmislegan og sársaukalausan hátt,
að ég fann eiginlega ekkert til.
Það var eitt vor fyrir sextiu árum, að ég var að velta
steinum úr hestatroðningunum, sem lágu niður Stikuháls
15