Árbók Nemendasambands Samvinnuskólans - 01.06.1982, Page 21
elskulegri en áður. Það hefir víst lyfst svolítið á mér brúnin
við þessa viðurkenningu.
Svo bætti hann við og er enn-þá elskulegri í andardrætt-
inum en fyrr, jafnvel ástúðlegur:
Þú ættir ekki að birta mikið eftir þig, meðan þú ert
ungur, því menn brenna vanalega fyrstu Ijóðunum sínum.
Þrátt fyrir allan minn aulahátt og sveitamennsku Skildi
ég hvað maðurinn var að fara og hef ætíð verið honum
þakklátur fyrir að hafa leitt mig út af þessari villugötu.
Ég hefi stundum hugsað um það síðar á ævinni, að eigin-
lega hefði ég getað lært meira i Samvinnuskólanum en
raun varð á.
Ég var latur að lesa og las ýmislegt annað en námsbæk-
urnar. Alþýðubókasafnið var alveg á næstu grösum við
bústað minn og sótti ég þangað oft bækur og þá einkurn
nítjándu aldar bókmenntir Norðurlanda. Var ég þeim þó
nokkuð kunnur áður. Ég hafði átt greiðan aðgang að þeim
heima, meðan Sýslubókasafn Strandamanna var geymt í
Bæ, en þangað var ekki nema fimmtán mínútna gangur.
Reyndar kom ég aldrei í Samvinnuskólann í þeim til-
gangi að afla mér starfsréttinda eins og það er kallað nú
á dögum, heldur til þess að búa mig undir það, að verða
skáld. Svona gat maður verið vitlaus. En það fór nú eins
og það fór.
En þegar ég fór að kynnast fólkinu í skólanum, þá komst
ég að raun um, að flestir voru komnir þangað þeirra er-
inda að afla sér starfsréttinda. Það var enda raunin í þann
tíð, að gott próf úr Samvinnuskólanum jafngilti í raun
því sem háskólapróf gildir nú.
Ég held, að Jónas frá Hriflu hafi getið nærri hinu rétta,
þegar hann sagði við mig löngu síðar, að ég hefði náð því
besta úr skólanum. Hann sá, að ég gat ekki orðið skáld og
hann sá einnig að ég passaði ekki í kerfið.
Ekki þarf ég að sakast við mína ágætu kennara, þótt
þeim tækist ekki að troða í mig svo mikilli þekkingu, að
yrði tekin gild sem aðgöngumiði að kerfinu.
2
17