Morgunblaðið - Sunnudagur - 08.09.2019, Blaðsíða 15

Morgunblaðið - Sunnudagur - 08.09.2019, Blaðsíða 15
8.9. 2019 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 15 hann tilboð um hlutverk og segist hann oft hafa hafnað þeim. „Mjög oft ákveða umboðsmennirnir það fyr- ir mann því þeir vita hvað maður vill. Stundum er þetta eitthvert drasl. Maður er aldrei betri en bíómyndin sem maður leikur í. Ef maður leikur í lélegri bíómynd er maður bara lélegur. Ég hef alveg leikið í fullt af lélegum bíómynd- um,“ segir hann og hlær. „Maður er alltaf að taka áhættu, í hvert skipti sem maður segir já við einhverju hlut- verki.“ Það var ekki erfitt að segja já þegar Ingvar var beðinn um að leika í stórmyndinni Fantas- tic Beasts 2 en í henni eru ekki minni stjörnur en Johnny Depp og Eddie Redmayne. „Ég er búinn að þekkja Eddie frá því löngu áður en hann varð frægur. Ég kynntist honum í Bret- landi en hann var mikill aðdáandi Vesturports og var mikið í kringum okkur þegar við vorum að leika í London. Ég leik ekki stórt hlutverk í myndinni; það var reyndar pínulítið á prenti en stækkaði aðeins. Ég er að vona að ég verði í næstu mynd, þeir hættu nefnilega við að drepa mig,“ segir Ingvar en tökur á þriðju myndinni eru ekki hafnar. „J.K. Rowling og hennar teymi eru ennþá að skrifa og hugsa sig um,“ segir Ingvar og segir þetta hafa verið afar skemmtilegt verkefni. Hvernig er Johnny Depp? „Mjög fínn.“ Eruð þið vinir? „Nei. Ég er ekki með númerið hjá honum,“ segir hann og hlær. „Við hittumst og áttum að gera eina senu saman sem var mjög náin og traustið mynd- aðist strax. Hann var búinn að heyra um mig frá leikstjóranum, að ég væri frábær gaur frá Íslandi, þannig að við mynduðum strax þetta bræðralag.“ Dreymir þig um heimsfrægð? „Nei, alls ekki. Ég vil að mín verði minnst fyrir góð störf. Það er allt svo forgengilegt hvort sem er, við lifum þessu lífi og ef við verð- um fræg þá fennir yfir það að lokum.“ Skáldaði fortíð Ásgeirs Hvítur, hvítur dagur var sýnd í Cannes nýlega og var Ingvar valinn besti leikarinn á Critics’ Week, einni af hliðardagskrám Cannes- kvikmyndahátíðarinnar. „Það kom mér kannski ekki á óvart að ég ynni verðlaun fyrir myndina því ég er svo mikið í henni og hún er góð. Það er enginn vafi á því; það er vandað til verks og hún er líka djörf. Þetta er fersk list og það vill svo til að ég er þarna í aðalhlutverki og því ekkert óeðlilegt að ég fái verðlaun. En þetta kom mér að einu leyti á óvart því þessi verðlaun eru yfirleitt veitt ungum nýjum leik- urum en formaður dómnefndar sagði að þau hefðu ekki getað litið fram hjá þessari mynd. Svo var hann svo sætur að segja við mig: „það getur verið að þú sért of gamall fyrir Ísland en ekki fyrir heiminn“,“ segir Ingvar og hlær. Blaðamaður fullyrðir að hann sé ekkert of gamall fyrir Íslendinga; hann hafi skapað eftirminnilegar persónur sem allir elska eins og Ásgeir í Ófærð sem því miður lét lífið í síð- ustu seríu og skildi þjóðina eftir í sjokki. Hvernig var að leika Ásgeir? „Það var svolítið skemmtilegt því hann er dulur karakter af því að hann er svo mikið á bak við skrifborðið að þú færð ekki mikið að kynnast honum. Hver hann er í rauninni. Fólk fær að kynnast persónulega lífi Andra og Hin- rikku en þetta þriðja hjól er alltaf á bak við skrifborð á löggustöðinni. Þá þurfti ég sjálfur að skálda upp fortíðina; hver væri hans bak- grunnur, hans fjölskyldumynstur. Ég þarf ekkert að tala um það heldur bara að vita það.“ Þannig að þú bjóst til fortíð fyrir Ásgeir sem við hin fáum ekki að vita. „Já. Meira að segja handritshöfundurinn veit það ekki,“ segir hann sposkur. „Ég er oft spurður að því hvort hægt sé að gera eitthvað meira með þennan karakter og það er verið að ræða hugmyndina að kynnast þessum manni betur. Ég get ekkert sagt neitt meira,“ segir Ingvar dularfullur og bætir við: „Mér þykir vænt um það að fólk sakni hans. Það er svona með þetta líf, við deyjum öll og stundum áður en okkur finnst tíminn kominn og þannig var það með Ásgeir. Hann bara dó,“ segir hann og brosir. „En Ásgeir býr ennþá í mér og mér þætti það ekki leiðinlegt að takast aftur á við hann.“ Ekki bara um mann í krísu Við hverfum aftur til nútímans því kvikmyndin Hvítur, hvítur dagur er Ingvari efst í huga þessa dagana. Ingvar leikur sem fyrr segir að- alhlutverkið í þessari nýju íslensku kvikmynd eftir Hlyn Pálmason. Ingvar segir hann frábæran leikstjóra. „Ég er búinn að nota stór orð um hann og stend við þau. Hlynur er svo skapandi. Hann er að búa til myndlist, taka ljósmyndir og skrifa handrit meðfram leikstjórninni og ég skoðaði verk hans á sama tíma og ég var að byggja upp kar- akterinn sem ég var að fara að leika hjá hon- um. Það er frábært að fá svona menn sem leggja svona mikið til, svona sterkt og litríkt og ekkert kjaftæði,“ segir Ingvar. Í myndinni leikur hann Ingimund, mann sem misst hefur konuna sína og er myndin um ást, hefnd og þráhyggju. Ingvar segir hlut- verkið hafa verið í senn erfitt og ánægjulegt. „Það var svo gaman að finna það eftir tök- urnar að maður var að gera eitthvað virkilega vel. Þetta er eins og að byggja hús sem aldrei hefur verið byggt áður; búa til eitthvað nýtt. Þér finnst þú vera að setja merkilegan stein í vörðuna. Ég er búinn að hlakka svo til að Ís- lendingar sjái myndina. Við sýndum hana á Hornafirði og þá byrjaði maginn að ólga en þegar hún var sýnd erlendis var ég alveg slak- ur. Það skiptir mann miklu meira máli að sýna þessa mynd hér heldur en úti í heimi,“ segir hann og segir frá myndinni sem er dramatísk en fyndin á köflum. „Það má segja að myndin hafi hæga opnun og svo smátt og smátt gerist það að hún tekur fólk. Það er allt mögulegt í þessari mynd og hún fær fólk til að hugsa. Hún er um mann sem er með þráhyggju fyrir ákveðnum hlutum og fer í sjálfspíningarferð með sig. Þetta er líka mynd um fyrirgefningu,“ segir hann. Er þetta um mann í krísu sem er að vinna í sjálfum sér? „Já, en það hljómar samt svo klisjukennt og þessi mynd er ekki klisja. Hún er ekki um mann sem er í krísu þó að hún sé um mann sem er í krísu. Hún er um tvenns konar ást; skilyrðislausa ást milli barns og afa og rosa- lega tilfinningaþrungna ást milli manns og konu sem er dáin,“ segir hann og nefnir að sumir tökudagar hafi tekið á. „Þetta voru erfiðir og kaldir dagar og Ída Mekkín sem leikur afastelpuna mína þurfti að setja sig í alls konar aðstæður sem hún hefur ekki sett sig í áður. Rosalega stór þáttur í myndinni er samband mitt og stelpunnar og það samband sem myndaðist á milli okkar var sent af himnum ofan og skiptir höfuðmáli fyrir minn karakter.“ Hefði geta orðið prestur Kaffið er löngu búið úr bollunum og Ingvar orðinn allt of seinn á næsta fund en hann lætur það ekki trufla samtal okkar. Það er nóg að gerast hjá leikaranum. Næsta kvikmynda- verkefni bíður handan við hornið og tjáir hann blaðamanni að hann þurfi að fara út á land daginn eftir. „Ég er að fara í tökur á mynd sem heitir Dýrið, alla vega gengur hún undir því nafni núna. Þetta er mynd eftir Valdimar Jóhanns- son en þetta er fyrsta mynd hans í fullri lengd. Hann skrifaði handritið ásamt Sjón en í henni leika Noomi Rapace, Hilmir Snær og Björn Hlynur. Ég leik þarna lítið en mikilvægt hlut- verk,“ segir hann og býst hann við að hún verði frumsýnd á næsta ári. Ingvar þarf svo að leggja land undir fót með myndina Hvítur, hvítur dagur í farteskinu og kynna hana fyrir heimsbyggðinni. Eftir ára- mót stígur svo Ingvar á svið í verkinu Útsend- ingin í Þjóðleikhúsinu. Það er mikið annríki en Ingvar segist þó finna tíma til að slaka á. „Ég eyði miklum tíma með Eddu og börn- unum, þó að þau séu stálpuð. Ég fer í ræktina, æfi mig á harmonikkuna mína og fer út í garð að vinna garðverkin. Svo sinni ég foreldrum mínum og les fyrir þau nánast á hverjum degi. Ég fer líka mikið í leikhús, bíó og á tónleika.“ Hvað værir þú að gera í dag ef þú hefðir ekki verið lokkaður út á leiklistarbrautina? „Ég væri mögulega í tónlist því hún hefur alltaf fylgt mér, bæði söngur og hljóðfæra- leikur. Nú ef ekki það hefði ég farið í guðfræði. Mér finnst svo skemmtilegt við lífið hvað það er dularfullt og eitt af því dularfulla er þessi spurning um Guð eða eitthvað sem er handan skynfæranna okkar. Ég er samt sáttur við mitt hlutskipti sem leikari. En ég hefði getað orðið séra Ingvar.“ Ingvar segir sig ekki dreyma um heims- frægð, þrátt fyrir að hafa leikið í Holly- wood. Hann velur vel þau hlutverk sem hann kýs að leika og hafnar þeim slæmu. Morgunblaðið/Ásdís Í Ófærð 2 lék Ingvar hinn dula lögreglumann Ásgeir sem þjóðin nú saknar. Ingvar segir mögulegt að persónan Ásgeir fái nýtt líf í framtíðinni þótt ekkert sé enn ákveðið í þeim efnum.

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.