Morgunblaðið - 27.11.2019, Blaðsíða 28

Morgunblaðið - 27.11.2019, Blaðsíða 28
28 MENNING MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 27. NÓVEMBER 2019 Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is „Mig langaði í þessari mynd að gera Kjarval meira lifandi og fjalla um persónuna Jóhannes Kjarval frekar en verkin. Mig langaði að segja sögu hans hér, því hann tengdist fólkinu í sveitinni sterkum böndum,“ segir Ásgeir Hvítaskáld, leikstjóri nýrrar íslenskrar heimildarmyndar sem nefnist Kjarval og Dyrfjöllin og frumsýnd verður í Bíó Paradís ann- að kvöld kl. 20 og í Sláturhúsinu á Egilsstöðum á laugardag. Myndin, sem er rétt tæpar 50 mínútur, verð- ur í framhaldinu sýnd næstu vikuna í Bíó Paradís. „Hér á Austurlandi er úti í Hjalta- staðaþinghá hvammur sem kallaður er Kjarvalshvammur eftir Jóhannesi Kjarval listmálara,“ segir Ásgeir þegar hann er spurður um tilurð myndarinnar. „Kjarval var alinn upp á Borgarfirði eystri og fór oft þang- að. Sumarið 1948 var Jóhannes Kjarval á leið með leigubíl til Borg- arfjarðar eystri að heimsækja æsku- stöðvarnar sínar. Ferjan við Unaós kom ekki og þá sneri hann við og tjaldaði í fögrum hvammi stutt frá Ketilsstöðum í Hjaltastaðaþinghá,“ segir Ásgeir og bendir á að Kjarval hafi tekið slíku ástfóstri við þennan fagra hvamm að hann heimsótti hann á hverju sumri næstu 20 árin. Listamaðurinn krakkagóður „Það er gífurlega fallegt á þessum stað. Selfljótið silast eins og ormur út um allt, mikil fjallasýn og móar. Fyrstu tvö sumrin bjó hann í hvamminum í tjaldi, en fékk síðan leyfi til að smíða lítið sumarhús og bátaskýli sem stendur enn,“ segir Ásgeir og tekur fram að sér hafi þótt tilvalið að gera leikna heimildar- mynd um listmálarann. „Myndin samanstendur af leikn- um atriðum þar sem Jón Hjartarson bregður sér í hlutverk Kjarvals og viðtölum við fólk í sveitinni sem kynntist honum. Þeirra á meðal eru systurnar Ljósbrá og Sigurlaug Björnsdætur sem voru aðeins fimm og sjö ára þegar þær kynntust Kjar- val árið 1948. Hann var mjög krakkagóður maður og það virðist hafa skapast mjög náin tengsl milli hans og fólksins í sveitinni sem mig langaði að gera skil. Auk þess lang- aði mig að reyna að skilja ástríðu Kjarvals fyrir náttúrunni, en hann virtist tengjast náttúrunni á ein- hvern alveg einstakan hátt. Kjarval var þannig maður að hann málaði bæði að nóttu og degi og stoppaði þá hvorki til að borða né sofa. Það eru til sögur af honum þar sem hann málaði þrjú málverk um miðja nótt í roki og rigningu. Þetta umfjöllunar- efni leitaði sterkt á mig,“ segir Ásgeir og bendir á að ýmsar sögur heyrist af Kjarval í viðtölum mynd- arinnar auk þess sem sumar þeirra séu útfærðar sem leikin atriði. Aðspurður segir hann hafa legið beint við að fá Jón Hjartarson til að taka að sér hlutverk Kjarvals. „Enda hefur hann útlitið með sér í hlutverkið,“ segir Ásgeir kíminn og rifjar upp að Jón sé ekki óvanur því að bregða sér í hlutverk listamanna, en hann lék Þórberg Þórðarson í hinni rómuðu leiksýningu Ofvitanum sem frumsýnd var í Iðnó 1979. „Jón nær Kjarval einstaklega vel.“ Í öðrum helstu hlutverkum eru Árni Friðriksson, Máney Mjöll Sverrisdóttir, Ísey Steingrímsdóttir, Gyða Friðriksdóttir, Páll Júlíus Kristinsson og Júlíus Pálsson. „Allt eru þetta leikarar úr Leikfélagi Fljótsdalshéraðs þar sem ég er for- maður,“ segir Ásgeir og tekur fram að gott hafi verið að geta leitað til leikfélagsins um búninga og leik- muni. „Á Minjasafni Austurlands er Kjarvalsstofa sem geymir mikið safn af persónulegum munum lista- mannsins, sem barnabarn lista- mannsins kom til safnsins á sínum tíma,“ segir Ásgeir. Málaði aldrei eftir pöntun – en gerði þó eina undantekningu Að sögn Ásgeirs hefur hann á ferli sínum gert samtals ellefu myndir. „Flestar þeirra eru heimildar- myndir, eins og myndin um hrein- dýrin hér á Austurlandi. Auk þess hef ég gert eina leikna kvikmynd í fullri lengd,“ segir Ásgeir sem bjó lengi og starfaði um tíma í Dan- mörku. „Kjarvalsmyndin hefur verið hálft annað ár í vinnslu. Það er dýrt og tímafrekt ferli að gera mynd,“ segir Ásgeir og tekur fram að styrk- ur frá sveitarfélaginu fyrir austan hafi hjálpað honum að gera Kjarvalsmyndina að veruleika. „Sveitarstjórnarmenn hér höfðu áhuga á að koma Kjarvalshvamm- inum meira í sviðsljósið,“ segir Ásgeir og tekur fram að auðvelt sé að finna Kjarvalshvamminn, enda sé hann við þjóðveginn, Borgarfjarðar- veg, mitt á milli Egilsstaða og Borgarfjarðar eystri við Héraðsflóa. „Það fer ekkert á milli mála þegar maður keyrir framhjá honum. Þar eru tvö lítil hvít hús og skilti. Það kemur slatti af ferðafólki ár hvert að skoða staðinn,“ segir Ásgeir. Spurður um titil myndarinnar verður Ásgeir skyndilega mjög leyndardómsfullur. „Kjarval málaði Dyrfjöllin af ákveðnu tilefni, en ég vil ekki segja of mikið. Það var oft verið að biðja Kjarval að mála, en hann málaði ekki eftir pöntun. Hann gerði þó undantekningu í tilfelli Dyrfjallanna vegna atburða sem gerðust þarna í sveitinni,“ segir Ásgeir og tekur fram að fólk verði að koma og sjá myndina til að fá alla söguna. Náttföt Leikarinn góðkunni Jón Hjartarson bregður sér í hlutverk Jóhannesar Kjarvals í heimildarmyndinni. Hattasafn Leikstjórinn Ásgeir Hvítaskáld ásamt hluta af hattasafni list- málarans Jóhannesar Kjarvals sem geymt er á Minjasafni Austurlands. „Tengdist fólkinu sterkum böndum“  Kjarval og Dyrfjöllin nefnist ný heimildarmynd eftir Ásgeir Hvítaskáld sem frumsýnd verður í Bíó Paradís annað kvöld og á Egilsstöðum á laugardag  Langaði að gera Kjarval meira lifandi Til að minnast þess að þrjátíu ár eru liðin frá falli Berlínarmúrsins og til að hnykkja á mikilvægi evr- ópsks samstarfs þegar styttist í að Bretar yfirgefi Evrópusambandið, hafa nokkur stór evrópsk listasöfn undir forystu stofnana í Rússlandi, Þýskalandi og Frakklandi samein- ast um að setja saman flennistóra sýningu, sem ætlað er að vera „ein- stök“, á myndlistarverkum fjöl- margra kunnra samtímalistamanna víðs vegar að úr álfunni. Samkvæmt frétt The Art News- paper er sýningunni ætlað að sýna „einstaka sneið“ af evrópski mynd- list, nú þegar senn verða 75 ár liðin frá lokum síðari heimsstyrjald- arinnar. Sýnd verða um 200 verk eftir 81 listamann frá 35 löndum. Heiti sýningarinnar á ensku er Di- versity United og verður hún fyrst opnuð í Tretjakov-safninu í Moskvu í nóvember á næsta ári og ferðast þaðan til Bonn og Parísar. Meðal sýnenda eru Anselm Kiefer, Gerhard Richter, Ilya og Emilia Kabakov og Ólafur Elíasson, sem sagður er fulltrúi Danmerkur á sýningunni. Mikil sýning á evrópskri samtímalist Morgunblaðið/Ásdís Úrvalsverk Ólafur Elíasson verður fulltrúi danskra listamanna. 81 listamaður sýnir. Vínaróperan er eitt af þekktustu og virtustu óperuhúsunum. En í 150 ára sögu hússins hefur ópera eftir konu aldrei verið færð þar á svið. Það karlavígi er nú að falla því í næsta mánuði verður frumsýnd ný ópera eftir tónskáldið Olgu Neu- wirth. Um er að ræða úrvinnslu á víðkunnri skáldsögu Virginiu Woolf, Orlando, sem fjallar um kyn- usla. Í samtali við The Guardian kveðst Neuwirth, sem er 51 árs Ástrali, vilja hrista upp í þeirri „gamaldags, fallegu og dásamlegu stofnun“ sem Vínaróperan sé. Hún hafi hrifist af Orlando strax þegar hún las söguna, 15 ára gömul. Óperan er í 19 þáttum og í aðal- hlutverkinu er bandarískur kabar- ettlistamaður, Justin Vivian Bond, sem hefur skipt um kyn. Í öðrum hlutverkum verða hins vegar reyndir óperusöngvarar. Fyrsta ópera konu í Vínaróperunni Olga Neuwirth Góð heyrn glæðir samskipti ReSound LiNX Quattro eru framúrskarandi heyrnartæki Hlíðasmára 19 • 201 Kópavogur • Sími 534 9600 • heyrn.is Erum flutt í Hlíðasmára 19 Fagleg þjónusta hjá löggiltum heyrnarfræðingi Með þeim færðu notið minnstu smáatriða hljóðs sem berst þér til eyrna. Í þeim er nýr örgjörvi með 100% meiri hraða, tvöfalt stærra minni og eru sérlega sparneytin. Tækin eru heyrnartól fyrir þráðlaust streymi úr síma og öðrum tækjum. Hægt að stjórna allri virkni með appi eða með takka á tækjum. Eru með rafhlöður, sem hlaðast þráðlaust á einfaldan hátt, eða með einnota rafhlöður.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.