Morgunblaðið - Sunnudagur - 17.11.2019, Blaðsíða 13
17.11. 2019 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 13
áberandi í myndinni; jafnvel svo mjög að Rún-
ar fékk athugasemd þar að lútandi frá einum
samstarfsmanna sinna. „Er þetta ekki aðeins
of mikið?“ spurði viðkomandi. Við því átti Rún-
ar svar sem sneri samstarfsmanninum á
punktinum: „Líttu bara í kringum þig!“
Sjálfur er hann ekki á samfélagsmiðlum en
finnur þó fyrir nærveru þeirra – eins og við öll.
„Það er útilokað að gera kvikmynd um okkar
tíma án þess að nútímasamskiptatækni komi
við sögu,“ útskýrir hann.
– Eru okkar tímar áhugaverðir?
„Segir ekki kínverskt spakmæli: Megir þú
lifa á áhugaverðum tímum? Eru annars ekki
allir tímar áhugaverðir þegar maður lítur í
kringum sig? Íslenskt samfélag hefur breyst
mikið frá því við vorum strákar og ef við lítum
aðeins lengra aftur, til æsku foreldra okkar,
sjáum við hversu rosalegar breytingar hafa átt
sér stað á þessu samfélagi. Stéttaskipting hef-
ur alltaf verið til staðar en verður meira og
meira áþreifanleg og enda þótt Íslendingum
hafi fjölgað hratt er smæðin ennþá lykilbreyta
í samskiptum okkar. En eins og ég segi þá hef
ég sjálfur að leiðarljósi að kafa í hluti sem ég
þekki og tengi við.“
Með nótubók í vasanum
– Hvernig verða allar þessar sögur til?
„Ég geng alltaf með nótubók í vasanum og
hripa niður hjá mér þegar ég sé eða heyri eitt-
hvað áhugavert. Sumt nýtist mér við mína
vinnu, annað ekki. Annars er kvikmyndagerð
eins og fjöruferð; maður tínir skeljar og steina,
finnur gamlar kókflöskur og hvaðeina. Þegar
maður kemur svo heim, tæmir vasana og fer
að færa hlutina til þá raðast brotin gjarnan
saman eins og mósaíkmynd.“
Fyrri verkum Rúnars hefur verið fádæma
vel tekið, fyrst stuttmyndunum og síðan
myndum í fullri lengd. Bergmál er þriðja kvik-
mynd hans í fullri lengd á eftir Eldfjalli og
Þröstum sem báðum vegnaði vel á erlendri
grundu. Spurður hvort hann hafi það í huga,
þegar hann býr til bíó, að myndirnar þurfi að
hafa breiða skírskotun svarar Rúnar:
„Nei, ég velti því ekki fyrir mér. Ég er í
þeim forréttindahópi að geta gert það sem mig
langar til að gera en á sama tíma er mér ljóst
að þegar ég fer af stað er mjög mikilvægt að
mér liggi eitthvað á hjarta. Ég er sjálfhverfur
kvikmyndagerðarmaður í þeim skilningi að ég
velti aldrei fyrir mér fyrir hverja verk mín eru
en ég reyni á hinn bóginn alltaf að nálgast þau
af virðingu. Beri maður virðingu fyrir sjálfum
sér nær maður alltaf að skírskota til einhverra
annarra í leiðinni. Ég er oft spurður um það í
viðtölum hver sé lykillinn að velgengni og
svara því alltaf á þennan veg: Ef maður er góð-
ur í einhverju þá er það að vera maður sjálfur.
Misfarist eitthvað þá fyrirgefur áhorfandinn
manni það ef hann finnur að hreint hjarta ligg-
ur að baki.“
Hann þagnar stutta stund en segir svo kím-
inn á svip: „Ef til væri einhver formúla fyrir
því hvernig búa á til bíómyndir þá væri Holly-
wood löngu hætt að tapa peningum á stór-
myndum.“
Engir þekktir leikarar
Ofboðslegur fjöldi kemur fram í Bergmáli, 330
manns til að gæta nákvæmni, og þessi áhorf-
andi viðurkennir að hann bar ekki kennsl á
nokkurn mann; fyrir utan forsætisráðherra í
sjónvarpinu og formann Eflingar í útvarpinu.
Hvaðan kemur allt þetta fólk?
„Upp á raunveruleikatilfinninguna vildum
við ekki nota þekkta leikara og allir koma fram
undir eigin nafni. Þetta fólk kemur úr ýmsum
áttum. Við eigum talsvert af menntuðum leik-
urum sem ekki vinna sem slíkir og það færði
ég mér í nyt. Þarna er líka fólk úr mínu nær-
umhverfi, vinir og fjölskylda. Fram að þessu
hef ég alltaf fundið mína leikara sjálfur en fann
fljótt að það var ekki vinnandi vegur að þessu
sinni. Þess vegna fékk ég Vigfús Þormar og
Thelmu hjá Doorway, sem sérhæfa sig í að
finna fólk fyrir bíómyndir, til liðs við mig og
þau gerðu kraftaverk.“
Myndin er tekin upp um land allt enda vildi
Rúnar endurspegla íslenskt samfélag í heild,
en ekki bara höfuðborgarsvæðið, jafnvel þótt
þorri þjóðarinnar búi þar um slóðir. Sjálfum
þykir honum mikið til landsbyggðarinnar
koma. „Ég bjó í átta ár í Danmörku og þegar
ég kom heim aftur sá ég fjöllin miklu betur.
Það getur verið hollt að færa sig um set, hvort
sem það er innanlands eða til útlanda, til að
brjóta upp sjóndeildarhringinn og verða ekki
samdauna umhverfi sínu. Ég held að við kunn-
um ekki alltaf að meta fegurðina í kringum
okkur.“
Tvískiptu vinnunni
Myndin var öll tekin upp fyrir síðustu jól.
Venjulegir tökudagar með tökuliði og tilheyr-
andi voru átján talsins en Rúnar hefur enga
tölu á öllum hinum dögunum, þar sem allt nið-
ur í þrjár manneskjur voru á ferð við að taka
upp efni. „Eins og maður þarf stundum á öllu
tiltæku liði, græjum, trukkum og slíku að
halda þá getur verið erfitt að bíða eftir full-
komnu ljósi og fá óvana leikara, til dæmis
börn, til að slaka á og svo framvegis við þær
aðstæður. Þess vegna tvískiptum við þessari
vinnu, með góðum árangri.“
– Sagt er að allir geti sungið, með réttri
þjálfun og æfingu. Á sama við um leiklist?
„Já, það geta allir leikið. Það þarf bara að
skapa aðstæður til að fólk geti verið það sjálft.
Auðvitað geta ekki allir unnið með allt litrófið,
ekkert frekar en allir geta sungið allan skal-
ann, og lærðir leikarar geta bætt við með
tækninni sem þeir búa yfir. En í grunninn geta
allir leikið.“
Það eru ekki bara myndir Rúnars; óvenju-
margar íslenskar myndir hafa notið hylli og
sópað til sín verðlaunum á erlendri grundu
undanfarin ár og misseri. Nú síðast Kona fer í
stríð eftir Benedikt Erlingsson og Hvítur,
hvítur dagur eftir Hlyn Pálmason. Svo rammt
kveður að þessu að talað er um „íslenska
bylgju“ í kvikmyndaheiminum á alþjóðavísu.
Við blasir að spyrja Rúnar hvort hann kunni
skýringu á þessu.
„Það eru örugglega fleiri en einn þáttur
sem liggja þar að baki. Einn þátturinn er
kannski sá að við erum ekki nægilega stórt
markaðssvæði til að búa til formúlu. Þess
vegna gera menn bara það sem þeir vilja og
það virðist mælast býsna vel fyrir. Sama á við
um íslenska tónlist sem virðist höfða til fólks
mjög víða. Önnur skýring gæti verið sú að ís-
lenskir kvikmyndagerðarmenn hafa farið í
ólíka skóla erlendis og fyrir vikið tekið mis-
munandi strauma og stefnur með sér heim
aftur. Í þriðja lagi höfum við það umfram til
dæmis rúmensku og grísku bylgjuna að að-
ferðafræðin er mismunandi og höfund-
areinkennin ákaflega skýr. Það fer ekkert á
milli mál hver hefur gert hvaða mynd; hvort
sem það er Ísold Uggadóttir, Guðmundur
Arnar Guðmundsson, Dagur Kári, Hlynur
Pálmason eða ég sjálfur, svo nokkrir leik-
stjórar séu nefndir. Hvert og eitt okkar er
með sitt fingrafar.“
Til að halda geðheilsunni
Eitt bindur þó alla þessa höfunda saman –
þörfin fyrir að segja sögu. „Það er ósköp eðli-
legt. Við Íslendingar lítum á okkur sem sögu-
þjóð og flest höfum við gaman af því að segja
sögur. Sumir fara síðan að þiggja laun fyrir
það. Þessi þjóð bjó mjög lengi við mikla ör-
birgð og einmitt þess vegna er hún svona skap-
andi. Á köldum vetrarkvöldum þurfti fólk að
hafa eitthvað fyrir stafni í baðstofunni til að
halda geðheilsunni og þess vegna sagði það
hvað öðru sögur. Og sú hefð hefur lifað með
þjóðinni fram á þennan dag.“
Eftir frumsýninguna hér á landi leggst Rún-
ar í ferðalög en í næsta mánuði verður Berg-
mál frumsýnt í Hollandi, Noregi, Frakklandi
og Sviss. Mun hann fylgja myndinni eftir og
vinna kynningarstarf í öllum þessum löndum.
„Næstu vikurnar verð ég með alla mína sokka
og nærbuxur í ferðatösku og þvælist á milli
staða,“ segir hann kíminn.
Spurður hvernig þetta kynningarstarf eigi
við hann svarar Rúnar: „Ekkert illa svo sem
en ég er þó byrjaður að skera svolítið niður
ferðir á hátíðir; get leyft mér að velja meira og
hafna. Annars getur verið fróðlegt að eiga
samtal um verk sín á ólíkum stöðum og fá við-
brögð. Það hlýtur að gagnast manni.“
Framhaldið óráðið
Nú styttist í að Rúnar sleppi hendinni af Berg-
máli en eftir heimsfrumsýningu og Íslands-
frumsýningu hefur hann fyrir venju að horfa
ekki á myndirnar sínar í einhver ár. „Ég hef
hvorki horft á Eldfjall né Þresti frá frumsýn-
ingu, kom að vísu einu sinni sem gestur í hús
þar sem sú síðarnefnda var í sjónvarpinu. Ég
held að það sé ágætt að fá góða fjarlægð á verk
sín en ég hlakka til að sjá Bergmál aftur eftir
kannski tuttugu ár af því að hún hverfist svo
mikið um tíðarandann.“
– En hvað tekur næst við hjá þér?
„Hef ekki hugmynd. Ég veit ekkert hvert
nenna mín liggur næst. Áður en ég byrjaði á
Bergmáli var ég að skrifa handrit sem voru
með rétta punkta á réttum stöðum en setti þau
til hliðar. Raunar hef ég alltaf bak við eyrað að
hver mynd gæti orðið mín síðasta – og legg því
allt undir.“
– Og verður Bergmál sú síðasta?
„Því get ég ekki svarað fyrir víst núna. Ég
hef ekki hugmynd um hvort ég er búinn að
segja mitt síðasta orð. Fólk verður yfirleitt
mjög undrandi þegar ég segi þetta en nýlega
hitti ég framleiðanda pólska leikstjórans Paw-
ełs Pawlikowskis og hún tjáði mér að hann
hefði þessa sömu afstöðu. Það gladdi mig, þá
er ég ekki lengur einn um þessa sérvisku.“
Hann brosir.
Annars er löng vegferð fram undan, ákveði
Rúnar að taka slaginn. Hann skrifar sjálfur
handritin að myndum sínum og með fjár-
mögnun, leikaravali, tökum og eftirvinnslu er
ekki óalgengt að ferlið taki þrjú til fjögur ár.
„Fyrir vikið verður maður að vera handviss
um að maður vilji ýta þessu fleyi úr vör til þess
að gaman sé að mæta í vinnuna.“
Svo mörg voru þau orð. Eggert ljósmyndari
er kominn inn úr kuldanum, eins og njósnarinn
forðum, og tekur við keflinu. Sjálfur þakka ég
fyrir mig og yfirgef „Anfield“ og svei mér ef ég
heyri ekki óminn af viðeigandi söng: „Walk on,
walk o-o-on …“
„Við dönsum ekki framar hérna!“
Jólaleikritin eru ómissandi í skólunum.
Ekki má gleyma gamla fólkinu á jólunum.
’Þessi þjóð bjó mjög lengi viðmikla örbirgð og einmitt þessvegna er hún svona skapandi. Áköldum vetrarkvöldum þurfti
fólk að hafa eitthvað fyrir stafni
í baðstofunni til að halda geð-
heilsunni og þess vegna sagði
það hvað öðru sögur.
Ljósmyndir/Sophia Olsson