Skessuhorn


Skessuhorn - 11.09.2019, Blaðsíða 19

Skessuhorn - 11.09.2019, Blaðsíða 19
MIÐVIKUDAGUR 11. SEPtEMBER 2019 19 Vísnahorn Það fer víst ekki hjá því að haustið nálgast okk- ur um einn dag í einu. Hvernig það fer höndum eða veðrum um okkur er kannske óljósara en allt fer það þó einhvern veginn. Pétur Stefánsson orti haustvísu á dög- unum og hafði við orð að láta hana duga þetta haustið hvað sem verður um efndirnar: Haustið gægist hingað inn, hrynja blóm og deyja. Svo er ekkert maður minn meir um það að segja. Þó úrkoma hafi verið með minnsta móti í sumar hér á Vesturlandi er ekki alveg sama uppi á teningnum á Norðausturlandi. Lang- nesingar hafa átt í erfiðleikum með heyöfl- un vegna úrkomu og vafalaust fleiri. Ágúst á Sauðanesi orti: Á oss rignir endalaust undir gráu skýi en það verður gleymt og grafið í haust á gangnafylliríi. Eitthvert sinn fór Blindrafélagið í hópferð um Borgarfjörð og var Flosi Ólafsson feng- inn til að vera hópnum til leiðsagnar. Sigfúsi Jónssyni þótti þetta athyglisvert: Maður fyndinn fer með hjörð, fagra mynd upp dregur, sýnir blindum Borgarfjörð bóndinn yndislegur. Sigurður Jónsson á Þaravöllum sem var ekki síður þekktur í uppsveitum undir nafninu „Siggi skytta“ var mikill unnandi heiðanna og gæti hafa saknað þeirra eftir að hann fluttist suður fyrir Akrafjallið. Allavega orti hann á efri árum: Þó hér skyggi útsýn á, oft og sárt til finni, mín ég fögur fagna að sjá fjöll, í eilífðinni. Sigurður var afkastamikil refaskytta á sinni tíð og kvað eitt sinn á heimleið af grenjum: Þó mér fyndist ferðin rýr fjalls í breiða, salnum, kem ég enn með átta dýr onaf Kjarardalnum. Þessa vísu kvað Sigurður við Guðrúnu á Fögruvöllum sem þá var búin að vera blind í mörg ár: Þó um stund hér sýnist svart og sorgarél aðdregin, þú mátt vita, að verður bjart á veginum hinum megin. Einhver miságætur maður sá ástæðu til að yrkja þessa um álíka miságætan búðarmann sem hann taldi að hefði gefið sér rangt til baka. Sá hinn umræddi búðarþjónn var þó al- mennt afar þægilegur og elskulegur í viðmóti öllu: Heilsar gestum hýr á brá, hlær við flestum glaður, einn hinn bezti á að sjá, og hinn versti maður. Þetta er nefnilega svo misjafnt hvaða hegð- un er álitin æskileg og hver ekki. Veiðisæll skipstjóri kom slunkfullur heim til frúarinnar og hlaut þar kaldar kveðjur og skammir fyrir drykkjuskapinn. Eins og bæði hann sjálfur og fylgdarmaður hans álitu hann þó skemmtileg- an á nákvæmlega því augnabliki en fylgdar- manninum varð að orði: Engin brjóta boðorð má. Bönn á ótal sviðum. Líka kvóti orðinn á innanfóta miðum. Nú fara að nálgast göngur og réttir með öllu sem þar tilheyrir. Eitt sinn bar svo við í leitum að smalamenn komust ekki af stað úr skála vegna þoku. Var þá lítið annað að gera en dunda við að éta nesti sitt. Maður bauð Bergþóri í Fljótstungu ástarpung og sagði um leið: „Punga sjóður sjatna fer,“ Bergþór lauk vísunni að bragði: „saman móður brýt ég pokann, leiðist þjóð að liggja hér, lítill gróði er bölvuð þokan.“ Markús Jónsson hét maður sem lengi var vinnumaður á bæjum í Hvítársíðu. Lengi á Þorvaldsstöðum en líklega síðast á Fróða- stöðum. Hann átti jarpan afbragðshest og hélt mikið uppá. Eitt sinn höfðu smalamenn sest niður til að snæða nesti sitt og Markús breitt undir sig regnkápu því blautt var á jörð en Jarp varð það á að leggja frá sér á kápuna og segir þá Bergþór: Býsna lítið batnaði búningur hjá Markúsi kúkur var í kápunni kom hann beint úr merinni. ,,Það er ekki meri. Það er hestur,“ kom þá samstundis frá Markúsi. Að minnsta kosti þrír hagyrðingar í Borg- arfirði ortu eftirmæli um Jarp, Bergþór Jóns- son, Jón Eyjólfsson og Halldór Helgason og koma hér tvær af vísum Halldórs: Fallin ertu á foldarskaut fákurinn góði Jarpur. Eftir stend ég einn á braut ekki ferðasnarpur. Okkar saman lengi lá leið á grýttum vegi barstu mig á baki þá - bilaði fótur eigi. Markús varð bráðkvaddur á milli bæja við lýðveldiskosningarnar 1944. Það þótti sérstakt við jarðarför hans að húsfreyjur úr sveitinni bundust samtökum að bera hann í kirkju og úr og voru víst ekki mörg dæmi slíks á þeim tíma. Hörður Björgvinsson hins vegar orti þessa limru um Fljótstungurétt og fleira henni tengt: Þegar húmlitir hausts eru réttir þá held ég í Fljótstunguréttir og lít á um stund er þar leika um grund þessir ljúffengu lambakjötsréttir. Svo réttir geti farið fram með eðlilegum hætti þurfa fjárleitir að eiga sér stað áður og er þá mikilsvert að hver maður standi sig sem best í sínu hlutverki. Eitt sinn þurfti fjallkóng- ur nokkur að setja ofaní við einn undirmanna sinna og vafalaust maklega en kóngsi hafði þá þurft að ástunda allnokkrar raddbeitingaræf- ingar um daginn og var orðinn rámur nokk- uð og raddrifinn. Sá armi þræll undirmaður hans sem fyrir ávítum varð svaraði gjörsam- lega blygðunarlaust: Stendur á röngu, reiðir hramm, rámur göngumaður, kemur öngu orði fram, illa sönghálsaður. Góðir smalahestar eru eitt af því mikilvæg- asta í leitum ásamt náttúrlega góðum smala- hundi og að ekki sé nú minnst á slatta af al- mennri skynsemi og góðu skapi. Nú orðið er það þó mikil tíska að allar tamningar og raun- ar mikill hluti af hestamennskunni fari fram undir reiðhallarþaki eða „in the fucking pa- lace“ eins og úttlendingarnir segja. Á fyrstu árum reiðhallanna orti Jói í Stapa: Reisur víða um fjöllin fríð fjörga lýða sinni. En geri hríð og garra tíð er gott að ríða inni. Með þökk fyrir lesturinn, Dagbjartur Dagbjartsson Hrísum, 320 Reykholt S 435 1189 og 849 2715 dd@simnet.is Er þar leika um grund - þessir ljúffengu lambakjötsréttir „Arkitektúr og náttúra - jákvæð áhrif hönnunar á náttúruna,“ er yf- irskrift opins fyrirlestrar sem flutt- ur verður við LbhÍ á Hvanneyri mánudagskvöldið 23. september nk. kl. 20:30 Hann er haldinn af tilefni heimsóknar gestakennarans tormod Amundsen. Fyrirlesturinn tekur um 40 mínútur og fer fram á ensku. Á eftir verða umræður um efnið. Þá mun Sigurjón Einarsson fuglaljósmyndari sýna myndir sem hann hefur tekið af fuglum á svæð- inu og ræða sína sýn. tormod kemur hingað til lands í gegnum Erasmus+ sem er styrkjaáætlun ESB fyrir mennta- æskulýðs- og íþróttamál 2014 – 2020. tormod stofnaði og rekur fyrstu og einu arkitektastofu heims, með sérþekkingu á fuglum og fuglaskoðun. Stofan notar hönnun sem verkfæri til að vernda og efla dýralíf og náttúru með áherslu á vistvæna ferðamennsku og náttúruverndarsvæði. Þá hefur tormod staðið fyrir fuglaskoðunarhátíð í Varanger, nyrst í Noregi. En henni er ætlað að vekja athygli á ríku fuglalífi svæðisins og hvernig það getur nýst samfélaginu. Biotope hefur unnið að verkefnum á Íslandi og er með röð verkefna í gangi á Norðausturlandi, þar sem þrjú náttúruskýli eru þegar tilbúin sem hluti af stærri uppbyggingaráætlun fyrir valda áfangastaði. Verndarsvæðið í Andakíl var friðlýst sem búsvæði blesgæsa árið 2002. Landsvæðið var stækkað árið 2011 og er nú 3.086 ha að stærð, nær yfir 14 jarðir í Andakíl. Svæðið er friðlýst sem búsvæði fugla og er einn af mikilvægustu áningarstöðum grænlenska blesgæsastofnsins á Íslandi. Árið 2013 var svæðið skráð á lista Ramsar-samningsins yfir alþjóðlega mikilvæg votlendissvæði. Fjölbreytt fuglalíf er sannarlega ein af perlum Hvanneyrar. Allir áhugasamir um uppbyggingu fuglaskoðunar sem möguleika á uppbygginu á vistvænni ferðamennsku eru hvattir til að koma. Að fyrirlestrinum standa umhverfisskipulagsbraut LbhÍ og alþjóðaskrifstofa LbhÍ. -fréttatilk. Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra er jafnan glaðbeittur og kampakátur stjórn- málamaður og tekur af ljúfmennsku í erindi sem að honum berast, þau eru ófá og af ýmsum toga. Sum eru alvarlegs eðlis, snerta einstak- linga með beinum og tilfinnanleg- um hætti. Bið og tafir á efndum hafa því afleiðingar, stundum óaft- urkræfar, stundum persónulegar og hörmulegar. Önnur eru stefnumót- andi og lýsandi fyrir áherslur, við- horf, gildismat og hugmyndafræði ráðherra og hafa áhrif á stóra hópa í þjóðfélaginu. Orðin tóm Það hefur ekkert skort á orðaflaum ráðherrans og yfirlýsingar um þörf á aðgerðum hér og hvar og að mark- mið hans séu skýr, jafnvel háleit og viljinn einnig. Hver skýrslan rekur aðra, samantektir um þörf og aðkall- andi málefni þar sem lausnir liggja þó oft giska ljósar fyrir. Orð eru bara ekki nóg. Almenningur fær iðu- lega á tilfinninguna að skipan starfs- hóps eða gerð skýrslu sé til þess eins að draga mál á langinn og koma sér hjá því að taka afstöðu, hefja aðgerð- ir. Með þessu vil ég þó ekki gera lít- ið úr vönduðum undirbúningi og faglegum vinnubrögðum í hverju máli. Þau atriði eiga alltaf við. Hins vegar þurfa orðum og yfirlýsingum, jafnvel kosningaloforðum, að fylgja raunverulegar aðgerðir, að verkin tali. Nú er hrópað á efndir. Tækifærin ekki notuð Á undanförnum misserum höfum við Íslendingar búið við einstaka efnahagslega velsæld. Við jafnað- armenn höfum leitast við að standa vaktina, skynjum nefnilega betur en margur að velferðin nær ekki til allra. Við höfum rætt um fátækt og misskiptingu í samfélaginu og raun- hæfar leiðir til úrbóta. Stórir hópar barna, öryrkja og aldraðra búa við ósæmandi kjör sem er hneyksli fyr- ir velferðarsamfélag. Félagsmálaráð- herra sem ber ábyrgð á málaflokkn- um telur að ríkur skilningur sé innan ríkisstjórnarinnar á aðstæðum þeirra hópa sem höllum fæti standa. Þetta er hrein skrumskæling, og fjárlaga- frumvarp fyrir komandi ár gefur eng- in fyrirheit um raunverulegar breyt- ingar. Það blasir við að núverandi ríkisstjórn hefur ekki alvöru áhuga á að koma til móts við þá efnaminnstu, þá sem búa við fátækt á Íslandi. Þetta á jafnt við um ungar barnafjölskyld- ur, fólk með skerta starfsorku og þá hina eldri. Þetta sýna áherslur ríkis- stjórnarinnar í verki, hún hefur feng- ið tækifærin og það þarf ekki vitn- anna við. Fátækastir aldraðra Ég nefni hér bara eitt dæmi sem ég hef áður fjallað um. Það er sú hneisa sem snýr að 3000 öldruðum einstak- lingum á Íslandi um þessar mund- ir. Þeim er gert að draga fram lífið á tryggingabótum sem eru undir við- urkenndum fátæktarmörkum. Ráð- herra kvaðst vilja gera betur og skip- aði starfshóp um málið i fyrra þótt býsna skýrt lægi fyrir hvert umfang vandans væri. Níu mánuðir eru liðnir frá því að skýrsla var lögð fram, ekkert bólar á viðbrögðum. Þessi skýrt afmarkaði og fátækasti hópur aldraðra lifir enn við niðurlægjandi kjör. Engu svarað Á vordögum lagði ég fram skrif- lega fyrirspurn til ráðherra á Al- þingi í fjórum liðum um þetta mál og átti raunar von á skjótum svör- um eða a.m.k. í samræmi við vinnu- reglur þingsins. Enn bólar ekkert á svörum og það er kannski ekki und- arlegt að á hugann leiti yfirlýsingar stjórnarflokkanna fyrir kosningar um áherslur í velferðar- og heilbrigðis- málum. Þar stendur nú ekki steinn yfir steini. Nú á miðju kjörtímabili má þeim sem höllustum fæti standa í samfélaginu vera ljóst hvert stefnir. Ríkisstjórn Framsóknarflokks, Sjálf- stæðisflokks og Vinstri grænna ætl- ar ekki að einhenda sér í breytingar á þeirra kjörum. Nýtt fjárlagafrum- varp, orðaflaumur, hástemmdar yfir- lýsingar og tölulegar sjónhverfingar breyta því miður engu þar um. Guðjón S. Brjánsson Höf. er alþingismaður Samfylking- arinnar í NV kjördæmi. Fyrirlestur um fuglaskoðunarskýli og stígagerð Tormod Amundsen. Pennagrein Ráðherra – engin teikn á lofti?

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.