Fréttablaðið - 05.03.2020, Blaðsíða 14

Fréttablaðið - 05.03.2020, Blaðsíða 14
Einhver stórkostlegasta náttúruperla á suð-vesturhorni landsins er svæðið í kringum Hagavatn, suðaustur af Langjökli, ekki langt frá Gullfossi. Þarna ágirnast orkufyrirtæki jökulvatn sem rennur úr hopandi Eystri-Hagafellsjökli og vilja byggja uppistöðulón, vegi, veituskurð og rafmagnslínur. Slík framkvæmd myndi rústa þessum einstöku víðernum sem skarta einhverri tilkomumestu móbergstindakeðju á Íslandi, Jarlhettum. Þarna er ekki mikill gróður, en fjölbreytt litaspjald Hettanna og eyðisandanna umhverfis þær bætir upp gróðurleysið líkt og hvítur jökullinn og snotur blágræn jökulvötn í Jarlhettudal. Umhverfi Hagavatns, og þá sérstaklega Jarlhetturnar tuttugu, er einstakt á heimsvísu og minnir óneitan- lega á Hringadróttinssögu. Margir Íslendingar hafa ekki áttað sig á þeim auðæfum sem fólgin eru í náttúru landsins og taka henni sem sjálfsögðum hlut. En þarna á máltækið glöggt er gests augað við því þarna hafa Hollywood-kvikmyndir verið teknar upp, til dæmis stórmyndin Oblivion með Tom Cruise. Hagavatn er um 5 ferkílómetrar, aðeins 60 m djúpt og er í tæplega 440 m hæð. Í botni þess er mikill aur og vatnið dökkgrátt af fíngerðum jökulleir. Nokkrum sinnum hefur hlaupið úr vatninu á sögulegum tíma og því fylgt flóð sunnar í Biskupstungum. Á tímabili voru uppi áform hjá Landgræðslu ríkisins um að stífla vatnið við útfallið og stækka vatnið þannig þrefalt. Með þessu átti að stöðva áfok frá vatnsbökkum sem talið var ógna gróðri á afréttum Biskupstungna. Sem betur fer voru þessi áform blásin af þegar ljóst var að vatnsyfirborðið með virkjun mundi sveiflast og áfokið aukast. Umhverfis Hagavatn bjóðast óteljandi gönguleiðir en skammt frá vatninu er skáli Ferðafélags Íslands með ágætu tjaldstæði. Gaman er að ganga að Nýjafossi sem leysti af eldra útfall Hagavatns, Leynifoss, eftir mikið jökulhlaup 1939. Einstakt er að fylgjast með jökul- vatninu göslast í gegnum þröngt útfallið en árið 2006 útbjó Ferðafélagið brú yfir það nokkru neðar. Enn skemmtilegri ganga liggur inn Jarlhettudal meðfram Jarlhettukvísl. Þarna sjást Jarlhetturnar í návígi en líka Eystri-Hagafellsjökull og á milli þeirra sandar með jök- ulsorfnu grjóti. Þarna verður að gæta sín á aurbleytu en annars er hækkun á þessari gönguleið óveruleg og hún flestum fær. Landslagið er dulúðugt og lætur engan ósnortinn, jafnvel þótt ekki njóti sólar. Vonandi sleppur Hagavatn við fallöxi virkjanaframkvæmda en vatnið er eins og höfuð sem á að vera áfast fallegum líkama Jarlhetta um aldur og ævi. Fegurð undir fallöxinni Horft yfir Haga- vatn af Stóru- Hettu. Í fjarska sést meðal ann- ars í Hlöðufell og Skjaldbreið. MYND / ÓMB Gengið á Eystri-Hagafellsjökul upp úr Jarlhettudal. Í fjarska sést í Stóru-Hettu. Horft í norðaustur eftir Jarlhettum, ekki langt frá Hagavatni. Umhverfið er dulúðugt og minnir á Hringadróttinssögu. Tómas Guðbjartsson hjartaskurð- læknir og náttúruunnandi og Ólafur Már Björnsson augnlæknir og ljósmyndari 5 . M A R S 2 0 2 0 F I M M T U D A G U R12 F R É T T I R ∙ F R É T T A B L A Ð I Ð

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.