Bændablaðið - 07.07.2016, Blaðsíða 37
37Bændablaðið | Fimmtudagur 7. júlí 2016
Minnislisti fjósbyggjandans
Þegar hugað er að fjósbyggingum,
hvort sem um er að ræða endur-
byggingu eða nýbyggingu, er í afar
mörg horn að líta og mjög mikil-
vægt að gera allt sem hægt er til
þess að koma í veg fyrir mistök við
framkvæmdina. Árin 2010–2011
var unnið rannsóknaverkefni við
Landbúnaðarháskólann sem kall-
aðist „Betri fjós“ en verkefni þetta
byggði á úttekt á um 30 nýlega
byggðum og breyttum fjósum.
Þetta verkefni leiddi m.a. í ljós að
þrátt fyrir að töluverð reynsla hafi
skapast hér á landi við hönnun,
byggingu eða breytingu fjósa, þá
reyndust öll fjós sem heimsótt
voru í því rannsóknaverkefni
innihalda einhverja galla. Flesta
gallana hefði mátt koma í veg fyrir
með meiri þekkingu á hönnun
og/eða frágangi við byggingu eða
breytingu fjósanna.
Fá fjós byggð árlega
Skýringuna á þeim mistökum sem
fundust við úttekt fjósanna í fram-
angreindu verkefni má vafalítið
heimfæra upp á smæð markaðarins
á Íslandi, en harla erfitt og raun-
ar ólíklegt er að hægt sé að fá jafn
góða þjónustu við hönnun fjósa
og leiðbeiningar við byggingu eða
breytingar fjósa hér á landi og kúa-
bændur erlendis geta fengið, enda
eru nýbyggingar eða breytingar á
fjósum hér á landi ekki taldar nema
í fáeinum tugum árlega.
Margt verið gert
Hér á landi hefur þó margt verið gert
undanfarna áratugi í þeim tilgangi að
miðla fræðslu og þekkingu á þessu
sviði. Þannig hafa t.d. verið haldin
fjósbyggingarnámskeið reglulega
undanfarin 15 ár, þar sem bændur
og hönnuðir hafa haft tækifæri til
þess að sækja sér nýja þekkingu og
læra af reynslu annarra. Tilgangur
námskeiðanna hefur fyrst og fremst
verið að miðla upplýsingum til verð-
andi framkvæmdaaðila um það sem
þarf að varast og að hverju þarf
að huga svo ekki verði til óþarfa
mistök. Námskeið þessi hafa alltaf
verið afar vel sótt, en á þeim hefur
einnig vaknað áhugi á því að bænd-
ur og hönnuðir geti fengið í hendur
„verkfæri“ sem geri þá betur færa
um að yfirfara teikningar og áætlanir
svo líkurnar á því að finna óþarfa
mistök aukist og þar með að auð-
velda bændunum að takast á við hið
mikla og kostnaðarsama verkefni
sem það er að byggja nýtt fjós eða
breyta fjósi. Skýrslan „Betri fjós“,
sem hægt er að hlaða niður af vef
Landbúnaðarháskólans (www.lbhi.
is), svarar þessari þörf að hluta til
en skýrslan er í raun nokkuð ítar-
leg handbók með ótal myndum sem
sýna ýmis atriði sem vert er að hafa
í huga.
Fara í fjósaskoðun!
Auk þess að sækja sér þekkingu með
því að sækja námskeið og lesa grein-
ar og skýrslur er alltaf einkar gagn-
legt við undirbúning framkvæmda að
skoða önnur fjós og framkvæmdir hjá
öðrum, til þess að ná utan um sem
flesta þætti hinnar nýju framkvæmd-
ar og í framhaldi af slíkri undirbún-
ingsvinnu að setja hugmyndir á blað
ásamt fjóshönnuði. Á þessu stigi
framkvæmda þarf að ákveða helstu
grunnþætti komandi framkvæmda.
Ef um nýbyggingu er að ræða má
nefna hér atriði eins og hvers konar
mjaltakerfi eigi að nota, hvernig
legusvæði kúnna eigi að vera, fóðr-
unaraðferðina og fóðrunartækn-
ina, fara yfir helstu flutningaleiðir
aðfanga, dýra og vinnuafls, hvernig
standa eigi að smitvörnum, hvernig
gólfgerð eigi að vera í fjósinu, hvar
og hvernig standi til að meðhöndla
mykjuna og hvernig loftræstingin
eigi að vera. Þegar framangreint er
valið er afar mikilvægt að skilja á
milli þess sem er „gott að vera með“
og þess sem er „nauðsynlegt að vera
með“. Allt of oft hækkar byggingar-
kostnaður mikið við það eitt að valin
er of dýr lausn miðað við eðli ver-
kefnisins eða þeirrar framkvæmdar
sem er fyrirhuguð.
Rýning teikningar
Í framhaldi ofangreindrar grunnvinnu
er svo gert uppkast eða skissa af fyr-
irhugaðri framkvæmd og svo síðar
teikning með drögum að framkvæmd-
inni. Þegar hún liggur svo fyrir er afar
mikilvægt að rýna hana vel, þ.e. fara
yfir teikninguna með helstu daglegu
og önnur fjósverk í huga. Ég hef oft
mælt með því að þegar þessu stigi er
náð í hönnunarferlinu að þá sé hrein-
lega gráupplagt að bjóða vinum og
nágrönnum í „teikningakaffi“ og fá
sem flesta til þess að skoða og spyrja
út í smáatriðin, sé þetta gert er mjög
oft hægt að koma í veg fyrir að ein-
hver smávægileg en hvimleið mistök
eigi sér stað.
Minnislistar góðir
Erlendis er oft farin sú leið við yfir-
ferð teikninga að notast við eins
konar minnislista eða „tékklista“
sem tekur til helstu þekktra mistaka
sem koma upp við hönnun, hvort
sem um nýbyggingu er að ræða eða
breytingu á fjósi. Slíkur listi verður
vissulega seint 100% tæmandi, en
með því að nota slíkan lista er oft
hægt að forða því að mistök verði
við hönnun eða frágang, sér í lagi
við hönnun á helstu vinnurýmum
svo sem mjaltaaðstöðu, mjólkurhúsi
og aðstöðurými en langalgengast er
að finna hönnunarmistök á þessum
rýmum.
Fyrsta útgáfa komin
Í liðinni viku kom út í fyrsta skipti
hér á landi áþekkur minnislisti og
þekkist erlendis en hann inniheldur
rúmlega 200 spurningar og tekur
til helstu rýma í fjósum s.s. mjalta-
aðstöðu (bæði hefðbundinnar og
mjaltaþjóna), aðstöðurýmis, fóðrunar-
aðstöðu, smákálfaaðstöðu, aðstöðu
fyrir geldneyti, hvíldar- og göngurými
kúa og tækjarýmis. Í minnislistann
hefur verið safnað saman spurningum
sem lúta að flestum þeim þáttum sem
hafa misfarist við hönnun fjósa hér á
landi undanfarin ár. Önnur grunnatriði
eru sjálfgefin og ekki tekin fyrir. Eins
og áður segir verða minnislistar seint
100% tæmandi, en með því að hafa
þá rafræna er nokkuð einfalt að bæta
við atriðum sem gott er að hafa með
og til þess að gera þennan lista betri
og betri er mikilvægt að fá ábendingar
um það sem í hann vantar og/eða má
eyða úr honum. Allar ábendingar ósk-
ast sendar til undirritaðs.
Þeim sem kunna að hafa áhuga
á þessum lista má benda á að
hann má hlaða niður af heimasíðu
Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnað-
arins (www.rml.is) eða heimasíðu
Landssambands kúabænda (www.
naut.is).
Snorri Sigurðsson
sns@seges.dk
Ráðgjafi hjá SEGES P/S
Danmörku
Það er í mörg horn að líta þegar bændur fara út í nýbyggingar. Réttur undirbúningur getur skipt sköpum um gæði
framkvæmdarinnar. Mynd / ÁÞ
Spánarsnigill, (Arion lusitanicus)
sást hér fyrst með vissu árið 2003
og síðan hefur hans reglulega
orðið vart víðs vegar um landið.
Upprunaleg heimkynni hans eru
á Íberíuskaganum, þ.e. vestur-
hluta Spánar, Portúgal og Suður-
Frakklandi. Þar hefur hann ekki
verið til vandræða enda loftslag
heitt og þurrt sem er fremur
óhagstætt sniglum og náttúruleg-
ir óvinir halda honum í skefjum.
Sniglar eru sem kunnugt er frem-
ur hægfara og þurfa að reiða sig
á aðra ef þeir hyggja á langferðir.
Slímug egg og örlitlir sniglar geta
loðað við dýr og borist þannig milli
staða en útbreiðsla hans norður
eftir Evrópu er fyrst og fremst af
mannavöldum. Upp úr 1960 varð
hans vart nokkuð víða utan upp-
runalegra heimkynna, t.d. á Ítalíu
og í Sviss. Með auknum milliríkja-
viðskiptum á plöntum í pottum,
hafa egg og sniglar tekið sér far
sem laumufarþegar og dreifst
víða. Árið 1975 sást spánarsnigill á
Skáni í Svíþjóð, í Noregi árið 1988,
og nú er hann útbreiddur um öll
Norðurlönd, þar með talin Ísland
og Færeyjar. Svalt og rakt loftslag
í norðvestanverðri Evrópu virð-
ist henta tegundinni vel og hefur
hann náð að fjölga sér hratt þar
sem hann hefur komið sér fyrir
og hefur víða gert mikinn usla í
görðum.
Getur orðið allt að 15 cm langur
Spánarsnigillinn er auðþekktur af
stærð sinni og rauðbrúnum lit. Hann
getur orðið allt að 15 cm að lengd en
er þó yfirleitt minni en það á norður-
slóðum, en þó alltaf töluvert stærri en
hérlendir sniglar. Hann myndar ekki
kuðung og skilur eftir sig slímuga
slóð þar sem hann fer um. Auðveldast
er að koma auga á sniglana að kvöld-
og næturlagi þar sem þeir fela sig oft
í skugga yfir daginn.
Verpir allt að 400 eggjum
Lífsferill spánarsnigla tekur eitt
ár. Hann verpir eggjum síðsumars,
eggin klekjast út og ungviðið yfir-
vetrar undir laufblöðum eða öðrum
einangruðum stöðum. Fullvöxnu
dýrin drepast aftur á móti á haustin.
Að vori skríða svo litlu sniglarnir
úr fylgsnum sínum, éta sig stóra og
feita, verpa eggjum og hringnum er
lokað. Spánarsnigillinn er tvíkynja,
hann tímgar sig með öðrum snigl-
um en getur líka frjóvgað sig sjálfur
ef svo ber undir. Hann verpir við
góðar aðstæður allt að 400 eggjum
á varptímanum þannig að viðkom-
an getur orðið ansi mikil. Á hinum
Norðurlöndunum sveiflast fjöldi
spánarsnigla nokkuð milli ára, minnst
er af þeim þegar frýs vel á snjólausa
jörð. Broddgeltir, krákur og froskar
éta snigla og aðstoða við að halda
þeim í skefjum, en þessi dýr eru jú
sjaldséð hér og hjálpa okkur varla.
Kvikindi sem eirir fáu
Spánarsnigillinn er gráðug alæta.
Hann étur plöntur, plöntuleifar,
ýmsan lífrænan úrgang, t.d. hunda-
skít og líka dauða og lifandi snigla.
Efst á óskalistanum eru lyktsterkar
plöntur, t.d kryddjurtir og flauels-
blóm. Skaðsemi spánarsnigilsins er
ekki eingöngu fólgin í því að hann
skemmir gróðurinn okkar og sóðar
út með slímslóð sinni. Hann útrýmir
líka öðrum sniglum þar sem hann
nær fótfestu og raskar þannig nátt-
úrulegu jafnvægi. Í Skandinavíu eru
taldar líkur á að hann geti tímgast
með skyldum þarlendum tegundum
og jafvel myndað frjóa blendinga.
Af framansögðu er ljóst að við
þurfum að takmarka útbreiðslu
spánarsnigilsins eins og kostur er.
Spánarsnigillinn berst oftast milli
svæða af mannavöldum með plöntum
en getur einnig borist með jarðvegi
og hlutum sem komast í snertingu
við jarðveg. Því þurfa plöntufram-
leiðendur og söluaðilar að tryggja að
söluvara þeirra sé laus við þennan
skaðvald. Það er hægt að gera með
reglubundnu eftirliti, hreinlæti og
sótthreinsun ræktunarsvæða milli ára.
Verði plöntuframleiðendur/plöntu-
salar varir við snigla í plöntunum
ber þeim að farga þeim tafarlaust og
gera aðrar viðeigandi ráðstafanir til
að hindra frekara smit.
Ráð til að stöðva spánarsnigilinn
Verði almennir garðeigendur varir
við spánarsnigla ættu þeir líka að
reyna að hefta útbreiðslu þeirra.
Sniglaeitur hefur einhverja virkni og
virðist frekar duga á nýklakin dýr en
fullorðin. Það ætti því frekar að nota
síðsumars og á haustin. Áhrifaríkasta
leiðin virðist þó vera að tína sniglana
þegar þeir eru á ferli og farga þeim.
Ekki dugar að höggva þá með verk-
færum því þroskuð egg í búknum
geta náð að klekjast út. Sniglar sækja
í bjór (líka léttöl) og hægt er að útbúa
gildrur með því að grafa niður ílát og
hella í það bjór. Snigillinn skríður
þá í bjórinn og drukknar. Einnig má
lokka að snigla með því að skilja eftir
sniglahræ, ávexti eða gæludýrafóður
á skuggsælum stað og tína þá svo upp
og farga þegar þeir mæta.
Þar sem spánarsnigillinn er nýbúi
á Íslandi er óvíst hversu útbreiddur
og alvarlegur skaðvaldur hann getur
orðið. Frostkaldir vetur ættu að öllum
líkindum að takmarka fjölda þeirra en
við ættum þó af fremsta megni að tak-
marka útbreiðsluna. Með samstilltu
átaki plöntuframleiðenda, plöntusala
og garðeigenda ætti að vera hægt að
stöðva frekari útbreiðslu og sjálfsagt
að reyna að útrýma honum þótt litlar
líkur séu á að það takist.
Nánari upplýsingar
Matvælastofnun og Umhverfis-
stofnun ætla að safna saman og miðla
upplýsingum um spánarsnigil til þess
að auðvelda bæði almennum garð-
eigendum og plöntuframleiðendum
að glíma við þennan vágest.
Á heimasíðu Náttúru fræði-
stofnunar er að finna upplýsingar
um spánarsnigla og þar er skorað á
þá sem finna spánarsnigla að koma
upplýsingum til stofnunarinnar til
að hægt sé að kortleggja útbreiðslu
tegundarinnar.
Helstu heimildir:
Aarild Andersen 2009. Iberia-
skogsnegl – biologi og bekjempelse.
Bioforsk fokus 4(2) 112-113, 2009.
María Ingimarsdóttir og Erling
Ólafsson 2005. Spánarsnigill
finnst á Íslandi því miður.
Náttúrufræðingurinn 73 (3-4) bls.
75-78, 2005.
Spánarsnigill – óboðinn gráðugur gestur
Helgi Jóhannesson
garðyrkjuráðunautur RML
helgi@rml.is
Spánarsnigillinn er gráðug alæta og getur náð allt að 15 cm lengd. Hann étur
plöntur, plöntuleifar, ýmsan lífrænan úrgang, t.d. hundaskít og líka dauða
og lifandi snigla. Mynd / Hulda Guðmundsdóttir