Bændablaðið - 11.01.2018, Side 50

Bændablaðið - 11.01.2018, Side 50
Bændablaðið | Fimmtudagur 11. janúar 201850 MENNING&LISTIR Austfirsk ljóskáld: Þegar skó af skönkum dreg – við skapadóm – Ný ljóðabók hins afkastamikla rithöfundar Guðjóns Sveinssonar frá Þverhamri í Breiðdal Félag ljóðaunnenda á Austurlandi, sem er undir stjórn Magnúsar Stefánssonar, sendi frá sér fyrir nýliðin jól sautjándu bókina í flokki austfirskra ljóðskálda. Þetta er ljóðabókin „Þegar skó af skönkum dreg – við skapadóm“, eftir Guðjóns Sveinsson frá Þverhamri í Breiðdal. Hann hefur verið afkastamikill við skriftir í gegnum tíðina og alls hafa komið út eftir hann 38 bækur. Í samantekt Magnúsar Stefáns- sonar um útgáfuna segir: Guðjón Sveinsson byrjaði ungur að skrifa sögur og setja saman vísur og ljóð. Þar mun hann ekki síst hafa notið þess er hann nam ungur við móðurkné. Aðeins níu ára gamall birti hann fyrstu skrifin á prenti, í barnablaðinu „Vorið“ og fermingarárið sitt vann hann til verðlauna í smásagnasamkeppni blaðsins. Hann hafði yndi af ritgerðasmíð í skóla og hélt síðan áfram tryggð við skriftirnar og vísnagerðina. Fyrsta bókarhandritið Sennilega hefur alltaf legið í loftinu að Guðjón hlyti að stíga skrefið til fulls, svara köllun sinni og gerast rithöfundur. Fyrsta bókarhandrit sitt skrifaði hann veturinn 1962– 1963, var þá að ná heilsu eftir alvarleg veikindi og sjúkralegu á Vífilsstöðum. Hann hefur geymt þetta fyrsta handrit sitt og það hefur ekki komið fyrir augu lesenda. Ísinn brotinn Guðjón skrifaði barnabókina Njósnir að næturþeli og var þá farinn að kenna við barnaskólann á Staðarborg í Breiðdal. Bókin kom út árið 1967. Síðan sendi Guðjón árlega frá sér bók í sama anda næstu fjögur ár og sú sjötta bættist við tveimur árum síðar. Allar þessar bækur eru mjög spennandi, hann hefur oft nefnt þær reyfarana sína, þær eru skrifaðar í þeim anda sem þá ríkti í gerð barnabóka hér á landi. Fyrirmyndin var að nokkru sótt út fyrir landsteinana, til frægra höfunda og metsölubóka þeirra. Börnin, söguhetjur Guðjóns, lenda í hverju ævintýrinu á fætur öðru og reynast ótrúlega snjöll að leysa flóknustu glæpamál og urðu í einu vetfangi heimilisvinir hjá íslenskum barnafjölskyldum. Tókst vel að skrifa leynilögreglusögur Fróðlegt er að athuga hvað Silja Aðalsteinsdóttir segir um sögur Guðjóns í bók sinni Íslenskar barnabækur og út kom árið 1981. Hún fer nokkuð hörðum orðum um reyfarana almennt og marga höfunda sem höfðu skrifað fyrir unglinga. En um höfundinn Guðjón Sveinsson segir hún að hann sé „sá eini sem hefur tekist verulega vel að skrifa íslenskar leynilögreglusögur handa unglingum.“ (Silja 284). Hún rökstyður mál sitt meðal annars á þennan veg: „Guðjóni gengur furðanlega að gróðursetja sögur sínar í íslenskri mold, enda sparar hann ekki lýsingar á umhverfi og náttúru. Þær lýsingar eru oft góðar en stinga stundum nokkuð í stúf við atburðina sem gerast, því þær geta verið allt að því ljóðrænar. Einnig vísar Guðjón til raunverulegra atburða og staðreynda í íslensku þjóðlífi og sögu, sem gefur bókunum sérstæðan svip.“ (Silja 284–285). Þessar tilvitnanir styðja þá skoðun að Guðjón hafi strax í upphafi skapað sér sína eigin stefnu og aðferðir sem rithöfundur, jafnvel á meðan hann er enn að skrifa hinar spennandi unglingabækur. Þáttaskil á rithöfundarferlinum Þá er komið að þáttaskilum á rithöfundarferli Guðjóns. Árið 1972 sendi hann frá sér bókina Ört rennur æskublóð. Hún þótti nýlunda, ekki síst fyrir þá sök að horfið var frá hinni ríkjandi tísku unglingasagna en fjallað um íslenskt hversdagslíf og einnig á nærfærinn hátt um vandamál sextán ára pilts og fylgst með því hvernig hann nær smátt og smátt tökum á lífi sínu við erfið störf um borð í fiskibát. Söguhetjan, Logi, flýr að heiman vegna ofríkis föður síns. Hann er óánægður með lífið og getur ekki hugsað sér að fara í menntaskóla eins og foreldrar hans vilja. Honum finnst hann hvergi njóta sín, hvorki í skólanum né á knattspyrnuvellinum og allra síst á heimilinu. Hann fer til sjós og sagan greinir frá baráttu hans þar, hann verður að sanna getu sína til þess að öðlast viðurkenningu sem fullgildur sjómaður. Þessi barátta endar með sigri Loga. Eftir það getur hann mætt föður sínum og snúið til fyrra lífs. Í áður nefndri bók um íslenskar barnabækur lýkur Silja Aðalsteinsdóttir umfjöllun sinni um Ört rennur æskublóð með eftirfarandi ályktun: „Það er einkum með lýsingum sínum á lífinu um borð og þeim spurningarmerkjum sem Guðjón setur við valdslegt uppeldi sem sagan af Loga verður nýstárleg og gagnrýnin skáldsaga sem markar tímamót í skrifum fyrir unglinga.“ (Silja 338). Anna Heiða Pálsdóttir, doktor í bókasafnsfræðum, sagði í blaðaviðtali að þessi bók Guðjóns væri hornsteinn í barnabókmenntum síns tíma. Fleiri hafa skrifað um bókina en Silja, meðal annars skrifaði Jón Baldvin Halldórsson athyglisverða prófritgerð um hana við Háskóla Íslands. Glaumbæjarbækurnar Glaumbæjarbækurnar, fjögurra bóka flokkur, eru án efa þekktastar af bókum Guðjóns frá árunum kringum 1980. Þær einkennir hin létta og leikandi frásögn höfundar, blönduð kímni en undir liggur alvara lífsins með gagnrýni á samfélagið og virðingu fyrir náttúrunni. Sögusviðið er sjávarþorp og nágrenni þess og fylgst er með barnafjölskyldu í þorpinu við leik og störf, ekki síst við búskap sem fjölskyldan stundar í hjáverkum. Silja segir um fyrstu bókina, Glatt er í Glaumbæ (1978): „Persónusköpun á foreldrum er einna best í þessari bók Guðjóns af öllum sögum um samskipti barna og fullorðinna síðustu ár.“ (Silja 340). Hún segir einnig um afstöðu höfundarins að hann gagnrýni valdsmenn með nöpru háði, meti hins vegar fábreytt, alþýðlegt líf mikils. (Silja 341). Margar barnabókanna frá þessum umrædda tíma eru ævintýri eða fantasíur, Saga af Frans litla fiskistrák, Ævintýrið við alheimstjörnina, Kettlingurinn Fríða fantasía og rauða húsið í reyniviðargarðinum, Hamingjublómin, Snjóhjónin syngjandi, Leitin að Morukollu. En höfundurinn er trúr hugsjónum sínum, hann gleymir ekki ástinni til náttúrunnar, leggur rækt við gagnrýna hugsun og tekur svari lítilmagnans gegn kúgurunum. Aðrar bækur segja frá veraldlegri atburðum, Loksins kom litli bróðir, Kvöldstund með pabba, Grallaraspóar og gott fólk. Sú síðast nefnda kom út árið 1989 og er safn sex smásagna fyrir börn en það form má telja sérgrein höfundarins. Sigurður Haukur Guðjónsson sagði svo í ritdómi um bókina sem birtist í Morgunblaðinu: „Það er gaman að eiga þess kost að rétta barni svo frábærar sögur. Þær eru í sparifötum ritleikni, kímni, góðvilja, gera því lífið bjartara, betra.“ Sneri sér að öðrum lesendahópi Breyting verður á viðfangsefnum Guðjóns á síðasta áratug aldarinnar og hann sendir aðeins frá sér fjórar barnabækur eftir 1990, þá síðustu árið 2008. Hann snýr sér nú að öðrum lesendahóp, hinum eldri. Ekki svo að skilja að fullorðnir lesendur hafi þurft að sniðganga fyrri bækur hans, þvert á móti hefur það orð legið á að flestar barnabækur Guðjóns hæfi engu síður þroskaðri lesendum. Sagan af Daníel Hæst ber á tíunda áratugnum mikið og sérstætt verk, fjögurra binda skáldsögu sem kom út á árunum 1994–1999 og hlaut heitið Sagan af Daníel. Verkið vitnar um ótrúlega elju, viljastyrk og úthald höfundarins, ekki síst þegar litið er til þess að um litla uppörvun eða utanaðkomandi hvatningu hefur verið að ræða. Guðjón er ekki þekktur fyrir að ganga frá hálfunnu verki – fyrir það megum við vera þakklát sem njótum sögunnar. Þetta magnaða skáldverk má ekki eingöngu skoða sem minnisvarða um hugþekkan og góðan dreng – heldur ekki síður sem enn eina lofgjörð höfundarins til byggðarinnar sinnar, Breiðdals, sennilega þá innilegustu, dýpstu og þá sem lengst verður í minnum geymd. Ljóðagerð Guðjóns Guðjón samdi fyrstu vísur sínar og ljóð strax í æsku og hefur lengst af stundað ljóðagerð samhliða öðrum ritstörfum og birt ljóð í blöðum, tímaritum og nokkrum safnritum. Samt var það ekki fyrr en árið 1991 að hann sendi frá sér sína fyrstu ljóðabók, Með eitur í blóðinu. Þar birtust liðlega 60 ljóð, ort á árunum 1983–1985 um baráttu höfundar við erfiðan sjúkdóm og afleiðingar hans. Aðra ljóðabók sína gaf Guðjón út árið 1998 og tileinkaði hana „öllu skógræktarfólki og öðru er ann ræktun og óspilltu umhverfi.“ Tileinkunin hæfir vel efni og anda ljóðanna. Bókin hlaut heitið Í garði konu minnar. Þriðju ljóðabókina tileinkaði Guðjón konu sinni, Jóhönnu Sigurðardóttur. Bókin kom út á afmæli Jóhönnu, 18. maí 2002 og nefnist einfaldlega: Á afmæli konu minnar. Það sem öðru fremur gerir útgáfuna sérstaka er geisladiskur sem fylgdi bókinni og hefur að geyma tónlist eftir höfund hennar. Ekki var ljóðabrunnur Guðjóns þurrausinn eftir útkomu þessara bóka því að hann sendi frá sér þrjár ljóðabækur í viðbót á árunum 2008–2010. Þær nefnast Ljóð og litir I–III. Þetta eru nokkuð sérstakar ljóðabækur, fallegar útlits og í stóru broti. Í hverri opnu blasir við mynd á vinstri síðu og ljóð á þeirri hægri. Myndirnar eru flestar úr Breiðdal. Guðjón B. Stefánsson, dóttursonur höfundar, sá um hönnun og umbrot bókanna. Langflest ljóðin í þessu safni, sem nú kemur fyrir sjónir lesenda, hafa áður birst í þessum sex ljóðabókum sem hér hafa verið nefndar. Viðurkenningar fyrir smásagnagerð Smásagnaformið hentar Guðjóni vel, sérstaklega þegar hann skrifar fyrir unga lesendur og hefur hann ítrekað hlotið viðurkenningu og unnið til verðlauna fyrir sögur sínar. Árið 1981 birtist sagan Morgundögg í smásagnasafni sem kom út í Noregi í útgáfu Samtaka móðurmálskennara á Norðurlöndum. Áður hafði sagan verið valin sú besta af íslenskum sögum sem bárust í keppnina. Sagan birtist síðan árið 1987 í hollensku smásagnasafni eftir norræna höfunda og var eina íslenska sagan í safninu. Á árunum 1984 og 1985 efndu Samtök móðurmálskennara til samkeppni um smásögur fyrir unga lesendur og Mál og menning gaf út bækur með bestu sögunum, Vertu ekki með svona blá augu með unglingasögum og Gúmmískór með gati með sögum fyrir yngri börn. Það kemur ekki á óvart að Guðjón er eini höfundurinn sem á sögur í báðum bókunum. Sagan Hundavakt var birt í safni sem Almenna bókafélagið gaf út árið 1984 og sagan Sá gamli í afmælisriti Vigdísar Finnbogadóttur, Yrkju, árið 1990. Tvisvar sinnum hafa sögur eftir Guðjón verið valdar til flutnings í Ríkisútvarpinu að undangenginni keppni, var það árin 1994 og 1996. Árið 1994 birtist sagan Á afmæli nátttröllsins í bókinni Ormagull eftir samkeppni Barnabókaráðs á ári fjölskyldunnar og árið 1998 sagan Róður í bókinni Áfram Óli eftir enn eina samkeppni Samtaka móðurmálskennara. Róður birtist einnig í smásagnasafni í Finnlandi árið 2001. Viðurkenning IBBY samtakanna Árið 2002 hlaut Guðjón viðurkenningu Íslandsdeildar IBBY samtakanna, Vorvindana, fyrir allt það sem hann hafði lagt fram til bókmennta fyrir börn og unglinga. Var það mikill heiður sem fáum hafði þá hlotnast. Þegar Guðjón fagnaði fjörutíu ára rithöfundarafmæli sínu, árið 2007, gaf hann út safn smásagna sinna sem tengdar eru sjómennsku. Þetta er glæsileg bók og ber með rentu nafnið Saltkeimur. Hálfrar aldar ferill Hálf öld er liðin síðan fyrsta bók Guðjóns Sveinssonar kom út. Fyrst í stað voru skriftirnar unnar í hjáverkum en að því kom að þær urðu aðalstarf höfundarins. Bókaforlag Odds Björnssonar á Akureyri gaf lengi vel út bækur Guðjóns og nokkrar þeirra komu út hjá Bókaútgáfu Æskunnar. Hann sá síðan sjálfur um útgáfu margra síðustu bóka sinna undir nafni Mánabergsútgáfunnar.. Þegar litið er yfir höfundarverk Guðjóns kemur í ljós að afköstin eru ótrúlega mikil. Ljóðabækur hans eru sex að tölu, skáldsögurnar sjö og barna- og unglingabækurnar hvorki meira né minna en 24 talsins. Guðjón hefur því samið og sent frá sér 38 skáldverk að meðtöldu þessu nýja ljóðasafni. Ótaldar eru þá bækur eins og Breiðdæla, tveggja binda verk sem hann gaf út ásamt Eiríki Sigurðssyni og Afmælisrit Hrafnkels Freysgoða sem hann ritstýrði. Margur höfundur þætti fullsæmdur þótt hann hefði aðeins skrifað þær bækur sem hér eru helst taldar henta fullorðnum. Þegar litið er til barna- og unglingabókanna sést að Guðjón er einn afkastamesti íslenskur höfundur á því sviði og fullyrða má að hann telst meðal þeirra alsnjöllustu sem skrifað hafa fyrir unga lesendur hér á landi. Magnús Stefánsson Guðjón Sveinsson.

x

Bændablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.