Bændablaðið - 24.05.2018, Side 24
24 Bændablaðið | Fimmtudagur 24. maí 2018
Eygló Björk Ólafsdóttir er nýr formaður framleiðenda í lífrænum búskap:
Nauðsynlegt að stjórnvöld
móti sérstaka stefnu
– Erum áratugum á eftir öðrum þjóðum
Aðalfundur VOR, Verndun og
ræktun – félags framleiðenda í
lífrænum búskap, var haldinn
á Reykjum í Ölfusi þann 6.
apríl síðastliðinn. Eygló Björk
Ólafsdóttir tók í kjölfarið við
sem nýr formaður félagsins af
Gunnþóri Guðfinnssyni. Hún
segir nauðsynlegt fyrir framþróun
lífræns landbúnaðar að stjórnvöld
móti sérstaka stefnu fyrir hann.
Aðrir í stjórn eru Guðfinnur
Jakobsson, Guðmundur Ólafsson
ritari, Kristján Oddsson gjaldkeri
og Þórður G. Halldórsson.
Erum með lægstu hlutdeildina
í Evrópu
Óhætt er að segja að Íslendingar hafi
dregist enn meira aftur úr mörgum
evrópskum nágrannalöndum
sínum á undanförnum árum, þegar
borin er saman þróun á hlutdeild
lífrænt vottaðra afurða í heildar
búvöruframleiðslunni. Hér ríkir
í besta falli stöðnun en markviss
framþróun hefur orðið í mörgum
Evrópulöndum – hjá þeim sem við
berum okkur gjarnan saman við.
Eygló segir lífrænt vottaða
matvælaframleiðslu fara vaxandi í
flestum löndum. „Evrópusambandið
veitir til dæmis hlutfallslega meiri
stuðning til lífræns landbúnaðar en
hefðbundins. Áherslur þess munu
vaxa á næstu árum, flest lönd eru nú
með vottað land á bilinu 5–17 prósent
þó eru dæmi um nær 30 prósent
eins og í Austurríki. Danir leggja
allt kapp á að auka hlutdeild lífræns
landbúnaðar í kjölfar mengunarmála
sem þar hafa komið upp og tengjast
þaulræktun og efnanotkun í
landbúnaði auk þess sem eftirspurn
frá neytendahliðinni er að aukast. Í
Evrópu standa framleiðendur ekki
undir eftirspurn og því er mikill
innflutningur á vottuðu lífrænu
hráefni annars staðar frá.
Á Íslandi erum við enn föst með í
kringum 30 framleiðendur og annað
eins í fullvinnslu – og í kringum 1,5
prósent af ræktunarlandi er vottað
lífrænt sem gerir það að verkum
að við erum líklega á botni lista
Evrópulanda í útbreiðslu vottaðs
lífræns ræktunarlands. Þetta er afleitt
í ljósi þess að lífræn vottun er eitt
strangasta gæða- og umhverfismerki
á matvælum í dag – og Ísland ætti að
geta skipað stóran sess sökum þess
hvað kringumstæður eru góðar hér
til að stunda lífrænan landbúnað,“
segir Eygló.
Dræmur áhugi á
aðlögunarstuðningi
Einungis ein gild umsókn barst
Búnaðarstofu síðasta haust
um stuðning við aðlögun að
lífrænum landbúnaði, þrátt fyrir
að heildarstuðningur hafi í síðustu
búvörusamningum verið aukinn
úr 3,5 milljónum króna árlega í
35 milljónir króna. Í reglum um
aðlögunarstyrkina er gert ráð fyrir að
hægt sé að styrkja hvern umsækjanda
að hámarki um helming af áætluðum
kostnaði við aðlögunina.
Að sögn Eyglóar var um mikil-
vægt skref að ræða því stuðningurinn
sé stór þáttur í því að lífrænt vottað-
ur landbúnaður geti breiðst út. „Ef
til vill var það óraunhæft að þetta
hefði áhrif strax á fyrsta ári. Fólk
verður að átta sig á því að þetta er
langhlaup og við erum nú þegar
áratugum á eftir öðrum þjóðum í
að efla þessa atvinnugrein. Það þarf
einnig að móta stefnu fyrir lífrænan
landbúnað en í slíkri stefnu þarf að
taka á öllum þáttum svo sem rann-
sóknum, hlutverki stofnana eins og
Landbúnaðarháskóla Íslands og það
þarf að upplýsa neytendur um gildi
lífrænnar ræktunar. Það hlutverk taka
stjórnvöld iðulega að sér í þeim lönd-
um sem hafa sett sér stefnu og hjálpa
þannig til við að styrkja markaðinn.
Einnig þarf að skoða hvernig megi
skapa almenna framleiðsluhvata
undir formerkjum búvörusamnings.“
Varðandi það hvort vottunar- og
aðlögunarferlið geti latt bændur til
að sækja um, segir Eygló að það sé
auðvitað ákveðið vesen sem fylgi
því og pappírsvinna. „Ég held samt
að menn séu að mikla þetta fyrir sér
og í landbúnaði hljóta menn að vera
ýmsu vanir nú þegar í skýrslugerð
og pappírsstússi í atvinnugrein sem
er að verða sífellt tæknivæddari – og
miklar kröfur eru gerðar til líkt og
á við um alla matvælaframleiðslu.
Það er verst fyrst en venst og
verður auðveldara þegar búið er að
tileinka sér vinnubrögðin. Ég held
að við séum með góðar og skilvirkar
stofnanir og ekki tilefni til að halda
að það sé erfiðara hér að ganga inn
í kerfið en annars staðar.
En með því að sækja um vottun
þá eru menn auðvitað að skuldbinda
sig til að standast kröfur í alþjóðlegu
kerfi, lífræn vottun er ein strangasta
og heildstæðasta gæðavottun sem
til er í dag og því fylgir auðvitað
dálítil vinna.“
Innganga í Bændasamtök Íslands
mun hjálpa
Á Búnaðarþingi 2018 var samþykkt
aðildarumsókn frá félaginu og segir
Eygló að það muni án efa hjálpa til
við að móta félagið betur. „Félagið
er opið að því leyti að þar eru
aðalfélagar þeir sem eru með vottun,
en aukafélagar geta þeir orðið sem
vilja tilheyra lífrænu hreyfingunni og
leggja málefnum hennar lið.
Ég myndi vilja sjá VOR þróast á þá
leið að það yrði vettvangur ekki síður
fyrir þá sem stunda fullvinnslu með
lífrænt vottað hráefni. Fullvinnslan er
mjög mikilvæg til verðmætasköpunar
og þar með að skapa eftirspurn
fyrir lífrænan landbúnað og mjög
mikilvægt að fólk tengist og eigi
samtal. Það þarf að hleypa meira lífi
í nýsköpun og þróun neytendavara
sem byggja á hráefni sem ræktað er
hér á landi og þar geta falist tækifæri
til útflutnings. Endurreisn fagráðs
er í burðarliðnum sem vonandi
eykur möguleika á rannsóknum og
fræðslustarfi, það þarf til dæmis að
leysa áburðarmálin á stórum skala
– finna áburð sem stenst kröfur
til að auka útbreiðsluna enda ekki
raunhæft að ætla öllum að finna upp
hjólið. Það gæti verið gaman ef það
tækist að ná því að stöðva urðun
og aðra sóun á lífrænum úrgangi
og framleiða í staðin verðmætan
áburð fyrir lífræna ræktun. Eitt af
meginverkefnum lífrænnar ræktunar
er einmitt að stuðla að hringrás
efnanna.
VOR er auk þess að taka að sér
verkefni í samvinnu við atvinnu- og
nýsköpunarráðuneytið og BÍ um
ráðstöfun á eftirstöðvum fjármuna
sem átti að veita til aðlögunar í
lífrænum landbúnaði á árinu 2017.
Með þessu verkefni mun VOR taka
virkan þátt í að kynna möguleika í
þessari atvinnugrein fyrir bændum
og eiga í samtali við þá til að greina
hvar tækifærin liggja og deila
reynslu þeirra sem nú þegar eru í
kerfinu.“
Eftirspurn eykst eftir lífrænt
vottuðum vörum
Þrátt fyrir að íslenskum bændum í
lífrænt vottuðum búskap hafi ekki
fjölgað á síðustu árum, virðist aldrei
hafa verið meiri eftirspurn á Íslandi
eftir vörum með lífræna vottun.
Vöruframboð á innfluttum vörum
ber vott um það. „Markaðurinn
er að stækka og hann mun halda
áfram að stækka. Ný reglugerð
mun færa framleiðendum aðgang að
vottunarmerki Evrópusambandsins
og skapa tækifæri til útflutnings,“
segir Eygló.
„Á Íslandi eru að þróast
fullvinnslugreinar sem eiga að
geta skapað aukna eftirspurn eftir
lífrænt vottuðu hráefni og þá er það
eiginlega skylda okkar að rækta
það eða framleiða hér á landi ef við
getum í stað þess að flytja það inn.
Það er tilefni til að skoða þetta allt og
ræða hvernig við getum búið til þessi
tækifæri í framtíðinni. Samvinna
er örugglega lykilatriði en mótun
stefnu fyrir lífrænan landbúnað
er frumskilyrði til að skapa hvata
á öllum stigum. Ekki má gleyma
þeirri staðreynd að lífrænt ræktaður
jarðvegur bindur mun meira
kolefni til lengri tíma og gegnir því
hlutverki í að uppfylla alþjóðlegar
skuldbindingar í loftslagsmálum. Ég
held að það njóti allir góðs af því að
hlutdeild lífrænnar ræktunar aukist
á Ísland og VOR ætlar að leggja sitt
af mörkum til þess,“ segir Eygló.
Heimsóknir sjálfboðaliða
verði viðurkenndar
Á aðalfundinum var ályktun um
sjálfboðaliðaheimsóknir í lífrænum
landbúnaði samþykkt. Þar er því
beint til yfirvalda að heimsóknir á
vegum slíkra formlegra samtaka verði
viðurkenndar hér á landi enda gegni
þær hlutverki í útbreiðslu lífrænna
ræktunaraðferða. VOR undirstriki
með henni mikilvægi þess að Ísland
taki þátt í þessu félagslega kerfi
lífrænu hreyfingarinnar.
Í ályktuninni kemur fram að slík
samtök hafi mörg hver starfað um
árabil með velþóknun yfirvalda
og almennings; meðal annars á
Norðurlöndum og meginlandi
Evrópu.
„Með þessum ferðamáta gefst
fólki færi á að fá innsýn í starfsemi
sem grundvallast á lífrænni ræktun og
atvinnutækifærum sem í henni felast.
Þetta er mikilvægt til að laða starfsfólk
að greininni og veita bændum
framtíðarinnar innsýn og þekkingu á
ræktun og matvælaframleiðslu sem
hefur sjálfbærni að leiðarljósi. Þetta
er einnig kallað „óformleg menntun“
en þessi ferðamáti er leið til að miðla
þekkingu, hljóta endurmenntun og
stunda rannsóknir. Hefð er fyrir því
hérlendis sem og í flestum löndum
Evrópu, að slíkar skammtíma heim-
sóknir og þátttaka séu leyfilegar á
3 mánaða dvalartíma sem gildir
um ferðamenn, enda er ekki um
vinnu-samband eða launagreiðslur
að ræða,“ segir í ályktuninni. /smhEymundur Magnússon og Eygló Björk Ólafsdóttir eru með lífrænt vottaðan landbúnað í Vallanesi á Fljótsdalshéraði.
Mynd / smh
Eygló Björk Ólafsdóttir er nýr formaður framleiðenda í lífrænum búskap.
Mynd / Úr einkasafni
Sigurður Már
Harðarson
smh@bondi.is