Bændablaðið - 24.05.2018, Side 29
29Bændablaðið | Fimmtudagur 24. maí 2018
ingar um vöruna því nánast ómögu-
legt er að breyta þeim upplýsingum
á pappírum.
Gangi þessi tækni eftir geta
neytendur á einfaldan hátt, til dæmis
með QR-kóða, leitað upplýsinga
um vöruna og hvort varan sé sú
vara sem þeir ætla að kaupa,“ segir
Sveinn.
Heilindi í matvælaframleiðslu
skipta öllu máli
„Í raun er alveg sama hvort horft er
til hagsmuna matvælaframleiðenda,
verslunarinnar eða neytenda, þá
skipta heilindi í matvælaframleiðslu
gríðarlegu máli og eru undirstaðan
fyrir því að þessir aðilar geti treyst
hver öðrum.
Inn í þetta spila einnig
umhverfismál og dýravelferðarmál
á þann hátt að neytendur geti fylgst
með og fengið upplýsingar um
framleiðsluferlið. Hvernig voru
aðstæður dýranna í eldinu eða er
notuð í framleiðsluna pálmaolía
frá svæðum þar sem er stundað
ólöglegt skógarhögg og þar fram
eftir götunum.“
Sveinn segir kröfur um aukin
heilindi í matvælaframleiðslu
og skilvirkt matvælaeftirlit sem
tryggi þau heilindi séu í dag í raun
tengt aukinni velferð og kaupgetu
ákveðins hluta neytenda. Ástandið
sé í sumum tilvikum skelfilegt, án
þess að um það sé fjallað. „Það að
geta leyft sér að geta spurt spurninga
um gæði og uppruna matvæla er í
raun lúxus hinna ríku en á sama tíma
tel ég það líka vera okkar ábyrgð að
spyrja þessara spurninga því að ef
við gerum það ekki gerir það enginn.
Ástæða þess að hægt sé að
selja matvæli frá mörgum stöðum
í heiminum á mjög lágu verði er
að laun séu afar lág, dýravelferð
virt að vettugi og ekki sé hugað að
umhverfismálum. Viðskiptamódel
matarglæpamanna gengur því í
verstu tilfellum út á mannréttindabrot
og slæma meðferð á dýrum og
umhverfinu. Það hefur í för með sér
óeðlilegt sótspor sem fylgir því að
flytja matvælin heimshorna á milli.
Viðskiptamódelið þrífst svo í skjóli
rangrar upplýsingagjafar og skorti á
gagnrýni okkar sem kaupa vöruna.
Viðskipti af þessu tagi koma
niður á öllum til lengri tíma en
til skemmri tíma má segja að
glæpamennirnir og neytendur
græði á þeim. Glæpamennirnir, af
því að þeir skapa sér illa fengnar
tekjur, og neytandinn af því að hann
telur sig vera að fá vöru á góðu
verði. Raunin er hins vegar sú að
neytandinn er blekktur til að taka
þátt í glæpastarfsemi.
Spurningin sem neytendur verða
því að spyrja sig að þegar þeir sjá
vöru sem er á mjög lágu verði er
hvers vegna verðið sé svona lágt.
Ef hlutirnir virðast of góðir til að
vera sannir, þá eru þeir gjarnan ekki
sannir.
Gagnrýnin hugsun neytenda er
því í raun sterkasta vopnið gegn
matvælasvindli.“
Staðan á Íslandi
Samkvæmt lögum er eftirlit á
innflutningi á matvælum í höndum
heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga og
Matvælastofnunar, MAST. „Þessir
aðilar gera hvað þeir geta, en
staðreyndin er sú að þrátt fyrir það
erum við Íslendingar ekki í neinni
stöðu til að fullyrða að staðan hér
sé á þann hátt sem vera ber.
Dæmi um þetta er innflutningur á
ólífuolíu. Við vitum að á heimsvísu
er svindl með jómfrúarolíu verulegt,
en bolmagn til að hafa eftirlit með
því hvort innflutt jómfrúarolía
sé það raunverulega eða hvort sé
raunverulega verið að selja aðrar
gerðir olíu er ekki til staðar. Sama
gildir um innflutta tilbúna rétti, það
er borin von að að ætlast til þess að
eftirlitsaðilar geti fylgst með því að
innihald þeirra sé í samræmi við
innihaldslýsinguna á umbúðunum.
Allt snýst að lokum um fjármagn
og eins og staðan er í dag höfum
við einfaldlega ekki fjárhagslegt
bolmagn til að fylgja þessum
málaflokki sem skyldi.
Matís hefur átt í samvinnu
við BfR, sem er þýska
áhættumatsstofnunin tengt
rannsóknum á matvælaglæpum.
Samstarf hafur einnig verið
við aðrar stofnanir í Evrópu og
næstu skref Matís í rannsóknum á
matvælasvindli eru meðal annars að
auka samtalið við Europol.“
Sveinn segir að í raun hafi
eina leið Matís til að afla
fjármagns til rannsókna tengdum
matvælaglæpum verið að sækja
í alþjóðlega rannsóknasjóði,
í samstarfi við alþjóðlegar
stofnanir. Slíkt hafi gefið aðgang
að alþjóðlegri þekkingu, sem skipti
miklu máli.
Eftirlit með innlendri framleiðslu
Að sögn Sveins er það hlutverk
Matvælastofnunar og heilbrigðis-
eftirlits sveitarfélaganna að sjá um
eftirlit með matvælaframleiðslu hér
á landi. Matís sé svo þjónustuaðili
þeirra stofnana.
„Þrátt fyrir góðan vilja allra
þessara aðila verð ég að viðurkenna
að þekking okkar á þessum mála-
flokki er ekki eins viðamikil og
hún ætti að vera. Miðað það eftirlit
sem er að meðaltali í Evrópu á mat-
vælaframleiðslu þá erum við ekki
að standa okkur illa en ef við berum
okkur saman við Norðurlöndin þá
er það mitt mat að við höfum ekki
sams konar þekkingu á matvælum og
áhættuþáttum þeirra hér á landi og í
Skandinavíu. Sérstaklega finnst mér
skorta á áhættumat í því samhengi.
Í dag ber matvælaframleið-
endum samkvæmt lögum að geta
rakið vöruna í báðar áttir í fram-
leiðslukeðjunni og keðjan sam-
kvæmt því í prinsippinu rekjanleg.
Framleiðslukeðja landbúnaðarvara
á Ísland er stutt og fremur einföld í
samanburði við margar alþjóðlegar
framleiðslu- og dreifingarkeðjur.
Í því ljósi tel ég mig í flestum til-
fellum geta treyst því að það sem ég
er að kaupa sé það sem það er sagt
vera og ég tel mig vera að kaupa.
Samt sem áður byggir þessi skoðun
mín sem neytanda á trú og trausti
á bóndann og söluaðilann. Traustið
byggir því á sannfæringu en í raun
ekki á upplýsingum eða staðreyndum
enda engar yfirgripsmiklar rannsókn-
ir á innlendri framleiðslu farið fram
hvað matvælaglæpi varðar.
Annað sem áhugavert er að skoða
í þessu samhengi er heimaslátrun
sem í dag er ólögleg og því glæpur.
Persónulega er ég þeirrar skoðunar að
reglur hér á landi varðandi heimaslátr-
un séu allt of stífar og að við ættum
að auka frjálsræði bænda til að slátra
heima, enda sé kröfum um hreinlæti
og heiðarleika í viðskiptum sinnt og
eðlilegt eftirlit, sem byggi á áhættu-
mati, haft með slíkri starfsemi. Ég
tel að slíkt myndi hafa jákvæð áhrif
varðandi dýravelferð og umhverfis-
mál og geti í raun aukið meðvitund
neytenda, jafnt Íslendinga sem ferða-
manna, fyrir íslenskum landbúnaði.
Ef þú kaupir heimaslátrað kjöt er
keðjan frá framleiðanda til þín eins
stutt og mögulegt er og búið að taka
út milliliði sem hugsanlega geta hafa
átt við vöruna á ólöglegan hátt, t.d.
blandað innfluttu kjöti við innlent.
Væri heimaslátrað kjöt hins vegar selt
án þess að salan væri gefin upp væri
aftur á móti verið að skjóta undan
skatti og það er skattalagabrot sem á
ekki að líðast frekar en aðrir glæpir.“
Áskorun að fylgja eftirlitinu eftir
„Að mínu mati er ein helsta áskorun
okkar Íslendinga þegar kemur að
matvælaglæpum að fylgja málunum
eftir og hætta því stefnuleysi sem er
ríkjandi varðandi málaflokkinn. Við
eigum að framkvæma þær rannsóknir
sem þarf að framkvæma til að geta
ályktað um stöðuna og grípa til þeirra
ráðstafana sem þörf er á til að hún sé
sé í lagi til framtíðar,“ segir Sveinn
Margeirsson, forstjóri Matís, að
lokum.
ÞVOTTAHÚSINNRÉTTINGAR, FATASKÁPAR & RENNIHURÐIR
HÁGÆÐA DANSKAR
STYRKUR - ENDING - GÆÐI
OPIÐ:
ÚRVAL INNRÉTTINGAVIÐ HÖNNUM OG TEIKNUM VÖNDUÐ GÆÐAVARAGOTT SKIPULAG
Matvælaglæpir tengjast dýravelferð og það gefur augaleið að slæm meðferð á búfé er glæpur og má ekki líðast,
jafnvel þó að það kunni að lækka matvælaverð til neytenda.
Matvælasvik eru auðveldust og algengust í þeim hluta matvælaframleiðslunnar
þar sem matvæli eru mest unnin.
Matvælaglæpir virðast vera algengastir þegar kemur að sjávarfangi,
samkvæmt skýrslum Europol og Interpol þar sem innkallanir á vörum og
handlagningar eru mestar á því.