Bændablaðið - 09.01.2020, Síða 28
Bændablaðið | Fimmtudagur 9. janúar 202028
LÍF&STARF
Ólöf Þ. Hallgrímsdóttir, framkvæmdastjóri Vogafjóssins í Mývatnssveit, fékk fálkaorðuna á nýársdag:
„Ég er fyrst og fremst stolt og hrærð“
Forseti Íslands sæmdi fjórtán
Íslendinga riddarakrossi hinnar
íslensku fálkaorðu á nýársdag
eins og hefð er fyrir. Ólöf Þ.
Hallgrímsdóttir, ferðaþjónustu
bóndi hjá Vogafjósi í Mývatnssveit,
fékk riddarakross fyrir framlag
til ferðaþjónustu og atvinnulífs í
heimabyggð.
Slegið var á þráðinn til Ólafar
til að leita viðbragða hennar vegna
viðurkenningarinnar.
Hélt að einhver væri að gera at
„Já, ég fékk símtal frá forsetaritara
sem tjáði mér að ég hefði verið
tilnefnd til hinnar íslensku fálkaorðu.
Mér datt eiginlega fyrst í hug að nú
væri einhver að gera at í mér og varð
hugsi og svolítið vör um mig. Ég
óskaði eftir umhugsunarfresti með
að svara hvort ég ætlaði að þiggja
orðuna. Ég hugsaði málið og sagði
mínum nánustu frá þessu og það
hvöttu mig allir til að svara jákvætt
sem ég og gerði.
Ég verð að viðurkenna að ég hef
kannski aldrei verið neinn sérstakur
orðuunnandi en líklega með auknum
árafjölda og þroska breytist maður
og verður mildari og meyrari og kann
betur að meta þann mikla heiður sem
sýndur er. Ég horfði líka á viðtal
við frú Vigdísi Finnbogadóttur um
orður sem hún hafði fengið í gegnum
tíðina og þar kom fram að henni þótti
eiginlega vænst um hina íslensku
fálkaorðu. Hvernig hún talaði breytti
kannski svolítið afstöðu minni til
orðuveitinga. Það er að sjálfsögðu
mjög gott að hrósa ef vel er gert
en ég hafði ekkert verið að hugsa
þannig um sjálfa mig og okkar
uppbyggingu sem ég er þó mjög
stolt af og finnst alla tíð hafa verið
óhemju skemmtileg þó ekki hafi allir
rauðir dagar verið hvíldardagar og
engin sumarfrí,“ segir Ólöf og hlær.
Stolt og hrærð
Ólöf segir að það hafi komið
sér verulega á óvart að fá þessa
tilnefningu, en eftir á að hyggja sé
hún fyrst og fremst stolt og hrærð.
„Mér hefur líka verið hugsað til
alls þess góða fólks, starfsfólks og
fjölskyldu, sem hefur tekið þátt í
þessari uppbyggingu og er ég því
mikið þakklát og tel að þau eigi líka
heiðurinn skilið með mér.“
Óvæntar uppákomur á
leiðinni til Reykjavíkur
Ólöf segir að hún hafi reynt að
halda fréttunum frá Bessastöðum
leyndum fyrir fjölskyldunni, enda
þótti öllum frekar einkennilegt að
hún og maður hennar ætluðu að
rjúka til Reykjavíkur á gamlársdag
og halda upp á áramótin í
Reykjavík og ætla svo að þjóta
heim á nýársdag seinnipart þegar
allra veðra er von.
„Við eigum eina dóttur og
tengdason í Reykjavík og vorum
hjá þeim, sem var líka ný upplifun
en ég hef ekki upplifað áramót í
Reykjavík fyrr,“ segir Ólöf.
Á leið hjónanna til Reykjavíkur
keyrðu þau fram á unga konu með
sprungið dekk í Skagafirði sem
þurfti aðstoð við að skipta um
dekk. Síðan héldu þau áfram en
þar sem þau eru umhverfisvæn
keyra þau á rafbíl og þurftu að
hlaða hann á leiðinni. Unga konan
fór fram úr þeim á Blönduósi en
á Holtavörðuheiðinni keyrðu þau
fram á vinkonu sína þar sem bíllinn
var út af.
„Endirinn var sá að hún kom
upp í bílinn okkar og sem betur
fer óslösuð. Þarna biðum við
eftir lögreglu vegna skýrslutöku
og fékk hún svo far með okkur
til Reykjavíkur en þar átti hún að
fara að vinna á Landspítalanum
um kvöldið en var aðeins of sein
vegna óvæntra uppákoma á leið
sinni. Það má því segja að árið hafi
endað með ýmsum góðverkum hjá
okkur,“ segir Ólöf.
Ekki heimilt að nota
orðuna hvenær sem er
Ólöf segir að henni sé ekki heimilt
að nota orðuna hvar og hvenær
sem er. „Það fylgja orðunni reglur
um notkun en hana má bera t.d.
1. janúar og 17. júní og svo á
merkisdögum í lífi mínu. Hins
vegar fylgir lítil rósetta með sem þú
mátt alltaf bera sem er merki þess
að þú sért orðuhafi hinnar íslensku
fálkaorðu.“
Ferðaþjónustan er ekki hobbí
Þegar Ólöf er spurð út í viður
kenninguna og hvað henni finnist
um hana stendur ekki á svörum.
„Mér finnst þetta vera mikil
viðurkenning fyrir því starfi sem
við hér í Vogafjósi höfum verið að
sinna og byggja upp undanfarin
ár en gaman frá því að segja
að á síðasta ári fögnuðum við
20 ára afmæli. Mér finnst þetta
líka vera viðurkenning fyrir alla
ferðaþjónustu hér í Mývatnssveit
sem á sér mjög langa sögu og
eiginlega fyrir alla ferðaþjónustu í
landinu sem er nú vonandi loksins
að hljóta viðurkenningu á því að
vera almennileg atvinnugrein en
ekki eitthvert hobbí. En alltaf má
gera betur og það höfum við hugsað
okkur að gera.“
Fálki fæddist á orðudaginn
Ólöfu bárust skemmtilegar fréttir að
heiman þegar hún hringdi í sitt fólk
eftir að hafa tekið á móti orðunni á
Bessastöðum.
„Já, það er gaman frá því að segja
en kvígan Ljúfa, sem er gríðarlega
stór og falleg og við búin að binda
miklar vonir við hana, eignaðist
kálf á nýársdag, okkur að óvörum.
Kálfurinn, sem var fallegt naut, fékk
að sjálfsögðu nafnið Fálki.
„Ekki var vitað hvort lifandi
kálfur var í henni og við búin að láta
ómskoða hana þar sem niðurstaðan
var að eitthvað væri nú í henni
en gæti verið steinfóstur, þetta
var því mikil gleði og kom mjög
skemmtilega á óvart,“ segir Ólöf.
Opna 1. febrúar með
bjartsýni og gleði
Ólöf er að lokum spurð hvort það
sé ekki allt gott að frétta af rekstri
Vogafjóssins?
„Jú, jú, það er allt gott hjá okkur,
við urðum ekki eða mjög lítið vör
við samdrátt í ferðaþjónustunni.
Við höfum verið með lokað síðan
15. nóvember vegna þess að við
erum að gera upp salinn hjá okkur,
bæta hljóðvist og margt fleira. Það
er óhætt að segja að salurinn hafi
verið gerður fokheldur en þetta er
framhald á því að sl. sumar tókum
við í notkun nýja viðbyggingu
sem rúmar gestamóttöku, bar
og biðsvæði fyrir gesti sem bíða
eftir borði í veitingasalnum
eða vilja bara njóta útsýnis og
kyrrðar. Við vorum einnig að
fjárfesta í frárennslishreinsistöð
til að uppfylla reglur um ítarlega
hreinsun á fráveitu. Það skal tekið
fram að við erum í dag með tveggja
þrepa rotþró og siturbeð og ekkert
frárennsli hér fer beint út í vatn og
þróin er tæmd þrisvar til fjórum
sinnum á ári. Við opnum svo 1.
febrúar og höldum ótrauð áfram
með bjartsýni og gleði,“ segir
orðuhafinn og ferða þjónustu
bóndinn Ólöf Þ. Hallgrímsdóttir.
/MHH
Ólöf Þ. Hallgrímsdóttir og eiginmaður hennar, Jón Reynir Sigurjónsson, með forsetahjónunum, Elizu Reid og Guðna
Th. Jóhannessyni, á Bessastöðum við orðuveitinguna 2020. Ólöf og Jón Reynir eiga fjögur börn en það eru þau
Halldóra Eydís, Þórhalla Bergey og tvíburarnir Arnþrúður Anna og Skarphéðinn Reynir. Tvær fjölskyldur reka og
eiga Vogafjós. Í dag eru þar um 40 starfsmenn yfir sumartímann og um 20 yfir veturinn. Myndir / Úr einkasafni
Ólöf með vinkonu sinni, Bryndísi Snæbjörnsdóttur úr Reynihlíð, en þær
hittust óvænt á Bessastöðum á nýársdag. Ólöf segist vera mjög stolt af
orðunni en er þó alveg á jörðinni og heldur ótrauð áfram í uppbyggingu
Vogafjóssins í Mývatnssveit með sínu fólki með það að markmiði að gera
enn betur.
Kálfurinn Fálki, sem mætti í heiminn
á nýársdag, sama dag og Ólöf tók við
fálkaorðunni á Bessastöðum.
Överaasen DLS-270
Skekkjanleg kasttönn fyrir dráttarvél
og hjólaskóflu
Tangarhöfða 1, 110 Reykjavík | Sími 551 5464 | www.wendel.is