Bændablaðið - 09.01.2020, Blaðsíða 36

Bændablaðið - 09.01.2020, Blaðsíða 36
Bændablaðið | Fimmtudagur 9. janúar 202036 Stofuplöntur eru heil­ næmar og gera okkur hamingjusöm. Þetta er staðhæfing sem garðyrkjumenn og áhuga fólk um ræktun pottaplantna nota sífellt oftar og er ekki úr vegi að færa dálítil rök fyrir henni hér, en nú hafa nemendur og starfsfólk á Garðyrkjuskóla LbhÍ á Reykjum kynnt á þriðja tug pottablóma allt síðasta ár á síðum Bændablaðsins. „Ræktaðu garðinn þinn“ var ein loka­ niðurstaðan eftir allt heimshornaflakk sögu­ persónu nnar Birtíngs í hinni kostulegu skáld­ sögu „Candide, ou l'Optimisme“ eftir Voltaire. Þegar öll kurl voru komin til grafar reyndist friðsemd og einfaldleiki öllu æðra. Þetta eru víst orð að sönnu en ræktun krefst ekki stórra garða, jafnvel er hægt að skynja þessa ró og andlegu vellíðan með ræktun plantna í heimahúsum. Það hafa margir reynt að því fylgir fullnægja að fylgjast með gróðrinum vaxa og dafna, að sinna honum þannig að hann þrífist sem best og grípa inn í þegar á bjátar. Að vera samvistum við grænan gróður er að sínu leyti sambærilegt við að njóta félagsskapar gæludýra. Fegurð blóma og laufa Aðrir njóta fyrst og fremst fegurðar blómanna og þar kemur margt til. Lauf, blómgerð, litir og form eru til þess fallin að gleðja auga og hjarta. Fjölbreytileiki græna litarins virkar róandi á flesta einstaklinga og veitir tilfinningu, jafnvel fullvissu, um náttúrulegt jafnvægi. Þar sem hinir ýmsu grænu litatónar njóta sín í náttúrunni er líklegt að jörð sé frjó, lífríkið auðugt og nægilegt vatn í nánd, við upplifum öryggi. Þessi tilfinning má segja að sé sammannleg og margir finna til hennar við hvers konar ræktun þótt í litlum mæli sé. Inniplöntur hafa jafnvel hag­ stæð áhrif á loftið í híbýlunum. Séu nokkrar vel valdar blaðplöntur ræktaðar í víðum pottum hækkar loftraki í herbergjum en þurrt loft er yfirleitt vanda­ mál í heimahúsum. Í þröngum, illa loftræstum herbergjum geta plöntur jafnvel tekið upp nokkuð af óheilnæmum efnum úr andrúmslofti sem berast í það úr nytjahlutum eins og húsgögnum, fatnaði og raftækjum svo dæmi séu tekin. Betra starfsumhverfi með blómum Rannsóknir hafa sýnt að þar sem starfsumhverfi einkennist af nálægð gróðurs hefur hann í sjálfu sér afkastahvetjandi áhrif sem hafa jafnvel verið mæld í tugum prósenta, til dæmis í skrifstofuhúsnæði, sem annars getur verið ansi líflaust og dauflegt. Plönturíkt umhverfi er talið hafa blóðþrýstingslækkandi áhrif, lækka of hraðan hjartslátt, draga úr andlegu álagi og það skerpir athygli, einbeitingu og minni í dagsins önn. Hér er ekki verið að tala um að breyta vinnustaðnum í frumskóg, nægilegt hefur reynst að koma fallegum plöntum smekklega fyrir hér og þar. Uppeldislegan ávinning þess að rækta stofublóm má einnig nefna. Börn og unglingar geta lært um þarfir plantnanna, tekið þátt í að halda þeim fallegum með réttri aðhlynningu og hægt er að sýna hvernig fjölga má þeim með sáningu eða græðlingum og skoða á hvern hátt árstíðirnar hafa áhrif á þær. Margir fá þannig að kynnast heimi plantnanna frá unga aldri, sem kemur þeim til góða síðar á svo fjölbreyttan hátt. Að síðustu er hægt að minnast á að margir hafa ánægju af að rækta plöntur sem nýta má til matar, kryddjurtir, tejurtir og jafnvel grænmetisplöntur af ýmsu tagi. Ingólfur Guðnason Námsbrautarstjóri garðyrkjuframleiðslu LBHÍ Reykjum, Ölfusi GARÐYRKJUSKÓLI LBHÍ REYKJUM Hvers vegna inniblóm? Að vera samvistum við grænan gróður er að sínu leyti sambærilegt við að njóta félagsskapar gæludýra. Rannsóknir sýna að þar sem starfsumhverfi einkennist af nálægð gróðurs hefur hann í sjálfu sér afkastahvetjandi áhrif sem hafa jafnvel verið mæld í tugum prósenta. LESENDABÁS Eftir yfirstaðið óveður sem skall á landinu þann 10. desember síðastliðinn er ansi margt sem farið hefur í gegnum hugann, bæði meðan veðrið geisaði og sérstaklega eftir að því slotaði. Hér í Öxarfirði og á Melrakka­ sléttu fór rafmagnið af strax á þriðjudagsmorgni. Þegar yfir lauk höfðu u.þ.b. 25 rafmagnsstaurar brotnað og því til viðbótar 14 rafmagnsstaurastæður sem héldu uppi byggðalínunni. Rafmagnslínur höfðu slitnað á ótal stöðum. Krapinn og ísingin var svo með óhemju magni að elstu menn muna ekki annað eins hér um slóðir. Girðingartjón er gríðarlegt og óséð enn hvert heildartjón þess er á svæðinu. Þó fór okkar svæði ekki verst út úr þessum ofsa. Mannskaði, fjár­ og hrossaskaði ásamt gríðarlegu tjóni á híbýlum og mannvirkjum blasti við víða á landinu áður en yfir lauk. Andlegt áfall þeirra sem verst urðu úti er ekki hægt að meta en ljóst að margir munu búa við þann draug lengi. Misjafnt var hversu sjálfbjarga fólk var á bæjum í dreifbýli. Sumir gátu litla björg sér veitt með ekkert rafmagn, engan hita og ekkert vatn, með ekkert nema örfá kerti til að reyna halda á einhverjum hita í einu herbergi. Á öðrum bæjum voru til gashitarar og/eða gashellur og kerti. Sumir voru svo lánsamir að eiga minni dísilknúnar rafstöðvar sem gátu gefið lágmarks orku inn á heimili fyrir ljós og minni háttar raftækjanotkun. En svo eru aðrir bæir svo vel í stakk búnir að vera algjörlega óháðir flutningskerfi raforkunnar, þar sem þeir eru með sína eigin raforkuframleiðslu í gegnum virkjun á vatnsföllum og ám í þeirra eigin landi. Þeir ákveðnu bæir eru öfundsverðir í dag af sínum hlunnindum þar sem þeir búa við miklu meira öryggi og sjálfstæði í orkumálum en aðrir. Það fyrsta sem ég dreg lærdóm af eftir þessa reynslu og það sem trónir efst í mínum huga er að horfa inn á við. Hvað get ég gert betur? Hver einasti fullorðni einstaklingur þarf að spyrja sig þeirrar spurningar hvort þeir séu nægilega vel útbúnir til að mæta áföllum ÞEGAR þau dynja yfir. Og þá á ég ekki bara við um okkur sem búum í dreifbýlinu. Þetta á jafnt við um höfuðborgarsvæðið og öll stærri þéttbýli landsins. Við eigum að vita að sama hversu vel undirbúið kerfið okkar er sem og hjálparsveitir að þá tekur tíma fyrir hjálpina að berast. Fyrstu klukkutímarnir eru mikilvægastir og alveg ljóst að það þýðir ekki að falla á kné og öskra út í storminn hjálparvana „Hvar er ríkisstjórnin?“ Við þurfum að vera eins sjálfstæð og mögulegt er til að gefa viðbragðsaðilum svigrúm til að færa okkur dýrmæta og nauðsynlega hjálparhönd sem oft getur skilið á milli lífs og dauða. Við þurfum öll að spyrja okkur: „Eigum við næg kerti? Eigum við gas og gashitara? Getum við mögulega eignast minni eða stærri rafstöð? Eigum við vasaljós/höfuðljós og nóg af batteríum? Skyndihjálpartaska? Þekkjum við nágranna okkar og getum við náð í þá ef þarf? Eitt af því sem hefur vakið upp hjá mér aukna meðvitund í þessum málum er t.d. spurningin hvers vegna ráðamönnum þessarar þjóðar þykir það alls ekki mikilvægt að halda þessum lífsnauðsynlegu þáttum á lofti, þ.e. að við búum á mjög svo lifandi eldfjallaeyju lengst í Norður­Atlantshafi sem m.a. er einna þekktust fyrir óstöðugt og síbreytilegt veðurfar? Hvers vegna er lagt í miklar áróðursherferðir þar sem fólk er minnt á mikilvægi reykskynjara og slökkvitækja en aldrei nokkurn tíma í jafn nauðsynlegar herferðir þar sem fólk er minnt á mikilvægi þess að eiga „neyðarpakka“ á öruggum stað heima hjá sér ef hamfarir dynja yfir. Hefur einhver spurt sig að því hvað myndi gerast ef gysi í Bláfjöllum, Hellisheiði eða Nesjavöllum? Hvað myndi gerast ef allt hitaveitukerfi höfuðborgarsvæðisins myndi eyðileggjast í kjölfar eldgoss, jarðskjálfta e.a.? Ég hugsa að margir gætu bjargað sér fyrstu klukkutímana og sólarhringana jafnvel ef þeir ættu reglulega yfirfarinn lífsbjargarpakka í geymslunni eða úti í skúr. Staðreyndin er sú að ráðamenn þjóðar okkar hafa gleymt því hvar þeir búa. Og við höfum sofnað á verðinum og leyft þeim að komast upp með það. Hvers vegna verður fólk alltaf jafn hissa þegar ofsaveðrátta gengur inn á land og mið með sínum eyðileggingarmætti? Í gegnum áratugina og alla síðustu öld hafa með reglulegu millibili gengið hér yfir mannskaða­ og vonskuveður. Hér verður ekki hægt að kenna hlýnun jarðar um og skýla sér bak við þá slöku afsökun. Það er ekki hægt að vekja fólk til neinnar raunverulegrar umhugsunar um landfræðilega staðsetningu eyjarinnar með því að auglýsa styttri afgreiðslutíma Vínbúðarinnar vegna slæmrar veðurspár. Þá hugsar fólk ekki: „Ætli lífsbjargarpakkinn minn sé í lagi?“ Nema þá að fólk telji lífsbjörgina vera kippu af bjór, koníaksflösku og rauðvínskút fyrir kósíkvöld fram undan! Þá komum við að þeim hluta sem snýr að því sem á að gerast eftir að við einstaklingarnir höfum brugðist við og reynt að bjarga okkur fyrstu klukkutímana. Fjarskiptakerfið t.d. er grundvallaröryggistækið okkar. Og það sýndi sig líka óbrigðult að ekkert er hundrað prósent öruggt. Til þess er „Plan B“. En Plan B virtist hins vegar ekki vera til þegar á reyndi. Mín spurning til ráðamanna í þessum ákveðna málaflokki er ofur einföld. – Þegar ákvörðun var tekin um að leggja gömlu heimasímalínuna (koparstrenginn) niður, vegna þess að tekin var við mikil tækniöld sem átti að leysa öll okkar vandamál svo við þyrftum ekki lengur að hugsa neitt af sjálfsdáðum, datt þá engum snillingnum í hug að rétta upp höndina og hósta upp spurningum eins og t.d.; já en hvað með Plan B? Hvað ef þráðlausa tæknin sem tengd er ljósleiðara og rafmagni klikkar? Hvað er í lagi við það að skilja fólk eftir algjörlega bjargarlaust í brjáluðu veðri án nokkurs möguleika á samskiptum við umheiminn? Þetta fólk er kannski með möguleika á að bjarga sér í nokkra klukkutíma, en hvað ef húsið hefur fokið ofan af því? Hvað ef það er lífshættulega slasað? Hvað ef það getur ekki einu sinni látið nágranna sinn vita af sér? Það þýðir lítið að berja sér á brjóst og hreykja sér af því á alþjóðlegum vettvangi hvað Ísland er framarlega í tækni­ og orkumálum þegar staðreyndin er sú að 80% af raforkuframleiðslu þjóðarinnar fer í stóriðju. Pöpullinn fær dreggjarnar. Hvað ætli hver einstaklingur sé metinn mikils þegar hugsað er til nýsköpunar, vinnuframlags, líkamlegrar og andlegrar getu og framsýnnar hugsunar á móts við stóriðjuna? Hver ætli orkustuðulsmunurinn sé þar? Í þessum hamförum sýndi það sig þó að við Íslendingar erum rík þjóð þegar kemur að krafti og einhug manna sem hlupu út í veðrið tilbúnir að leggja sig í lífshættu við að hjálpa á meðan líkamlegt og andlegt þrek leyfði. Við eigum margar hetjur og allar þessar hetjur eiga skilið stærsta stallinn. En það verður seint saumuð skikkja á ríkisstjórnir þessa lands sem allar hafa brugðist í þessum efnum. Allir sem einhvern tímann hafa setið í ríkisstjórn hafa brugðist. Það breytir engu þó einhverjir þeirra séu í dag í stjórnarandstöðunni, þeir brugðust líka. Það mætti sannarlega í allri þessari umræðu um kynjakvóta, fara að ræða það hvort ekki sé þörf á svokölluðum „landsbyggðarkvóta“ inn á Alþingi. Eða hreinlega færa æðsta þing okkar Íslendinga út á landsbyggðina. Ætli það myndi þá rifjast oftar upp fyrir þingmönnum og þingkonum hvar þau búa? Ágústa Ágústsdóttir sauðfjár- og ferðaþjónustubóndi á NA-landi Ágústa Ágústsdóttir. Það var ekki minns! Það var hinns! Allir sem einhvern tímann hafa setið í ríkisstjórn hafa brugðist. Það breytir engu þótt einhverjir þeirra séu í dag í stjórnarandstöðunni, þeir brugðust líka. Hvað er í lagi við það að skilja fólk eftir algjörlega bjargarlaust í brjáluðu veðri án nokkurs möguleika á samskiptum við umheiminn? Þetta fólk er kannski með möguleika á að bjarga sér í nokkra klukkutíma, en hvað ef húsið hefur fokið ofan af því? Hvað ef það er lífshættulega slasað? Hvað ef það getur ekki einu sinni látið nágranna sinn vita af sér?

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.