Spássían - 2011, Page 17
17
þjóðernishyggju annars vegar og ættjarðarást hins vegar“ og
leitar nýrra skilgreininga á tengslum okkar „við móðurjörðina
í framtíðinni“. Hún stingur upp á orðinu „fósturjarðarást“ til
að „skýra tengslin við landið þar sem maður batt naflastreng
sinn“. Einkennandi „fyrir þroskaða ást sé skilningur á heildinni,
á heildaráhrifum allra gjörða“ og „hollustan við fósturjörðina
geti ekki slitnað úr tengslum við heild alls sem er“ (147-148).
Orð Oddnýjar Eirar undirstrika að það getur verið
nauðsynlegt að líta reglulega upp úr naflaskoðuninni og á
stærra samhengið. Ríkisfang: Ekkert, ein mikilvægasta bókin
sem kom út árið 2011, fær einmitt lesendur til að takast á við
spurningar á borð við hvað það merkir að vera Íslendingur og
hvað það merkir að tilheyra mannkyninu. Þá staðreynd að við
njótum forréttinda og erum sem þjóð treg til að veita öðrum
hlutskipti í þeim.
Í Ríkisfang: Ekkert segir Sigríður Víðis Jónsdóttir sögu átta
palestínskra flóttakvenna sem fengu hæli á Akranesi haustið
2008. Um leið fræðir hún og upplýsir; lýsir aðstæðum eftir
innrásina í Írak og í flóttamannabúðum á ljóslifandi hátt, rekur
sögu Íraks og Palestínu undanfarin 100 ár eða svo, og setur þá
atburði í samhengi við Ísland. Flestir eiga erfitt með að henda
reiður á öllu því sem gengið hefur á í Palestínu, og fréttamiðlar
færa okkur aðeins brotakenndar og ruglingslegar fréttir.
Sigríði tekst hins vegar að lýsa því þannig að lesandi stendur
fróðari á eftir. Þótt efnið sé sannsögulegt og ekki skáldskapur
tekst henni að spinna þéttan og spennandi söguþráð og skapa
nánd við persónurnar sem fjallað er um. Þannig kemur hún í
veg fyrir að þetta verði aðeins enn ein frásögnin af fjarlægum
hörmungum sem snerta okkur ekki persónulega. Ríkisfang:
Ekkert kveikir í réttlætiskenndinni; vekur upp reiði yfir óréttlátu
kerfi og sorg vegna afleiðinganna en einnig löngun til að
breyta því. En hver er rétta leiðin?
HVAÐ NÆST?
Flestar bækurnar sem nefndar hafa verið leita svara í
fortíðinni – hvert það sem á undan er gengið muni leiða okkur.
Í bókinni Bónusstelpan eftir Rögnu Sigurðardóttur er þó einnig
litið til kynslóðarinnar sem tekur nú við – og framtíðarsýnin
verður fyrir vikið bjartari en víða annars staðar. Bónusstelpan
fjallar um nokkrar manneskjur í
hverfi sem er „óskilgreint þorp
miðja vegu milli Garðabæjar
og Hafnarfjarðar“, með litlum
fyrirtækjum, smáverslunum og
íbúum sem hafa holað sér niður
hér og hvar. „Í miðjunni, eins og feit
könguló í vef, var Bónus með bleika
grísi blaktandi við hún“ (7). Ragna
dregur upp skýrar myndir af
persónum sínum, færir okkur nær
þeim sem okkur hættir til að dæma
of fljótt og bendir á að öll eigum
við okkar djöfla að draga. Styrkur
bókarinnar er þó fyrst og fremst
áhugaverð hugmynd sem unnið er
skemmtilega úr og þótt frásögnin
sé leidd til lykta vekur hún ýmsar
spurningar sem sitja áfram í
hugskoti lesandans eftir lestur.
Aðalsöguhetjan er Diljá, 22
ára listnemi sem ákveður að lokaverkefni hennar verði að
vinna á kassa í Bónus í þrjár vikur. Tilgangurinn er óljós,
skilaboðin aðeins gjörningurinn sjálfur: „Ekkert kjaftæði,
engar málalengingar, bara framkvæmd. Nákvæmlega eins
og hún vildi“ (7). Diljá er jafngömul fyrstu Bónusbúðinni og
af neyslukynslóð sem hefur aldrei þekkt neitt annað en það
markaðsvædda umhverfi sem umkringir okkur. Efnahagshrunið
snertir hana ekki persónulega þótt hún sjái afleiðingar þess hér
og þar. Fyrir hana er það spennandi leikur að vinna á kassa í
Bónus og þegar gjörningurinn tekur óvænta stefnu og út kvisast
að hún geti gert kraftaverk á kassanum lítur hún á það sem
hluta af leiknum. Skeytingarlaus um afleiðingarnar, eins og
ungu fólki er tamt, lætur hún berast með straumnum þar til hún
rekur sig á – og uppgötvar að ef til vill eiga „kraftaverkin“
sér rætur í persónu sem er að mörgu leyti fulltrúi eldri tíma.
Ragna áréttar þannig að þótt við sækjum meira til fortíðar
en við gerum okkur grein fyrir, þurfi hver kynslóð að gera
sín eigin mistök. Og um leið færa nýjar kynslóðir okkur nýja
sýn. Þótt gjörningur Diljár leiði af sér biturð og vonbrigði hjá
sumum glæðir hún von hjá öðrum og gefur nýjan kraft. Rétta
svarið er ekki alltaf að finna í baksýnisspeglinum – stundum
þarf að þora að taka stökkið út í óvissuna.
KÆRULEYSI, HÚMOR OG HUGREKKI
Stefán Pálsson hefur lýst þeirri skoðun að „bankahrunsbækur“
skrifaðar „í óreiðunni miðri“ séu „í vonlítilli stöðu til að greina á
milli aðal- og aukaatriða“.3 Þótt hann hafi ekki verið að fjalla
Ragna Sigurðardóttir.
Bónusstelpan. Mál og
menning. 2011.
Flestar bækurnar sem nefndar hafa
verið leita svara í fortíðinni – hvert
það sem á undan er gengið muni
leiða okkur. Í bókinni Bónusstelpan eftir
Rögnu Sigurðardóttur er þó einnig litið
til kynslóðarinnar sem tekur nú við –
og framtíðarsýnin verður fyrir vikið
bjartari en víða annars staðar.