Spássían - 2011, Qupperneq 18

Spássían - 2011, Qupperneq 18
 18 um skáldskap segir það sína sögu að bókin sem hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2009 var Bankster, nokkuð hrá lýsing á fyrstu viðbrögðum við hruninu; vantrú, ringulreið og doða. Þar var á ferð tilraun til að takast á við samtímaatburði sem voru enn að þróast og flestir áttu svo erfitt með að trúa að það virtist ófært að prjóna eitthvað við þá eða túlka. Stefán Pálsson telur reyndar að fyrstu „hrunsbækurnar“ muni eldast illa, þær séu dægurbókmenntir, hraðsoðin uppflettirit, en þegar á líði megi vænta frásagna „sem eru greinandi og útskýrandi, en eiga minna skylt við skýrslugerð“.4 Sú krafa verður æ ríkari í skáldskapnum og er greinilegt á jólabókum ársins 2011 að höfundar leggja nú áherslu á að koma með nýja sýn á það sem gerst hefur í íslensku samfélagi undanfarin ár og setja það í almennara samhengi. „Og hver er þá boðskapur ævintýrisins?“ gætum við spurt eins og sögumaðurinn í Allt með kossi vekur í lok frásagnar sinnar. „Bara þessi venjulegi? Að heimurinn sé spilltur og hættulegur staður en við þurfum samt ekki að láta undan sundrungunni? Að til þess að lifa af þurfum við ekki nema mátulegan skammt af kæruleysi, en til þess að lifa (og deyja) af heilindum verðum við að vera hugrökk og láta okkur hag annarra varða?“ (340-341) Það hljómar nokkuð vel, en við það má líka bæta fyrri ummælum þessa sama sögumanns, um að húmorinn sé „hækjan sem við höktum á gegnum lífið“ (152). Við þurfum svo sannarlega á slatta af honum að halda ef marka má þessi skáldverk ársins, því við erum greinilega enn stödd „í óreiðunni miðri“. En þar gerast líka hlutirnir og þaðan hafa sprottið fjölmörg sterk verk þetta árið. 1 Sjá t.d. „Spáð í framtíð karlmennskunnar“, Spássían, sumar 2010, 28-29. 2 Geir Þ. Þórarinsson, „Hvað er siðrof?“, Vísindavefurinn 11. desember 2009, sótt 21. nóvember 2011 af http://visindavefur.is/?id=54215. 3 Stefán Pálsson, „Rýnt í rústirnar“, Tímarit Máls og menningar, 1, 2010, 99. 4 Sama rit, 100. Geislalæknirinn Martin Montag er vel stæður, farsæll í starfi og ástfanginn af kærustunni sinni. Dag nokkurn fær hann sjúkling inn á stofuna til sín sem rótar upp skelfilegum bernskuminningum og skyndilega er tilvera Martins í upplausn. Æxlið í vélinda sjúklingsins er í laginu eins og eldrautt jójó og minnir á jójóið sem sá hinn sami notaði til að tæla til sín lítinn dreng áratugum áður. Sögusvið Jójós, nýjustu skáldsögu Steinunnar Sigurðardóttur, er Berlín og söguefnið er afleiðingar kynferðisofbeldis á sjálfsmynd og líf þolandans. Sögumaðurinn er læknirinn Martin Montag og sagan gerist á einum sólarhring, frá og með þeirri stund þegar sjúklingurinn kemur inn á læknastofuna. Á nútíðarsviðinu segir frá líðan og gerðum Martins þennan sólarhring en hann lítur einnig til baka og segir frá minningum og samskiptum við sína nánustu. Eftir því sem líður á frásögnina kemur betur í ljós hvers kyns ofbeldi Martin varð fyrir og hverjar afleiðingarnar hafa verið. Brengluð sjálfsmynd hans birtist til dæmis í því hvernig hann lýsir sjálfum sér sem vélmenni, en hann er þjakaður af samviskubiti yfir að geta ekki verið hreinskilinn við kærustuna Petru og elskað hana eins og hún á skilið. Hann hefur lítil sem engin samskipti við foreldra sína sökum bernskuáfallsins, en þess í stað hefur hann skapað sér ímyndaða fjölskyldu í hugarheimi sínum. Síðast en ekki síst sóttu sjálfsmorðshugsanir stíft á hann í bernsku og þær vakna upp aftur þegar hann mætir fortíðarmartröð sinni á læknastofunni. Klofin sjálfsmynd Martins birtist einnig í sjálfri frásagnaraðferðinni og á táknrænan hátt í nöfnum ýmissa aukapersóna. Hann segir yfirleitt frá í 1. persónu, en stundum kemur fyrir að hann skipti yfir í 3. persónu og tali um sjálfan sig sem Martin. Þessi umskipti virðast ekki fylgja neinum reglum en rugla lesandann í ríminu og gefa til kynna það sem Martin segir sjálfur: hann er aðeins hálfur maður að því leyti að sjálfsmynd hans er í molum. Enn eykst ruglingurinn þegar í ljós kemur að besti vinur hans heitir líka Martin. Þeir eru afar nánir, jafngamlir og eiga nógu margt sameiginlegt til að geta talist tvífarar, líkt og raunar sögumaðurinn og bernskuvinurinn Mikki sem hann rennur saman við í ímyndunarheimi sínum. Auk þess bera báðar mikilvægustu kvenpersónurnar í lífi sögumannsins sama nafn, kærastan Petra og æskuvinkonan Petra. Jójó er því full af tvíförum og persónum sem kallast á og túlka mætti sem birtingarmynd hinnar löskuðu sjálfsmyndar Martins sögumanns. Ég hélt við upphaf lestrar að í Jójói yrði kastljósinu aðallega beint að siðferðislegum spurningum sem óhjákvæmilega vakna þegar læknir fær ofbeldismann sinn til meðferðar, þ.e. hvort hann eigi að hefna sín eða sinna læknisskyldum sínum. Svo er þó í raun ekki og sagan er langt frá því að minna á læknasápur á borð við Grey’s Anatomy og Bráðavaktina. Jójó er spennandi og vönduð skáldsaga, persónusköpunin er djúp og sannfærandi, og tvífararnir og hinar fjölmörgu hliðstæður innan verksins bjóða upp á ýmsa túlkunarmöguleika. Margslungnar afleiðingar kynferðisofbeldis eru dregnar fram og einnig birtar í frásagnarhættinum en engar töfralausnir eru í boði. Sögulokin eru opin og dapurleg en þó á vissan hátt falleg, því þrátt fyrir allar martraðir lífsins er vináttan ljósið í myrkrinu og það finnast mér falleg skilaboð. GAGNRÝNI Eftir Ástu Kristínu Benediktsdóttur Hálfur maður Steinunn Sigurðardóttir. Jójó. Bjartur. 2011.

x

Spássían

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.