Spássían - 2011, Qupperneq 20

Spássían - 2011, Qupperneq 20
 20 ljóðin hennar alvarlega, en ég þekkti náttúrulega allar bækurnar hennar fyrir. Því við þekktumst vel.“ Tilvísanirnar breyttust nefnilega ekkert þótt sagan sjálf tæki alls konar sporðaköst og færi í lygilegustu hringi. (Trúir þú á töfra?, 31) „Það tók ellefu ár en það varð mín gæfa að ég gat klárað þessa bók. Ég var búin að skrifa grunninn að henni mjög snemma. En alltaf kom þetta galna píp: „Þetta er ekki rétt aðferð“. Þótt ég hafi verið búin að velta frásögninni fram og til baka. Það eina sem var alltaf á hreinu voru tilvísanirnar. Ég var búin að nota allar aðferðir sem ég held að sé hægt að nota til að segja sögu þangað til ég datt inn á að nota sömu aðferð og ég hef yfirleitt alltaf notað - en það er bara af því mér finnst svo skemmtilegt að nota fyrstu persónu frásögn.“ Sagan er því sögð frá sjónarhóli barnsins, ungu stúlkunnar Nínu Bjarkar sem er smám saman að uppgötva lögmál heimsins sem hún býr í og finna leiðir til að kljást við þann veruleika að undir sléttu og felldu yfirborði býr ógn og blóðug leyndarmál. Lesandinn og stúlkan fylgjast að í þessum uppgötvunum, gægjast á glugga, liggja á hleri og hnýsast í forboðnar bækur. Barnslegt sakleysið gerir stúlkuna stikkfrí, að minnsta kosti um stund, og gefur henni meira frelsi en öðrum. En smám saman verður henni ljóst að henni er ætlað hlutverk sem samrýmist kannski ekki áætlunum þeirra sem öllu ráða; hún ætlar að mála rauða ketti á múra þorpsins og segja þannig sögu sína og allra hinna þorpsbúanna. Sem er sama mótíf og Vigdís lagðist í að mála þegar hún fékk ritstíflu og komst ekki lengra með söguna. Hluti þeirra málverka var á sýningu í Gerðubergi þegar viðtalið var tekið en þrátt fyrir það þöktu enn myndir af rauðum köttum næstum hvern auðan blett í stofunni heima hjá henni og báru viðureigninni við frásögnina þögult vitni. „Ég hélt að ég myndi aldrei fá svona ritstopp. Ég bara gat ekkert, ekki neitt. En ég sagði: „Ég gefst ekki upp, ég get það ekki. Það er bara ekki í mínu eðli. Og ég elska þessa frásögn sem ég er að reyna að koma frá mér.“ En ég varð að gera eitthvað. Hvað gerir kona í neyð? Svo ég ákvað að kanna hvort ég gæti ekki nálgast aftur þennan heim með því að fara að mála eins og stelpan. Þótt hún sé góður málari en ég bara amatör. Ég málaði og málaði og þegar ég spurði: „Er þetta nóg?“ var svarið alltaf: „Nei þetta er ekki nóg, þú verður að mála aðeins meira.“ Ég á alltaf dálítið geggjað samband við persónurnar mínar. Svo tókst þetta loksins. Þegar ég var búin að reyna í tvö og hálft ár. En þetta var langt hlé. Þetta var skrítið og ég vona að ég lendi aldrei í þessu aftur - en þetta var samt afskaplega gaman. Málverkin voru mín leið til að komast aftur inn í orðið.“ AÐ ELSKA OG BRJÓTA HEFÐINA Ég sit á bókasafninu allan liðlangan daginn og þegar ég er rétt að byrja að kynna mér safnkostinn og það er liðið á kvöldið, ljósin í bænum stillt á rökkur, rekst ég óvænt á bókina Höfuð konunnar eftir Ingibjörgu Haraldsdóttur. Hún liggur innst í hillu á bak við innbundið ritsafn í tveimur þykkum bindum eftir Þorgils gjallanda sem ég var að blaða í til að finna eitthvað um lok þarsíðustu aldar. (Trúir þú á töfra?, 82) Þótt inn á milli megi finna ljóðlínur eftir karla sem Vigdísi þykir greinilega vænt um, til dæmis Þorstein frá Hamri og Jóhannes úr Kötlum, er Trúir þú á töfra? að miklu leyti um kvenlega ljóðahefð. Vigdís bendir á að skáldkonur þurfi að hafa sterka rödd og finna sína eigin leið. „Þær eru alltaf að berjast við hefð sem er svo sterk. Ekki kannski berjast við hana, því auðvitað elskum við hana og verðum að þekkja hana til að geta brotið hana. Annars vitum við ekki hverju við ætlum að breyta; við erum bara óánægðar. En við verðum alltaf að reyna að brjóta það sem við elskum. Af því að það er ekki okkar hefð. Og við eigum enn langt í land. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að þegar einhver kemur mjög seint inn í hefð sem er jafn gömul og íslenska bókmenntahefðin, eins og konur gera, tekur það sinn tíma. Maður þarf endalaust að sitja við sinn keip. Án þess að það sé í því fólgin nokkur fyrirlitning eða að maður þurfi að gera betur. Maður fer bara aðra leið að markinu, án þess að það þurfi að kalla til einhverjar Júlíur Kristevur eða nokkra aðra. Þetta hefur ekki með neina –isma að gera. Þú verður að takast á við hefðina, kunna hana og finna þína leið. Mér sýnist nú á konunum sem eru að skrifa að þær séu allar að gera það. Og mér dettur ekki til hugar að halda að það sé ómeðvitað. Þegar ég var ung var ég stundum spurð hvort ég gerði hitt og þetta meðvitað. Mér fannst það svona svipuð spurning og þegar spurt var: „Hvernig er að vera kona og skrifa bækur?“ Ég hef aldrei verið karl. Hvernig á ég að svara þessu? Ég hef ekki þennan samanburð. En það er skemmtilegt að vera kona og það er enginn táradalur að vera svona gæfusamur að vinna við það sem maður elskar. Það er best í heimi. Þó það sé margt annað sem maður er ekki sáttur við í heiminum.“ Allt er þetta þó að lokum spurning um það hvernig lesendur nálgast verkin, bendir Vigdís á. „Við erum svo hólfuð. Einn höfund les ég svona og annan hinsegin. Best er ef maður veit ekkert um helvítis höfundinn. Í einhverri stefnunni, nýrýni minnir mig, átti höfundurinn ekki að skipta neinu máli og ég held að það gæti verið svolítið gaman.“ Hún segist þó skilja vel að fólk hafi ákveðnar væntingar til hennar nú sem höfundar. „Ég býst sjálf við ákveðnum hlutum frá til dæmis Jóni Kalmani. Ef hann hefði nú farið að snúa einhverja bölvaða dellu upp á frásögnina hjá sér í nýjustu bókinni sinni hefði ég orðið voða sár. Mér finnst hann yndislega ljóðrænn og ég er ánægð með að finna kvenleika í hans bókmenntum, mér finnst það svo fallegt. Ég finn þetta líka í sumum bókum eftir Böðvar Guðmundsson, ljóðunum til dæmis, og jafnvel hjá Hallgrími Helgasyni. Svo finnst mér bara ánægjulegt að fólk skuli standa við sitt. Ég myndi aldrei segja það um Einar Kárason til dæmis, að þar væri einhver kvenleg ljóðræna á ferð. Hann er sögumaður par excellence og sú hefð mótaði hann. Mér finnst það líka jákvætt. Bara að það sé þá algjörlega komið á hreint,“ segir Vigdís og slær ákveðin með vísifingri í borðið, „að hin kvenlega ljóðræna er góð. Og þeir sem hafa hana eru góður hópur. Hún er ekki eitthvað sem neinn þarf að skammast sín fyrir eins og í den. Hún er eftirsóknarvert afl, í pólitík, í bókmenntum og í lífinu.“ Áður fyrr lögðu ritdómarar oft mikið upp úr því að skilgreina ljóð kvenna sem kvenleg og notuðu þá orð eins og „lipurt“ og „létt“ og „leikandi“ til að undirstrika hversu ólík þau væru karlmannlegum ljóðum sem ætíð voru talin meira virði. Vigdís telur þó ekki að það þurfi að vera varhugavert að greina á milli karllegra og kvenlegra eiginleika í skáldskap. „Þarna voru þessi orð notuð til að tala niður. En við verðum að halda merkingunni eins og hún er. Hætta alveg að tala niður. Hið karllega og kvenlega er ólíkt. Og það er bara gott og það á að vera jafnvirkt. En það er ekki gott ef ég til dæmis hrósa Guðmundi Andra fyrir fallegustu kaflana í bókum hans, því þar renni áfram kvenleg ljóðrænan, og fólk heldur að það sé einhver sneið. Breytum því. Ég get ekki hugsað mér að segja neitt fallegra um bók.“ En hvað er þá kvenleg ljóðræna? „Ja – ég get eiginlega fundið lyktina af henni. Ég get ekki sagt þér það beinlínis í orðum. Ég gæti hugsanlega

x

Spássían

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.