Spássían - 2011, Qupperneq 33
33
Tvær blóðugar
barnabækur
kanínueyru og síðast en ekki síst: fullt, fullt af blóðugum
kanínum að berjast með kjafti og klóm.
Í veröld Richard Adams eru kanínur nefnilega engin
krútt – eða öllu heldur, bara stundum krútt. Þótt þær séu
manngerðar og ævintýralegar, eru þær víðs fjarri hugljúfu
kanínunum hennar Beatrix Potter, svo nærtækt dæmi sé tekið
úr enskum barnabókmenntum. YouTube-myndbandið er fullt
af athugasemdum þar sem áhorfendur rifja upp martraðir
tengdar því að hafa séð Watership Down sem börn og segjast
ekki geta litið kanínur sömu augum eftir þá reynslu. Að vissu
leyti skil ég ekki hvernig kvikmyndaaðlögunin hlaut jafnmikla
útbreiðslu og raun ber vitni, en ég fagna því að svo hafi
farið. Ég tel það lofsvert að líta á verkið sem aðgengilegt
öllum aldurshópum og tek þannig undir umfjöllun DB um
myndina hvað það varðar, þótt margir séu því ósammála.
Mögulega var kvikmyndaheimurinn opnari fyrir því að sýna
dýrslegt ofbeldi í barnamynd fyrir þrjátíu árum. Mögulega
var ekki verið að fylgjast jafn grannt með barnamenningunni
og dauðhreinsa allt sem gæti túlkast sem vafasamt. Það er
ágætis hugarleikfimi að ímynda sér hvernig samtímaútgáfa
af skáldsögu Adams myndi líta út. Mig grunar að nú á dögum
fengi slík mynd harðari stimpil en „öllum leyfð” og myndi að
minnsta kosti vekja upp harðsvíruð mótmæli, ef hún yrði þá
gerð á annað borð.
Sannarlega á óþarfa ofbeldi ekki heima í mynd sem er ætluð
börnum, en það sem undanskilur blóðugu kanínurnar hans
Richard Adams er að sagan um þær byggir á raunverulegri,
dýrafræðilegri hegðun tegundarinnar. Höfundurinn eyddi
miklum tíma í að kynna sér hegðun og atferli dýrsins og
umgjörðin byggir sterklega á tímamótaverkinu The Private
Life of the Rabbit (1964) eftir náttúrufræðinginn Ronald
Lockley, sem svipti hulunni af neðanjarðartilveru kanínunnar
og sýndi m.a. fram á stéttaskiptingu og ofbeldisverk tengd
baráttu um landsvæði. Þannig lagði Adams grunninn að
sögunni með hreinni dýrafræði, en byggði ofan á hann með
ævintýralegum söguþræði sem sækir m.a. í reynslu hans úr
seinni heimsstyrjöld. Útkoman er saga sem virkar bæði sem
allegorísk og dýrafræðileg fantasía.3 Þess vegna er ekki hægt
að líta framhjá því að hegðun kanínunnar sem tætir sundur
eyru óvinar síns er rótuð í raunveruleikanum og þess vegna
er Watership Down ekki hefðbundin fjölskylduskemmtun. Hún
neitar að smækka dýrið niður í einfalt og afskræmt skrípi sem
fullorðnir ímynda sér að börn eigi auðveldara með að kyngja,
heldur gerir dýrið að flókinni og heilsteyptri veru, sem er bæði
ljót og falleg og vond og góð. Sagan er óhefðbundin vegna
þess að hún færir dýrið nær raunveruleikanum, þar sem
flestar dýrasögur barnabókmenntanna snúast um að færa
það nær mannfólkinu og skrumskæla alvöru dýrið sem týnist
einhvers staðar að baki eftirmyndinni. Þegar áhorfendur skrá
sig svo inn á YouTube og segjast ekki geta séð kanínur í sama
ljósi eftir að hafa séð Watership Down sem barn, þá ber ekki
að harma það – þeir eru að sjá kanínur í mun sanngjarnara
ljósi en aðeins sem yfirborðslega ímynd krúttlegra dýra sem
skoppa um að leik í grasinu, eða sitja þæg og tamin í búrum,
eða ganga um í fínum fötum og stelast inn í kálgarð herra
McGregors.
GLEYMDIR HUNDAR
Fyrir utan hrottaskap náttúrunnar sem endurspeglast svo
skýrlega í verkum Adams, þá eru voðaverk mannfólksins
heldur aldrei langt undan. Adams veltir upp sjónarhorni
kanínunnar í Watership Down og þótt ofbeldi og útrýming
á vegum mannsins sé ekki í aðalhlutverki, þá rammar það
bókina inn og er aldrei fjarri. Ofsóknir mannfólksins gegn
kanínunum eru þó smámunir miðað við þær pyntingar sem
hundarnir þurfa að þola í meistaraverki Adams: The Plague
Dogs. Sú bók hefur svo gott sem horfið algjörlega af radar
barnaefnis, enda er erfitt að gera upp á milli þess hvort bókin
eigi heima innan barnamenningar eða í veröld fullorðinna.
Kannski er þetta heimilisleysi einmitt ástæðan fyrir því að hún
hefur ekki náð að lifa af. Í Watership Down var ævintýrið í
aðalhlutverki og kúgun mannfólks aðeins aukaefni, en hér er
ofbeldi og viðbjóður mannsins í algjöru fyrirrúmi. Tveir hundar
hjálpast að við að sleppa út af tilraunastöð, þar sem þeir
hafa mátt þola hræðilegar tilraunir í nafni vísinda og fylgjast
með alls kyns öðrum dýrum lenda á hrottalegu fórnaraltari
mannfólksins. Þeir komast út í stóra heiminn, en kunna varla
að lifa af lengur, þrátt fyrir óljósar minningar um líf fyrir utan
tilraunastofuna. Nú þurfa þeir að lifa villtir í heimi sem þeir
hafa gleymt. Annar hundurinn er hreint og beint vanheill á
geði eftir upplifunina, með hálfopna höfuðkúpu sem hefur
verið saumuð saman, í eilífri leit að nýjum húsbónda, en hinn
er niðurbrotinn hundur með djúpstætt hatur og vantraust á
gervöllu mannkyninu. Allar tilraunirnar sem lýst er í bókinni
byggja á raunverulegum tilraunum á dýrum sem Adams kynnti
sér. Viðbót hans er að veita dýrunum samúð lesandans með
því að smíða söguþráð og ævintýri í kringum hundana tvo og
gefa okkur innsýn í hugarheim þeirra með vægum skammti af
manngervingu.
En bókin er ljót, miklu ljótari en Watership Down í sínum versta
ham, enda söguefnið margfalt hryllilegra en það sem náttúran
getur kokkað upp. Engu að síður var einnig gerð teiknimynd
eftir The Plague Dogs árið 1982 og á YouTube má líka finna
slatta af myndbrotum þar sem ofbeldinu er ýmist hampað
eða það ávítað (þar er m.a. að finna mögulega grófustu
senu úr heimi barnamynda, þar sem einum hundinum verður
á að stíga á byssugikk og skjóta veiðimann í höfuðið). Bókin
er í raun svo myrk og hrottaleg á köflum að það er eiginlega
ótrúlegt að hún hafi verið markaðssett sem barnabók. Það
Watership Down er ekki hefðbundin
fjölskylduskemmtun. Hún neitar
að smækka dýrið niður í einfalt
og afskræmt skrípi sem fullorðnir
ímynda sér að börn eigi auðveldara
með að kyngja, heldur gerir dýrið að
flókinni og heilsteyptri veru, sem er
bæði ljót og falleg og vond og góð.