Spássían - 2011, Side 37

Spássían - 2011, Side 37
37 SAGAN „Andvaka“ eftir hinn kornunga Magnús Sigurðsson (Hálmstráin, 2008) fjallar um hvatir ungs pars. Því er lýst hvernig sögumaðurinn fær ástkonu sína til munnmaka og „bakdyramaka“ (9) en hneigð hans til hins síðarnefnda þykir honum nokkuð skammarleg. Sögumaður verður andvaka yfir þessum hneigðum sínum og veltir m.a. fyrir sér tengslum þeirra við klámsögur Vitu Andersen sem hann stalst til að lesa í æsku. Meira gerist í sjálfu sér ekki í sögunni en það eru fleiri kraftar að verki í henni, svo sem spurningin um mörk eðlilegra og óeðlilegra kynmaka sem virðist valda sögumanni nokkrum óróleika. Í textanum er líka sérstakur seiður sem flytur lesandann á óræðan stað í vitundinni og um leið fær hann á tilfinninguna að ef til vill sé eitthvað stærra og meira til umfjöllunar en í fyrstu mætti ætla. Fumlaus tök svo ungs höfundar á máli og stíl vekja sérstaka athygli. SAGAN „Þjóðvegur eitt“ eftir Siglín Bjarneyju Gísladóttur (Svuntustrengur 2009) er um atvinnubílstjóra sem segist vera „svanur í álögum fitukepps“ (63). Hann þolir ekki „langskólagengnar jússur“ og ekki heldur „miðaldra, feitar jússur. Nýkomnar af sjálfsstyrkingarnámskeiði“ (55). Hann er sem sagt haldinn mikilli kvenfyrirlitningu sem mann grunar að sé í rauninni yfirfærsla á sjálfshatri, því í útliti svipar honum mjög til kvennanna sem hann fyrirlítur, auk þess sem honum veitti sjálfsagt ekkert af sjálfsstyrkingarnámskeiði. Höfundur fellur ekki í þá gryfju að draga upp einhliða mynd af manninum heldur færir okkur líka nokkrar svipmyndir frá æskuárum hans sem skýra að einhverju leyti reiðina í garð kvenna. Þar má sjá viðkvæman sveimhuga sem var rassskelltur ótæpilega af geðvondri móður og kúgaður af hinum krökkunum. Hann verður upptekinn af hörku, telur hana bjarga lífi sínu, en um leið er ýjað að því að undir hinni hörðu skel búi viðkvæm sál: „Það er einhver mjúkur kjarni lengst inni í harðri skelinni sem segir mér að kannski væri gaman að vera kona“ (57). Það kemur svo vel á vondan að þegar hann tekur puttaling upp í er það kona sem segist hata karldurga. Af ofansögðu er ljóst að maðurinn sem ekur þarna eftir þjóðvegi eitt, mitt á meðal okkar, er ekki einföld manneskja þó að hann sé í aðra röndina staðlaður kvenhatari. Í djúpum sögunnar leynast atriði sem grafa undan hans eigin hugmyndum um karlmennsku og sýna að harka hans er í rauninni dulbúinn veikleiki, kvenfyrirlitningin dulbúin sjálfsfyrirlitning. Undir niðri skynjar maður líka vissan harm og fær því svolitla samúð með þessum ógeðfellda manni.

x

Spássían

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.