Spássían - 2011, Qupperneq 38

Spássían - 2011, Qupperneq 38
 38 „KAUÐI“ eftir Þórarin Eldjárn birtist í bókinni Alltaf sama sagan (2009). Sögumaður segir frá náunga sem hefur verið á vappi í hverfinu hans árum saman. Hann veit lítið sem ekkert um manninn en gerir sér eigi að síður ýmsar hugmyndir um hann. Ástæða þess að sögumaður tekur eftir manninum yfirleitt er sú að frá fyrstu tíð hefur hann „verið handviss um að þessi maður væri kauði“ (12). Hann fer síðan út í orðabókarskýringar en gerir ekkert til þess að kynnast manninum. Það kemur því illa við sögumann þegar kauði tekur sig til og deyr. Í minningargreinum kemur fram að hann hafði verið farsæll, átt vel lukkuð börn og „lifað fjölbreytilegu og innihaldsríku lífi“ (16) þótt sögumanni virtist annað. Þar að auki reynist hann hafa haft tengsl við eitt af rannsóknarefnum sögumanns, bjó meira að segja yfir vitneskju sem hefði nýst sögumanni vel við ritun bókar sem hann vinnur að. Niðurstaðan er sem sé sú að maðurinn hafi alls ekki verið neinn kauði enda strokar sögumaður orðið út úr orðaforða sínum og segist ekki skilja það lengur. Þessi einfalda saga ber ýmis höfundareinkenni Þórarins, er sögð í fyrstu persónu af ísmeygilegum og sjálfsíronískum sögumanni og fjallar um furður mannlegs lífs á spaugilegan máta. En bak við furðuna leynist beitt ádeila á það hvernig við vegum og metum samferðafólk okkar og komumst iðulega að niðurstöðu sem ekki á við rök að styðjast. Það truflar óneitanlega samskipti manna og hefur þar af leiðandi áhrif á samfélagsgerðina. „KYRRT VATN“ eftir Gyrði Elíasson (Milli trjánna 2009) fjallar um flutningabílstjóra sem er á ferð í myrkri og hálku. Það er heiðskírt og tunglsljós sem lýsir „drungalega upp hvít fjöllin til beggja hliða“ (137). Fljótlega fer bílstjórinn að heyra kassa renna til aftur í bílnum og vakna þá grunsemdir um að ekki sé allt með felldu og að til tíðinda geti dregið. Þessi forboði er síðan ítrekaður tvisvar og að lokum dregur til tíðinda eins og lesandinn hefur óttast. Það er undarleg tilfinning að lesa spennusögu eftir Gyrði Elíasson. Ekki laust við að það virðist öfugmæli enda gerast sögur hans iðulega í innviðum sálarinnar og reiða sig lítið á framvindu. Ef endirinn væri óvæntari gæti maður verið staddur í sögu eftir Maupassant eða O’Henry. Gyrðir er reyndar slyngari en svo. Í anda Tsjekhovs og sumra höfundanna sem hann hefur þýtt, býr hann til sérstakt andrúmsloft, nýtir til þess tónlist, kaffi og bjarta stjörnu. Þetta er svo spyrt saman í lok sögunnar: „Það var síðasta hugsunin áður en allt slokknaði, bílljósin á brúnni, stjarnan á himninum“ (141). Sagan er eins konar blossi, rígheldur manni við fyrsta lestur en gerir reyndar minna við endurtekinn lestur því þá er óhugnaðurinn þekktur. Hún felur þó í sér pælingu um stöðu mannsins í alheiminum, smæð hans gagnvart örlögunum og reyndar klisjunum líka, því lífshlaup hans rennur gegnum hugann á slysstað þótt hann minnist þess að hafa lesið að það gerðist ekki. Svo slokknar á honum. BÓK Sigríðar Pétursdóttur, Geislaþræðir (2010), er öll í formi tölvuskeyta. Það er athyglisvert og spennandi en felur um leið í sér ákveðnar áskoranir vegna þeirra takmarkana sem formið setur höfundinum. Sagan „Hrímþoka“ fjallar um konu sem tekur upp á því að skrifa manni úti í bæ. Sá hefur nýverið misst konu sína sem bréfritari segir að hafi trúað sér fyrir leyndarmáli þegar þær sátu saman í flugvél. Hún vilji fyrst kynnast honum áður en hún ljóstri upp leyndarmálinu. Bréfritari dregur hann síðan á upplýsingunum í nokkrar vikur en segir honum loks að Lilju konu hans hafi verið nauðgað af stjúpa hennar, hún hafi orðið ólétt og fætt barnið í Svíþjóð. Eiginmaðurinn hafði aftur á móti staðið í þeirri trú að hún vildi freista þess að styrkja samband þeirra með dvölinni í Svíþjóð. Í kjölfarið hittir hann dóttur konu sinnar í Baltimore og í lokin ákveða bréfritararnir að hittast sem verður að teljast hefðbundinn endir. Það hvernig bréfritari heldur upplýsingum frá ekklinum er tilbrigði við spennusöguna, skemmtilega meðvitað tilbrigði, næstum leikur að því. Gallinn við söguna er að málsniðið vill verða heldur formlegt og þar með ögn tilgerðarlegt þegar gerðar hafa verið ritstjórnarlegar kröfur til textans, og þá fara bréfin að minna á annan tíma þótt skrifuð séu á tölvuöld. Eins hefði mátt nýta raddir bréfritaranna til að skilgreina persónuleika þeirra. Eigi að síður áhugaverð tilraun.

x

Spássían

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.