Spássían - 2011, Síða 41
41
tveggja tíma með sér. Við segjum líka
frá því sem hver og einn er að lesa
hverju sinni. Einhver er kannski enn að
lesa Guðrúnu frá Lundi eða Gyrði -
eða jafnvel kominn á kaf í nýjustu bók
Arnaldar Indriðasonar. Gamlinginn
sem skreið út um gluggann og hvarf
var kominn inn á fund um leið, menn
fóru bara og keyptu bókina og svo
barst hún manna á milli. Markmiðið er
að allir tjái sig og allir hafa rétt á sinni
skoðun hjá okkur. Það er ekkert tabú.
Þér má finnast Þórbergur Þórðarson
ömurlega leiðinlegur. Þá tökum við
bara þá umræðu. Hvort Þórbergur hafi
kannski verið „standup“ maður sinnar
kynslóðar og hvort það þurfi endilega
að lesa verk hans sem upphaf, miðju
og endi. Ef fólk segist ekki lesa neitt
nema sakamála- eða ástarsögur þá
er bara komið tækifæri til að ræða
hinar ýmsu greinar bókmenntanna.
Við reynum sem sagt að kafa dýpra
en í almennum umræðum. Svo er fólk
að skrifa hjá sér hvað kemur fram og
ég bóka lauslega hvað er verið að
ræða. Fundirnir eru aldrei eins en
allir eru alltaf svakalega kátir á eftir.“
Í Hæðargarði starfa margir
hópar, til dæmis magadanshópur,
línudanshópur og hópur sem fæst við
skapandi skrif undir leiðsögn Þórðar
Helgasonar. Bókmenntahópurinn hefur
verið í samvinnu við framsagnarhóp
sem Soffía Jakobsdóttir leikari þjálfar
og farið með þeim í vorferð. Þá er
farið á slóðir skálda sem tekin eru
fyrir og hafa hóparnir m.a. farið á
slóðir Ólafar frá Hlöðum og Skáld-
Rósu í Hörgárdal. Í Landnámssetrinu
í Borgarnesi fluttu þau ljóð eftir
borgfirskar konur en síðasta vor fóru 50
manns í tveggja daga ferð í Reykholt
þar sem farið var með dagskrá úr
ljóðum Vilborgar Dagbjartsdóttur
og Sigurðar Pálssonar og endað á
hátíðakvöldverði þar sem skáldin
sjálf mættu. Allir eru velkomnir með í
þessar ferðir, að taka þátt og njóta
dagskrárinnar.
SKÁLDSAGAN Glæsir eftir Ármann
Jakobsson er óvenjuleg saga, sögð frá
óvenjulegu sjónarhorni. Í fyrsta lagi
hefur ekki mikið verið gert af því að
skrifa 1. persónu skáldsögur þar sem
sögumaðurinn er persóna úr íslenskri fornsögu (nýleg dæmi um
slíkt eru þó Óvinafagnaður og Ofsi Einars Kárasonar). Í öðru
lagi er persónan sem Ármann kýs að gera að sögumanni og
aðalpersónu í skáldsögu sinni engin venjuleg sögualdarhetja,
heldur hinn geðilli ójafnaðarmaður og síðar hin blóðþyrsta
afturganga Þórólfur bægifótur sem sagt er frá í Eyrbyggju.
Það er mikilvægt að geta þess að lesendur þessa skáldverks
þurfa ekki að hafa lesið Eyrbyggju til að skilja hvað um er að
vera. Ármann fylgir söguþræði fornsögunnar nákvæmlega en
segir þó vitanlega aðeins hluta hennar. Bygging skáldsögunnar
er vel heppnuð og til þess fallin að halda lesandanum vakandi
og áhugasömum. Spennan í frásögninni snýst annars vegar
um nautið Glæsi, sem er Þórólfur afturgenginn í annað sinn.
Glæsir segir frá og gerir lesandanum ljóst strax í upphafi að
hann ætli að drepa Þórodd húsbónda sinn af ástæðum sem
koma síðar í ljós. Hins vegar segir Glæsir frá forsögu sinni sem
Þórólfur bægifótur, bæði meðan hann var lifandi og einnig
sem afturganga, og loks því hvernig hann endaði í búki nauts.
Flakkað er á milli nútíðar- og fortíðarsviðs en þau fléttast
saman í lokin þegar forsögunni er lokið, Glæsir sleppur út úr
fjósinu og mætir Þóroddi.
Hið óvenjulega sjónarhorn sögunnar hefur ýmsa kosti.
Þórólfur er jaðarmaður og tjáir sig um galla og vankanta
sögualdarsamfélagsins á Íslandi sem við höfum sjaldan eða
aldrei heyrt áður. Hann gerir grín að fámenninu á Íslandi,
telur landa sína grunnhyggna að mörgu leyti og síðast en
ekki síst er hann gagnrýninn á það vald sem goðarnir hafa
í samfélaginu. Þannig er dregin upp gagnrýnin mynd af
gullaldarsamfélaginu sem er hollt að velta fyrir sér.
Eitt athyglisverðasta viðfangsefni Ármanns í þessu skáldverki
er glíman við að finna útskýringar og sálfræðilegar ástæður
fyrir ofstopafullu hátterni Þórólfs bægifótar. Aðalástæðurnar
eru tvær í útfærslu Ármanns. Annars vegar misnotkun og
ofbeldi sem Þórólfur verður fyrir í bernsku og hins vegar fötlun
hans sem veldur því að hann fær viðurnefnið bægifótur. Hvort
tveggja veldur því að Þórólfur er bitur, einangrast félagslega
og er ófær um að eiga farsæl samskipti við annað fólk.
Þegar hann svo gengur aftur í annað sinn sem nautið Glæsir
endurfæðist hann í fleiri en einum skilningi. Honum er klappað
og hann upplifir nánd og snertingu sem hann kynntist aldrei í
lifanda lífi. Glæsir myndar, gegn vilja sínum, vináttusamband
við húsbóndann Þórodd, sem er einmitt maðurinn sem hann
þarf að drepa til að öðlast frið. Samband Glæsis og Þórodds
í fjósinu er fallegt en margslungið og er aðalspennuvaldurinn
í sögunni, þar sem ekki er ljóst fyrr en á síðustu síðunum hvort
Glæsir fullkomnar ætlunarverk sitt eður ei. Þessi sálfræðilega
nálgun heppnast ágætlega. Lýsingar Þórólfs á ofbeldinu
sem hann varð fyrir í bernsku og tilfinningum hans í kjölfarið
þóttu mér helst til nútímalegar en þær trufluðu þó ekki um of.
Framkoma Þórólfs er ekki fegruð en með því að draga upp
sálfræðilegar ástæður hegðunar hans hefur Ármann skapað
flókna og margþætta persónu sem lesendur geta haft samúð
með - eða ekki.
Sú hugmynd að skrifa skáldsögu frá þessu óvenjulega
sjónarhorni hefði vel getað mistekist í framkvæmd. Svo fór þó
ekki. Niðurstaðan er þrælspennandi og vel skrifuð skáldsaga
og vönduð og áhugaverð persónusköpun. Á heimasíðu
Ármanns kemur fram að hann sé nú þegar byrjaður á nýrri
eintalsskáldsögu um jaðarpersónu úr íslenskri fornsögu, svo
aðdáendur Glæsis hafa til mikils að hlakka.
Hvað býr að baki?
Eftir Ástu Kristínu
Benediktsdóttur
Ármann Jakobsson. Glæsir.
JPV. 2011.
GAGNRÝNI