Spássían - 2011, Side 51
51
kvikmyndamenning í löndum þar sem talsetning ræður ríkjum sé
á einhvern hátt alþjóðlegri eða einkennist frekar af listrænum
kvikmyndum miðað við skjátextalöndin. Markaðssetning og
hágírun („High Concept“) meginstraumsins skipta mestu máli
þegar kemur að vinsældum og þegar öllu er á botninn hvolft
má velta því fyrir sér hvort eðlislægur munur skjátextunar og
talsetningar skipti máli í kvikmyndamenningu sem einkennist af
Hollywoodframleiðslu.
YFIRFÆRSLA
Merkingarbær málnotkun breytist og aðlagast markmálinu í
gegnum þýðingar og stundum verður til merking á markmálinu
sem ekki var að finna í frumtextanum. Tilvitnunin úr The Empire
Strikes Back (Kershner, 1980) hér til hliðar, er ekki bara
dramatísk uppljóstrun milli föður og sonar heldur ávarpa þeir
hvor annan að þýskum sið, Vader þú-ar Luke þar sem Luke er
yngri og að sama skapi þérar Luke Vader. En í næstu mynd,
Return of the Jedi (Marquand, 1983), þú-a þeir hvor annan
enda urðu miklar breytingar á stöðu Luke á milli mynda sem
og afstöðu hans til föður síns. Hinar tvær tilvitnanirnar að
ofan eru hins vegar til vitnis um gildi talsetningar þegar kemur
að tilvitnunum. Kvikmyndatilvitnanir í Þýskalandi eru þekktar
á þýsku og allar þekktustu og eftirminnilegustu tilvitnanir
bandarískrar kvikmyndasögu eru til í þýskum þýðingum og
notaðar í tungumálinu ólíkt því sem tíðkast á Íslandi. Íslendingar
ræða vissulega um erlendar kvikmyndir innan eigin menningar
á íslensku en yfirleitt er þýðingin ekki til umfjöllunar og aldrei
er notast við hana til að nálgast kvikmyndatextann. Skjátextinn
verður næsta ósýnilegur nema þegar talað er um mistök og
galla.
AÐ ÞESSU SKAL HUGA VIÐ TALSETNINGU
Gæta þarf að öllum þáttum talsetningar og er tæknilegt
markmið með þýðingunni eftir sem áður að skapa texta sem
flýtur eðlilega í gegnum myndina, fleytir sögunni áfram og
bjagar ekki heildarásýnd verksins – að halda blekkingunni
gangandi.2 Tilhneigingin virðist þó frekar vera í átt að því að
„með hverri þýddri línu er aðeins meira lofti hleypt úr blöðrunni
sem var einu sinni upprunalegi textinn.“3 Mikilvægi þess að
fylgja tæknilegum þáttum kvikmynda rétt eftir við þýðingar
nýtur yfirleitt forgangs við talsetningu og eru tímasetningar,
orðaval, val á nýjum leikara, hreyfingar leikara miðað við
áherslur í tali, varahreyfingar (sérstaklega í nærmyndum) og
augljósar menningarlegar týpur og skírskotanir meðal þess
sem skoðað er fyrst þegar talsetja á mynd.4
Í þýskum talsetningum eru þó nokkur orð sem krefjast þess
að gæðum þýðingarinnar sé fórnað fyrir varahreyfingar, en
orðið „sir“ sem er notað mikið í bandarískum kvikmyndum er
látið standa eins og það er þar sem það þyrfti að þýða sem
„mein Herr“ á þýsku og þá væru varahreyfingar komnar í
uppnám, bæði vegna lengdar og munnhreyfinga. Einnig er
„dad“/„Vati“ ósamstæða þar sem frumorðið er látið standa.
Í þessu samhengi er áhugavert að skoða sértæk dæmi um
óvenjulega málnotkun sem tæki til persónusköpunar, eins og í
A Clockwork Orange (Kubrick, 1971) þar sem aðalpersónan,
Alex, beitir enskri tungu á mjög frumlegan hátt. Meðal annars
notar hann orðið „gulliver“ yfir hausinn á sér en orðið stendur
óþýtt í þýsku útgáfu myndarinnar. Það sama gildir um „righty
righty right“ sem hann segir einnig mjög oft. Þessi orð eru
illþýðanleg, sem og margt annað sem
Alex og vinir hans segja í myndinni,
enda hluti af Nadsat, slangurmáli
framtíðarinnar innan söguheimsins.
Rökin fyrir því að finna ekki jafngildi
á þýsku fyrir „gulliver“ eru þau að
Nadsat er unnið upp úr rússnesku
og tengist rússneska orðinu
„golova“ sem þýðir haus.
Þó hefði mátt þýska
orðið aðeins betur en
bara sem „gulliver“
með þýskum hreim.5 Að
sleppa því að þýða
„righty righty right“ -runur Alex virðist ákvörðun sem tekin er
af þeirri einföldu ástæðu að ómögulegt er að finna jafngildi
á þýsku sem hefur sömu ógnvekjandi blöndu af árásarhneigð
og jákvæðni. Stanley Kubrick hafði auga með þýðingunni og
sá meðal annars persónulega um að ráða Jörg Pleva til að
taka að sér aðaltalsetningarhlutverkið í myndinni (sem og
reyndar í Shining (1980) og Barry Lyndon (1975)). Það gæti
útskýrt hvers vegna þýðendur gengu ekki lengra í að aðlaga
handritið þýskum málvenjum og raun ber vitni.6
FALDAR BREYTINGAR
Talsetning er oft tengd við þjóðerniskennd og er nokkuð örugg
leið til að koma í veg fyrir að óþægilegar skoðanir komist á
framfæri á vissum málsvæðum. Nornes nefnir að Frakkar hafi
lagt mikla vinnu í að franskvæða erlendar kvikmyndir með
miklum handritabreytingum sem og nafnabreytingum til að fela
uppruna þeirra.7 Franco, einræðisherra á Spáni, var einnig
mjög á móti framhjáhaldi og þurfti því að fela allt slíkt með
breytingum. Beitt skæri ásamt endurvinnslu á efni kvikmyndar
með talsetningu er líklega besta leiðin til ritskoðunar án þess að
tekið sé eftir því. Í Þýskalandi var þessi iðja stunduð mikið eftir
seinna stríð þegar myndir sem aldrei komust í dreifingu þar á
4. áratugnum voru gefnar út. Casablanca (Curtiz) kom fyrst út
árið 1942 en var ekki dreift í þýskumælandi löndum fyrr en
tíu árum síðar. Warner Bros. sá fram á breiðari áhorfendahóp
með því að talsetja myndina, enda venja eftir valdatíð
nasistaflokksins. Einnig var markmiðið að forðast óþægileg
málefni. Því var myndin talsett á þá vegu að nasistarnir urðu
að skandinavískum eiturlyfjasmyglurum og var Strasser majór
nánast alveg klipptur burt.8 Útgáfan er 24 mínútum styttri en sú
upprunalega og Victor Laszlo er ekki lengur austur-evrópskur
uppreisnarmaður heldur norskur kjarneðlisfræðingur, Larssen
að nafni.9 Það var ekki fyrr en árið 1975 að myndin var
endurtalsett af ARD sjónvarpsstöðinni en þar var engu breytt
og frægasta tilvitnun þýskrar talsetningarsögu varð til: „Ich
seh´ dir in die Augen Kleines“ sem er þýðing á „Here´s looking
at you, kid.“
Klaus Sonnenschein
talar fyrir flest hlutverk
Morgan Freeman.
Hann er Danny DeVito,
Bob Hoskins, John
Goodman, Gene
Hackman, Brian Cox,
William Shatner og
margir fleiri.
,,Victor Laszlo er ekki
lengur austur-evrópskur
uppreisnarmaður heldur
norskur kjarneðlisfræðingur,
Larssen að nafni.”