Spássían - 2011, Side 55

Spássían - 2011, Side 55
55 Misfits - eða Utangarðsfólkið - hóf göngu sína í Bretlandi árið 2009 og naut fljótt fádæma vinsælda. Velgengnina má ekki síst rekja til þess að framleiðendur voru naskir á að nýta sér netið til kynningar, sérstaklega samskiptasíðurnar þar sem samhliða söguþráður átti sér stað um leið og þættirnir voru sendir út. Jafnframt er sótt í ríka myndasöguhefð um ofurhetjur sem skilar sér í myndrænum stíl. Um þessar mundir er verið að sýna þriðju seríuna en hver sería samanstendur af sex til sjö þáttum. Þættirnir hafa ekki verið sýndir í íslensku sjónvarpi enn sem komið er, en nálgast má fyrstu tvær seríurnar á DVD. Sögusviðið er miðstöð fyrir ungt fólk sem dæmt hefur verið í samfélagsþjónustu fyrir ýmiss konar afbrot. Hetjurnar eru fimm talsins og brot þeirra ólík, svo og persónuleikar. Öll eiga þau sameiginlegt að eiga í erfiðleikum með mannleg samskipti með þeim afleiðingum að gjarnan sýður upp úr. Dag einn brestur á með óvenjulegum stormi með miklum þrumum og hagléli og eftir að eldingu lýstur niður í hópinn uppgötva krakkarnir sér til talsverðrar armæðu að þau hafa öðlast óvenjulega hæfileika. Skyndilega búa þessi ungmenni, sem samfélagið hafði dæmt einskis nýt, yfir getu til að láta gott af sér leiða. Ofurhetjuhlutverkið breytir því þó ekki að þau þurfa að halda áfram að skrúbba skítinn – bæði í eiginlegri og yfirfærðri merkingu. Munurinn er samt sá að nú fara afleiðingar gjörða þeirra virkilega að skipta máli og þau uppgötva í fyrsta sinn að þau hafa að einhverju að keppa í lífinu. Sá ljóður virðist vera á hæfileikum hvers og eins að þeir reynast endurspegla þeirra innri mann. Viðhorf þeirra gagnvart heiminum opinberast í hinni nýfengnu getu með þeim afleiðingum að pínlega feimni drengurinn verður ósýnilegur, háværa óörugga stúlkan heyrir hugsanir og íþróttamaðurinn sem gerði afdrifarík mistök í fortíð sinni getur haft áhrif á tímann. Fljótlega kemur í ljós að þau eru ekki ein um að búa yfir slíkum hæfileikum og ástandið virðist ala af sér fleiri vandamál en það leysir. Fleiri einstaklingar sem einnig glíma við mismunandi eftirköst stormsins dúkka upp og soga utangarðsfólkið inn í atburðarásina. Þættirnir eru hraðir og fyndnir og taka létt á málunum. Handritin eru vel skrifuð, fagmannlega haldið á spöðum og leikhópurinn til fyrirmyndar. Húmorinn groddalegur, kynlífssenur frjálslegar og ofbeldið síst af skornum skammti. Ef einhvern boðskap er að finna í þáttunum er hann sá að breytingin kemur innan frá og skyndilausnir eru sjaldan lykillinn að hamingju. En um leið að lífið er ekki þyrnum stráður táradalur og stundum er nauðsynlegt að njóta augnabliksins og æskunnar þrátt fyrir boð og bönn. Eins og margir aðrir ofurhetjuþættir svara Misfits-þættirnir þeim spurningum sem sjálfsagt flestir hafa spurt: Hvað ef ég væri ósýnileg? Ódauðleg? Gæti flogið? Breytt vatni í mjólk? Svörin spanna svo skalann frá því að vera grátbrosleg yfir í það að vera nístandi sár. Því „í draumi sérhvers manns er fall hans falið“ – og allt það. Óhætt er að segja að ofurhetjur hafi tröllriðið kvikmyndum og sjónvarpi síðustu ár. Mest hefur farið fyrir X-Men kvikmyndum en sjónvarpið reið á vaðið með þáttunum Heroes sem nutu mikilla vinsælda um stutt skeið og í kjölfarið skutu upp kollinum ýmsir minna þekktir þættir sem notuðust við svipaða formúlu; hópur af venjulegu fólki býr skyndilega yfir yfirnáttúrulegum hæfileikum. Því miður var gæðunum ekki alltaf fyrir að fara og því ekki hægt að lá neinum fyrir að afskrifa bresku sjónvarpsseríuna Misfits sem meira af sama meiði. En það væru mistök. „Með dularfullum hætti rís draumsins bákn“ Eftir Ástu Gísladóttur

x

Spássían

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.