Dagblaðið Vísir - DV - 06.03.2020, Page 16

Dagblaðið Vísir - DV - 06.03.2020, Page 16
16 FÓKUS - VIÐTAL 6. mars 2020 Ö rlögin réðu því að Dagbjört Barringer komst í kynni við bandarískan mann sem starfaði í leyniþjónustu sjó- hersins. Hún kastaði öllu frá sér og flutti vestur um haf til að ganga í hjónaband, rétt rúmlega tvítug að aldri. Í dag er hún hamingju- samlega gift og komin í háttsetta stöðu hjá einni stærstu verslun- arkeðju í Bandaríkjunum. Dag- björt ræddi við DV um upphaf- ið að þessu ævintýri, lífið sem eigin kona hermanns og ameríska drauminn sem er brothættari en flestir gera sér grein fyrir. Fann sig ekki á Íslandi Dagbjört ólst upp í Breiðholti og á unglingsárunum bjó hún um tíma í Noregi. „Heima á Íslandi var ég alltaf að leita að sjálfri mér og var algjörlega stefnulaus. Mér fannst ég aldrei passa inn neins staðar.“ Stjúpfaðir Dagbjartar og móðir hennar fluttu til Noregs þegar Dagbjört var 16 ára og fylgdi hún þeim út. Hún reyndi um tíma við menntaskólanám í Noregi en leiddist svo út á vinnumarkaðinn og flutti til Íslands. „Ég var inn og út úr skóla og ég fékk reyndar fínar einkunn- ir, en ég glímdi við mikinn kvíða og þunglyndi og var alltaf að taka dýfur. Ég vann á hinum og þessum stöðum, ég var mikið að þjóna og vann á lager.“ Dagbjört sætti einelti í grunn- skóla og segir það hafa haft mót- andi áhrif á hana. Það hafi jafn- vel átt stóran þátt í því að hún átti erfitt með að fóta sig á Íslandi. „Ég beit það í mig að ég gæti ekki verið neins staðar þar sem krakkar úr Seljaskóla voru. Mér fannst ég þess vegna hvergi örugg, Reykjavík er svo lítil. Þetta hamlaði mér rosalega mikið. Ég finn mikinn mun á þessu hérna í Bandaríkjunum. Hérna get ég leyft mér að vera ég, vera hávær og ég get leyft mér að taka pláss. Alltaf um leið og ég kem til Ís- lands þá „minnka“ ég, klæði mig í hettupeysu og læt fara minna fyrir mér.“ Stökk á tækifærið Árið 2013 var Dagbjört 19 ára gömul og starfaði á kaffihúsinu Amokka í Borgartúni. Einn við- skiptavinur, bandarísk kona á sjö- tugsaldri, átti eftir að reynast mik- ill örlagavaldur í lífi hennar. „Á öskudaginn 2013 kom inn kona frá Washington-fylki í Bandaríkjunum, Karen, sem var á ferðalagi á Íslandi. Við byrjuðum að spjalla og svo kom hún aftur daginn eftir og aftur næsta dag.“ Tveimur mánuðum seinna sendi Karen Dagbjörtu vina- beiðni og skilaboð á Facebook og í kjölfarið voru þær í reglulegum tölvupóstsamskiptum. Þess ber að geta að Karen var á sjötugs- aldri en Dagbjört var rétt innan við tvítugt. „Þetta var rosalega skrítið og fyndið, 60 og eitthvað ára gömul kona kom þarna inn einn daginn og svo bara vorum við orðnar svakalega góðar vinkonur. Einn daginn sendi hún mér skilaboð sem voru nokkurn veginn svona: „Ég veit að þetta hljómar mjög undarlega, en gætirðu hugsað þér að koma út og búa hjá mér í sumar?“ Hún var sem sagt með bás á hannyrðamarkaði í Seattle þar sem hún var selja steina. Hún spurði hvort ég vildi koma út og hjálpa henni. Þar sem að ég er afar hvatvís og með mikið ADHD þá stökk ég bara á þetta strax. Daginn eftir hætti ég í vinnunni og fór og keypti flugmiða til Bandaríkjanna.“ Dagbjört bjó á þessum tíma heima hjá móður sinni, sem var ekki beinlínis rótt þegar 19 dóttir hennar tilkynnti henni að hún ætlaði að flytja inn á ókunnuga konu í Ameríku. „Viðbrögðin hjá mömmu? Hún heyrði auðvitað bara eitt orð: mansal. Og gerði ráð fyrir að hún myndi aldrei heyra frá mér aftur, að líkið af mér myndi enda ein- hvers staðar í ruslagámi. Ég fór svo út og var hjá Karen allt sum- arið. Það var heima hjá henni sem ég sá fyrst ljósmynd af manninum mínum, en myndin var hengd á ísskápshurðina. Myndin hafði verið tekin þegar hann útskrif- aðist úr „bootcamp“-þjálfun ári áður. Ég sá myndina og nefndi við hana að þetta væri sætur strákur, en svo ekkert meir.“ Ungi maðurinn á myndinni reyndist vera Ben Barringer, barnabarn systur Karenar, og starfaði hann í leyniþjónustu bandaríska sjóhersins. „Það næsta sem gerðist var að Karen hringdi í systur sína, ömmu Bens, sem síðan hringdi í hann og reyndi að fá hann til að hitta mig. Hans viðbrögð voru að sjálfsögðu þau að hann ætlaði sko ekki að fara að hitta einhverja blá- ókunnuga stelpu frá Íslandi, sem hefði hætt sem kaffibarþjónn til að fara að búa hjá einhverri kerl- ingu í Ameríku!“ Amma Bens lét það hins vegar ekki stoppa sig og tók upp á því að þramma upp á herstöð, þar sem Ben var, þar sem henni tókst einhvern veginn að fá yfirmann- inn í lið með sér. „Mér skilst að hún hafi hreinlega beitt hann andlegu ofbeldi og þvingunum, laug að honum að ég hefði verið í keppninni Ungfrú Ísland og ég veit ekki hvað og hvað. Ben lofaði honum að hann myndi hitta mig en um leið og „the chief“ var far- inn þá hringdi hann í ömmu sína og sagði: „Ef þú minnist enn einu sinni á þessa konu þá kem ég ekki heim um jólin!““ Dagbjört vissi þó ekkert um þessar ráðgerðir ömmunnar og það var ekki fyrr en mörg- um mánuðum síðar að hún fékk að vita að eiginmaðurinn hefði í raun hafnað henni í tvö skipti. „Stuttu eftir þetta þá var haldin afmælisveisla og hann var þá skikkaður til að mæta. Þarna byrj- uðum við að spjalla og næstu tvær vikur vorum við að hittast, alveg þangað til ég þurfti að fara aftur heim til Íslands, sumarið var á enda.“ Bónorð í sms-skilaboðum Ben er ári eldri en Dagbjört. Dag- björt segir að eftir að hún sneri aftur heim til Íslands hafi enn nánari kynni tekist með þeim, þökk sé nútímatækni. Þau urðu fljótlega ástfangin upp fyrir haus. „Við urðum vinir á Facebook og svo byrjuðum við að tala saman á Skype í marga klukku- tíma á dag. Þetta gerðist allt rosa- lega hratt. Þetta var einfaldlega þannig að ég sá ekki sólina fyrir Ben og hann sá ekki sólina fyrir mér. Ég vildi helst ekki gera neitt nema vera í tölvunni og tala við Ben. Svolítið óheppilegt að hann var í Washington og ég á Íslandi og átta klukkutíma mismunur, sem þýddi að ég var alltaf að tala við hann á næturnar og svaf á daginn.“ Eftir þetta gerðust hlutirnir hratt. Fljótlega fór parið að skoða möguleikann á því að Dagbjört flyttist búferlum vestur um haf. „Við stóðum í raun frammi fyrir tveimur valkostum, annaðhvort að hætta saman eða gifta okkur,“ segir Dagbjört og rúmum tveimur mánuðum eftir að hún kom aftur til Íslands ákváðu þau að ganga í hnapphelduna. Bónorðið myndi þó seint teljast rómantískt. „Eitt kvöldið hafði hann verið á fylleríi með félögum sínum úr hernum, maður sem drekkur nánast aldrei. Hann sendi mér sms, sem hann er enn í dag mjög vandræðalegur yfir. Þar skrif- aði hann: „Fjandinn hafi það, ég skal giftast þér“ („To hell with the consequences, I’ll marry you!“). Giftist bandarískum leyniþjónustu hermanni tvítug að aldri Blés á gagnrýnisraddirnar og elti ástina til Washington - Mikil leynd yfir störfum eiginmannsins - Vann sig upp í ábyrgðarstöðu hjá Target M Y N D IR Ú R E IN K A SA FN I Auður Ösp Guðmundsdóttir audur@dv.is Dagbjört var harðákveðin í elta ástina vestur um haf.

x

Dagblaðið Vísir - DV

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.