Morgunblaðið - 27.01.2020, Síða 28
28 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 27. JANÚAR 2020
Pantaðu borð í síma 483 4700 | hverrestaurant.is
HVER TEKUR VEL
Á MÓTI ÞÉR
OPIÐ
11:30–22:00
ALLA DAGA
Ljúffengur matur, góð þjónusta
og hlýlegt andrúmsloft.
VIÐTAL
Silja Björk Huldudóttir
silja@mbl.is
„Ég fann fyrir knýjandi nauðsyn að
svona verk væri tekið saman,“ segir
Sigurjón Baldur Hafsteinsson, pró-
fessor í safnafræði við Félags- og
mannvísindadeild Háskóla Íslands
og ritstjóri bókarinnar Saga lista-
safna á Íslandi sem Rannsóknar-
setur í safnafræðum við Háskóla Ís-
lands hefur gefið út. „Ég hef sinnt
kennslu í safnafræði við Háskóla Ís-
lands í um áratug. Fljótlega rak ég
mig á það að efni sem lýtur að sögu
safna, bæði listasafna, menningar-
minjasafna og annarra safntegunda
hér á landi, var fram að þessu frekar
rýrt í roðinu. Sem er mjög bagalegt,
því það er erfitt að kenna á þessu
sviði þegar þekkingin um tilurð þess-
ara stofnana er ekki til staðar,“ segir
Sigurjón, sem í framhaldinu leitaði
að greinarhöfundum sem hefðu sér-
þekkingu á hinum ýmsu söfnum
landsins með útgáfu bókar í huga.
Gagnsemi rannsóknanna
Bókin samanstendur af 25 grein-
um eftir 26 höfunda þar sem sjónum
er beint að 25 söfnum sem starfrækt
eru á landinu. Elsta safnið sem
fjallað er um í bókinni er Listasafn
Íslands, sem stofnað var 1884, og það
yngsta er Vatnasafnið, sem stofnað
var 2007. Meðal höfunda eru Heiða
Björk Árnadóttir, sem skrifar um
Listasafn Íslands, Eiríkur Þorláks-
son um Listasafn Reykjavíkur, Inga
Jónsdóttir um Listasafn Árnesinga,
Ágústa Kristófersdóttir um Hafn-
arborg, Auður Ava Ólafsdóttir um
Listasafn Háskóla Íslands, Að-
alsteinn Ingólfsson um Listasafn
Sigurjóns Ólafssonar, Arndís Bergs-
dóttir um Listasafnið á Akureyri og
Sigríður Melrós Ólafsdóttir um
Listasafn Einars Jónssonar, svo fá-
ein söfn séu nefnd.
Að sögn Sigurjóns var það ekki
áhlaupaverk að koma bókinni út.
„Það tók töluverðan tíma að finna
fólk sem þekkti til og var tilbúið að
leggjast í þá rannsóknarvinnu sem
nauðsynleg var til að skrifa greinar
bókarinnar,“ segir Sigurjón og rifjar
upp að hann hafi leitað til höfunda
sem hefðu staðgóða þekkingu á
starfsemi safnanna sem starfsmenn
og/eða sem fræðimenn.
„Þegar ég var kominn með
greinarhöfundana til samstarfs fann
ég sterklega fyrir því hversu gagnleg
þeim fannst þessi vinna vera, því þeir
fengu þarna færi á að rannsaka eitt-
hvað sem þeir höfðu kannski aldrei
gefið sér tíma til áður og á sama tíma
sáu þeir gagnsemi slíkrar vinnu fyrir
innra starfið í söfnunum sjálfum. Það
er gulls ígildi fyrir söfnin sjálf að
geta afhent nýjum starfsmönnum yf-
irlit í samþjöppuðu formi yfir tilurð
þeirrar stofnunar sem þeir eru að
fara að vinna hjá og gefa þeim ein-
hvers konar bragð af því hvers kon-
ar starfsemi hafi átt sér stað,“ segir
Sigurjón og tekur fram að bókin hafi
að mestu verið unnin í sjálfboða-
vinnu af höfundum.
Erfitt að fjármagna verkið
„Það gekk erfiðleika að fjármagna
þetta verk og laun fyrir skrifin voru
ekki í boði. Í upphafi trúði ég því
statt og stöðugt að svona verkefni
yrði velkomið á þann vettvang sem
ég sótti styrki til. En þær voru ansi
margar hafnanirnar sem ég fékk við
að reyna að fjármagna þetta verk.
Það kom mér á óvart, en þetta hafð-
ist þó á lokametrunum.“
Sigurjón segir markmiðið með
bókinni hafa verið að reyna að ná
utan um allan þann fjölda listasafna
sem starfræktur er hérlendis. „Það
tókst að mestu, enda lagði ég metnað
í það,“ segir Sigurjón og bendir á að
aðeins fjögur söfn á landinu hafi ekki
náð inn í bókina. Þetta eru Listasafn
Ásgríms Jónssonar, sem rekið var
undir eigin merkjum 1960 til 1987
þegar það var sameinað Listasafni
Íslands, Þjóðminjasafnið, Listasafn
Skagfirðinga og Listasafn Akraness.
„Það er auðvitað súrt í broti að Þjóð-
minjasafnið skuli ekki vera með, því
það er í sjálfu sér stærsta listasafn
þjóðarinnar. Eins og Heiða Björk
Árnadóttir rekur í grein sinni heyrði
Listasafn Íslands á upphafsárum
sínum undir Þjóðminjasafnið. Þegar
því samkrulli lauk um miðja síðustu
öld þegar Selma Jónsdóttir var skip-
uð umsjónarmaður Listasafns
Íslands fluttist öll nútímalistin yfir í
Listasafn Íslands en öll miðaldalistin
og öll sú list sem lýtur að handverki
og fleira var skilin eftir í Þjóðminja-
safninu. Sá vandi minn að finna
greinarhöfund til að skrifa um Þjóð-
minjasafnið endurspeglar þá stað-
reynd að við Íslendingar, ekki síst
fræðasamfélagið, höfum ekki verið
nægilega vakandi fyrir þeim þætti í
starfsemi Þjóðminjasafnsins sem
snýr að listasafnsþættinum,“ segir
Sigurjón og rifjar upp að reyndar
hafi Þóra Kristjánsdóttir sinnt þess-
um þætti mjög vel þá áratugi sem
hún starfaði hjá Þjóðminjasafninu.
Af hverju var safnið stofnað?
Sigurjón tekur fram að í tilfelli
Listasafns Skagfirðinga og Lista-
safns Akraness hafi hann ekki frétt
af tilurð þessara tveggja safna fyrr
en á síðustu stigum bókarinnar og
því hafi verið of seint að bæta þeim
við. „Það að ég hafi ekki vitað af til-
vist þeirra fyrr en svona seint í ferl-
inu sýnir í raun fram á gildi bókar-
innar,“ segir Sigurjón, sem hafði þá
þegar varið þremur árum í gerð bók-
arinnar.
Inntur nánar eftir vinnslu bókar-
innar segist Sigurjón hafa gefið
greinarhöfundum ákveðinn spurn-
ingaramma sem þeir gátu haft til
hliðsjónar. „Þar lagði ég áherslu á að
í greinum kæmi fram hvernig það
kæmi til að viðkomandi safn væri
stofnað og hvernig menn sáu fyrir
sér hlutverk þess. Einnig lagði ég
áherslu á að greint væri frá helstu
starfsemi yfir það árabil sem stofn-
anirnar hefðu verið starfræktar.
Eins og gefur að skilja var þetta mis-
munandi erfitt fyrir höfunda. Sem
dæmi spannar saga Listasafns
Íslands yfir 130 ára sögu en Vatna-
safnið í Stykkishólmi hefur verið
starfrækt í 12 ár. Áskoranir greinar-
höfunda voru því mismunandi.“
Gríðarlegur metnaður
Spurður hvaða stóru línur hann
greini þegar hann lesi allar grein-
arnar saman segir Sigurjón ljóst að
gríðarlegur metnaður ríki um allt
land þegar komi að listum. „Og ótrú-
leg fórnfýsi fjölmargra einstaklinga
og samtaka að lyfta listinni á ákveð-
inn stall. Oft er það samþætt starf-
semi listamanna á hverjum stað fyrir
sig, en líka þegar kemur að því að
sinna fræðistarfi til handa nem-
endum skólakerfisins. Annað sem
má segja að sé niðurstaða þessarar
yfirferðar er hversu mikil gjafmildi
og stórhugur fylgir upphafi og starf-
semi þessara stofnana. Það er
kannski ekki á vitorði almennings að
þessar stofnanir verða ekki til fyrir
tilstuðlan hins opinbera heldur virð-
ast þetta fyrst og fremst vera ein-
staklingar úti í bæ, oft safnarar, sem
ríða á vaðið og leita til opinberra
aðila með hugmynd um að efna til
slíkrar starfsemi. Í þessari bók eru
fjölmörg dæmi um það, allt frá
Listasafni Íslands, sem er stofnað
með stórri listaverkagjöf til Lista-
safns ASÍ, til Myndlistarsafns
Tryggva Ólafssonar. Í þriðja lagi er
áberandi að safneign smærri safn-
anna, sem eru víða um landið, er
gríðarlega verðmæt, menningarlega
en ekki síður fjárhagslega. Hins veg-
ar þarf að gæta vel að þessum verð-
mætum svo að þau skemmist hvorki
né gleymist,“ segir Sigurjón og tek-
ur fram að hann bindi vonir við að
bókin hjálpi til við að vekja athygli á
þessu.
Grunnur frekari rannsókna
Sigurjón lítur á bókina sem nauð-
synlegan grundvöll að frekari rann-
sóknum. Meðal rannsóknarspurn-
inga sem hann telur vert að leita
svara við í framhaldinu eru meðal
annars hver séu áhrif pólitískra af-
skipta af starfsemi listasafna; hvert
sé vald listasafna til túlkunar; hver
séu tengsl listasafna við þjóðernis-
hyggju og fjárhagslega hagsmuni;
hver séu hlutverk og áskoranir
smærri listasafna; hvaða hlut-
verkum listamenn og safnarar gegni
í starfi listasafna; hvaða þýðingu
gjafir til listasafna hafi; hver séu
siðferðisleg álitamál um samskipti
listamanna, safna og gesta þeirra;
hvað megi segja um ritskoðunar-
tilburði listasafna og með hvaða
hætti alþjóðleg tengsl listasafna séu
hér á landi.
„Það hefur verið og er enn heil-
mikið strögl fyrir þessar stofnanir að
bjóða upp á boðlegan vettvang til að
geta sinnt starfsemi sinni mjög vel
og af þeim mætti sem þau þurfa. Af
lestri margra greinanna er augljóst
að hið opinbera, bæði ríki og sveitar-
félög, virðist ekki hafa sama skilning
á mikilvægi þess að til staðar sé góð
aðstaða til að sýna listaverk og vera
með aðra starfsemi, svo sem rann-
sóknir og fræðslustarf.
Þegar horft er til framtíðar er
ljóst að þótt mörg safnanna stundi
virka söfnun á listaverkum eru mörg
þeirra að gera það af veikum mætti.
Ég held að bæði þeir sem standa að
rekstri þessara safna sem og aðrir
sem að þeim koma þurfi að huga að
því með hvaða hætti hægt er að
byggja upp safnkostinn enn frekar.
Ég held að sú spurning sé enn meira
knýjandi í dag en oft áður, af því að
myndlistarsviðið og almennur skiln-
ingur á myndlist og listum almennt
er meiri í dag en oft áður. Ég held að
þessi listasöfn geti leikið stórt hlut-
verk í því að styðja við það svið á
hverjum stað fyrir sig – ekki síst
með komandi kynslóðir í huga.“
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Prófessor Sigurjón Baldur Hafsteinsson, prófessor í safnafræði við Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands
og ritstjóri bókarinnar Saga listasafna á Íslandi, sem Rannsóknarsetur í safnafræðum við HÍ hefur gefið út.
„Fann fyrir knýjandi nauðsyn“
Saga listasafna á Íslandi fjallar um 25 söfn sem starfrækt eru á landinu Elsta safnið var stofnað
1884 og það yngsta 2007 Ekki áhlaupaverk að koma bókinni út Þegar nýtt til kennslu við HÍ