Morgunblaðið - 11.04.2020, Blaðsíða 29
UMRÆÐAN 29
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 11. APRÍL 2020
Óttinn sem CO-
VID-19 veiran hefur
valdið um allan heim
er ekki bara ógn, held-
ur kannski einnig
tækifæri. Tækifæri til
að „endurstilla“ vænt-
ingar okkar til lífsins,
til endurmats á við-
horfum okkar til lífs
og dauða, til verð-
mætamats okkar og
þeirra áherslna sem við leggjum líf-
inu til grundvallar.
Frammi fyrir daglegum áminn-
ingum um mannlegt varnarleysi
voru fyrri kynslóðir manna vel með-
vitaðar um óhjákvæmilegan dauða.
Í dag er dauðinn oft feimnismál
sem vart má nefna og jafnvel ríg-
fullorðið fólk forðast að horfast í
augu við eigin dauðleika. Án tillits
til þess hvort slíkt viðhorf kunni að
bera vott um flótta eða misþroska
má segja að það bendi til þess að
áminningin um dauðann hafi verið
viðkomandi of fjarlæg. Nútíminn
gefur ótal færi á slíkum veru-
leikaflótta. M.a. leikur afþreying-
ariðnaðurinn stórt hlutverk bæði í
einkalífi og menningu. Óheyrilegum
tíma er sóað í að fylgjast með öðr-
um í stað þess að lifa eigin lífi. Slík
forgangsröðun veldur því að sjúkum
og deyjandi getur reynst erfitt að
horfast í augu við að hafa ekki nýtt
tímann, ekki gripið tækifærin, ekki
nýtt hæfileika sína, ekki lifað.1) Við
leiðarlok er fólki komið fyrir á
stofnunum, þar sem læknavísindin
geta, ef ekki vill betur til, tryggt
sársaukalítið andlát. Hvers vegna
leyfi ég mér að kalla það „mis-
þroska“ að hafa ekki – eða vilja ekki
– leiða hugann að eigin dauða?
Hvers vegna skiptir íhugun um slík
„leiðindi“ einhverju máli? T.d.
vegna þess að áminningin um dauð-
ann2) hvetur okkur til fyllra lífs. Til
að nýta þann stutta tíma sem við
höfum vel. COVID-19 og líf-
hræðslan sem gripið hefur ýmsa
heljartökum er ef til vill áminning
um mikilvægi þess að við end-
urvekjum klassískar áherslur heim-
speki og trúar um hið góða líf og
nauðsyn þess að leita svara við til-
vistarspurningunum öllum,[3] í stað
þess að vonast eftir að að aukin lífs-
gæði leysi allan vanda.
Ég rita þessar línur til áminn-
ingar um að við höfum val um
hverju við trúum og hvað við byggj-
um líf okkar á. Það krefst ekki lít-
illar „trúar“ að ímynda sér allan al-
heiminn samanþjappaðan í
hnefastóra kúlu og að ímynda sér
að slíkur efnismassi, sem enginn
veit hvernig gæti hafa orðið til,
þenjist út í óravíddir alheimsins og
kveiki auk þess líf, líf sem hefur
fleytt þér, sem þetta lest, á þann
stað að þú hafir augu sem sjá,
hjarta sem slær, vitsmuni, innsæi
og skilning. Getur þú, sem hefur
verið alls þessa aðnjótandi, sætt þig
við heimsmynd tómhyggju og til-
gangsleysis?4) Geturðu sætt þig við
hana á vitsmunalegum forsendum?
En í hjarta þínu? Þetta tvennt hlýt-
ur að þurfa að samræma áður en
endanleg afstaða er tekin, því þegar
allt kemur til alls velur hver einasti
maður sér lífssýn. Slíkt val hlýtur
að þurfa að byggjast bæði á rök-
hugsun og tilfinningu. Í því ferli
þjóna skynsemin og samviskan lyk-
ilhlutverki. Viðfangsefnið er að fá
innri viðhorf okkar, tilfinningar,
óskir, vonir og þrár, til að samræm-
ast því sem við sjáum í hinum ytri
heimi. Við mennirnir erum fé-
lagsverur og þ.a.l. er einnig mik-
ilvægt að viðurkenna að viðhorf
okkar mótast í og með af félagslegu
samhengi okkar og trúarlegri af-
stöðu fólksins í kringum okkur. Í
stuttu máli segir þetta okkur að við
höfum á hverjum degi val.
Við höfum val um að opna augu
okkar fyrir undrum hversdagsins,
fyrir öllu því smáa og stóra sem
gefur lífi okkar lit og fegurð og
gildi. Getur verið, ef þú rýnir með
þessum gleraugum í
tilveru þína og um-
hverfi, ef þú horfir í
augu barnanna þinna
og hugsar um allar
ótrúlegu tilviljanirnar í
þínu eigin lífi, allar
þær stundir þar sem
þér finnst að þú hafir
verið leidd/leiddur
áfram að þú getir
greint þar fingraför
forsjónar sem líkja
mætti við handleiðslu,
þar sem undur hafa
orðið á vegi þínum? Þar sem dýpstu
vonbrigði og nístandi sársauki hafa
í fjarlægð og fyllingu tímans öðlast
dýpri merkingu, fært þér lærdóm,
auðmýkt eða kennt þér mikilvæga
lexíu sem hefur nýst þér síðan?
Andi og efni, tilgangur
og tilgangsleysi
Sérhver maður verður að finna
lífi sínu tilgang. Tilgangur er það
sem knýr mennina áfram í lífi, leik
og starfi. Meðvitund um tilgang
hvetur okkur til umhugsunar um
hvað telst til mannlegrar velsældar
og jafnvel hvað telst gott og fagurt
líf. Hún vekur áleitnar siðferðilegar
spurningar um þá mælikvarða sem
við leggjum til grundvallar, um
hlutverk stjórnmála og þess sem á
hverjum tíma ber yfirbragð átrún-
aðar, þ.m.t. talið hvort við kjósum
að vegsama fremur andann eða efn-
ið.
Í aldanna rás hafa menn sveiflast
frá einum pól til annars í þessum
efnum, stundum tignað andann og
afneitað líkamanum eða tilbeðið hið
efnislega (og líkamlega) og afneitað
hinu andlega. Hver og einn maður
getur í hjarta sínu fundið þessa tog-
streitu, sem er eilíf og viðvarandi.
Flestir geta skilið þetta út frá eigin
reynslu, þ.e. út frá líkamlegri tilvist
annars vegar og innra lífi sínu hins
vegar, því þarna á milli eru engin
skýr skil. Allir geta kannast við að
lifa samkvæmt þessu samtímis í
bæði innri heimi og ytri heimi. Sem
hugsandi vera er maðurinn dæmdur
til að reyna að samræma þetta
tvennt á einhvern hátt. Það getum
við ekki án þess að leita svara. Af-
neitunin ein getur ekki reynst
nægjanleg.
Með iðnvæðingunni var ekki síst
stefnt að því að leysa fólk úr fjötr-
um líkamlegs strits. Samhliða opn-
uðust aukin tækifæri til sannleiks-
leitar, félagsstarfs, til lestrar og
íhugunar. Hinn ytri heimur átti
þannig að vera undirstaða þess að
menn hefðu tóm til að dvelja í hin-
um innri heimi og læra að þekkja
sjálfan sig. Þannig voru þessir
heimar aðgreindir en ekki aðskildir.
Eftir því sem iðnbyltingunni fleygði
fram og náttúruvísindin sönnuðu
gildi sitt óx hinum efnislegu
áherslum fiskur um hrygg, en á
sama tíma fjaraði undan kirkjunni
og andlegu áhrifavaldi hennar. Hið
mælanlega og áþreifanlega færðist
yfir í forgrunninn en hið óáþreif-
anlega lét undan síga. Efnislegar
áherslur hafa verið ríkjandi í hinum
vestræna heimi síðan þá, þ.e. síðan
á 19. öld.
Áhugavert er að skoða þetta í
samhengi við hugmyndasöguna al-
mennt, því lengst af í hinni þekktu
mannkynssögu hefur einhvers kon-
ar „ídealismi“ verið miklu áhrifa-
meiri en efnishyggjan. Samkvæmt
hinni klassísku afstöðu í heimspeki
og trú eru hugmyndir miklu var-
anlegri og raunverulegri en hið efn-
islega. Á tímum iðnvæðingar og vís-
indahyggju hefur orðið viss
umpólun á þessu. Hinu huglæga,
þ.m.t. innsæi og trú, hefur verið ýtt
til hliðar og menn leggja fremur
traust á hið efnislega, þ.m.t. rann-
sóknir og reiknilíkön. Samhliða
heyrist þó iðulega spurt hvort rödd
samviskunnar sé endanlega þögn-
uð.5)
Í þessu umhverfi hafa skipulögð
trúarbrögð átt erfitt uppdráttar. Út
frá fréttaflutningi og opinberri töl-
fræði um andlega líðan fólks í hin-
um vestræna heimi6) mætti líka
segja að þessi umpólun hafi reynst
mönnum erfið. Guði hefur verið út-
hýst en púkunum ekki. Menn eiga
enn í baráttu við sína innri (og ytri)
djöfla en hafa ekkert almætti og
enga verndarengla sér til halds og
trausts. Menn hafa verið skildir eft-
ir vegalausir í veröld sem þjónar
engum sérstökum, háleitum og var-
anlegum tilgangi, veröld sem ekki
er sköpuð af Guði í þágu mannsins.
En lýsir þetta veruleika manns-
ins? Upplifum við það í raun, í
hjörtum okkar, að líf okkar þjóni
ekki tilgangi? Að gerðir okkar
skipti engu máli? Að enginn munur
sé á því hvort við veljum gott eða
illt? Finnum við ekki einmitt þvert
á móti fyrir alls konar siðferð-
isklemmum í daglegu lífi, þar sem
við gerum okkur grein fyrir að valið
sé á einhvern hátt skilgreinandi fyr-
ir það hvers konar manneskjur við
erum og viljum vera? Getum við
umflúið sjálfsásakanir ef við veljum
hið lítilmótlega fremur en hið göf-
uga? Trúum við því að misgjörðir
okkar bíti okkur í hælana – ef ekki í
framhaldslífi, þá strax í þessu lífi?
Eru það ekki einmitt slíkar spurn-
ingar sem vinsælustu kvikmyndir
og skáldsögur snúast um? Má af
þeim vinsældum ekki álykta sem
svo að þetta tali til almennings? Er
ekki með þessu öllu verið að leita
svara við því mannlegasta í fari
mannsins, þ.e. tilvistarspurningum
sem láta okkur ekki í friði? Fræði-
menn vilja sumir úthýsa slíkum
spurningum og einbeita sér fremur
að mataræði, veðurfari og lífsskil-
yrðum á hverjum stað og tíma, en í
raun gæti viðfangsefni slíkra rann-
sókna verið hvaða villidýr sem er.
Maðurinn er eina „dýrategundin“
sem á sér andlegt líf, hugsar fram
og aftur í tímann – og um eilífðina,
hlutverk sitt í þessu samhengi
o.s.frv. Út frá þessu er umhugs-
unarvert hvort félags- og sálvísindi
séu ófullnægjandi til leiðsagnar ein
og sér. Efnishyggjan skiptir hug-
anum út fyrir heila, skiptir ást og
kærleika út fyrir oxytósín og kyn-
hormón. Ef allt á sér efnislegar
skýringar verður erfitt að við-
urkenna frjálsan vilja og siðferð-
isþrek, en þess í stað búnar til
kenningar um að við séum vélræn,
viljalaus og forrituð. Það eina sem
eftir stendur er efnið, leirinn, leðjan
og moldin. Hvernig fellur andinn -
og sálin - inn í þá mynd? Hvað með
ígrundun og hughreysti? Hvar er
von og fegurð? Hvar sjáum við til-
gang?
Að baki slíkri vísindalegri efn-
ishyggju býr mögulega einhvers
konar þráttarhyggja, sú marxíska
kenning eða túlkun að efni sé for-
senda andans og atburðir efnis-
heimsins ráðist af átökum and-
stæðna. Slík efnishyggja felur í sér
algjöra afneitun á hinni djúpstæðu
trúarþörf mannkynsins. Ef ekki
væri fyrir öll þau manndráp og ill-
virki sem framin hafa verið í skjóli
hreinnar efnishyggju, þá mætti það
kallast broslegt að sjá hversu auð-
veldlega slík lífssýn umbreytist í
kreddu og kennisetningar, því
mannkynið virðist hreint og beint
vera „forritað“ til trúar. Hin „trú-
lausu“ alræðisríki 20. aldar voru
ekki fyrr búin að úthýsa guðstrú en
farið var að hefja leiðtoga þeirra og
hugmyndakerfi á stall dýrkunar og
tilbeiðslu.
Efnishyggjan smættar æðstu
vonir og hugsjónir mannkyns niður
í frumeindir. Til hvers er þá lifað?
Ef við veljum að feta þessa braut er
vandséð hvers vegna lífið ætti að
kallast sérstaklega dýrmætt, hvað
þá heilagt. Trúin á að rökhyggjan
ein leiði til farsældar beið skipbrot
á 20. öld. Alister McGrath orðar þá
reynslu vel í bók sinni, History of
Atheism:
20. öldin kallaði fram eina alvar-
legustu og átakanlegustu þversögn
mannkynssögunnar: Að mesta of-
ríki og ofbeldi þeirrar aldar hafi
verið iðkað af mönnum sem trúðu
því að trúarbrögð framkölluðu
vægðarleysi og ofbeldi.7)
Samantekt
Andspænis vonleysi og örvænt-
ingu hafa menn frá örófi trúað því
að efnið geymi anda og að andinn
lifi. Trúarhefðir mannkyns bera
þessu glöggt vitni, þar sem hið jarð-
neska er gætt sál, þar sem lífið er
eilíft en ekki skammvinnt, þar sem
ljósið skín í myrkrinu en er ekki að-
eins skammvinnur blossi. Það er
hægt að skrifa langar heimspeki-
legar greinar og færa rök fyrir
„skynseminni“ í því að treysta að-
eins á það sem er áþreifanlegt, efn-
islegt og sannanlegt með aðferðum
vísindanna. Að því sögðu vil ég þó, í
nafni gagnrýninnar og sjálfstæðrar
hugsunar, andæfa því að valkost-
irnir útiloki hvor annan. Vísindi og
trú á æðri mátt geta vel farið sam-
an og hafa raunar gert það lengst
af.
Er saga mannkyns saga vonar
eða vonleysis? Ber hún fremur vott
um að maðurinn sé gæddur sam-
visku eða sé samviskulaus? Ber hún
vott um að menn lesi merkingu út
úr alheiminum eða merkingarleysi?
Hefur mannkyninu farnast betur
þegar það hefur byggt á hinu göf-
uga í mannlegum veruleika eða því
lága? Menn geta talað endalaust um
gildi hins áþreifanlega og „skyn-
semina“ í því að trúa aðeins því sem
unnt er að festa fingur á, en lifir þú
í samræmi við slíka kenningu?
Þetta er val á útgangspunkti þaðan
sem þú skoðar allt lífið. Myndirðu
drepa, ljúga, stela, svíkja bara ef
það hentar þér? Lifir þú eins og
„lífmassi“ sem hugsar aðeins um
eigin skammtímaánægju og skamm-
tímahagsmuni eða lifir þú í raun
eins og þú sért andleg vera, gædd
samvisku sem talar til þín, sem seg-
ir við þig að þú sért lifandi andi og
eilíf vera? Segir skynsemin þér í
raun ekki það sama, ef þú ert full-
komlega heiðarlegur? Hvað segir
mannkynssagan okkur um mann-
legt val og forgangsröðun, t.d. þeg-
ar menn standa frammi fyrir að
verja sitt eigið líf ef það væri á
kostnað alls þess sem gefur lífinu
tilgang og merkingu? Hafa menn í
aldanna rás verið reiðubúnir að
fórna lífi sínu fyrir sannleikann, fyr-
ir fegurðina, fyrir sakleysið? Til að
verja hið góða gagnvart hinu illa?
Alheimurinn er vissulega ráð-
gáta. Og það er ekki nema heið-
arlegt að viðurkenna að hann sé
ráðgáta. Færustu vísindamenn við-
urkenna þetta fúslega. Það getur
því vart talist órökrétt né heimsku-
legt að byggja lífsskoðun sína bæði
á rökhugsun og trú, á raunsæi í
bland við von, með hjálp upplýstrar
skynsemi og stuðningi samvisk-
unnar. Samviskan á sér ef til vill
ekki skýrt lögheimili í hinum vís-
indavædda heimi, en hún talar þó
enn til hjartans. Rödd hennar er
lágvær en skýr ef þú virkilega, og í
einlægni, hlustar.
1) Sbr. fræga tilvitnun Nelson Mandela til:
Marianne Williamson, A Return to Love
(HarperCollins 1992), bls. 190.
2) Memento mori.
3) Sbr. fullyrðinguna sem Platón hefur eftir
Sókratesi: „Órannsakað líf er einskis
virði“. Platón, Síðustu dagar Sókratesar
(Hið íslenzka bókmenntafélag 1983).
4) Öðru nafni níhilismi.
5) Í riti Platóns, Síðustu dagar Sókratesar,
(Hið íslenzka bókmenntafélag 1983), er
haft eftir Sókratesi að innri rödd hafi
leiðbeint honum í gegnum lífið, ekki með
því að segja honum hvað honum bæri að
gera, heldur það sem hann ætti ekki að
gera. Þetta virðist hafa verið ein aðal-
ástæða hans fyrir að flýja ekki Aþenu-
borg þrátt fyrir aðsteðjandi ógn.
6) Sjá t.d. <https://adaa.org/about-adaa/
press-room/facts-statistics>
[Skoðað 26.3.2020]
7) Alister McGrath, The Twilight of Athe-
ism: The Rise and Fall of disbelief in the
Modern World (Doubleday 2004), 230
Eftir Arnar Þór
Jónsson
» Vísindi og trú á æðri
mátt geta vel farið
saman og hafa raunar
gert það lengst af.
Arnar Þór Jónsson
Höfundur er héraðsdómari.
Hverju viljum við trúa?
Morgunblaðið/Golli
Undur lífsins „Við höfum val um að opna
augu okkar fyrir undrum hversdagsins,
fyrir öllu því smáa og stóra sem gefur lífi
okkar lit og fegurð og gildi."