Morgunblaðið - 30.04.2020, Blaðsíða 48
48 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 30. APRÍL 2020
544 5151tímapantanir
Allar almennar BÍLAVIÐGERÐIR
Í LJÓSI AÐSTÆÐNA COVID19
Við hjá Bíljöfur höfum tekið upp nýjar vinnureglur varðandi bifreiðar sem
koma til viðgerða, bæði til að tryggja öryggi starfsmanna og viðskiptavina.
Bifreiðar sprittaðar fyrir og eftir viðgerðir.
Einnig bjóðum við upp á að:
• Fólk borgi reikning með símgreiðslu/millifærslu.
• Bifreið sé sótt heim eða í vinnu til eiganda á höfuðborgarsvæðinu og henni
skilað aftur eftir viðgerð.
Er kominn tími til að fara með bílinn í bifreiðaskoðun?
Við getum séð um það fyrir þig.
Sjá nánara fyrirkomulag á facebooksíðunni okkar
Smiðjuvegi 34 • gul gata Kópavogi • biljofur@biljofur.is
VIÐTAL
Silja Björk Huldudóttir
silja@mbl.is
„Starf mitt núna felst í því að blása í
gjallarhorn bjartsýninnar, en það
hlutverk hentar mér ágætlega. Með
bjartsýnina að leiðarljósi og kraft-
inn í farteskinu er allt mögulegt,“
segir Brynhildur Guðjónsdóttir
borgarleikhússtjóri og rifjar upp
ummæli Vigdísar Finnbogadóttur,
forvera síns í starfi á árunum 1972-
1980, í aldarsögu Leikfélags
Reykjavíkur. „Þar lýsir Vigdís því
svo að hún hafi verið fallhlífar-
hermaður allt fyrsta árið sitt hjá
Leikfélagi Reykjavíkur. Mér verður
oft hugsað til þessara orða þegar ég
velti fyrir mér hvert við förum og
hvar við lendum í núverandi
ástandi. Ég veit að fallhlífin mín
virkar þótt landið undir sé óþekkt.
Allur heimurinn er, vonandi, að
reyna að hlusta sig saman og mun
síðan stíga næstu skref saman – því
ég trúi því ekki að allt fari aftur í
sama farið,“ segir Brynhildur og
bendir á að leiðarstef leikársins
2020 til 2021 kallist á við þetta.
„Leiðarljósið í verkefnavali næsta
vetrar er sjálfsmynd okkar – sem
borgarbúa, Íslendinga og íbúa
heimsins. Þetta var byrjað að mót-
ast áður en yfirstandandi faraldur
braust út. Það verður forvitnilegt að
skoða hver sjálfsmynd okkar verður
þegar við komum út úr kófinu.“
Stundaglasið liggur á hlið
Það er óhætt að segja að þú hafir
fengið ákveðna eldskírn í stóli
borgarleikhússtjóra. Ráðningu þína
bar brátt brátt þegar forveri þinn
baðst lausnar með skömmum fyrir-
vara og innan við hálfum mánuði
eftir að þú tókst við stjórnar-
taumum var síðan sett á samkomu-
bann.
„Já, þetta eru ótrúlega skrýtnir
tímar. Ég upplifi tímann núna eins
og stundaglasið hafi lagst á hliðina
með þeim afleiðingum að rennslið
hefur stoppað. Ég hrósa happi að
starfa hér með frábærum hópi
starfsmanna. Menn hafa sýnt sam-
hug og skilning gagnvart aðstæð-
unum sem er ómetanlegt í þessari
stöðu. Og sem betur fer hefur ekki
þurft að segja upp neinu starfsfólki í
þessu ástandi,“ segir Brynhildur og
tekur fram að hún sé kortagestum
leikhússins einnig afar þakklát fyrir
sýndan skilning og þolinmæði á
þessum erfiðu tímum.
Misjafnt er við leikhússtjóraskipti
hversu fljótt nýr stjórnandi getur
sett mark sitt á efnisskrána. Hvern-
ig verður þetta hjá þér?
„Kristín [Eysteinsdóttir] var auð-
vitað búin að búa vel í haginn,“ segir
Brynhildur og bendir á að sökum
þess hversu snögglega ráðninguna
bar að hafi ákveðnir hlutir þegar
verið komnir í ferli. „Vegna sam-
komubannsins munum við færa
nokkrar sýningar af þessu leikári
yfir á það næsta, auk þess að kynna
glænýtt efni. Við vorum nýbúin að
frumsýna stóra Bubba-söngleikinn
okkar Níu líf auk þess sem fallega
barnasýningin Gosi var í sýningu,“
segir Brynhildur og bendir á að í
ljósi aðstæðna fari leikhúsið fyrr í
sumarfrí en ella og hefji næsta leik-
ár einnig fyrr en vanalega, en sýn-
ingar á Níu lífum hefjast strax í
ágúst. „Í sama mánuði frumsýnum
við Oleönnu og í september hefjast
sýningar aftur á Gosa og Er ég
mamma mín? og við frumsýnum
Veislu,“ segir Brynhildur og tekur
fram að hún fari sér að engu óðslega
í nýju hlutverki.
„Borgarleikhúsið er kraftmikil og
litrík menningarstofnun í blómleg-
um rekstri – og hefur verið það um
langt árabil. Að sjálfsögðu höldum
við áfram á þeirri braut þótt við
þurfum núna tímabundið að draga
saman seglin meðan yfirstandandi
stormur geisar. Við erum bara í vari
áður en við höldum siglingunni
áfram. Ég kem því ekki inn með
neinum látum. Skipulagsbreyting-
arnar munu koma, en ég þarf fyrst
að hlusta mig inn í leikhúsið – sér-
staklega í ljósi aðstæðna,“ segir
Brynhildur og bendir á að nú þegar
hafi orðið ákveðin nýmönnun í ýms-
um deildum sem tengist annars veg-
ar því að starfsfólk hafi látið af
störfum vegna aldurs eða skipt um
starfsvettvang í tengslum við þær
stóru breytingar sem orðið hafa í
íslensku leikhúslífi með ráðningu
tveggja leikhússtjóra með skömmu
millibili.
Áhersla á stórar gleðisýningar
„Við viljum vera ung, fersk og að-
gengileg. Ég vil fá ungu og nýju
fólki tækifæri,“ segir Brynhildur og
bendir í því samhengi á að Marí-
anna Clara Lúthersdóttir sé komin
til starfa á skrifstofu leikhússins
sem nýr dramatúrg og Pétur
Ármannsson hafi nýlega verið ráð-
inn leikstjóri við húsið til eins árs og
muni leikstýra tveimur sýningum á
komandi leikári. „Mig langar að
hrista upp í hlutunum,“ segir Bryn-
hildur og tekur fram að meðal þess
listafólks sem komi til starfa í
Borgarleikhúsinu á næsta leikári
séu bæði nýútskrifaðir leikarar og
ungt fólk sem búið hefur og starfað
erlendis síðustu misseri. „Það verð-
ur því ákveðin hreyfing í starfs-
mannahópnum þótt okkar traust-
asta fólk verði áfram á staðnum.“
Í lögum um sviðslistir er kveðið á
um aðalverkefni Þjóðleikhússins.
Þótt lögin gildi ekki um Borgarleik-
húsið hefur það engu að síður um
alllangt skeið starfað eftir svipaðri
forskrift. Hver er þín skoðun á því?
„Í samþykktum Leikfélags
Reykjavíkur kveður á um starfsemi
Borgarleikhússins og eftir þeirri
forskrift störfum við. Verkefnavalið
hverju sinni stýrist af hlustun á
samfélagið og við þurfum einnig að
svara eftirspurninni þar sem við
störfum á markaði með kröfu um
mikið sjálfsaflafé. Við munum því
eftir sem áður leggja áherslu á stór-
ar gleðisýningar,“ segir Brynhildur
og vísar þar til mannmargra söng-
leikja og fjölskyldusýninga með tón-
list sem henti breiðum aldurshópi
áhorfenda.
Ólíkar raddir hljómi
„Við munum líka eftir sem áður
leggja rækt við íslenska leikritun,“
segir Brynhildur og vísar til þess að
Borgarleikhúsið hefur síðustu ár
reglulega ráðið leikskáld leikrit-
unarsjóðs Leikfélags Reykjavíkur
með það að markmiði að stuðla að
auknum áhuga ungs fólks á leikrit-
unarforminu og kynna verðandi
leikskáldum lögmál leiksviðsins.
Meðal þeirra verka sem ratað hafa á
svið fyrir tilstilli sjóðsins eru Stór-
skáldið eftir Björn Leó Brynjarsson
og Hótel Volkswagen eftir Jón
Gnarr.
„Sú nýbreytni verður í ár að við
tökum inn tvö leikskáld í stað eins.
Þetta eru þau Matthías Tryggvi
Haraldsson og Eva Rún Snorra-
dóttir, sem vinna sem leikskáld á
mjög ólíkan hátt. Mig langar að
dýpka samtal leikhússins við leik-
skáldin og því fá þau hvort um sig
rými í sýningarröðinni Umbúða-
laust til að þróa verk í vinnslu.
Þarna gefst þeim tækifæri til að ýfa
stélfjaðrirnar og prófa vængina áð-
ur en skilað er inn á borð fullbúnu
leikriti sem við munum síðan sýna,“
segir Brynhildur sem sjálf nam leik-
ritun við Yale School of Drama í
Bandaríkjunum fyrir nokkrum ár-
um.
„Það má öllum vera ljóst að
bandaríska klassíkin sem er
margbúin að sanna sig varð til í
vinnustofum innan leikhúsanna þar
sem textarnir fóru ítrekað í gegnum
síur umskrifana,“ segir Brynhildur
og vísar þar til leikskálda á borð við
Arthur Miller og Eugene O’Neill.
„Það er hlutverk okkar að hjálpa
höfundum að finna listræna farar-
tækið fyrir raddir framtíðarinnar,
enda eru leikrit ekki eitthvað eitt
heldur alls konar. Stundum er
áherslan á orðin og stundum á
áþreifanleikann,“ segir Brynhildur.
Kjörorðin „ung, fersk og aðgengi-
leg“ vísa, að sögn Brynhildar, einnig
til þess að leikhúsið hyggst skoða
hlutina með ferskum augum. „Ég
held að við megum alveg fara að
skoða klassísku verkin okkar. Sam-
tímis væri áhugavert að skoða bað-
stofusögurnar okkar sem innihalda
frásagnir af álfum, tröllum og
draugum. Við þurfum að þjappa
okkur saman með sögum til að
skilja okkur sjálf og sögurnar þurfa
að kallast á við samfélagið. Rætur
Leikfélags Reykjavíkur felast í því
að höfða til sálar fólks og í þeim
skilningi er Borgarleikhúsið alþýð-
legt leikhús. Við getum ekki nema á
traustum grunni og með þekkingu á
fortíðinni skilið framtíðina. Mér
finnst spennandi rannsóknarefni að
sjá hvað gerist þegar yngsta fólkið
tekur á elstu sögunum og skoðar
hvernig þær tala inn í samtímann.“
Leikhús er teymisvinna
Áður en þú varst ráðin borgar-
leikhússtjóri var búið að opinbera
að þú myndir leikstýra Makbeð eftir
Shakespeare. Finnst þér mikilvægt
að vera leikstýrandi leikhússtjóri?
„Mér finnst mjög spennandi að
leikhússtjóri sé sjálfur starfandi
listamaður, enda má maður ekki
gleyma því hvernig það er að vera á
gólfinu. Leikhús er teymisvinna,“
segir Brynhildur og bendir á að það
nýtist sér sem leikhússtjóra að
þekkja framleiðsluna frá öllum hlið-
um. „Ég hef verið leikari, leikstjóri,
höfundur, dramatúrg og framleið-
andi sýninga,“ segir Brynhildur og
tekur fram að reynslan við að skrifa
og setja upp einleikinn Brák árið
2009, sem hún lék um 180 sinnum
næstu árin, hafi breytt hugsun
hennar og nálgun.
„Reynslan hefur kennt mér að ég
rótfesti mig alltaf í tungumálinu og
fræðunum, enda hef ég notið dyggr-
ar aðstoðar starfsmanna Stofnunar
Árna Magnússonar í íslenskum
fræðum og Stofnunar Vigdísar
Finnbogadóttur í gegnum tíðina,“
segir Brynhildur og tekur fram að
með tímanum hafi vaknað hjá sér
löngun til að segja sögur á annan
hátt – þá sem leikstjóri en ekki leik-
ari. „Í framhaldinu fann ég kraft og
þörf fyrir að stíga lengra og þá sótt-
ist ég eftir stjórnunarstöðu innan
leikhússins,“ segir Brynhildur og
tekur fram að sem stjórnandi vilji
hún vera aðgengileg og gefa sam-
starfsfólki sínu tækifæri. „Ég veit
hvað það er dýrmætt að vera treyst
fyrir verkefnum og við vöxum ekki
nema í gegnum áskoranir.“
Kveikja eld í hjarta fólks
Talið berst aftur að tungumálinu
þegar Brynhildur upplýsir að hún
hafi það að markmiði að láta vinna
nýjar þýðingar að öllum þeim
erlendu verkum sem sýnd verði í
Borgarleikhúsinu næstu árin.
„Mér er tungumálið mjög hug-
leikið. Ég vil stuðla að því að við töl-
um gott íslenskt mál, en séum sam-
tímis óhrædd við að leika okkur með
málið. Leikhúsið er svo ótrúlega
máttugt fyrirbæri. Hér höfum við
tækifæti til að nota þessa flóknustu
og margslungnustu uppfinningu
mannsins – sem er tungumálið – í
því skyni að segja sögur og kveikja
eld í hjarta fólks,“ segir Brynhildur
og bendir á að sagnahefðin, hvort
heldur er við varðeld frummannsins
eða á baðstofulofti fyrri alda, tengist
þörfinni fyrir að skilja okkur sjálf
betur. „Ef við vitum ekki hver við
erum fáum við aldrei frið í sálinni.
Og hvað er betra en að stíga inn í
sal fullan af fólki þar sem allir upp-
lifa það sama og rifna úr hlátri eða
sitja algjörlega hljóð þegar mikil-
væg saga er sögð eða leyfa sér að
hágráta og taka til í eigin sálarlífi
þegar eitthvað sorglegt ber fyrir
augu? Ég vil halda áfram að vera
aðgengilegur sagnamaður og nú
gefst mér tækifæri til að gera það
sem leikhússtjóri,“ segir Brynhildur
sem hlakkar til að fá leikhúsgesti
aftur í hús undir lok sumars. „Mig
dreymir um að Borgarleikhúsið
verði hér eftir sem hingað til sjálf-
sagður viðkomustaður allra lands-
manna. Hér eiga allir að geta fundið
eitthvað við sitt hæfi.“
Morgunblaðið/Eggert
Happ „Ég hrósa happi að starfa hér með frábærum hópi starfsmanna,“ segir Brynhildur Guðjónsdóttir.
„Með bjartsýnina að leiðarljósi“
„Við viljum vera ung, fersk og aðgengileg,“ segir Brynhildur Guðjónsdóttir, nýr borgarleikhús-
stjóri, sem vill gefa nýju og ungu fólki tækifæri „Við vöxum ekki nema í gegnum áskoranir“