Feykir


Feykir - 18.12.2019, Blaðsíða 21

Feykir - 18.12.2019, Blaðsíða 21
48/2019 21 Nokkrar myndir úr vetrarríkinu á Króknum Jólasnjór og -ljós - Heilir og sælir lesendur góðir. Byrjum að þessu sinni með fallegri vísu eftir Gunnlaug P. Sigurbjörnsson. Ísland finnst mér yndislegt. Öðrum löndum fegra, enda hef ég aldrei þekkt annað dásamlegra. Hannes Jónsson frá Spákonufelli leggur okkur til tvær næstu vísur. Veginn ranga við ég bý vafinn angri kífsins. Ég er fangi innan í öldugangi lífsins. Á því virðist ekkert hik æra og dyggðir fúna. Hræsni, loforð, lygi og svik lætur mörgum núna. Hinn leyndardómsfulli og hógværi, yfir sínum vísum, þrátt fyrir að vera með snjöllustu hagyrðingum síns tíma, Jón Jónsson, bóndi á Eyvindarstöðum í Blöndudal, er höfundur að næstu vísu. Skekur Kári skýin grá, skellur bára á dröngum. Frjósa tárin fölum á fjólu og smáravöngum. Önnur vísa kemur hér eftir Jón og er það með magnaðri hringhendum sem sést hafa á prenti. Fræ að láði falla í dá fjötruð ráðum kífsins. Tónar hrjáðir hrekjast á hörpuþráðum lífsins. Ekki skemmir næsta vísa hringhenduformið. Höfundur Jón Pálmi Jónsson. Nóttin tauminn tekur brátt tjöld gullsaumast fjalla. Inn í drauma - djúpið blátt dagsins straumar falla. Fleiri hringhendur eru til eftir Jón. Varla jafna um villur má veg til hafnar finna, meðan hrafnar hoppa á hræjum nafna sinna. Gaman að heyra næst frá Jónasi Tryggvasyni, frá Finnstungu. Þótt mér vinnist seint að sjá salarkynnin lista há, fæ ég inni ennþá hjá æsku minnar söngvaþrá. Gott finnst mér næst að rifja upp þessa kunnu vísu hér áður fyrr eftir Ólínu Jónasdóttur. Jesús háum himni á heyr þá bæn og virtu, lofaðu mér að leggja frá landi í sólarbirtu. Vísnaþáttur 750 Þar sem jólin nálgast er vel við hæfi að rifja næst upp nokkrar vísur sem tengjast þeirri hátíð. Markús Jónsson, frá Borgareyrum, mun einhverju sinni hafa sent góðum vini svofellda kveðju: Vetrarmyrkrið víkja fer, vermir aftur sólin. Allt sem gott og göfugt er gleðji þig um jólin. Jón Helgason, sem mun hafa verið vélstjóri á Örvari frá Skagaströnd, mun hafa lagt eftirfarandi spurningu fyrir félaga sinn í desember 1987. Enn er bræla Bjöggi minn, basla ég með tólin. Ætlar karlinn ekki inn áður en koma jólin. Bjöggi, sem var Karlsson og einnig vélstjóri á Örvari, gat einnig gert vísur. Þessi sjóferð þreytir mann, þumbast karlinn bara. Þegar loksins lægir hann í land er mál að fara. Ef áfram skal halda með efni sem tengist jólahátíð er gaman að rifja næst upp vísu sem mig minnir að sé eftir Elivoga-Svein. Stanslaust kastar straumurinn steinum fram í ósinn. Í þrítugasta og sjötta sinn sé ég jólaljósin. Einhvern tímann mun Eyjólfur R. Eyjólfsson hafa ort svo í aðdraganda jóla: Guðsson á stalli ungmær ól af því fást sagnir skýrðar. Síðan menn halda heilög jól honum til lofs og dýrðar. Því miður man ég ekki höfund að næstu vísu, sem er vel gerð og tengist jólahátíðinni. Væri gaman að heyra frá lesendum ef þeir kannast við hana. Þó að fjúki fönn í skjól fölni allt sem lifir, hillir undir heilög jól hæsta tindinn yfir. Kemur þá víst að lokum þessa þáttar. Minnir að lokavísan sé eftir Gísla Ólafsson, héðan frá Eiríksstöðum. Margur lúinn labbar hér lífs um fúakeldur. En guð og trúin gefa mér geislabrú sem heldur. Langar að þakka ykkur lesendur góðir fyrir góð samskipti á árinu sem nú er senn liðið og bið ykkur þar með að vera sæl að sinni. / Guðmundur Valtýsson Eiríksstöðum, 541 Blönduósi Sími 452 7154 ( GUÐMUNDUR VALTÝSSON ) palli@feykir.is Það vantaði ekki snjóinn þegar óveðrið gekk niður í lok síðustu viku og ekki laust við að jólaljósin hafi glatt augað. Hér eru nokkrar myndir sem blaðamaður Feykis festi á kort sl. föstudag í gamla bænum á Sauðárkróki. /ÓAB

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.