Sjómannadagsblaðið

Ukioqatigiit
Ataaseq assigiiaat ilaat

Sjómannadagsblaðið - 07.06.2009, Qupperneq 6

Sjómannadagsblaðið - 07.06.2009, Qupperneq 6
6 SJÓMANNADAGSBLAÐIÐ 7. JÚNÍ 2009 Íslenska sumargotssíldin Íslenska sumargotssíldin elst upp í flóum og fjörðum norðanlands þar sem hún heldur sig til tveggja ára aldurs. Þá heldur hún í ferðalag frá uppeldisslóðum sínum og fer suður fyrir land, þar sem nóg er af æti. Fyrir sunnan land heldur hún sig í tvö ár þar sem hún stækkar og fitnar og verður kynþroska. Þá hægist á vexti hennar en í staðinn fer mikil orka í framleiðslu á kynvef (hrognum og svilum) síldarinnar. Sumargotssíldin er sérstakur stofn og er undarleg að því leyti að hún hrygnir í júlí. Á þeim tíma er norsk-íslenska síldin, sem hryggnir við Noreg, að éta til að fita sig fyrir veturinn. Þá er sumargotssíldin hins vegar ekkert að hugsa um það heldur er hún bara á fullu að „gera hitt“ eins og Þórbergur Þórðarson sagði, m.ö.o. að eðla sig. Að lokinni hrygningu við Suðurland í júlí-ágúst er hún frekar mögur. Þá heldur hún af stað í ætisleit til að fita sig fyrir vetrartíðina. Eftir það heldur hún inn á firði, þar sem sjórinn er kaldur, og leggst þar í dvala, nánast eins og birnir gera. Þegar vora tekur í apríl-maí fer hún að éta aftur eftir veturinn. Þá fer öll orka síldarinnar í það að þroska svil og hrogn svo hún geti hrygnt í júlí. Þess vegna er sumargotssíldin veidd á haustin og fram í janúar því þá er hún hvað feitust og best til manneldis. Stofn sumargotssíldarinnar er nú talinn vera milli sex og sjö hundruð þúsund tonn. Veiðar nema 100 til 150 þúsund tonnum á ári. Íslenska vorgotsíldin Íslenska vorgotsíldin hrygnir á vorin, einkum í mars og apríl. Meginhrygningarstöðvar hennar voru undan Suðurlandi en talið er að Surtseyjargosið 1963 hafi spillt hrygningarstöðvum hennar. Vorgotsíldin er svipuð norsku vorgotssíldinni að því leyti að hún hefur aðeins eitt fæðutímabil og blandast norska stofninum þegar hann kemur hingað til lands í fæðuleit. Veiðitímabil íslensku vorgotssíldarinnar er frá maí til ágúst en við Surtseyjargosið hrundi stofninn og hefur ekki náð sér á strik síðan. Veiðar eru því litlar sem engar. Norsk-íslenska vorgotssíldin Þriðji stofninn, og sá langstærsti, sem Íslendingar veiða úr á Íslandsmiðum - og reyndar út fyrir þau, er norska vorgotssíldin, sem við köllum norsk- íslenska síldarstofninn vegna þess að hann gengur inn í íslenska lögsögu í ætisleit en hrygnir við vesturströnd Noregs. Eftir hrygninguna leitaði norska síldin til hafs í ætisleit og fylgdi vorkomunni í sjónum norðvestur yfir hafið allt til hinna frægu síldarmiða við Norðurland á fyrri hluta 20. aldar. Stofninn hrundi svo á árunum 1968-1970 og kom þar margt til. Á hafísárunum 1965-1970 versnuðu lífsskilyrði síldarinnar vegna þess að gjöfulustu ætissvæðin voru þakin hafís með þeim afleiðingum að átustofnarnir hrundu. Ný veiðitækni gerði Norðmönnum kleift að stórauka veiðar á smásíld sem aðeins var 10 til 100 grömm á þyngd og koma þannig í veg fyrir að nýir árgangar bættust í stofninn. Þá jókst sóknin einnig í stórsíldina en veiðar á henni stunduðu Íslendingar, Rússar og að sjálfsögðu Norðmenn. Eftir að stofninn hrundi um 1970 hélt hann sig eingöngu við Noregsstrendur í 20 ár en eftir því sem hann stækkaði við lok 20. aldar hefur hann sótt æ lengra í átt til Íslands í ætisleit um hásumarið og hefur elsti hluti stofnsins verið langt innan íslenskrar fiskveiðilögsögu hin síðari ár. Stofninn er nú talinn vera um 12 milljónir tonna og nema veiðiheimildir árið 2009 samtals 1643 þúsundum tonna, þar af er hlutur Íslendinga 238.400 tonn. Ef vel tekst til með veiðarnar í sumar og aflinn að mestu verkaður til manneldis standa vonir til þess að hér sé um kærkomna búbót að ræða fyrir Íslendinga. Síld um allan sjó Síld er líklega ein algengasta fisktegund í heimi og hún er stærsti fiskstofninn í Norður Atlantshafi. Auk síldarstofna við Ísland og Noreg eru þrír síldarstofnar í Norðursjó, sem samanlagt eru í námunda við tvær milljónir tonna þegar vel árar. Litlir síldarstofnar eru við vesturströnd Skotlands og Írlands. Á sínum tíma var einnig lítill stofn suður af Plymouth í Bretlandi og þar í kring en sá dó út þegar hlýnaði upp úr 1930. Þá eru nokkrir smávaxnir stofnar í Eystrasalti. Við austurströnd Bandaríkjanna og Kanada eru allmargir síldarstofnar og flestir þeirra litlir. Einn þeirra, Georgsbankasíldin, hrundi svo gersamlega að hennar varð varla vart í 12 ár en upp úr 1990 fóru að bætast stórir árgangar í stofninn og við lok 20. aldar var hann talinn vera um þrjár milljónir tonna eða margfalt stærri en áður hafði verið. Við vesturströnd Bandaríkjanna og Kanada, allt norður til Alaska, eru einnig nokkrir síldarstofnar. Sú síld er einungis veidd vegna hrognanna sem seld eru til Japans fyrir gott verð. Síldin sjálf hefur ekki verið veidd til manneldis um langan tíma. Við Kamtsjatka er álíka stór stofn og íslenska sumargotssíldin. Loks er að geta stofns sem var við norðanverðar Japanseyjar, undan Hokkaido. Sá síldarstofn var talinn stærsti síldarstofninn við Kyrrahafsströnd Asíu. Hann hrundi alveg vegna ofveiði skömmu fyrir 1950. Stofninn hefur ekki náð sér á strik síðan þrátt fyrir margvíslegar tilraunir Japana með klak. Síldveiðar eru þekktar frá fornu fari við strendur Skandinavíu. Þeirra er getið í Egilssögu. Skallagrímur þekkti t.a.m. til síldveiða þegar hann nam hér land og flutti e.t.v. þá þekkingu Norðmanna með sér ásamt öðrum hingað til Íslands. Talið er að Borgfirðingar hafi fengist við síldveiðar innst í Hvalfirði og flutt aflann á hestum heim í Borgarfjörð. Þá kenningu styður m.a. hin forna leið sem liggur úr Botnsvogi til Skorradals um Botnsheiði og heitir Síldarmannagötur. Gatan liggur í hlykkjum upp eftir Síldarmannabrekkum fyrir utan Brunná. Upphaf leiðarinnar er við stóra vörðu og er öll leiðin stikuð og greinileg. Við Bláskeggsá kvíslast leiðin, má annars vegar fara eftir gamalli götu niður í Litla-Sandsdal eða halda áfram eftir Síldarmannagötum til Skorradals. Þetta er skemmtileg og falleg leið og fær öllum gangandi. Við síldveiðar í Grundarfirði í byrjun desember 2007. Frá október og til desemberbyrjunar veiddust hátt í hundrað þúsund tonn af síld í firðinum. Hér er áhöfnin á Sighvati Bjarnasyni VE að dæla aflanum í lestarnar. Ljósmynd: Morgunblaðið. Síldarmannagötur í Botnsvogi Þrír síldarstofnar við Ísland Við Ísland voru þrír síldarstofnar, íslenska sumargotssíldin íslenska vorgotssíldin og norsk-íslenski síldarstofninn, sem er langstærsti síldarstofn veraldar, alls talinn vera um tólf milljónir tonna. Við síldveiðar í landnót í Eyjafirði. Ljósmynd Eðvarð Sigurgeirsson. Silfur hafsins III. bindi 2007, bls. 248.

x

Sjómannadagsblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Sjómannadagsblaðið
https://timarit.is/publication/557

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.