Sjómannadagsblaðið - 07.06.2009, Side 10
10 SJÓMANNADAGSBLAÐIÐ 7. JÚNÍ 2009
Flestir eru þeirrar skoðunar að
skynsamlegt sé að nýta auðlindir
hafsins með skynsamlegum og
sjálfbærum hætti og tryggja þannig
jafnvægi lífríkisins. Það hefur í för
með sér að óskynsamlegt hlýtur að
teljast að sleppa alfarið afar stórum og
mikilvægum hlekkjum í fæðukeðju
hafsins eins og segja má að hafi verið
raunin hér við land frá 1986 að því er
varðar nýtingu á tveimur af
nytjastofnum hvala; hrefnu og
langreyði. Sumum tegundum hvala
hefur fjölgað mikið á Íslandsmiðum á
umliðnum árum t.d. hnúfubak og
langreyði. Rannsóknir
Hafrannsóknastofnunarinnar benda
eindregið til þess að ástand
hrefnustofnsins og
langreyðarstofnsins séu í mjög góðu
ástandi og á það líklega einnig við um
fleiri stofna, svo sem sandreyðar og
hnúfubaks. Alls eru tólf tegundir
hvala við landið og viðurkenndar
aðferðir við talningu þeirra benda til
að hrefnur í Norður-Atlantshafi séu
nálega 200 þúsund og langreyðar um
50 þúsund. Þar af er talið að hrefnur á
íslenska stofnsvæðinu (Mið
Atlantshafsstofn), séu um sjötíu
þúsund og langreyðar um tuttugu
þúsund.
Veiðar á hrefnu í vísindaskyni voru
stundaðar frá árinu 2003 til 2007, alls
200 dýr. Jafnframt voru veiðar á
hrefnu og langreyði stundaðar í
atvinnuskyni frá haustinu 2006 er
ráðherra gaf út leyfi til veiða á níu
langreyðum og þrjátíu hrefnum enda
var Ísland þá ekki lengur háð banni
við hvalveiðum í atvinnuskyni. Kom
Hvalur 9 með fyrstu langreyðina í 17
ár að bryggju í Hvalfirði að morgni 22.
október að viðstöddu miklu fjölmenni
fólks. Frá 2003 hafa alls verið veidd
253 dýr, þar af 246 hrefnur. Vegna
markaðsaðstæðna varð hlé á veiðum á
langreyði árin 2007 og 2008 en
hrefnuveiðum var haldið áfram og í
vor hófust þær í maí. Í upphafi ársins
var svo gefin út reglugerð sem gildir
til fimm ára, en hún kveður m.a. á um
heimild til árlegra veiða á langreyðum
í samræmi við veiðiráðgjöf
Hafrannsóknastofnunar. Á þessu ári
er heimilt að veiða 150 langreyðar og
100 hrefnur. Þá þegar við útgáfu
reglugerðarinnar var Hvalur 8 tekinn í
slipp en hann hefur legið óhreyfður
við bryggju í 21 ár. Hvalur 9 var svo að
segja tilbúinn enda gerður klár fyrir
veiðarnar haustið 2006 eftir að hafa
legið óhreyfður í 17 ár. Nú þegar hafa
hrefnuveiðibátarnir komið með
nokkrar hrefnur að landi og Hvalur 8
og 9 eru um það bil að hefja veiðar.
Afli þeirra fer að venju til vinnslu í
hvalstöðinni í botni Hvalfjarðar, þar
sem allt er nú til reiðu. Í raun er þar
yfir að líta eins og hvalveiðum hafi
aldrei verið hætt.
Munar um allt
Kristján Loftsson, forstjóri Hvals,
er bjartsýnn á framhaldið og segir
ljóst að þjóðarbúið muni um þær
tekjur sem fáist fyrir hvalaafurðirnar
á Japansmarkaði og þau um það bil
200 störf sem hvalaútgerðin hafi í
för með sér, á sjó, við vinnslu og við
afleidd þjónustustörf. „Ef við fáum
að starfa í friði með sama hætti og
fyrir hvalveiðibannið má alveg gera
ráð fyrir að útflutningsverðmætin
verði að minnsta kosti 2% af
útflutningi sjávarafurða eins og það
var á árum áður. Við Íslendingar
erum heppnir að vera ekki í
Evrópusambandinu núna því þar á
bæ mega menn ekki heyra minnst
á hvalveiðar. Evrópusambandið
kom t.d. á síðasta ári í veg fyrir
frumbyggjaveiðar Grænlendinga á
tíu hnúfubökum næstu fimm árin
þrátt fyrir að fyrir lægi samþykkt
vísindanefndar Hvalveiðiráðsins á
því að veiðarnar myndu ekki hafa
nein áhrif á stofninn,“ segir Kristján.
Hann gerir ráð fyrir að eitthvað af
langreyðarkjötinu verði selt hér
innanlands ásamt rengi sem birtast
muni á næsta þorrablóti.
Nefnd, sem falið var að semja nýtt
lagafrumvarp um hvalveiðar, leggur til
að innheimt verði 50 þúsund króna
gjald fyrir hvert veiðileyfi og sérstakt
veiðigjald fyrir hvert dýr sem veiðist.
Fari það gjald eftir stærð dýranna og
nemi frá 10 þúsund krónum til 1
milljónar. Aðspurður um tillögur
nefndarinnar segir Kristján að í
grundvallaratriðum sé hann ekki
andvígur veiðigjaldinu enda hafi verið
greitt slíkt gjald af hvalveiðum um
langt árabil. „Það gera sér fáir grein
fyrir því að við höfum alla tíð greitt
veiðigjald af hvalveiðum, allt frá 1948.
Það heitir hvalveiðigjald. Ég tel
mikilvægt að sjávarútvegurinn sitji
við sama borð í þessum efnum sem
öðrum, en ekki að hvalveiðarnar sem
slíkar verði teknar út og sérkröfur
settar á hann,“ segir Kristján Loftsson.
Laus undan núllkvóta
Árið 1982 samþykkti Alþjóða-
hvalveiðiráðið núllkvóta, eða
tímabundið bann við öllum
hvalveiðum í atvinnuskyni. Kom
bannið til framkvæmda 1986. Ísland
ákvað að hlíta banninu enda sagt
tímabundið til fjögurra ára, en gekk
engu að síður úr ráðinu 1992 er
stjórnvöldum þótti sem meirihluti
aðildarþjóða Hvalveiðiráðsins tæki
engum vísindalegum rökum um
veiðiþol hvalastofna á norðurslóðum.
Stofnaði Ísland ásamt Noregi,
Færeyjum og Grænlandi, Norður-
Atlantshafssjávarspendýraráðið,
NAMMCO, í því skyni að uppfylla
skyldur sínar samkvæmt 65. gr.
hafréttarsamningsins til að eiga
samstarf á vettvangi viðeigandi
alþjóðastofnana um verndun
hvala, stjórnun veiða á hvölum og
rannsóknir á hvölum. Ísland gekk á
ný í Alþjóðahvalveiðiráðið árið 2002,
þó með fyrirvara um hvalveiðibann
ráðsins. Stjórnvöld hafa um langt
árabil varið tugum milljóna króna til
kynningarstarfs á málstað Íslands í
hvalamálum enda hefur alltaf verið
markmiðið að hefja veiðarnar á ný hér
við land þegar aðstæður leyfðu.
Hafa veruleg áhrif
á viðgang fiskistofna
Samkvæmt útreikningum sem birtust
í tveim greinum í viðurkenndu
vísindatímariti árið 1997 éta hvalir
við landið samtals árlega um sex
milljónir tonna af fæðu, þar af um
Loksins eru hvalveiðar hafnar á ný
Munu skila miklum verðmætum í þjóðarbúið og endurvekja mannlíf í Hvalfirði og gamla en glæsilega útgerðarsögu íslensku
hvalveiðiþjóðarinnar.
Gísli Víkingsson hvalasérfræðingur.
Kristján Loftsson, forstjóri Hvals hf.