Morgunblaðið - 12.05.2020, Blaðsíða 26
STJARNAN
Bjarni Helgason
bjarnih@mbl.is
Kvennalið Stjörnunnar í handknatt-
leik fékk gríðarlegan liðstyrk í gær
þegar landsliðskonurnar Eva Björk
Davíðsdóttir og Helena Rut Örvars-
dóttir skrifuðu báðar undir tveggja
ára samning við félagið.
Báðar eru þær 25 ára gamlar og
að snúa aftur heim úr atvinnu-
mennsku en þær hafa verið fasta-
menn í íslenska landsliðinu und-
anfarin ár.
Helena Rut er uppalin í Garða-
bænum og hóf meistaraflokksferil
sinn með Stjörnunni árið 2012.
„Það var margt sem spilaði inn í
þá ákvörðun mína að koma heim,“
sagði Helena í samtali við Morgun-
blaðið í gær.
„Ég tók góðan tíma í að hugsa
þetta fram og til baka en ég vil ekki
meina að kórónuveirufaraldurinn
hafi átt stóran þátt í þeirri ákvörð-
un minni að koma heim, þótt hún
hafi kannski gert það að einhverju
leyti.
Mér stóð til boða að spila áfram
erlendis en það er ákveðinn pakki
líka að þurfa flytja og byrja á núll-
punkti ef svo má segja. Það voru
margir að koma heim, deildin að
styrkjast, og að lokum fannst mér
mest spennandi í stöðunni að koma
heim í Stjörnuna.“
Stjarnan fyrsta val
Helena gekk til liðs við norska fé-
lagið Byåsen árið 2017. Hún fór svo
til Dijon í Frakklandi í janúar 2019
áður en hún samdi svo við Sönder-
jyskE í Danmörku sumarið 2019 en
hefur nú ákveðið að snúa heim í
Garðabæinn.
„Ég er uppalin í Garðabænum og
Stjarnan var alltaf mitt fyrsta val.
Rakel Dögg Bragadóttir, þjálfari
liðsins, hafði samband við mig og
hennar hugmyndafræði fyrir næsta
tímabil heillaði mig mikið. Hún vildi
styrkja skyttusvæðin og það hentaði
því vel fyrir mig að koma aftur til
uppeldisfélagsins.
Þessi þrjú ár mín í atvinnu-
mennsku voru afar lærdómsrík og
ég kem heim reynslunni ríkari. Ég
er með mikinn metnað fyrir næsta
tímabili og ég ætla mér að æfa eins
mikið og ég mögulega get. Vonandi
get ég svo bara haldið áfram að
bæta mig sem íþróttamaður.“
Óútreiknanleg deild
Margar landsliðskonur hafa
ákveðið að snúa aftur heim úr at-
vinnumennsku á undanförnum árum
og á Helena Rut von á mjög jafnri
og skemmtilegri úrvalsdeild á næstu
leiktíð.
„Eitt af því sem heillaði mig einna
mest við það að koma heim var
hversu margir leikmenn hafa verið
að snúa aftur til Íslands úr atvinnu-
mennsku að undanförnu. Það er líka
gaman að sjá hvernig þessir leik-
menn hafa dreift sér í liðin í efstu
deild.
Það verður erfitt að segja fyrir
um úrslit leikja á næsta ári og ég á
von á mun jafnari keppni en oft áð-
ur. Það verður því mjög forvitnilegt
að sjá hvernig næsta leiktíð þróast,“
bætti Helena við.
Rétti tíminn til að snúa heim
Eva Björk er uppalin hjá Gróttu á
Seltjarnesi og hefur leikið sem at-
vinnumaður frá árinu 2016. Hún við-
urkennir að það sé ákveðið hark að
vera atvinnumaður í handbolta og
hún hafi fundið það innra með sér að
það hafi verið kominn tími á að snúa
aftur til Íslands eftir fjögur ár á er-
lendri grundu.
Ég var farin að leiða hugann að
því að snúa aftur heim snemma á
þessu ári,“ sagði Eva í samtali við
Morgunblaðið. „Þegar það varð ljóst
að ég yrði ekki áfram hjá Skuru
ákvað ég fljótlega að ég vildi snúa
aftur heim til Íslands.
Það er mikill pakki að þurfa að
flytja og hefja nýtt líf með nýju liði í
nýju landi. Ég er búin að gera það
þrisvar á fjórum árum og mér fannst
ég tilbúin að snúa aftur heim og ég
er mjög ánægð að vera búin að
skrifa undir í Garðabænum.“
Engin eftirsjá
Eva Björk var í viðræðum við
nokkur lið hér heima áður en hún
ákvað að fara í Garðabæinn, en hún
hélt út í atvinnumennsku árið 2016
þegar hún samdi við Sola í Noregi.
Þar lék hún í eitt ár áður en hún
samdi við Ajax Köbenhavn árið
2017. Hún lék í Danmörku í tvö
tímabil áður en hún gekk til liðs við
sænska úrvalsdeildarfélagið Skuru
síðasta sumar.
„Ég talaði við fleiri lið enda fannst
mér mikilvægt að vera opin fyrir
öllu því sem var í boði. Að lokum
ákvað ég að velja Stjörnuna þar sem
það var besti kosturinn í stöðunni.
Ég ætla alls ekki að útiloka það að
ég fari einhvern tímann aftur út en
mér finnst engu að síður líklegt að
ég sé komin til þess að vera hér
heima.
Heilt yfir er ég ánægð með minn
atvinnumannsferil enda ekki auðvelt
að fara ungur út og hoppa út í djúpu
laugina. Þetta er pakki og ég er ekki
bara sterkari leikmaður eftir tíma
minn úti heldur líka sterkari ein-
staklingur. Ég hef spilað í frábærum
deildum með mjög góðum leik-
mönnum og þjálfurum. Þetta voru
fjögur góð ár og ég sé ekki eftir
neinu.“
Minni liðin að brúa bilið
Eva Björk varð tvívegis Íslands-
meistari með Gróttu, 2015 og 2016,
áður en hún hélt út í atvinnu-
mennsku. Þá varð hún einnig bikar-
meistari með Gróttu 2015 en hún á
von á því að Fram og Valur verði
ekki með eins mikla yfirburði í deild-
inni í ár og á undanförnum árum.
„Það eru fyrst og fremst frábærar
fréttir að sjá hvað deildin er að
styrkjast mikið. Það eru mörg lið að
styrkja sig og burtséð frá þeim leik-
mönnum sem eru að koma heim hafa
hin liðin verið að brúa bilið á Fram
og Val á undanförnum árum finnst
manni.
Það er fullt af ungum og efnileg-
um stelpum sem spila hérna heima
og það verður gaman að sjá hvernig
þær eiga eftir að blandast saman við
eldri og reyndari leikmenn næsta
vetur. Heilt yfir á ég von á mjög
skemmtilegu tímabili með mörgum
hörkuleikjum,“ sagði Eva Björk í
samtali við Morgunblaðið.
Reynslunni
ríkari eftir
dvöl erlendis
Landsliðskonur sömdu í Garðabæ
Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Svíþjóð Eva Björk Davíðsdóttir var í baráttu um sænska meistaratitilinn
með Skuru í vetur og mætti Val í Evrópukeppninni í haust.
Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Danmörk Helena Rut Örvarsdóttir var í toppbaráttu með SönderjyskE í
dönsku B-deildinni í vetur en lið hennar hafnaði í þriðja sæti.
26 ÍÞRÓTTIR
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 12. MAÍ 2020
12. maí 1984
Oddur Sigurðsson setur
Norðurlandamet í 400 metra
hlaupi karla á móti í Austin í
Texas, þar sem
hann hafnar í
þriðja sæti á
45,36 sekúndum
og bætir um leið
vikugamalt Ís-
landsmet sitt
um 0,33 sek-
úndur. Norðurlandamet
Finnans Markku Kukkoaho
frá úrslitahlaupi ÓL í Münc-
hen 1972 var 45,49 sekúndur.
Íslandsmet Odds stendur enn,
36 árum síðar, og þessi ár-
angur hans hefði nægt til
fjórða sætis á HM árið áður.
12. maí 1991
Magnús Ver Magnússon
tryggir sér Evrópumeist-
aratitilinn í -125 kg flokki í
kraftlyftingum
þegar hann lyft-
ir samtals 962,5
kílóum á EM í
Frakklandi.
Hann sigrar
með umtals-
verðum yf-
irburðum. Þá fær Hjalti
Árnason bronsverðlaun í
+125 kg flokki á mótinu.
12. maí 1996
Íslenska karlalandsliðið í
handknattleik sigrar Fær-
eyinga, 29:20, í vináttulands-
leik í Þórshöfn í Færeyjum.
Ólafur Stefánsson skorar 8
mörk fyrir Ísland, Dagur Sig-
urðsson og Bjarki Sigurðsson
5 mörk hvor. Ísland vann
fyrri leik liðanna sólarhring
áður, 29:19 en liðið er að búa
sig undir undankeppni HM.
12. maí 1998
„Ég er rétt að átta mig á
þessu núna,“ segir Auðunn
Jónsson við Morgunblaðið
eftir að hafa hreppt Evr-
ópumeistaratitilinn í -125 kg
flokki í kraftlyftingum á EM í
Finnlandi. Hann er því annar
Íslendingurinn, á eftir Magn-
úsi Ver Magnússyni, til að
verða Evrópumeistari í þess-
um þyngdarflokki. Hann lyft-
ir samtals 950 kílóum.
12. maí 2003
„Þessi sigur var fullkominn
kveðjugjöf fyrir Guðna Bergs-
son,“ segir Jay-Jay Okocha,
landsliðsmaður
Nígeríu og leik-
maður Bolton,
eftir að lið
þeirra sigrar
Middlesbrough
2:1, í loka-
umferð ensku
úrvalsdeildarinnar og tryggir
sér áframhaldandi sæti í
deildinni. Guðni spilar þarna
sinn 449. og síðasta deilda-
leik á ferlinum og kveður
Bolton eftir átta ára dvöl hjá
félaginu þar sem hann var
fyrirliði síðustu árin.
12. maí 2015
„Ég hef séð pabba verða Ís-
landsmeistara og hefur alltaf
langað til að ná því sjálfur.
Loksins er ég Íslandsmeist-
ari. Þetta gæti ekki verið
betra. Það eru 15 ár síðan
pabbi náði þessu,“ segir
Adam Haukur Baumruk, 21
árs skytta í handboltaliði
Hauka, við Morgunblaðið eft-
ir sigur á Aftureldingu í
þriðja úrslitaleik liðanna um
Íslandsmeistaratitilinn, 27:24.
Þar með eru Haukar meist-
arar í tíunda skipti en faðir
Adams, Petr Baumruk, varð
meistari með liðinu árið
2000.
Á ÞESSUM DEGI
Knattspyrnumaðurinn Hörður
Árnason er hættur við að leggja
skóna á hilluna og hefur samið við
uppeldisfélag sitt HK um að leika
áfram með því í ár. Hörður er
leikjahæsti leikmaður HK í efstu
deild frá upphafi. Hann lék 20 leiki
með liðinu í deildinni árið 2008, fór
til Stjörnunnar 2010, lék þar í átta
ár og er fjórði leikjahæstur hjá
Garðabæjarliðinu í deildinni með
128 leiki. Hörður sneri aftur til HK
2018, tók þátt í að koma liðinu upp í
úrvalsdeild og lék síðan með því
þar, 21 leik af 22 á síðasta ári.
Hörður leikur
áfram með HK
Ljósmynd/HK
Reyndur Hörður Árnason lék fyrst
með HK-ingum árið 2008.
Þóra María Sigurjónsdóttir er
gengin til liðs við handknattleikslið
HK og mun leika með liðinu í úr-
valsdeild kvenna á næstu leiktíð.
Þóra María skrifar undir tveggja
ára samning við HK og kemur til fé-
lagsins frá Aftureldingu sem féll úr
efstu deild á síðustu leiktíð. Þóra er
á meðal efnilegustu leikmanna
landsins en hún skoraði 34 mörk
fyrir Mosfellsliðið í fyrstu níu leikj-
um tímabilsins áður en hún sleit
krossband í hné í nóvember. Þá á
Þóra leiki að baki með öllum yngri
landsliðum Íslands.
Þóra María í
Kópavoginn
Ljósmynd/HK
Liðsauki Þóra María Sigurjóns-
dóttir hefur samið við HK.