Morgunblaðið - 16.05.2020, Blaðsíða 23

Morgunblaðið - 16.05.2020, Blaðsíða 23
23 MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 16. MAÍ 2020 Ísland og Bretland hafa gert með sér samkomulag til næstu 10 ára sem ætlað er að efla tvíhliða samskipti ríkjanna með sameig- inlegum framtaksverkefnum. Yf- irlýsing þessa efnis, sem und- irrituð var í vikunni, ber heitið Sameiginleg sýn til ársins 2030. Hún er í raun vitnisburður um náin tengsl Íslands og Bretlands og áherslu beggja ríkja á að efla hagsæld, sjálfbærni og öryggi, jafnt innan ríkjanna sem og á al- þjóðavísu. Vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem við búum nú við, fór undirritun okkar Wendy Morton, ráðherra Bretlands fyrir málefni Evrópu og Ameríku, fram á fjar- fundi en það dró ekki úr einhug okkar um að treysta enn frekar samskipti ríkjanna. Yfirlýsingin markar þáttaskil í samskiptum ríkjanna sem eiga upphaf sitt að rekja til nokkuð óhefðbundinna aðstæðna. Stjórnmála- samband Íslands og Bretlands var stofnað á umbreytingartímum í heiminum fyrir réttum 80 árum og rétt eins og nú voru þá blikur á lofti sem ekki sá fyrir endann á. Afhending trúnaðarbréfs hins nýskipaða sendiherra Breta bar upp á sama dag og Bretar hernámu Ísland þann 10. maí 1940. Þrátt fyrir skugga hernámsins voru móttökur Íslendinga á breska sendiherranum vinsamlegar. Þær voru á margan hátt til marks um það sem koma skyldi og líkt og samband okkar í gegnum árin sýnir eru böndin sem tengja ríkin saman sterk þótt snurða kunni stundum að hlaupa á þráðinn. Samskipti Ís- lands og Bretlands eiga sér djúpar rætur og felast í ríkum samskiptum fólks, sameig- inlegum áhugamálum, samstarfi háskóla og sameiginlegum hags- munum nágrannaríkja í Norður-Atlantshafi. Eftir að Bretland gekk formlega úr Evr- ópusambandinu og þar með úr EES- samningnum í lok janúarmánaðar sl. var ljóst að verkefnið fram undan fælist í því að end- urmóta framtíðarsamskipti þjóðanna tveggja. Í desember sl. skipaði ég aðalsamningamann og samninganefnd sem hefur verið falið það hlutverk að leiða viðræður af Íslands hálfu um framtíðarsamband við Bretland. Viðræðurnar munu snúast um nokkra þætti en lykilþáttur í þeirri vinnu felst í gerð fríverslunarsamnings. Bretland er stærsti einstaki útflutningsmark- aður Íslands hvað vöruviðskipti varðar og er jafnframt næststærsta viðskiptaland Íslands og eru tækifærin sem felast í nýjum og yf- irgripsmiklum fríverslunarsamningi því mikil. Eins og gefur að skilja hefur framtíð- arviðræðum við Bretland seinkað vegna heimsfaraldursins af völdum kórónuveir- unnar. Engu að síður hefur samninganefnd Íslands unnið hörðum höndum að því að und- irbúa jarðveginn og koma viðræðum af stað eins fljótt og auðið er. Í síðustu viku funduðu aðalsamningamenn um skipulag viðræðnanna og markmið hvers og eins ríkis á hverju samn- ingssviði fyrir sig. Andrúmsloftið á þessum fundi var jákvætt og ljóst er að allir eru til- búnir til að leggja mikið á sig til að fullgerður samningur geti litið dagsins ljós fyrir árslok. Okkar markmið er að gera nýjan samning sem tryggir langvarandi tengsl ríkjanna. Við erum vel í stakk búin fyrir viðræðurnar og hlökkum til að takast á við þetta mikilvæga verkefni. Eftir Guðlaug Þór Þórðarson » Bretland er stærsti einstaki útflutningsmarkaður Ís- lands hvað vöruviðskipti varð- ar og er jafnframt næststærsta viðskiptaland Íslands og eru tækifærin sem felast í nýjum og yfirgripsmiklum fríversl- unarsamningi því mikil. Guðlaugur Þór Þórðarson Höfundur er utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. Bönd Íslands og Bretlands treyst Morgunblaðið/Brynjar Gauti London Samskipti Íslands og Bretlands eiga sér djúpar rætur, segir ráðherra. Staðreyndin er þessi: Mark- aðshlutdeild innlendrar fram- leiðslu helstu garðyrkjuafurða á innanlandsmarkaði féll í tonnum úr 75% árið 2010 í 52% árið 2018. Meginmarkmið nýs garðyrkju- samnings milli stjórnvalda og bænda sem skrifað var undir í vikunni er að snúa þessari þróun við. Gerðar eru grundvallar- breytingar á starfsumhverfi ís- lenskrar garðyrkju og með því skapaðar forsendur fyrir því að hægt verði að auka framleiðslu á íslensku grænmeti um 25% á næstu þremur árum og auka þannig markaðshlutdeild inn- lendrar framleiðslu. Til þess að ná þessu markmiði er árlegt fjárframlag stjórnvalda til samningsins hækkað um 200 milljónir króna á ári, úr um 660 milljónum í um 860 milljónir. Tekur sú breyting gildi strax á þessu ári. Stóraukin framlög vegna raforkukostnaðar Í samkomulaginu er gerð sú breyting að fyrirkomulagi á niðurgreiðslum á raforku er breytt með þeim hætti að yl- ræktendum, þ.e. þeim sem rækta í gróðurhúsum eða öðru lokuðu rými, verða tryggðar beingreiðslur vegna lýsingar í stað niðurgreiðslu kostnaðar. Þetta er gert til þess að stuðla að hagfelldari starfsskilyrðum greinarinnar. Jafnframt er bætt við þennan lið samningsins alls 70 milljónum króna til að stuðla að lægra raforkuverði til ís- lenskrar garðyrkju. Fjölbreyttari ræktun nýtur beingreiðslna Frá því fyrsti búvörusamningur um garð- yrkju var gerður árið 2002 hafa stuðnings- greiðslur takmarkast við inniræktun vegna framleiðslu á gúrkum, tómötum og papriku. Með hinu nýja samkomulagi bætist við nýr flokkur beingreiðslna vegna ræktunar á öðr- um grænmetistegundum. Með því er hvatt til og stuðlað að fjölbreyttari ræktun grænmetis en hingað til hefur þekkst í íslenskri garð- yrkju. Framleiðsla á útiræktuðu grænmeti, m.a. kínakáli, blómkáli, gulrótum og rófum, hefur hingað til fengið afar takmarkaðan stuðning í formi jarðræktarstyrkja. Með hinu nýja sam- komulagi eru framlög í formi jarðrækt- arstyrkja hækkuð umtalsvert og þannig stuðl- að að enn frekari framleiðslu á þessum vörum og tilheyrandi fjárfestingu í greininni. Íslensk garðyrkja kolefnisjöfnuð Meðal annarra atriða samkomulagsins má nefna það metnaðarfulla markmið sem stjórn- völd og bændur sameinast um að íslensk garð- yrkja verði að fullu kolefnisjöfnuð eigi síðar en árið 2040. Er 15 milljónum kr. varið til þessa verkefnis strax á þessu ári. Þá er í sam- ræmi við sáttmála ríkisstjórnarinnar auknu fjármagni varið til aðlögunar að lífrænum framleiðsluháttum í garðyrkju. Markmið þess er að aðstoða framleiðendur við að uppfylla þær kröfur sem lífræn garðyrkjuframleiðsla hefur í för með sér og auka framboð slíkra vara á markaði. Í samkomulaginu er jafnframt að finna ákvæði um að ráðuneyti mitt setji á fót mæla- borð fyrir íslenskan landbúnað sem mun halda utan um upplýsingar um matvælaframleiðslu á sviði landbúnaðar á Íslandi. Með því verður hægt að hafa yfirsýn yfir framleiðslu, sölu og birgðir í landinu m.a. vegna fæðuöryggis og slíkur gagnagrunnur eykur auk þess gagnsæi. Þetta er verkefni sem ég hef talað fyrir í nokkurn tíma og ég vonast til að ljúka á þessu ári. Fjárfest í framtíðinni Ég er afskaplega stoltur og ánægður með þetta samkomulag sem markar tímamót í ís- lenskri garðyrkju. Með sína öfundsverðu sér- stöðu, sem birtist meðal annars í hreina vatn- inu okkar, landrýminu, hreinleika og umhverfisvænum framleiðsluháttum, hef ég óbilandi trú á framtíð íslenskrar garðyrkju. Með þessu samkomulagi erum við að fjárfesta í framtíðinni og grípa þau tækifæri sem við okkur blasa. Eftir Kristján Þór Júlíusson »Með þessu samkomulagi erum við að fjárfesta í framtíðinni og grípa þau tækifæri sem við okkur blasa í íslenskri garðyrkju. Kristján Þór Júlíusson Höfundur er sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Blásið til sóknar í íslenskri garðyrkju Gott aðgengi að menntun og öflugt vísinda- og rannsóknastarf um allt land er mikilvægt. Við sem þjóð höfum ekki efni á að láta tækifærin fara fram hjá okkur, jafnvel án þess að taka eftir þeim. Þetta á við bæði um tækifæri til nýsköpunar innan hefðbundinna atvinnugreina, landbúnaðar og sjávarútvegs, en ekki síður innan menningarstarfs, ferðaþjónustu og fleiri greina. Menntun og rannsóknarstarf Það eru mikil sóknartækifæri í uppbyggingu þekkingarstarfsemi, sem tekur mið af sérstöðu hvers landsvæðis fyrir sig. Það skilar árangri að efla svæðisbundna rannsókna- og þekking- arkjarna og stuðla að faglegum tengslum bæði þeirra á milli og við háskóla, rannsóknarstofn- anir og fyrirtæki. Með auknu samstarfi má nýta mannauð og aðstöðu betur og auka að- gengi nemenda og fræðimanna að auðlindum menningar og náttúru landsins. Slíkt stuðlar að fleiri starfstækifærum á landsbyggðinni og að fjölbreyttari og sterkari samfélögum. Það er engin tilviljun, að í stefnumótandi byggðaáætlun 2018 – 2024 eru megináherslur lagðar á að jafna aðgengi að þjónustu, jafna aðgengi til atvinnu og stuðla að sjálfbærri þró- un byggðar. Tillögur um eflingu rannsókna og vísindastarfsemi og um hagnýtingu upplýs- ingatækni til háskólanáms eru sérlega mik- ilvægar í þessu samhengi. Þær eru sprottnar af skilningi á mik- ilvægi menntunar og rannsókna sem aflgjafa til að takast á við þær samfélagslegu áskoranir sem landsbyggðin og samfélagið allt stendur frammi fyrir á kom- andi árum. Menntun undirstaða nýsköpunar Nýsköpun og hvers konar hagnýting hugvits er mikilvægur grunnur fjölbreytts og sjálfbærs atvinnulífs, sterkrar samkeppn- isstöðu, hagvaxtar og velferðar. Ekki síst í ljósi þeirra miklu þjóðfélags- umbreytinga sem eru og munu eiga sér stað á komandi árum, m.a. vegna tækniþróunar. Rannsókna- og þekkingarstarfsemi er mik- ilvægur hluti af atvinnulífinu. Eðlilegt er að hluti rannsóknastarfsemi fari fram vítt um landið, þar sem viðfangsefnin eru, aðstæður eru hagstæðar og fólk býr að mikilvægri stað- þekkingu. Samþætting nýrrar þekkingar við rótgróna svæðisbundna þekkingu skapar hverju svæði sérstöðu, sem styrkir stöðu þess. Aðgengi að innviðabúnaði vísindarannsókna, samstarf við rannsakendur rannsóknastofnana og háskóla er afar mikilvægt. Starfsfólk Stofnunar rannsóknasetra Há- skóla Íslands tekst á við mörg brýn viðfangs- efni samtímans með rannsóknum sínum og þátttöku í ýmiss konar nefndum og ráðum. Má þar nefna faghópa Rammaáætlunar, gerð landsáætlunar í skógrækt, stýrihóp um endur- skoðun á stefnu Íslands í vernd líffræðilegrar fjölbreytni og fleira. Vísindastarf með yngri skólastigum Mörg rannsóknarsetur vinna með yngri skólastigum að ýmiss konar fræðsluverk- efnum. Setrið á Suðurlandi og grunnskóli Blá- skógabyggðar á Laugarvatni taka t.d. þátt í samstarfsverkefni um mat á áhrifum loftslags- breytinga á fuglastofna. Setrið í Bolungarvík kemur að líffræðikennslu 9. og 10. bekkinga í Grunnskóla Bolungarvíkur með því að skipu- leggja vettvangs- og rannsóknavinnu þeirra. Setrið á Hólmavík er með þemaverkefni um þjóðtrú og galdra meðal nemenda í grunnskól- unum á Hólmavík og Drangsnesi svo fátt eitt sé nefnt. Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi þessa starfs með ungu fólki. Að vekja spurn- ingar og leita svara með beitingu vísindalegra aðferða er liður í að auka skilning á mikilvægi gagnrýnnar hugsunar og rannsókna. Setrin hafa lagt ríka áherslu á miðlun rann- sókna með ýmsum hætti fyrir utan birtingu vísindagreina, t.a.m. með fyrirlestrahaldi, við- burðum og útgáfu fyrir almenning sem er hluti þeirrar samfélagstengingar sem setrin leggja svo ríka áherslu á. Starfsemi setranna er lyfti- stöng fyrir þau samfélög sem þau starfa í. Undanfarin misseri hefur verið unnið að færslu Breiðdalsseturs til Stofnunar Rann- sóknaseturs Háskóla Íslands í samstarfi við Fjarðabyggð og Náttúrufræðistofnun Íslands. Sú aðgerð er mikilvæg og tryggir áframhald- andi mikilvæga stöðu þess og starfsemi á Breiðdalsvík. Starfsemi rannsóknasetranna hefur eflst á undanförnum árum og ótvírætt sannað gildi sitt við eflingu rannsókna, háskóla- og atvinnu- starfsemi víða um land og aukið tengsl Há- skóla Íslands við sveitarfélög, stofnanir, fyrir- tæki, félagasamtök og einstaklinga. Setrin eru því mikilvægur hlekkur í þeirri keðju þekk- ingar- og verðmætasköpunar sem Háskóli Ís- lands vill styrkja, ekki síst nú á tímum mikilla breytinga í byggða- og atvinnumálum. Mannauður er dýrmætasta auðlind hverrar þjóðar og það er forgangsverkefni að skapa þær aðstæður að ungt vel menntað fólk um allt land kjósi að hasla sér völl hér heima og treysta með því undirstöðum samfélagsins. Forsenda þess er traust menntakerfi og sam- keppnishæfur vinnumarkaður, sem getur tek- ist á við síbreytilegar þarfir atvinnu- og þjóð- lífs. Rannsóknarsetur um allt land Eftir Lilju Alfreðsdóttur Lilja Alfreðsdóttir »Mannauður er dýrmætasta auðlind hverrar þjóðar og það er forgangsverkefni að skapa þær aðstæður að ungt, vel menntað fólk um allt land kjósi að hasla sér völl hér heima. Höfundur er mennta- og menningarmálaráðherra.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.