Ægir - 2020, Blaðsíða 21
21
sveiflukennd og síðustu vertíðir hafi
áherslan verið lögð á vinnslu, frystingu
og hrognatöku. Á síðustu vertíð hafi
megnið af aflanum farið í hrognatöku.
Nú sé útlitið slæmt ef ekkert má veiða.
„Það er mikilvægt að fá að veiða eitt-
hvað smávegis þó ekki væri nema til að
halda mörkuðum í lagi. Þetta er ekki gott
útlit.“
Grétar rifjar svo upp gamlar og góðar
vertíðir og segir að stærsta vertíðin sem
hann muni eftir sé á þann Jón Kjartans-
son sem tók 1.100 tonn. Fyrrverandi
Narfa. „Við tókum á hann 45.000 tonn
eina vertíðina. Það var langstærsta ver-
tíðin okkar því þá var Hólmaborgin í
breytingum í Danmörku þannig að við
tókum allan kvótann. Ætli það hafi ekki
verið 1996. Annars voru algengar vertíð-
ir með 20.000 til 25.000 tonn.“
Loðnan óútreiknanleg
Grétar segist ekki hafa neina tilfinningu
fyrir því hvort einhver vertíð verði í
vetur. Mælingar í haust hafi ekki gefið
tilefni til bjartsýni en auðvitað voni
menn það besta. Það geti verið að loðn-
an haldi sig einhvers staðar fyrir norð-
an.
„Loðnan var ekki alltaf að koma upp
að Norðurlandinu heldur gekk hún
stundum bæði langt og djúpt út í haf, al-
veg út undir færeysku línuna og gat
komið upp við Hornafjörð. Og stundum
alveg vestur í Skerjadýpinu og við Vest-
mannaeyjar. Það var engin regla á því
hvar hún kom upp. Svo komu oft þessar
vestangöngur og þá urðu þeir varir við
hana á togurunum á Halanum. Loðnan
er eiginlega alveg óútreiknanleg,“ segir
Grétar Rögnvarsson, skipstjóri.
Miklar tekjur í húfi
Vinnsla á loðnu takmarkaðist í fyrstu við bræðslu og var hún unnin í mjöl og lýsi. Smám saman opnuðust
markaðir fyrir afurðir úr loðnu til manneldis. Dýrmætasta afurðin er hrognin, sem bæði fara til Japans og,
landa í Austur-Evrópu, annarra en Rússlands, þar sem viðskiptabann er við lýði. Eitthvað af loðnuhrognum
hefur einnig farið til kaupenda í Vestur Evrópu.
Fryst hrognafull loðna er næst verðmætasta afurðin og eru markaðir fyrir hana einkum í Japan. Þá er
frystur hængur eftirsóttur í Austur-Evrópu.
Árið 2009 var niðursveifla í loðnunni og verðmæti á vertíðinni aðeins tæplega 3 milljarðar króna. Fjórum
árum síðar, árið 2013, voru hins vegar verðmæti loðnuafurðanna komin í 33 milljarða króna og námu þau
tæplega 30 milljörðum árið áður. Að frátöldum þessum þremur árum, og að sjálfsögðu loðnuleysisárinu í
fyrra, hafa verðmæti loðnuafurða verið 12-19 milljarðar á ári síðasta áratuginn. Ekki aðeins er það tekjulegt
áfall þegar loðnuveiðar bresta heldur er hætta á að dýrmætir markaðir glatist þegar ekki er hægt að sinna
eftirspurn og afhenda eftirsóttar afurðir.
■ Þessi mynd sýnir loðnuaflann frá upphafi. Nú gæti svo farið að tvö loðnuleys-
isár yrðu í röð.
■ Þegar mest veiddist af loðnu varð ársafli íslenskra skipa 1,3 milljónir tonna.