Morgunblaðið - 11.06.2020, Síða 12
12 DAGLEGT LÍF
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 11. JÚNÍ 2020
Kristín Heiða Kristinsdóttir
khk@mbl.is
Vissulega er þolinmæðis-verk að mynda fugla enég hef gaman af því aðganga rólega um í ís-
lenskri náttúru, þá birtist alltaf ein-
hver spennandi fugl,“ segir Árni
Árnason áhugaljósmyndari, sem
finnst skemmtilegast að mynda
fugla himinsins, en sýning hans á
fuglaljósmyndum stendur nú yfir í
Listhúsi Ófeigs á Skólavörðustíg.
„Ég hef lengi haft áhuga á
fuglum en myndatakan er seinni
tíma áhugamál. Ég notaði filmu-
vélar hér áður fyrr en með staf-
rænu tækninni gjörbreyttist allt.
Að mynda fugla er ákveðin kúnst,
því þeir eru mjög snöggir í hreyf-
ingum þótt þeir séu vissulega ekki
allir jafn styggir og því misauðvelt
að nálgast þá. Nauðsynlegt er að
æfa sig að taka myndir af þeim á
flugi og í ólíkustu gjörðum, ná
hraðanum og bíða eftir réttu birt-
unni,“ segir Árni, sem finnst mest
heillandi við fugla hversu margt
komi á óvart.
„Maður lærir svo mikið um
hegðun þeirra við að umgangast þá,
sér á hverju þeir lifa, hvernig þeir
hegða sér meðan á uppvexti ung-
anna stendur, hvernig hreiður
þeirra eru ólík og ótal margt fleira.
Þegar kemur fram á ungatímann
umhverfast þeir, alveg magnað að
sjá hversu sterkt það er náttúru-
lega eðlið að vernda líf afkvæma
með öllum ráðum.“
Eltist ekki við flækinga
Árni segist nokkuð glöggur á
fugla en þó hafi það komið fyrir að
hann viti ekki hvaða fugl hann er
að mynda.
„Ég þurfti til dæmis að láta
bera kennsl á sanderluna sem er á
einni myndinni hér á sýningunni.
Eitt sinn sá ég fugl í garðinum
heima sem ég hafði aldrei séð þar
áður og þurfti líka að láta greina
fyrir mig, þetta var glóbrystingur,
en þeir eru algengir flækingar hér
á landi. Ég hef ekkert verið að elt-
ast við flækinga, ég vil frekar ná
góðum myndum af algengum
fuglum. Ef einhver spennandi eða
óvenjulegur fugl verður á vegi
mínum, þá tek ég auðvitað mynd.“
Árni segist fyrst hafa heillast
af fuglum þegar hann vann sem
ungur maður hjá Orkustofnun.
„Ég var í tíu ár í mælingum
þar vegna kortagerðar og var mikið
uppi á heiðum. Þá þurfti gott
skyggni til að geta mælt yfir langar
vegalengdir, stundum þurfti ég að
bíða hálfan dag eftir mælingaskil-
yrðum, og þá hafði ég ekkert annað
að gera en liggja í sjónaukanum og
drekka í mig náttúruna. Þá sá ég
atferli fuglanna, til dæmis sá ég
svartbak sveima yfir þar sem æðar-
fugl var að stinga sér á kaf eftir
æti, hann réðist að honum þegar
hann kom upp og stal af honum æt-
inu. Kjóinn gerir þetta líka, hann er
sniðugur og snöggur og ræðst að
öðrum fuglum á flugi til að ná af
þeim æti. Tíminn er fljótur að líða
þegar maður fer að fylgjast með
svona atvikum.“
Samhæfður paradans
Árni segir að ýmislegt hafi
komið honum á óvart í hegðun
fuglanna. „Til dæmis er hettu-
mávurinn, sem mörgum þykir leið-
ur fugl, með skemmtilegt háttalag á
vorin þegar hann parar sig. Hann
dansar og reigir sig með miklum
látalátum. Flórgoðinn hegðar sér
líka sérkennilega þegar hann fer að
gera sér hreiður. Þá nær parið í
gróðurtægjur niður á botn í vatni
og rífur upp, dansar svo með þess-
ar tægjur fullkomlega samhæfðan
dans. Þau dansa líkt og þau hlaupi
um vatnið. Þetta er alveg ótrúlegt
sjónarspil. Mér hefur líka komið á
óvart hversu séðir fuglar eru,
þrösturinn er til dæmis lunkinn
með ormana. Ég hef séð þröst ham-
ast við að draga upp orma og
leggja þá frá sér einn og einn á
meðan hann veiðir fleiri. Hann
safnar þeim í hrúgu og flýgur svo
burt með nefið fullt af öllum þess-
um ormum. Ég náði mynd af
máríuerlu með hundrað flugur eða
svo í gogginum í einu. Tjaldurinn
með sitt langa nef virðist vita hvar
hann eigi að stinga því til að sækja
sér fæðu, hann veit nákvæmlega
hvar er veiðivon. Fræðingarnir eru
með kenningar um að fuglar heyri í
ormum í jörðinni.“
Lóan þykist vængbrotin
Árni segist einnig heillaður af
því hvernig farfuglar komast hing-
að í norðrið um langan veg, sumir
alla leið frá Afríku.
„Spóinn flýgur í einni lotu frá
Gíneu-Bissá sem eru þúsundir kíló-
metra. Ég hrífst af því hvernig
fuglarnir lifa af við ótrúlegustu að-
stæður. Mér finnst magnað að
minnsti fugl Evrópu, glókollur, sé
heimilisfastur hér, hann er agnar-
smár, nánast eins og stór randa-
fluga. Hann hefur mögulega fokið
hingað í ákveðnum veðurskilyrðum
fyrir tuttugu árum og hann hefur
fjölgað sér ágætlega hér á landi og
heldur sig gjarnan í barrtrjánum.
Fuglar eru sumir svo skrýtnir og
skemmtilegir, ég hef til dæmis hrif-
ist af þúfutittlingnum, hann er svo
smár og syngur mikið og fallega.
Hann er mjög duglegur og algeng-
asti fuglinn á Íslandi,“ segir Árni,
sem gefur fuglum að éta þar sem
hann er með athvarf í sveitinni í
Ölfusi.
„Ég hef gaman af því að lifa og
hrærast með þeim og fylgjast með
atferlinu. Lóan er til dæmis skond-
in þegar hún þykist vera væng-
brotin til að draga athyglina frá
hreiðri eða ungum þegar mannfólk
kemur of nærri. Ég fæ fiðring á
vorin um leið og ég frétti að fyrsti
farfuglinn sé kominn til landsins,
leikurinn í ungviðinu er fallegur og
ótrúlega skemmtilegt að fylgjast
með hvað ungarnir eru fljótir að
læra það sem fyrir þeim er haft,“
segir Árni, sem ætlar að halda
ótrauður áfram að fylgjast með
fuglum og mynda þá. „Ég ætla að
fara að Mývatni í sumar og skoða
endur sem ég hef ekki áður séð.“
Klókur fugl Maríuerla með óteljandi flugur í goggi sínum. Ástardans Hettumávar fetta sig og bretta til að heilla.
Ljósmyndir/Árni Árnason
Glókollur Minnsti fugl Evrópu er heimilisfastur á Íslandi.
Heillaður af fuglum himinsins
Hann fékk áhuga á fugl-
um þegar hann sem ung-
ur maður var við mæl-
ingar vegna kortagerðar
uppi á heiðum. Árni
Árnason fær fiðring á
vorin um leið og hann
fréttir að fyrsti farfuglinn
sé kominn til landsins.
Morgunblaðið/Eggert
Fuglaljósmyndari Hér má sjá Árna ásamt nokkrum af þeim 40 fuglamyndum sem eru á sýningu hans hjá Ófeigi.
Sýning Árna, Sumargestir,
stendur yfir í Listhúsi Ófeigs til og
með 17. júní, opið frá kl. 9 til 18 alla
daga nema sunnudaga. Allar
myndirnar eru til sölu.
LC02 hægindastóll
Leður – Verð 319.000,-
Skeifunni 8 | Sími 588 0640 | casa.is
CASA býður upp á vaxtalausar raðgreiðslur (meðVisa / Euro) í allt að 6 mánuði.