Morgunblaðið - 19.06.2020, Qupperneq 21
MINNINGAR 21
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 19. JÚNÍ 2020
stjóri Línuhönnunar á árunum
1979-1983 og 1987-1996. Auk
þess var Árni Björn stjórnarfor-
maður fyrirtækisins árin 1997-
2004 og 2005-2008. Árni Björn
var því í forystu í uppbyggingu
ört vaxandi og farsæls fyrir-
tækis. Hann leiddi að auki fag-
lega og verkefnalega þróun fé-
lagsins í orkuflutnings-
mannvirkjum og náði þar
afburðaárangri. Línuhönnun
voru falin veigamikil verkefni á
landsvísu á því sviði, þ.m.t. við
uppbyggingu byggðalínu og
fleiri lykilverkefna. Árni Björn
naut mikils trausts meðal við-
skiptavina, og var lagið að finna
leiðir og lausnir á krefjandi við-
fangsefnum. Eftir stofnun
EFLU verkfræðistofu árið 2008
starfaði Árni Björn áfram í
fyrirtækinu til loka árs 2010,
þegar hann stofnaði ARA Eng-
ineering sem síðar varð hluti af
norska ráðgjafarfyrirtækinu
Norconsult.
Að frumkvæði Árna Björns
færði Línuhönnun og síðan
EFLA út kvíarnar erlendis á
sviði orkuflutningsmannvirkja,
sérstaklega í Noregi, en einnig
með þátttöku í fyrirtækjum og
verkefnum víða um heim. Í dag
er óhætt að fullyrða að EFLA
sé á heimsmælikvarða á þessu
sviði, undir forystu margra af
lærisveinum Árna Björns.
Árni Björn var sæmdur heið-
ursmerki Verkfræðingafélags
Íslands árið 2001. Til stóð að
Árni tæki á yfirstandandi ári við
formennsku í málaflokki há-
spennulína hjá CIGRE, sem eru
leiðandi samtök á heimsvísu um
þróun og miðlun þekkingar í
orkuflutningskerfum, en því
miður verður ekki af því.
Árni Björn var lærifaðir af
guðs náð og aðstoðaði og treysti
sínu fólki til góðra verka. Hann
kunni allt í senn, fagið, mann-
legu hliðina og nálgun viðfangs-
efna. Sannfæringarkrafti hans
var viðbrugðið þegar á þurfti að
halda, hann bjó yfir óbilandi
sóknarhug og sá fyrst og fremst
tækifærin. En það sem ein-
kenndi Árna Björn ef til vill um-
fram annað var félagslyndið og
þau bönd sem hann bast sam-
ferðamönnum sínum. Þar var
hans heimavöllur.
Það var ekki síst fyrir til-
stuðlan Árna Björns að undirrit-
aður gerði Línuhönnun og síðan
EFLU verkfræðistofu að starfs-
vettvangi sínum, og sambæri-
lega sögu geta ótal fleiri sagt.
Fyrir hönd EFLU verkfræði-
stofu vil ég þakka Árna Birni
samleiðina. Við vottum Gunnu
eiginkonu Árna Björns, börnum
og öðrum aðstandendum inni-
lega samúð, og kveðjum Árna
Björn með þakklæti og virðingu.
Guðmundur Þorbjörnsson.
Þvílíkur skelfingaratburður
og reiðarslag.
Minn kæri vinur til 50 ára,
Árni Björn, drukknar í silungs-
veiði í Laxá í Aðaldal. Fulltrúi
gleði og góðvildar hefur yfirgef-
ið heiminn.
Síðustu 10 árin höfum við
verið í nánu sambandi og hann
hefur alltaf reynst mér vel sem
hugmyndagjafi og traustur
klettur þegar á reyndi.
Í vísindaferðum okkar Stokk-
hólmsmanna var hann ávallt
reiðubúinn að taka þátt sem
skipuleggjandi, bílstjóri eða fyr-
irlesari um menningarstaði.
Hann hjálpaði mér meðal ann-
ars með upplýsingar um lengstu
loftlínur heimsins á Grænlandi
sem var áhugavert efni í verk-
fræðinganámskeiði. Ef eitthvað
amaði að tölvubúnaði mínum
sendi hann son sinn til að gera
við og hvatti mig eindregið til að
gefa kennslubækurnar út.
Á síðasta fundi okkar kom
hann til að sækja prufueintak af
umhverfisbókinni minni og lagði
óumbeðið veglega upphæð inn á
útgáfusjóð bókarinnar. Hann
talaði sjaldan um eigin afrek og
fáir vita að virðing hans fyrir
fegurð náttúrunnar varð stund-
um til þess að háspennuraflínur
voru lagðar lengri leið en þurfti.
Afrek hans og sameignarmanns
hans í línuhönnun, Ríkharðs
Kristjánssonar, í brúargerð og
hönnun raflína er efni í heila
bók.
Hann kom oft fyrirvaralaust í
heimsókn á hjólinu eða bílnum
og hafði ávallt meðferðis skjóðu
mikla sem geymdi ýmislegt góð-
gæti. Það var hátíðleg stund
þegar hann dró upp úr skjóð-
unni ilmandi kaffibrauð, mat-
föng og stundum kom dýrindis
rauðvínsflaska upp úr skjóðunni
ættuð úr vínkjallaranum góða.
Þessar heimsóknir voru ógleym-
anlegar ánægjustundir þar sem
rætt var um tilgang lífsins og
aðkallandi framfaramál þjóðar-
innar.
Fyrir nokkrum árum kom
hann og sagði: „Þú verður að
læra að nota PowerPoint í bóka-
gerðinni“ og síðan fékk ég
þriggja mínútna kennslu í forrit-
inu. Þessi stutta kennslustund
varð til þess að ég breytti um
tjáningarform í ferðasögum
mínum og bókahönnun. Nýjustu
bækurnar sem koma væntan-
lega út í haust „Umhverfið og
framtíðin“ og „Stærðfræðin frá
Abacus til Myscript Calculator
2“ eru myndabækur hannaðar á
þennan máta.
Það var mikil heppni og gæfa
að fá að kynnast þessum hjarta-
hlýja og góða manni.
Ég færi Guðrúnu og afkom-
endum þeirra mínar innilegustu
samúðarkveðjur.
Ellert Ólafsson.
Mér féllust hendur er ég
frétti að náinn vinur minn, sem
var mér sem bróðir, Árni Björn
Jónasson, væri allur.
Leiðir okkar lágu fyrst saman
er við unnum báðir hjá Lands-
virkjun. Samskipti okkar voru
ekki mikil á þeim tíma, en það
átti sannarlega eftir að breytast
er við tók áratuga löng vinátta..
Árni Björn var fjölbreyttur
persónuleiki og hæfileikaríkur. Í
samskiptum var hann um-
hyggjusamur, réttlátur og heið-
arlegur, en ákveðinn ef honum
þótti tilefni til. Í starfi var hann
framsýnn, skapandi í leit nýrra
lausna en fyrst og fremst braut-
ryðjandi.
Hann var frábær verkfræð-
ingur. Það fyrirfinnst varla sú
háspennulína á Íslandi sem
byggð hefur verið síðan 1980
þar sem Árni Björn hefur ekki
komið við sögu, enda með af-
burðakunnáttu á því sviði. Hann
var framsýnn, úrræðagóður og
alltaf leitandi betri lausna. Nafn
hans var þekkt víða um heim og
var hann virkur og virtur þátt-
takandi í alþjóðlegum vinnuhóp-
um á sínu sérsviði. Daginn sem
hann lést átti að tilkynna honum
að honum hefði verið falið að
leiða nýjan vinnuhóp um styrk-
ingu háspennulína.
Hann naut þess að lifa. Hann
sagði oft: „Lífið er of stutt til að
láta sér leiðast. Þórður, við eig-
um að lifa lífinu, hér og nú, því
enginn veit hvað morgundagur-
inn ber í skauti sér.“ Síðustu
þrjá áratugina gerðum við ein-
mitt þetta. Stundum nokkrir
saman, með fjölskyldum eða vin-
um og fórum víða. Síðast í góðra
vina hópi til Grikklands.
Hann var veiðimaður af Guðs
náð og var fátt skemmtilegra en
að ganga til veiða með honum.
Höfum við veitt víða saman síð-
ustu þrjá áratugi og í sumar
voru nokkrar veiðiferðir ráð-
gerðar eins og endranær. Hann
veiddi alltaf meira en ég, enda
hafði hann nef fyrir hvar og
hvernig væri best að bera sig
að. Svo fann hann alltaf réttu
fluguna sem hann oftar en ekki
hnýtti sjálfur. Aldrei var fiski
landað án þess að smá staup af
Limoncello væri teygað til að
skála fyrir því hve lífið væri
yndislegt.
Hann var einfaldlega góður
maður og einstakur vinur. Vinur
sem vildi öllum greiða gera og
hjálpa ef svo bar undir. Margar
sögur mætti segja af hjartahlýju
hans og umhyggju fyrir fjöl-
skyldu, starfsfélögum og vinum,
en þær bíða betri tíma. Hann
var vinur sem allir myndu vilja
eiga og allir eiga skilið, gegn-
heill heiðursmaður sem gerði líf-
ið svo mikið betra með gjörðum
sínum og nærveru.
Til að fá útrás fyrir framsýna
hugsun sína stofnaði hann ásamt
félögum sínum verkfræðifyrir-
tækið Línuhönnun og var hann
framkvæmdastjóri þess lengst
af. Starfsemi Línuhönnunar var
fjölbreytt á sviði mannvirkja-
gerðar, hönnun háspennulína og
á sviði umhverfismála. Sem
frumkvöðull sá hann tækifæri
alls staðar í viðleitni sinni að
leita betri lausna og átti auðvelt
með að finna hæfileikaríka ein-
staklinga sem byggðu kunnáttu
með samstarfi við hann.
Kæra Guðrún og fjölskylda.
Innilegustu samúðarkveðjur
færum við Gerða og fjölskylda
mín ykkur. Við hugsum til ykk-
ar og þökkum fyrir Árna Björn
Jónasson, góðan dreng sem
gerði allt betra hvert sem hann
fór.
Farðu vel, vinur minn, og
takk fyrir vináttu þína sem
veitti svo mikla gleði.
Þórður G. Guðmundsson.
Fallin er frá kær vinur, Árni
Björn Jónasson.
Ég kynntist Árna árið 1991 er
ég hóf störf hjá honum á Línu-
hönnun hf. En réttara sagt sótti
hann mig þar sem ég vann sem
gjaldkeri í Landsbankanum og
tilkynnti mér að nú væri ég að
fara vinna hjá honum, það gekk
eftir og áttum við farsælt sam-
starf meðan Árni starfaði hjá
Línuhönnun og hélst vinskapur
okkar alla tíð.
Árni var ákaflega dugmikill
maður og ætíð með ótal verkefni
á prjónunum heima sem erlend-
is.
Ef hann var ekki að skipu-
leggja eitthvert verkefni var
hann að leggja á ráðin um ein-
hverja veiði eða góða utanlands-
ferð með mat og eðalvínum,
enda einstakur smekkmaður á
mat og vín.
Síðastliðið haust fór ég með
Árna og Gunnu konu hans í
ákaflega skemmtilega vínsmökk-
unarferð til Grikklands, þar lék
Árni á als oddi enda einstaklega
vel skipulögð ferð. Árni hafði
hóað saman góðum vinum sínum
úti um allan heim og að lokum
vorum við af sjö þjóðernum,
kom þar vel í ljós þessi fróði og
skemmtilegi maður.
Það er ógleymanleg minning
er við fórum með honum í veiði í
Mývatnssveitina og þar var
hann á heimavelli, þekkti ána
eins og höndina á sér. Hann
sýndi veiðimönnum sem ekki
höfðu veitt þar áður góða veiði-
staði og hvernig væri best að
bera sig að í þessu stórbrotna
umhverfi.
Árni hefur ávallt reynst mér
einstaklega vel og hafði áhuga á
því sem var í gangi í lífi mínu og
ef eitthvað bjátaði á hjá mér átti
hann alltaf tíma í spjallið og
ráðleggingar ef ég bað um það.
Kæra fjölskylda, Gunna,
Ragna, Palli, Jónas og fjölskyld-
ur, við Jón Júlíus vottum ykkur
okkar dýpstu samúð.
Farðu í friði vinur minn kær
faðirinn mun þig geyma.
Um aldur og ævi þú verður mér nær
aldrei ég skal þér gleyma.
(Bubbi Morthens)
Ásta Björk.
Nú er fallinn frá góður dreng-
ur og vinur, sem er sárt saknað.
Árni Björn Jónasson kvaddi
þessa jarðvist við að gera það
sem honum þótti skemmtilegast,
að veiða urriða í sinni uppá-
haldsá, Laxá í Þingeyjarsýslu.
Árni Björn var frábær verk-
fræðingur og einn fremsti raf-
línuhönnuður landsins. Hann
vann að verkefnum víða um
heim við mjög góðan orðstír.
Bestu kynni mín af Árna
Birni voru tengd útivist og veiði.
Við byrjuðum snemma að veiða
saman, fórum víða og veiddum
bæði lax og silung. Árvissar
voru veiðiferðirnar í Hítará þar
sem við vorum um árabil í ár-
nefnd. Ekki voru það eingöngu
veiðarnar sem heilluðu í þessum
ferðum, heldur var það einnig
samvera í góðra manna hópi og
voru þá gjarnan haldnar kvöld-
vökur eftir veiði dagsins. Árni
Björn var þar ætíð hrókur alls
fagnaðar, hélt ræður og sagði
sögur. Árni Björn var bók-
hneigður maður. Hann las mikið
um veiðar og veiðibúnað og var
ætíð hægt að leita til hans um
fróðleik. Hann hafði alltaf með
sér nokkrar bækur í veiðiferðir
til að glugga í á kvöldin og las
þá oft upphátt fyrir okkur hina.
Það varð síðan að venju að hann
eða einhver annar las valið efni
fyrir veiðifélagana.
Veiðiferðir okkar í Laxá í
Þingeyjarsýslu skipa stóran sess
í húsi minninganna. Við fórum
fyrst þangað saman sumarið
1992 ásamt tveimur öðrum veiði-
félögum. Þetta varð síðan árviss
atburður um Jónsmessuna í um
15 ár. Í fyrstu ferðunum gistum
við í tjaldi eða tjaldvagni á ár-
bakkanum og veiddum ljúffeng-
an urriða sem við borðuðum
með nýjum kartöflum. Síðar
varð skylda að gista í veiðihúsi
sem búið var að reisa við ánna.
Árni Björn var með afbrigðum
fundvís á fisk, jafnvel þar sem
aðrir töldu engan fisk vera.
Engan mann hef ég þekkt sem
hugsaði jafnvel um veiðidót sitt
og Árni Björn. Þar var allt í röð
og reglu.
Eftir að ég hætti að fara með
í þessar veiðiferðir hélt Árni
Björn áfram að fara þangað með
sínu fólki og var þar í árnefnd
síðustu árin. Við Árni Björn
höfðum sammælst um að ég
kæmi með í næstu Jónsmessu-
ferð.
Ýmsar aðrar ánægjulegar
ferðir með Árna Birni lifa í
minningunni, svo sem nokkrar
ferðir okkar Unu um Horn-
strandir með honum og Guð-
rúnu í góðra vina hópi.
Árni Björn var réttsýnn og
heiðarlegur maður sem ætíð var
hægt að leita til og er ég þakk-
látur fyrir að hafa fengið að
vera honum samferða.
Við Una vottum Guðrúnu,
börnunum og öðrum ættingjum
okkar dýpstu samúð.
Jóhann M. Bjarnason
og Gunnjóna Una.
Hógvær hugdetta nokkurra
félaga um að stofna lítinn veiði-
hóp og lítið hús á fögrum stað
við ljúfa á reyndist verða upphaf
að dýrmætum félagsskap sem
hefur staðið í 30 ár.
Í hópinn bættust valdir fé-
lagar, sumir þaulreyndir veiði-
garpar – ómetanlegt fyrir þá
sem voru að fikra sig áfram í
íþróttinni. Spáð var í horfur og
möguleika, reynslu og þekkingu
var miðlað og sögustundirnar
ógleymanlegar.
Við nefndum okkur Laxmenn,
ræktuðum lax, byggðum upp
ána, reistum hús, veiddum í ám
og vötnum og eignuðumst minn-
ingar um dýrlegan tíma með
fjölskyldu og vinum.
Árni Björn Jónasson var einn
af þeim sem miðla af einstakri
hógværð og mikilli þekkingu.
Það fór ekki á milli mála að þar
talaði veiðimaður sem gekk um
af nærgætni og laxinn tók hann
með fimi fluguveiðimannsins.
Það er svo stutt síðan við sát-
um heima hjá þeim Guðrúnu,
lögðum línur veiðisumarsins og
nutum höfðingsskapar þeirra,
veiðifengs af ýmsu tagi, listilega
matreidds af Árna og borinn
fram með vandlega völdum vín-
um fagmannsins. Laxmannahóp-
urinn hafði þynnst, nokkrir
farnir óþarflega fljótt yfir móð-
una miklu, aðrir dregið úr veiði.
Við kvöddumst hugmikil, ekki
síst Árni sem horfði fram á
meiri tíma fyrir áhugamálin,
ætlaði að líta inn í kaffi og
spjalla um nánari útfærslu á
veiðisumrinu sem í hönd fer og
húsinu okkar á Laugum í Sæ-
lingsdal.
Kaffið verð ég að drekka án
hans en minningin mun svífa yf-
ir vötnunum – minning um
óvenju drenglyndan félaga sem
tók þátt af heilindum, lagði
hreinskiptið til málanna og af
festu.
Hrygg kveðjum við Lóa, Júlía
og Kristinn kæran félaga og vin.
Elsku Guðrún og afkomend-
ur, það er sárt að kveðja en það
er ljúf huggun að minningu um
dreng eins og Árna.
Logi Kristjánsson,
formaður Laxmanna.
Það er með mikilli virðingu
og söknuði sem við kveðjum
Árna Björn, félaga okkar úr ár-
nefnd Stangveiðifélags Reykja-
víkur við Hítará. Árni Björn var
félagi í árnefndinni allt frá því
Stangveiðifélag Reykjavíkur tók
við Hítará um miðjan tíunda
áratug síðustu aldar og á meðan
félagið hafði ána á leigu.
Árni Björn var einstakur
áhugamaður um veiði og veiði-
skap. Stundaði hann veiðar af
mikilli ástríðu og veiddi bæði lax
og silung. Hann hafði auk þess
mikinn áhuga á að gefa af sér
varðandi reynslu sína og segja
má að það sem sameinar okkur
árnefndarmenn sé áhugi okkar á
stangveiði ásamt því að taka
þátt í góðum félagsskap. Þegar
ráðist var í endurbyggingu á
veiðihúsinu Lundi við Hítará var
Árni Björn í fararbroddi og kom
þar vel fram einlægur áhugi
hans á að varðveita eldra verk
eins og kostur var, enda var
húsið sögufrægt og hafði verið
byggt fyrir Jóhannes Jósefsson,
sem byggði Hótel Borg. Árni
Björn lét sér ekki nægja að
vinna með árnefnd Hítarár.
Hann starfaði einnig í árnefnd
Laxár í Laxárdal í Þingeyjar-
sýslu. Auk þess gegndi hann
ýmsum trúnaðarstörfum fyrir
Stangveiðifélag Reykjavíkur.
Árni Björn vildi í störfum sín-
um í árnefndum leggja áherslu á
að veiðimenn hefðu góða að-
stöðu. Þá lagði hann ríka
áherslu á að veiðimenn nytu
samverunnar. Hann vildi að
veiðimenn gengju vel um ána og
notuðu helst eingöngu litlar
flugur við veiðar og gæfu þannig
bráðinni möguleika á að jafna
leikinn. Árni Björn var einnig
mikill áhugamaður um vín og
víngerð. Nutum við ríkulega
þess áhuga og minnti hann okk-
ur oft á að mikilvægt sé að njóta
lystisemda lífsins í bland við
strit hversdagsins. Öll þessi ár í
árnefndinni og við veiðar í ýms-
um ám skilja eftir sig margar
góðar minningar sem ekki
gleymast.
Árni Björn var áhugasamur í
hverju því sem hann tók sér fyr-
ir hendur. Það sem einkenndi
hann var vinnusemi og hjálp-
semi. Hann var vandvirkur og
nákvæmur og mikið snyrtimenni
sem vildi hafa skipulag á hlut-
unum. Umgengni hans um veiði-
dótið ber þess glöggt vitni, en
veiðigræjur handlék hann af
mikilli alúð og virðingu. Hann
gerði upp þá hluti sem úr sér
gengu og notaði áfram, þegar
aðrir hefðu hent þeim og keypt
nýja. Árni Björn var sterkur
persónuleiki sem bar umhyggju
fyrir samferðafólki sínu. Hann
var ákveðinn og fastur fyrir og
tilbúinn að berjast fyrir því sem
hann trúði á. Gerði hann miklar
kröfur til sjálfs sín og annarra
um leið og hann miðlaði óspart
af reynslu sinni bæði í leik og
starfi.
Árni var mikill félagsmála-
maður og menn sóttust eftir að
starfa með honum og hann lað-
aði að sér vini, kunningja og
veiðifélaga. Það voru forréttindi
að fá að veiða með honum og
það verður mikill sjónarsviptir
við fráfall hans.
Við félagar úr árnefnd Hít-
arár kveðjum einstakan félaga
með þökk fyrir áralangan vin-
skap og samverustundir í geng-
um tíðina og sendum fjölskyldu
hans hugheilar samúðarkveðjur.
Blessuð sé minning Árna
Björns Jónassonar.
Fyrir hönd árnefndar,
Edvard Guðnason,
Albert Guðmundsson,
Reynir Þrastarson, Jón
Emilsson, Emil Jónsson.
Á árunum 1988-1989 fóru
nokkrir kunningjar að sækja
fornsagnanámskeið Jóns Böðv-
arssonar og ferðir í framhaldi af
þeim. Í þessum hópi var Árni
Björn Jónasson verkfræðingur.
Vorið 1990 fórum við í vel
heppnaða ferð um Norðurland,
m.a. á slóðir Grettis Ásmund-
arsonar í Drangey. Þá kom upp
sú hugmynd að stofna minni les-
hring til að kafa ofan í Sturl-
unga sögu. Fæstir áttu von á að
meira yrði úr, en Árni Björn var
maður athafna. Um haustið (11.
október) bauð hann til fundar
heima hjá sér, þar sem við
stofnuðum átta manna leshring
sem hlaut nafnið Sturlungar,
enda hefur sú saga og tengt efni
verið aðalverkefni okkar. Höfum
við lesið hana spjaldanna á milli
a.m.k. þrisvar sinnum og rætt
efni hennar frá ýmsum hliðum.
Stundum voru aðrar sögur tekn-
ar fyrir, Íslendingasögur,
konungasögur o.fl. Við höfum
haft þann hátt á að hittast hálfs-
mánaðarlega yfir veturinn, og á
vordögum lýkur dagskránni oft-
ast með ferð á söguslóðir. Hefur
það löngum verið eftirminnileg-
asti hluti samverunnar. Aðrar
fastar athafnir hafa verið jóla-
veisla á aðventunni og sviða-
veisla á þorranum eða harka-
fæla, nafn sem að sjálfsögðu er
sótt í Sturlungu. Segja má að
Árni Björn hafi haldið utan um
hópinn, m.a. með því að leggja
til fundaraðstöðu, sem var
lengst af í húsnæði fyrirtækja
sem hann tengdist, Línuhönn-
unar og ARA Engineering.
Ákveðinn kjarni hefur verið með
frá upphafi, en nokkrir hafa
kvatt okkur og aðrir fyllt í
skörðin.
Árni Björn var traustur vinur
og þrátt fyrir annríki og um-
fangsmikil störf voru fundir og
ferðir okkar Sturlunga í for-
gangi. Hann var einnig höfðingi
heim að sækja og voru margar
jólaveislur haldnar á heimili
hans og Guðrúnar Ragnarsdótt-
ur á Skjólbraut 12 í Kópavogi,
síðast í desember síðastliðnum.
Naut hann sín þar vel í gest-
gjafahlutverkinu.
Árni Björn kom víða við á
lífsleiðinni, bæði í störfum sínum
og áhugamálum, og þekkti ótrú-
legan fjölda fólks. Hann var
orkumikill og útsjónarsamur
maður sem lét fátt stöðva sig.
Að setjast í helgan stein var
ekki ofarlega á blaði hjá honum.
Kannski hefur það tekið sinn
toll. Síðasti fundur okkar Sturl-
unga fyrir kórónulokun var 4.
mars síðastliðinn, og horfðum
við þá á kvikmyndina Rauð-
hamra (Red Cliff) um kínverska
Sturlungaöld. Ekki hvarflaði að
okkur þá að það væri síðasti
fundurinn með Árna Birni. Frá-
fall hans við urriðaveiðar í Laxá
í Þingeyjarsýslu kemur í opna
skjöldu, en fyrir mann eins og
hann er í rauninni fagurt að fá
að kveðja við ána sem var hon-
um kær til áratuga.
Nú þegar komið er að leið-
arlokum viljum við Sturlungar
þakka félaga okkar Árna Birni
dýrmætar samverustundir í ár-
anna rás. Stórt skarð er höggvið
í raðir okkar með fráfalli hans.
SJÁ SÍÐU 22