Morgunblaðið - 11.07.2020, Qupperneq 42
VIÐTAL
Magnús Guðmundsson
magnusg@mbl.is
„Staðan á okkar fólki er óneitan-
lega misjöfn og satt best að segja
höfum við allt of takmarkaðar upp-
lýsingar. En þótt þetta hafi skollið
hvað harðast á okkar fólki gerum
við okkur vonir um að sökum fá-
dæma aðlögunarhæfni verði lista-
geirinn hvað fljótastur að jafna
sig,“ segir Erling Jóhannesson,
forseti Bandalags íslenskra lista-
manna, en afleiðingar af kórónu-
veirufaraldrinum hafa verið hvað
mestar fyrir listamenn.
Tekjumöguleikarnir hurfu
Erling leggur áherslu á að þegar
horft er á störf listamanna sé yfir-
byggingin alla jafna lítil sem engin
en hins vegar séu til stofnanir og
stór verkefni sem eru alfarið háð
störfum og framleiðslu listamanna.
„Listahátíðir, atvinnuleikhús og
annað af þeim toga er eðlilega að-
eins tímafrekara að gangsetja, en
þar er líka sokkinn kostnaður í
rekstri töluverður. Ég hef engu að
síður trú á að það komist aftur af
stað, ekki síst fyrir hversu kröft-
ugir íslenskir listamenn eru í sín-
um störfum.“
Erling bendir á að af þeim 3.500
listamönnum sem eru starfandi
undir Bandalagi íslenskra lista-
manna búi aðeins brot af þeim við
fastráðningu og starfsöryggi.
„Langflestir eru einyrkjar og sjálf-
stætt starfandi. Þetta er fólk sem
er stöðugt að búa til sína vinnu og
hefur enga tryggingu. Vissulega
vinnur þetta fólk víða innan hinna
skapandi greina en það gerði líka
stór hluti af ferðamannabrans-
anum.
Það dró meira að segja úr ásókn
í starfslaun árin 2016 og 2017 þeg-
ar ferðamennskan var á sínum há-
punkti. Án þess að ég geti staðfest
það bendir tölfræðin til þess að
þarna séu tengsl. Þetta segir okk-
ur hversu hverfult það er að vera
listamaður og skapa sína eigin
vinnu og þegar kórónuveiran kom
til sögunnar hurfu tekjumögu-
leikar þessara einstaklinga.“
Okkar fólk aftast í röðina
Nýverið kom út skýrsla um áhrif
COVID-19 á íslenskan tónlistar-
iðnað og á meðal þess sem þar
kemur fram er hvað þau úrræði
sem voru til staðar, auk þeirra sem
bætt var við, hentuðu illa þorra ís-
lenskra tónlistarmanna.
Erling tekur undir þetta og seg-
ir að þau hafi einmitt verið að
berjast við þetta að undanförnu.
„Fyrst var að afla peninga svo
listamenn gætu haldið áfram að
starfa en auðvitað áttu þeir að eiga
leið inn í almenn vinnuúrræði.
Fljótlega kom þó í ljós að hjá
Vinnumálastofnun var allt stíflað.
Samkvæmt könnun sem við lét-
um gera kom í ljós að um mán-
aðamótin apríl/maí voru enn 70%
af okkar fólki, sem hafði sótt um
aðstoð, ekki búin fá nein úrræði.“
Erling bendir á að þetta fólk
hafi ekki verið tekjulaust áður eða
í vanskilum eða neitt slíkt, „en
vegna þess að vinnuumhverfi
þeirra er flóknara en almennt ger-
ist, fór það svo við þetta áhlaup
sem varð á Vinnumálastofnun að
umsóknir okkar fólks fóru neðst í
bunkann, aftur og ítrekað vegna
tímaskorts. Þetta er auðvitað af-
leitt.
Þetta er enn óleyst og mögulega
komast úrræði fyrir þessa ein-
staklinga ekki í lag fyrr en með
haustinu.“
Gekk of hægt
Erling leggur áherslu á að það
þurfi að taka módelið sem Vinnu-
málastofnun styðst við til gagn-
gerrar endurskoðunar. Ekki síst í
ljósi þess hversu margir passa ein-
faldlega ekki inn í módelið en skila
engu að síður miklum fjármunum til
samfélagsins.
Aðspurður um viðbrögð stjórn-
valda gagnvart stöðunni hjá lista-
mönnum segist hann ekki líta svo á
að þar hafi verið brugðist seint og
illa við. „Mennta- og menningar-
málaráðuneytið brást strax við.
Hafði samband við okkur og leitaði
eftir samráðsfundum til þess að
kortleggja ástandið. Það var strax
dregin lína á milli þeirra sem voru
innan stofnana sem stóðu í skjóli og
svo þeirra sem eru sjálfstætt starf-
andi og þurfti að huga að sérstak-
lega.
Í kjölfarið er lagður fram
milljarður til lista- og íþróttastarfs
og við tókum að okkur að stýra
dreifingunni og fórum eftir hefð-
bundnum leiðum. Að mínu mati
gekk þetta samt allt of hægt eins og
vill gerast í opinberri stjórnsýslu
eins og við höfum séð fleiri dæmi
um í þessu ástandi.“
Inngróin tortryggni
Sjálfstætt starfandi listamenn
hafa sumir haft á orði að sönnunar-
byrðin sem fylgi t.d. starfslaunum
geti verið æði íþyngjandi og í því
samhengi segir Erling mikilvægt að
við lítum í kringum okkur og horf-
um til þeirra verðmæta sem lista-
menn eru að skapa. „Andleg, efna-
hagsleg og félagsleg verðmæti eru
að verða til með þeim hætti að við
verðum að átta okkur á því að listin
er stoð í samfélaginu, rétt eins og
heilbrigðis- og menntakerfi svo
dæmi sé tekið.
Fjármagni sem er beint til lista-
manna með sem fæstum milliliðum
er best ráðstafaða fjármagnið í list-
inni. En því miður virðist einhver
tortryggni vera inngróin í þjóðarsál-
ina og það endurspeglast í úrræðum
Vinnumálastofnunar. Þar þarf sá
sem sækir um að sanna ólán sitt í
aðdraganda umsóknarinnar og í til-
vikum sjálfstætt starfandi lista-
manna getur það reynst ærið
flókið.“
Þrefalt fleiri umsóknir
Erling geldur þó varhug við að
tengja saman atvinnuleysi og styrki
til listgreina og leggur áherslu á að
barátta þeirra snúist einkum um að
stuðningur við listgreinar eigi að vera
sjálfstæður. „Auðvitað þarf þetta að
vera í einhverju kerfi og þess vegna
völdum við að fara með viðbótar-
stuðninginn í hefðbundinn farveg
sjóðanna til þess að sýna ábyrgð. Á
sama tíma vissum við ekki við hverju
við áttum að búast, sem kom ekki í
ljós fyrr en umsóknirnar komu og
þær reyndust vera allt að því þrefalt
fleiri en í venjulegu árferði.“
Erling minnir á að þetta eru allt
verkefnasjóðir og að á allra fyrstu
dögum þessa ástands hafi kerfið ver-
ið innstillt á að það gengi yfir á þrem-
ur til sex vikum. „Það sem gerist svo
í framhaldinu og engin sá fyrir var að
allir veikleikar samfélagsgerðarinnar,
ekki bara okkar heldur heimsins alls,
poppuðu upp hver á fætur öðrum.
Veiran fór yfir veröldina og afhjúpaði
veikleika í samfélögum, bæði menn-
ingarlega og stjórnmálalega. Þetta
gerðist hratt og skildi okkur eftir í
gríðarlega flókinni stöðu.“
Sukku á augabragði
Erling segir að BÍL hafi fylgst
með hvernig var brugðist við í öðr-
um Norðurlandaríkjum og víðar og
að einkum hafi aðgerðir í Berlín
vakið eftirtekt. Þar hafi einyrkjar í
hinum ýmsu greinum getað sótt sér
stuðning og það hratt og örugglega.
„En þar voru stefnan og strúktúrinn
til staðar en hérna var hann veikur.
Við verðum því að nota tækifærið og
læra af þessu.“
Erling hefur trú á því að við mun-
um endurhugsa hvernig við fjár-
festum í listum og menningu í kjöl-
far þessara hamfara. „Í dag eru
margir listamenn í sárum. Verkefni
sem hafði verið unnið að lengi sukku
á einu augabragði. Það voru jafnvel
fjárfestingar sem lágu á þeim og
þeirra nánustu. Þetta eru erfiðar
kringumstæður sem við viljum ekki
standa frammi fyrir aftur.
En upplifun mín af ráðuneytinu
og stjórnsýslunni er jákvæð, þrátt
fyrir að við séum með veikan strúkt-
úr og það gefur mér von um að
þetta verði fært til betra vegar.“
Nýr samráðsvettvangur
Bandalag íslenskra listamanna er
án húsnæðis sem kveikir spurning-
una hvort að listamennirnir þurfi
ekki einnig að huga að uppbyggingu
um leið og þeir gera kröfu til ríkis
og sveitarfélaga um aukinn skilning
og bætt umhverfi? „Vissulega. Þetta
er einn þeirra veikleika sem hafa
opinberast í þessu samhengi. Við
höfum rætt þetta innan stjórnar-
innar og erum að horfa til þeirrar
staðreyndar að við erum bandalag
3.500 listamanna. Á herðum þeirra
standa stór fyrirtæki sem eru borin
uppi af frumkvæði og hugmynda-
vinnu þessa sömu einstaklinga.
Kvikmyndagerð, tónlistarútgáfa og
þannig mætti lengi telja. Af þessu
leiðir fjöldi fleiri starfa og í raun
þræða listir sig í gegnum samfélagið
allt.
En það er hins vegar inngróið við-
nám listamanna gegn því að blása
ekki út yfirbygginguna. Þetta er vel
skiljanlegt þegar litið er til þess
hversu mikilvægt það er listamönn-
um að viðhalda frelsi sínu og sjálf-
stæði og það er kjarni sem þarf að
vernda.
BÍL er ekki verkalýðsfélag, þau
mynda bandalagið en þar undir
regnhlífinni höfum við viljað halda
þessu opnu og smáu í sniðum. En
við svona áhlaup hefur okkur skilist
að við erum fulltrúar þessa fólks,
fulltrúar atvinnugreinar sem hefur
birst okkur með styrkleika sína og
veikleika í þessu erfiða árferði.
Nú er verið að koma á nýjum
samráðsvettvangi á milli ráðuneyt-
isins og Bandalagsins. Ég held að
það verði til bóta en að sama skapi
þurfum við að halda áfram að þróa
þetta og finna rétta módelið. Við
þurfum að taka til okkar megin, rétt
eins og ráðuneytið og stjórnsýslan,
og ég held að það sé klár vilji til
þess að gera þetta vel. Það stendur
upp á okkur hjá Bandalaginu að
fylgja þessu eftir og ég hef fulla trú
á að okkur eigi eftir að takast það.“
Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
Listalíf Það eru 3.500 listamenn undir hatti Bandalags íslenskra listamanna og Erling Jóhannesson bendir á að margir þeirra beri uppi stór fyrirtæki í
ýmsum geirum, á borð við kvikmyndir og tónlistarútgáfu og að af þeim leiði fjöldi fleiri starfa enda þræði listir sig í gegnum samfélagið allt.
Í dag eru margir listamenn í sárum
Erling Jóhannesson, formaður BÍL, segir listamenn hafa lent aftast í röðinni hjá Vinnumálastofnun
Hann bindur vonir við nýja samráðsgátt sem er í undirbúningi á milli bandalagsins og stjórnvalda
42 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 11. JÚLÍ 2020
Nú finnur
þú það sem
þú leitar að
á FINNA.is